Öruggur sigur Eyjamanna á KH - myndir
Öruggur sigur Eyjamanna á KH - myndir
Karlalið ÍBV í knattspyrnu tók á móti 4. deildar liðinu KH á Hásteinsvelli í kvöld er liðin mættust í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Það er skemmst frá því að segja að Eyjamenn fór með sigur af hólmi en lokatölur voru 4:1.
Líkt og fyrri daginn spilaði veðrið leiðinlega stóran þátt í leiknum en hífandi rokið í Eyjum í kvöld gerði það að verkum að leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Heimamenn í ÍBV byrjuðu á móti vind en þrátt fyrir það lágu þeir á KH allan hálfleikinn. Undir lok hálfleiksins átti framherjinn reyndi Gunnar Heiðar Þorvaldsson skot sem hafnaði í þverslá og ekki löngu seinna komst Arnór Gauti Ragnarsson í ágætis færi en inn vildi boltinn ekki og staðan 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Leikurinn breyttist þó nokkuð í síðari hálfleik en með vindinn með sér þjörmuðu Eyjamenn hressilega að gestunum sem vörðust ágætlega framan af. Kaj Leo í Bartalsstovu braut loks ísinn fyrir Eyjamenn með góðu marki, beint úr aukaspyrnu, á 57. mínútu. Innan við tíu mínútum frá marki Kaj Leo tókst Arnari Þórarinssyni, leikmanni KH, algjörlega upp úr þurru, að prjóna sig upp hægri kantinn en þegar inn í teyginn var komið fór hann illa að ráði sínu og sóknin rann út í sandinn. Annað mark ÍBV kom eftir rúman 70. mínútna leik og var þar að verki framherjinn ungi Breki Ómarsson, gott skot og óverjandi fyrir Guðmund Ragnar Vignisson í marki KH. Breki átti svo sannarlega eftir að láta að sér kveða í leiknum en á 84. mínútu leiksins bætti hann við sínu öðru marki og þriðja marki Eyjamanna en stuttu áður hafði skot hans hafnað í þverslá. Undir lok leiks gerði Pablo Punyed út um leikinn með fínu marki en hann hafði einungis verið inná í um fimm mínútur áður en honum tókst að skila boltanum í netið. Þó niðurstaða leiksins væri löngu ráðin tókst leikmönnum KH samt sem áður að klóra í bakkann á 90. mínútu og minnka muninn niður í þrjú mörk. Nær komust þeir ekki og góður sigur Eyjamanna staðreynd.
Myndir frá leiknum.