Einar Kristinn Kárason, þjálfari KFS:

Sáttur við tímabilið þó markiðið hafi verið sett á úrslitakeppnina

Vantaði herslumuninn oft og tíðum :: Ungu strákarnir fengu mikilvægan spiltíma og ollu ekki vonbrigðum

Einar Kristinn Kárason, þjálfari KFS:

Sáttur við tímabilið þó markiðið hafi verið sett á úrslitakeppnina

:: Vantaði herslumuninn oft og tíðum :: Ungu strákarnir fengu mikilvægan spiltíma og ollu ekki vonbrigðum

Eins og fram kom í síðasta tölublaði Eyjafrétta hefur KFS lokið keppni þetta tímabilið en liðið sigraði SR í lokaleiknum með sex mörkum gegn fjórum á heimavelli. Fyrir leikinn var ljóst að liðið kæmist ekki í úrslitakeppnina og væri sömuleiðis öruggt með þriðja sætið í B riðli 4. deildarinnar. Blaðamaður sló á þráðinn til Einars Kárasonar, þjálfara KFS, og ræddi við hann um tímabilið. Einar tók við liðinu af Hjalta Kristjánssyni fyrir sumarið eftir að hafa verið leikmaður þess um árabil.
KFS endar í þriðja sæti B riðilsins á þínu fyrsta tímabili með liðið, ertu ánægður með árangurinn? „Ég er nokkuð sáttur við sumarið í heildina litið þrátt fyrir að markmiðið hafi verið sett á að ná úrslitakeppni, en við vissum að það væru sterk lið í þessum riðli og nánast öll lið gætu tekið stig í hvaða leik sem er,“ segir Einar sem telur þetta sumar hafa verið mjög lærdómsríkt fyrir hann sem þjálfara. „Algjörlega. Þetta er mitt fyrsta tímabil þar sem ég er að vinna með fullmótaða karlmenn innan um unga og spennandi leikmenn. Ég lærði eitthvað nýtt nánast vikulega og var fljótur að sjá hvað virkaði og hvað ekki.“
Tapleikirnir enda aldrei með meira en eins marks mun og virðist sem það hafi bara vantað herslumuninn í sumum leikjunum. „Það má segja það. Eins og ég sagði voru mörg sterk lið í þessum riðli og nokkuð ljóst að ekkert lið var að fara í gegnum þennan riðil án þess að tapa stigum. Til að mynda unnum við bæði liðin sem fara í úrslitakeppnina á heimavelli, tiltölulega sannfærandi, með eins marks mun en töpuðum að sama skapi báðum útileikjunum með eins marks mun.“ segir Einar.
 
Vel heppnað samstarf KFS og ÍBV
KFS vann náið með ÍBV og fengu til að mynda margir ungir leikmenn að spreyta sig með liðinu. Fannst þér þetta samstarf hafa heppnast vel? „Frá mínu sjónarhorni séð fannst mér það ganga virkilega vel. Við höfum undanfarin ár verið í samstarfi við ÍBV en það voru allir sammála um að betur mætti fara að því. Ég var einnig ráðinn til að aðstoða Mick White með 2. flokk ÍBV og fannst mér við ná virkilega vel saman. Við æfðum saman, KFS/2.flokkur, sem gerði það að verkum að menn lærðu betur inn á hvern annan og urðu að einni heild. Það hjálpaði mér líka helling að ég var búinn að þjálfa marga af þessum peyjum frá því þeir voru í 4. flokki svo ég þekkti styrk þeirra flestra og galla. Ungu strákarnir fengu mikilvægan spiltíma og var byrjunarliðið hjá okkur í þó nokkrum leikjum að meðaltali 19.5 - 21.5 árs. Þessir strákar fengu traustið alveg frá fyrsta leik og ollu engum vonbrigðum,“ segir Einar, sáttur með sína menn.
Aðspurður hvort hann haldi áfram með liðið segir Einar að hann hafi áhuga á því. „Áhuginn er klárlega til staðar frá mér séð. Ef aðstæður leyfa og allt gengur upp þá sé ég ekkert til fyrirstöðu. Eigum við ekki bara að segja já.“
Hvað tekur við núna, hvernig sérðu fyrir þér undirbúningstímabil og næsta sumar? „Góð spurning. Við stefnum á að byrja aftur að æfa saman eftir fríið sem tekur við þegar 2. flokkurinn klárar sitt tímabil. Við fengum ekkert alvöru undirbúningstímabil fyrir tímabilið í ár en stefnt er á að gera betur fyrir tímabilið 2018,“ segir Einar að lokum.
 

Felix fer með íslenska landsliðinu til Indónesíu

Felix Örn Friðriksson, leikmaður ÍBV í knattspyrnu, ferðast með íslenska landsliðinu sem mætir Indónesíu í boðsferð þar í landi dagana 11. og 14. janúar. Ekki er um að ræða alþjóðlega leikdaga og er hópurinn að mestu skipaður reynsluminni mönnum en ella. Í hópnum er þó að finna reynslumikla menn á borð varnarmennina Ragnar Sigurðsson og Sverri Inga Ingason og framherjann Björn Bergmann Sigurðsson.   Segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, jafnframt að hópurinn gæti breyst áður en haldið verður af stað en líkur eru á því að Kolbein Sigþórsson fari með en hann hefur verið að glíma við meiðsli síðasta árið.   Hópurinn í heild:   Markmenn:  Frederik Schram, Roskilde  Rúnar Alex Rúnarsson, Nordsjælland  Anton Ari Einarsson, Valur   Varnarmenn  Ragnar Sigurðsson, Rubin Kazan  Sverrir Ingi Ingason, FC Rostov  Jón Guðni Fjóluson, IFK Norrköping  Haukur Heiðar Hauksson, AIK  Hólmar Örn Eyjólfsson, Levski Sofia  Hjörtur Hermannsson, Brøndby IF  Böðvar Böðvarsson, FH  Viðar Ari Jónsson, Brann SK  Felix Örn Friðriksson, ÍBV   Miðjumenn:  Arnór Smárason, Hammarby  Arnór Ingvi Traustason, Malmö FF  Aron Sigurðarson, Tromsö  Hilmar Árni Halldórsson, Stjarnan  Mikael Neville Anderson, Vendsyssel FF  Samúel Kári Friðjónsson, Vålerenga IF   Sóknarmenn:  Björn Bergmann Sigurðarson, Molde BK  Óttar Magnús Karlsson, Molde BK  Kristján Flóki Finnbogason, Start IF  Tryggvi Hrafn Haraldsson, Halmstad BK  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.   Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“     Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum? Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.  

Greinar >>

Trausti Hjaltason: Ánægja langt yfir landsmeðaltali

Árlega gerir Gallup þjónustukönnun í sveitarfélögum landsins. Á síðasta fundi Fjölskyldu- og tómstundarráðs var kynntur sá hluti sem snýr að ráðinu. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþrótta- iðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu voru 98% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu sögðust 83% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku sögðust 78% vera ánægð. Allt er þetta vel er yfir landsmeðaltali. Rétt er að óska starfsmönnum sérstaklega til hamingju með þennan árangur og er hann vitnisburður um þann metnað sem ríkir meðal starfsmanna sveitarfélagsins.   Nýjar þjónustuíbúðir Klárlega er hægt að gera betur og innan skamms opnar nýbygging við Hraunbúðir sem bæta mun mikið þjónustu við heimilisfólk sem glímir við heilabilun eins og Alzheimer. Hafinn er undirbúningur að nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Eyjahrauni, byrjað er að hanna nýtt sambýli fyrir fatlaða og fjölga sérhæfðum leiguíbúðum fyrir þá svo eitthvað sé nefnt.   Vel tekist til í Heimaey Á síðasta fundi ráðsins var kynnt starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöðvar. Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og eftir reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks. Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu og þjónustu í málaflokknum. Rétt er að benda á að sífellt er þörf á nýjum heppilegum verkefnum fyrir starfsmenn í verndaðri vinnu og eru fyriræki og félagasamtök hvött til að nýta sér þjónustu sem þar stendur til boða.   Ný álma og starfsmönnum fjölgað á Hraunbúðum Framkvæmdum við nýja álmu við Hraunbúðir er að ljúka og markmiðið er að byrja að nýta hana í febrúar. Hjúkrunarforstjóri er að skipuleggja starfsmannahaldið og starfsemina en starfsmönnum í umönnun mun fjölga við þessar breytingar. Með þessu fjölgar herbergjum á Hraunbúðum og býr þá stofnunin yfir herbergjum í samræmi við þær heimildir sem hún hefur fyrir dvalar- og hjúkrunarrýmum. Nýja álman býður upp á möguleika til að mæta sérhæfðum þörfum þeirra sem mestu þjónustuna þurfa, s.s. fólk með heilabilun. Í nýrri álmu verður salur sem nýtist sem matar- og samverustaður.