Tap gegn Fram

Tap gegn Fram

Fram held­ur áfram að vera eitt liða í efsta sæti Olís-deild­ar kvenna eft­ir fjög­urra marka sig­ur, 26:22, á ÍBV í Fram­hús­inu í dag. Fram-liðið var með yf­ir­hönd­ina í leikn­um frá upp­hafi til enda. Mun­ur­inn var fimm mörk í hálfleik, 14:9, og varð mest­ur sex mörk í síðari hálfleik og minnst­ur tvö mörk. Mbl.is greinir frá.
 
ÍBV er áfram í bar­áttu um þriðja til fjórða sæti í deild­inni.
 
Framliðið tók for­ystu strax í upp­hafi leiks­ins og hélt því til loka fyrri hálfleiks. Leik­ur­inn var hins veg­ar afar slak­ur af beggja hálfu með nærri 20 tækni­m­is­tök og þar af leiðandi lítt fyr­ir augað. Mun­ur­inn á liðunum í fyrri hálfleik var markvarsl­an. Guðrún Ósk Marías­dótt­ir fór á kost­um í marki Fram að baki ágætri vörn. Hún varði 12 skot, nokk­ur í opn­um fær­um. Fram-liðið gat öðrum frem­ur þakkað henni fimm marka for­skot að lokn­um fyrri hálfleik, 14:9.
 
Kraft­ur var í ÍBV í byrj­un síðari hálfleiks og liðið náði að minnka for­skot Fram niður í þrjú mörk, 16:13. Mögu­leiki gafst á að minnka mun­inn enn meira. Það tókst ekki og Fram-liðið náði á skömm­um tíma sex marka for­skoti, 20:14, eft­ir að hafa náð pari af hraðaupp­hlaup­um á skömm­um tíma.
 
Á síðustu tíu mín­út­um leiks­ins gerði ÍBV-liðið harða hríð að Fram-liðinu en allt kom fyr­ir. Mun­ur­inn var minnst­ur tvö mörk, en nær komst ÍBV ekki. Guðrún stóð fyr­ir sínu í marki Fram auk þess sem mis­tök Fram-liðsins voru færri en gestaliðsins.
 
Ragn­heiður Júlí­us­dótt­ir var marka­hæst hjá Fram með níu mörk. Stein­unn Björns­dótt­ir var næst með sjö mörk. Guðrún Ósk Marías­dótt­ir átti stór­leik í mark­inu, varði 20 skot.
 
Greta Kavailu­skaite var marka­hæst hjá ÍBV með sjö mörk. Ester Óskars­dótt­ir og Ásta Björt Júlí­us­dótt­ir skoruðu fjög­ur mörk hvor.
 
Aðeins 11 leik­menn voru á skýrslu hjá ÍBV og breidd­in í liðinu var þar af leiðandi tak­mörkuð.
 

Arnar með silfur í kata

Þriðja og síðasta mótaröð í mótaröðum Karatesambands Íslands fór fram um nýliðna helgi en mótaröðin er stigamót. Þess má geta að fyrstu mótin í mótaröðinni voru einmitt haldin hér í Eyjum í byrjun október á síðasta ári. Á föstudagskvöldið fór fram 3. Bikarmót KAÍ í Fylkisselinu Norðlingaholti en þar keppa 16 ára og eldri í einum flokki fullorðinna. Karatefélag Vestmannaeyja átti þrjá keppendur á mótinu. Willum Pétur Andersen og Zara Pesenti kepptu í kumite og Arnar Júlíusson keppti í kata. „Willum og Zara áttu því miður ekki mikið erindi í fullorðinsflokkinn í kumite en létu þó andstæðinga sína hafa töluvert fyrir sigri,“ sagði Ævar Austfjörð, þjálfari Karatefélags Vestmannaeyja í samtali við Eyjafréttir. „Í kata átti Arnar hinsvegar góðan dag og keppti til úrslita en tapaði fyrir Aron Hyun, nýbökuðum Íslandsmeistara. Arnar hlaut því silfur á mótinu. Á laugardag fór 3. Bushidomótið fram í Varmárskóla í Mosfellsbæ en þar er keppt í unglingaflokkum þar sem KFV átti fjóra keppendur og þar var annað uppi á teningnum hjá okkar fólki. „Zara keppti í flokki 16-17 ára stúlkna. Flokkurinn var fámennur en Zara barðist um bronsverðlaun þar sem hún tapaði á dómaraúrskurði eftir að bardaganum hafði lokið með jöfnu stigaskori. Zara er efnileg en hún hafði æft Tae Kwon Do áður en hún kom til KFV og verður að segjast að það háði henni, sérstaklega varnarlega séð þótt einnig sé augljós ávinningur af því sérstaklega þegar kemur að spörkum. Zara gæti átt ágæta framtíð í kumite en hún mun halda heim til Sviss í sumar að loknu skiptinámi hér í vetur,“ segir Ævar. „Willum Pétur lauk keppnistímabilinu á góðum nótum en hann hóf að keppa síðasta haust í fyrsta skipti í kumite. Hann keppir í flokki 16-17 ára og er því alltaf að keppa við drengi sem æft hafa og keppt mun lengur en hann sjálfur. Markmið vetrarins voru skýr. Í fyrsta lagi átti að hafa gaman af þáttökunni og þá var það sett sem markmið að ná allavega að skora stig af og til í viðureignum því sigur á móti mun reynslumeiri keppendum þótti óraunhæfur framan af. Þó setti hann sér ásamt þjálfara það lokamarkmið að ná að vinna allavega einn bardaga á lokamóti vetrarins og það gekk eftir. Willum átti fínan bardaga í fyrstu viðureign og sigraði 2-0 í bardaga sem einkenndist af hörku og sókndirfsku. Næstu viðureign tapaði hann en fékk svo uppreisnarviðureign til að berjast um bronsið en tapaði henni á endanum. Í þeirri viðureign var töluverð harka og þurfti að stöðva bardagann stuttan tíma til að stöðva blóðnasir þar sem Willum hafði tekið full hraustlega á andstæðingnum. Engu að síður gott mót og góður vetur hjá Willum sem verður vafalítið enn betri á næsta tímabili,“ segir Ævar. Arnar keppti í elsta unglingaflokki í síðasta sinn þar sem hann gengur uppúr þeim flokki vegna aldurs á næsta tímabili. „Arnar átti góðan dag og komst aftur í úrslit en varð aftur að lúta í lægra haldi fyrir Aron Hyun. Arnar hefur átt gott tímabil og unnið til fjölda verðlauna og ljóst að framtíðin er björt. Hann er eins og staðan er í dag þriðji besti kata keppandi landsins á eftir Aron Hyun og Elíasi Snorrasyni en þeir tveir eru í sérflokki. Verkefnið framundan hjá Arnari er að bæta sig nóg til að geta veitt þeim meiri keppni. Þess má einnig geta að Arnar hafnaði í 2. sæti í samanlagðri stigakeppni í kata í sínum aldursflokki í Bushido röðinni. Á eftir einmitt títtnefndum Aron Hyun,“ segir Ævar. Í yngsta unglingaflokki keppti Mikael Magnússon og er óhætt að segja að hann hafi komið á óvart því hann vann til bronsverðlauna eftir frábæra frammistöðu. „Flokkur Mikaels er fjölmennur og mjög margir góðir keppendur þar innanborðs. Hér er mikið efni á ferð og verður spennandi að fylgjast með þeim félögum Mikael og Arnari í framtíðinni. Það er alveg ljóst að framtíðin er björt hjá hinu örsmáa félagi KFV og með sama áframhaldi mun afrekalistinn stækka hratt,“ segir Ævar að lokum.  

Sigríður Lára Garðarsdóttir: Markmiðið að fara með á EM

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tók þátt í hinu árlega Algarve æfingamóti í Portúgal á dögunum en það er liður í undirbúningi landsliðsins fyrir EM í sumar. Sigríður Lára Garðarsdóttir, leikmaður ÍBV, var í leikmannahópnum og fékk að spreyta sig meðal þeirra bestu en mörg af sterkustu liðum heims taka þátt í mótinu. Mótið segir Sísi að hafi verið lærdómsríka upplifun fyrir sig og eigi án efa eftir að koma sér vel fyrir komandi verkefni, hvort sem það verði með ÍBV eða landsliðinu.   Hvernig var upplifunin að fá að taka þátt í Algarve með A-landsliðinu? „Þetta var alveg frábær upplifun og það er mikill heiður að spila fyrir Íslands hönd. Bara geggjað,“ segir Sísí. Líkt og aðrir leikmenn í hópnum, fékk Sísí töluverðan spilatíma í þessum fjórum leikjum á mótinu, þar af tvo leiki í byrjunarliði. Þetta hlýtur að vera lærdómsríkt? „Já, þetta var þvílíkt lærdómsrík ferð. Að spila á hæsta leveli á móti þeim bestu er eitthvað sem ég vil halda áfram að gera. Það eru algjör forréttindi að spila fyrir íslenska landsliðið og öll umgjörð í kringum það frábær. Á hverjum degi var ég að læra og kynnast einhverju nýju og það mun klárlega hjálpa mér að verða betri íþróttakona,“ segir Sísí. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður 18. júlí gegn Frökkum. Fannst þér þú hafa nýtt tækifærið í Algarve til að sýna þjálfaranum að þú eigir erindi í lokahópinn? „Markmiðið fyrir Algarve var auðvitað að sanna mig og sýna hvað ég get og ég er bara mjög sátt með frammistöðu mína á mótinu. Markmiðið er auðvitað að komast í lokahópinn á EM en það eru nóg af verkefnum framundan hjá bæði landsliðinu og ÍBV og ég er staðráðin í að halda áfram að bæta mig og vinna bæði æi styrk- og veikleikum mínum. Ég er spennt að takast á við komandi verkefni og svo mun þetta bara skýrast þegar nær dregur,“ segir Sísí að lokum.    

Hörður Orri og Erna Dögg sigursæl

Hinn árlegi Hressómeistari var haldinn í Íþróttamiðstöðinni laugardaginn 11. mars og hófust leikar stundvíslega kl. 10:00. Keppt var bæði í karla- og kvennaflokki í liðakeppnum og einstaklingskeppnum og svo einnig í parakeppni en þar skipti kynjahlutfall engu máli. Þátttökugjald var 1000 kr. og rann ágóðinn óskiptur til samtakanna Breið Bros (samtök sem styðja við fjölskyldur barna með skarð í vör). Í liðakeppninni voru Hressómeistararnir með besta tíma keppninnar en liðið skipuðu þeir Hörður Orri Grettisson, Davíð Þór Óskarsson, Sæþór Gunnarsson, Sindri Georgsson og Elías Árni Jónsson. Hlutskarpasta kvennaliðið var Crossfitmeyjar en þar voru þær Erna Dögg Sigurjónsdóttir, Bjartey Gylfadóttir, Edda Sigfúsdóttir, Elísa Sigurðardóttir og Hildur Dögg Jónsdóttir. Í einstaklingskeppni kvenna stóð Erna Dögg uppi sem sigurvegari og unnusti hennar Hörður Orri í karlaflokki, en saman sigruðu þau síðan parakeppnina. Í samtali við Eyjafréttir sagði Jóhanna Jóhannsdóttir, annar stofnanda Hressó og þjálfari, að keppnin, sem nú hefur verið haldin í yfir tíu skipti, hafi byrjað með léttri áskorun. „Hressómeistarinn er keppni sem hófst í Hressó þegar Massarnir, sem þá voru að æfa á morgnanna, skoruðu á stelpugengi til þess að keppa við sig. Síðan þá er búið að halda tíu keppnir og hefur keppnin sífellt verið að þróast og stækka ár frá ári,“ segir Jóhanna en síðustu þrjú ár hefur keppnin verið haldin í Íþróttamiðstöðinni. „Nú var metþátttaka hjá okkur en um 80 manns spreyttu sig á keppninni ef allir eru taldir með. Áhorfendur voru einnig fleiri en nokkru sinni fyrr og safnaðist um 170.000 kr. fyrir samtökin Breið Bros. Ástæðan fyrir valinu á góðgerðarsamtökunum er að við eigum litla sæta frænku sem hefur þurft að ganga í gegnum margt vegna skarðs í vör og hjá okkur er líka ung og efnileg crossfit stelpa sem hefur þurft að fara í margar aðgerðir. Málefnið stendur okkur því nærri,“ segir Jóhanna og bætir við að stemningin hafi verið góð á mótinu. „Stemningin á mótinu var gríðarlega góð og það var virkilega gaman að fylgjast með því. Mestur er hraðinn þó hjá liðunum og þá er hamagangurinn mestur,“ segir Jóhanna að lokum.  

ÍBV mætir FH í kvöld klukkan 18.30

Hörku leikir á móti tveimur góðum liðum

 Eyjamenn höfðu betur gegn Gróttu þegar liðin mættust í 20. umferð Olís-deildar karla á fimmtudaginn. Leiknum lyktaði með tveggja marka sigri heimamanna, 32:30, þar sem Sigurbergur Sveinsson var atkvæðamestur með tíu mörk. Strákarnir voru síðan aftur mættir til leiks á sunnudaginn en þá mættu þeir Aftureldingu í Mosfellsbæ. ÍBV sigraði leikinn 31:24 eftir að hafa verið yfir 17:14 í hálfleik. Theodór Sigurbjörnsson átti enn einn stórleikinn í vetur og skoraði 12 mörk. Með sigrinum hafði ÍBV sætaskipti við Aftureldingu en liðin eru jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti með 25 stig þegar sjö umferðir eru eftir.   „Báðir þessir leikir voru hörku leikir á móti tveimur góðum liðum,“ segir Magnús Stefánsson fyrirliði ÍBV aðspurður út í leikina tvo. „Það hefur nú sýnt sig oftar en einu sinni í vetur að staða liðanna í deildinni segir ekkert endilega til um það hvernig leikurinn muni spilast. En mér fannst við vera hrikalega flottir í báðum þessum leikjum. Við erum að fá inn menn eins og Begga, Robba og Agga til baka úr meiðslum og þeir eru óðum að komast í rétta gírinn sem og markmennirnir okkar, þeir eru að hitna og eru farnir að skella í lás. Í raun og veru var enginn svakalegur munur á þessum tveimur leikjum. Góði kaflinn okkar er alltaf að lengjast og hann hélt áfram að gera það gegn Aftureldingu ætli það sé ekki stærsti munurinn.“ Þið eruð taplausir eftir áramót með fjóra sigra og eitt jafntefli. Er nokkuð sem bendir til þess að þið séuð að fara að gefa eftir? „Þetta hefur farið vel af stað fyrir okkur núna eftir áramót og það er mikill stígandi í leik okkar. Menn eflast með hverjum leiknum svo það er bara spennandi að sjá hvað gerist næstu vikurnar,“ segir Magnús að lokum.

Hlynur Andrésson keppir á EM í 3000 m hlaupi

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur samþykkt val Íþrótta- og afreksnefndar á keppendum Íslands á EM í frjálsum í Belgrad 3.-5. mars næstkomandi. Annar keppendanna verður Eyjamaðurinn Hlynur Andrésson en hann mun keppa í 3000 m hlaupi. Hinn keppandinn verður Aníta Hinriksdóttir en hún mun keppa í 800 m hlaupi. Aðeins tveir keppendur höfðu náð lágmarki fyrir mótið en það voru þær Aníta og Arna Stefanía Guðmundsdóttir en sú síðarnefnda gaf ekki kost á sér sökum meiðsla. Ákvað því stjórn Frjálsíþróttasambandsins að nýta sér boð um að senda einn karl á mótið án lágmarka og þar sem Hlynur var næsti maður á lista að ná lágmarki varð hann fyrir valinu. Undanfarið hefur Hlynur verið að hlaupa vel og sett tvö Íslandsmet innanhúss, í 3000 m hlaupi og í míluhlaupi. Af gefnu tilefni slógu Eyjafréttir á þráðinn til Hlyns en hann er í háskólanámi í Bandaríkjunum um þessar mundir. „Það má segja að ég hafi byrjað af alvöru haustið 2012,“ segir Hlynur aðspurður hvenær hann byrjaði að hlaupa fyrir alvöru. „Þetta byrjaði samt allt saman þegar ég var í skiptinámi í Bandaríkjunum. Þar er það þannig að skólaárinu er skipt í þrjú tímabil og ég var mjög spenntur fyrir körfunni en það var bara eitt tímabil svo mig vantaði eitthvað til að fylla upp í og valdi „cross country“ af handahófi sem er 5 km víðavangshlaup. Ég var svo framarlega í fyrstu hlaupunum alveg óæfður og eftir nokkur hlaup fór ég að sigra og þetta voru yfir 500 krakkar í sumum hlaupunum. Það kom þarna í ljós að líkamsbyggingin var með mér frá náttúrunnar hendi. En til að ná langt er það ekki nóg, það þarf að koma meira til, hugarfarið þarf að vera rétt líka, maður verður að leggja mikið á sig með æfingar og mataræði. Einnig skiptir þjálfarinn og æfingaraðstaðan miklu máli, t.d. þarf hlaupabretti í volgu baði eða öðruvísi þyngdarafli (Alter G), til að taka álag af fótunum og hjálpa líkamanum að jafna sig þegar æfingarálagið er mikið. Ég hef verið mjög heppinn með alla þessa hluti, aðstöðu og þjálfara,“ segir Hlynur.   Mikill heiður Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að taka þátt á EM? „Það er alltaf mikill heiður fyrir alla íþróttamenn að fá að keppa fyrir land og þjóð á stórmótum og er ég stoltur af því að hafa verið valinn til þess. Þegar maður er kominn í flokk fullorðinna er samkeppnin gríðarleg, allir sem maður keppir við eru þeir bestu í sínu landi og það verður gaman að takast á við þá bestu í Evrópu,“ segir Hlynur sem fer með hóflegar væntingar inn í mótið. „Ég veit hvaða íþróttamenn það eru sem ég er að fara að keppa við í Belgrad og þar sem þetta er fyrsta stórmótið mitt í flokki fullorðinna þá ætla ég ekki að setja á mig neina pressu, heldur bara að einbeita mér að því að slá Íslandsmetið mitt í 3000 m hlaupi. Þeir sem ég er að fara að keppa við eru atvinnumenn og hafa því forskot á mig.“ Nú hefur þú verið að keppa bæði í 3000 m hlaupi og einnig í hálfmaraþoni. Er ekkert erfitt að vera samkeppnishæfur í báðum greinum? „Það er kannski ekki mjög algengt að hlauparar séu samkeppnishæfir í mörgum hlaupagreinum, en þjálfara mínum finnst mikilvægt að bæta bæði loftháðan styrk (úthald) og loftfirrtan styrk (hraða), því að þú þarft að hafa báða þessa eiginleika til þess að eiga einhvern séns í keppnum þar sem samkeppnin mikil. Þessi þjálfun nýtist mér til að geta keppt á frekar breiðu sviði. Almennt er það nú samt þannig að með aldrinum þá keppir maður í lengri vegalengdum,“ segir Hlynur.   Hrifinn af viðhorfi Arnolds Schwarzenegger Áttu þér einhverja fyrirmynd í hlaupinu eða íþróttum almennt? „Kannski er það svolítið klisjukennt en ég er mjög hrifinn af viðhorfum Arnold Schwarzenegger, sem er maður sem hefur náð svakalegum árangri á svo mörgum sviðum, hann hefur allavega veitt mér mikinn innblástur. En í hlaupunum þá er það Steve Prefontaine en sögu hans hefur verið gerð skil í kvikmynd,“ segir Hlynur. Eins og hjá flestu frjálsíþróttafólki er helsta markmið Hlyns að fara á Ólympíuleika og er stefnan sett á Tokyo árið 2020 en þangað til vonast hann til að halda áfram að bæta sig og slá fleiri Íslandsmet. „Í vor, þegar utanhússtímabilið byrjar, vonast ég eftir því að slá Íslandsmetin í 5000 m og 10000 m hlaupi, það er allavega markmiðið hvort sem það tekst eða ekki.“   Er í líffræðinámi Nú ertu í skóla í Bandaríkjunum, hvernig líkar þér hann og landið almennt? Hvar sérðu sjálfan þig fyrir þér í framtíðinni? „Ég er í líffræðinámi hérna í Michigan og stefni á að klára master eftir tvö ár. Eftir það veit ég ekki alveg hvað verður, en það er allt opið enn og margir möguleikar á sérhæfingu. En það er gott að vera hérna í Bandaríkjunum þó vegalengdirnar séu miklar en maður er orðinn svolítið leiður á löngum keppnisferðalögum. það er svolítið alþjóðlegt á heimilinu mínu hérna úti, en við nokkrir úr frjálsíþróttaliðinu leigjum hús saman. Einn er frá Marokkó, annar frá Ungverjalandi og sá þriðji Bandaríkjamaður. Þannig að það má segja að heimurinn sé minni hér en þegar ég var í framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum,“ segir Hlynur. Ætlar þú að koma heim eða stefnir þú á að vera úti? „Ég veit ekki hvað verður, ég er allavega ekki með bandarískan ríkisborgararétt svo þegar námsleyfi mitt rennur út verð ég að koma heim. Eins og er þá hef ég lítinn tíma fyrir annað en frjálsar og námið. Það er hvort eð er reynsla mín að öll plön breytast fljótt og það sem var ákveðið endar svo allt öðruvísi en ráð var fyrir gert,“ segir Hlynur að lokum.  

Lengjubikar karla: Fjórði sigur ársins

Liðsmenn ÍBV undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar fara vel af stað í Lengjubikarnum en um helgina unnu þeir 2:3 sigur á Fjölnismönnum í riðli 2 eftir að hafa lent undir 2:0. Arnór Gauti Ragnarsson minnkaði muninn fyrir ÍBV á 27. mínútu en Hafsteinn Briem jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks áður en Breki Ómarsson skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu. Næsti leikur Eyjamanna verður gegn Fylki föstudaginn 24. febrúar.   Eyjamaðurinn Halldór Páll Geirsson stóð vaktina í marki ÍBV í leiknum og segir hann leikinn í heild hafa spilast vel fyrir utan 15 mínútna kafla. „Við mættum hreinlega ekki til leiks fyrstu 15 mínúturnar og voru þá Fjölnismenn með öll tök á vellinum, skoruðu tvö mörk snemma og voru líklegir til drepa leikinn strax í upphafi. Fljótlega eftir annað mark þeirra fórum við að halda boltanum betur og ná að spila okkur í gegn sem endaði með því að við áttum tvö sláarskot með stuttu millibili og svo mark eftir 27 mínútur þegar Arnór Gauti fékk boltann inn fyrir vörnina og kláraði framhjá markverði Fjölnis. Í seinni hálfleik héldum við sama dampi og áttum margar fínar sóknir en á 64. mín var Hafsteinn Briem kominn upp völlinn rétt við vítateiginn og ákvað að skrúfa boltann í fjær sem endaði með stórglæsilegu marki. Það var svo Breki Ómarsson sem átti lokamarkið á 73. mín eftir að hafa komið inn á snemma í síðari hálfleik og staðið sig með prýði. Liðin skiptust á að sækja síðustu mínúturnar. Virkilega góður karakter í liðinu að koma til baka eftir að hafa lent 2:0 undir snemma í leiknum,“ segir Halldór Páll. Er liðið að ná takti? „Leikurinn á móti Fjölni var sá fimmti sem við spilum á árinu. Við höfum unnið Breiðablik, Keflavík, ÍA, og Fjölni en tapað á móti FH. Liðið er að ná góðum takti en við höfum skorað 11 mörk og fengið á okkur 7 mörk þannig að það er ýmislegt sem þarf að pússa. Hópurinn er auðvitað enn tvískiptur, Reykjavíkurhópur og Eyjahópur en þrátt fyrir það erum við að spila merkilega vel saman miðað við það að við æfum nánast aldrei saman. Við höfum enn þá tvo mánuði til að laga þessa hluti ásamt öðru sem verður vonandi komið í toppstand í upphafi Íslandsmóts,“ segir Halldór, nokkuð ánægður með gang mála. Hvernig líst þér á leikinn gegn Fylki næsta föstudag? „Fylkismenn eru með flottan hóp og þar reiknum við með erfiðum leik. Við ætlum okkur auðvitað sigur í öllum leikjum og ætlum okkur að spila til úrslita í Lengjubikarnum,“ segir Halldór að lokum.  

Þar sem hjartað slær

Aðalfundurinn ÍBV íþróttafélag hélt aðalfund sinn fyrir árið 2011 um miðjan apríl 2012. Það sem helst bar til tíðinda var mikill viðsnúningur í rekstri félagsins. Félagið tapaði 19.4 milljónum árið 2011 en hagnaðist um 34,8 milljónir árið 2010. Er þetta viðsnúningur uppá 54 milljónir króna. Skuldir félagsins námu í árslok 2011 136,2 milljónum.   Ný stúka Veturinn og sumarið 2012 var unnið að byggingu nýrrar áhorfendastúku á Hásteinsvelli á vegum ÍBV íþróttafélags. Stúkan var í fyrsta skiptið notuð í bikarleiknum gegn KR sunnudaginn 8. júlí og var þétt setin. Jónas Sigurðsson skrifaði í Eyjafréttir, skemmtileg grein um fyrstu notkun á stúkunni og þá hópa sem hafa verið fastheldnir á sín stæði á Hásteinsvelli. Stúkan. Fólk var svolítið feimið og vissi ekki alveg hvar það átti að setjast, einhver spurði hvar er Hóllinn? Einn mætti í KR-búningi, það settist enginn í sömu sætaröð, enginn í röðina fyrir aftan eða framan. Hugrakkur KR-ingur. En smátt og smátt þéttist í stúkunni og nánast setið í hverju sæti þegar leikurinn hófst. Það var góð stemning og ágætis kór sem lét heyra vel í sér þegar dómarinn flautaði leikinn á.   Snautlegra líf Páll Magnússon alþingismaður ritaði grein í Eyjafréttir um mitt sumar 2012. Í niðurlagi greinar sinnar skrifar hann: „Fyrir utan beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning, sem allt samfélagið hefur af starfi ÍBV, hefur svo til hver einasta fjölskylda hér í Eyjum nánast daglegan snertiflöt við félagið í gegnum íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga. Þannig skipar ÍBV afar stóran sess í öllu daglegu lífi okkar Eyjamanna og Eyjólfur á Gullberginu hitti naglann nákvæmlega á hausinn þegar hann sagði í viðtali við Moggann „...lífið væri snautlegt í Eyjum án ÍBV“.   Hálftími í brekkusönginn Einn af hápunktum þjóðhátíða er brekkusöngurinn. Árið 2012 sáu Jarl Sigurgeirsson og Sæþór vídó um hann. Allt nema þjóðsönginn, þar var komið að þætti Árna Johnsen sem átti að enda með þjóðsöngnum, Íslands þúsund ár, en það dugði Árna ekki. Hann kom því skilmerkilega á framfæri að hann væri hin eina sanna rödd Brekkusöngsins sem hann byrjaði með 1977. Þetta margítrekaði hann og til að undirstrika það söng hann í rúman hálftíma og var klukkan komin fram yfir hálf eitt þegar kom að þjóðsöngnum.   Íþróttaakademían Íþróttaakademíur ÍBV og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum (FÍV) annars vegar og Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) héldu sínu striki árið 2012 en alls voru 66 ungmenni sem æfðu handbolta og fótbolta á þeirra vegum eldsnemma á morgnana. Þjálfarar voru þeir Erlingur Birgir Richardsson, sem sá um handboltann og styrktarþjálfun og Ian Jeffs, sem sá um fótboltann. Erlingur hafði yfirumsjón með starfsemi akademíunnar en hann sagði að skipting nemenda hafi verið nokkuð jöfn. „Það er nokkuð jöfn skipting á milli FÍV og GRV og sömuleiðis á milli fótbolta og handbolta. Það eru tveir á framhaldsskólaaldri sem flakka á milli beggja greinanna og eru þá á einni æfingu í fótbolta og einni í handbolta, í stað þess að vera á tveimur æfingum í sömu greininni.“   Silfurstelpurnar okkar Kvennalið ÍBV í knattspyrnu sló heldur betur í gegn á lokakafla Íslandsmótsins 2012. Eftir niðurlægjandi tap gegn FH á Hásteinsvelli, brettu stelpurnar upp ermarnar og töpuðu ekki leik í síðustu sjö umferðunum. Og þegar upp var staðið, þá náði ÍBV 2. sætinu í Pepsídeildinni, sem er jöfnun á besta árangri kvennaliðs ÍBV í efstu deild. Sannarlega glæsilegur árangur hjá Jóni Ólafi Daníelssyni, þjálfara ÍBV og lærimeyjum hans.   Styrkur frá UEFA ÍBV, líkt og áður fékk sinn hlut af greiðslu UEFA til KSÍ vegna ágóða af meistaradeild Evrópu 2011-2012. Féð var eyrnamerkt barna- og unglingastarfi en hlutur ÍBV var 3.620.000 kr. Alls fengu íslensk félög 43 milljónir, sem skiptust milli félaga í efstu deild karla. Því til viðbótar ákvað KSÍ að reiða fram 40 milljónir sem skiptust milli liða í öðrum deildum Íslandsmótsins. Eitt af skilyrðum var að félögin haldi úti yngri flokkum beggja kynja.   Nýr framkvæmdastjóri Um miðjan janúar 2013 lét Tryggvi Már Sæmundsson af störfum sem framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. Nýr framkvæmdastjóri er Dóra Björk Gunnarsdóttir. Hún er kennaramenntuð og hefur starfað við Grunnskóla Vestmannaeyja.   Páll Scheving hættir í stjórn ÍBV og Þjóðhátíðarnefnd Páll sat í Þjóðhátíðarnefnd í tólf ár, þar af tíu ár í röð og formaður í fjögur ár. Þjóðhátíðin tók miklum breytingum á þessum árum og margt gert í framfaraátt. Hátíðin var aðlöguð breyttum tímum og brugðist við auknum kröfum. Það blés oft hressilega um þjóðhátíðina þar sem Páll stóð í stafni. Gagnrýnin hefur á stundum verið bæði óvægin og óréttlát en stundum átt rétt á sér. Páll viðurkennir það en benti líka á að besta leiðin til að gera ekki mistök sé að gera ekki neitt.   Úrvalsdeildarsætið í höfn Karlalið ÍBV í handbolta tryggði sér sæti í úrvalsdeild tímabilið 2012-2013 með glæsilegum sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Mest náðu Eyjamenn átta marka forystu í leiknum en óvænt spenna hljóp í leikinn á lokakaflanum þegar Garðbæingar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk. En lengra komust þeir ekki og lokatölur urðu 24:27. Þjálfarar liðsins voru Arnar Pétursson og Erlingur Richardsson.   David James semur við ÍBV Enski landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi, David James, skrifaði undir samning hjá ÍBV vorið 2013. James er án efa þekktasti knattspyrnumaðurinn sem hefur verið á mála hjá íslensku liði og sannkallaður hvalreki fyrir ÍBV og í raun íslenska knattspyrnu. James lék með ÍBV um sumarið og starfaði einnig sem aðstoðarþjálfari við hlið Hermanns Hreiðarssonar. Eins og gefur að skilja vakti koma James til ÍBV verðskuldaða athygli. Enskir fjölmiðlar sýndu málinu mikinn áhuga og var m.a. sagt frá vistaskiptum markvarðarins á vef The Guardian, Sky Sports og BBC.   Þung undiralda á aðalfundi Salurinn í Týsheimilinu var þétt setinn á aðalfundi ÍBV-íþróttafélags 17. apríl 2013. Stórkarlalegar yfirlýsingar stjórnarmanna dagana á undan höfðu örugglega átt sinn þátt í áhuga á fundinum. Það var áfram þungi í mönnum en umræðan var þó vel innan velsæmismarka. Það sem stóð uppúr var glæsilegur árangur félagsins árið á undan og öflugt starf en dökka hliðin að félagið skuldar of mikið. Um þetta var tekist á fundinum og féllu þung orð, m.a. sagt að þjóðhátíð skilaði ekki því sem gera mætti ráð fyrir miðað við umfang og veltu. Því var mótmælt og sýnt fram á að tekjur af þjóðhátíð skipta máli fyrir rekstur félagsins þó alltaf megi deila um hvað sé ásættanlegt og hvað ekki. Á framhaldsaðalfundi nokkrum dögum síðar var Sigursveinn Þórðarson kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn, Íris Róbertsdóttir, varaformaður, Guðmundur Ásgeirsson, gjaldkeri og Arnar Richardsson, ritari. Aðrir í stjórn eru Páll Magnússon, Stefán Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Styrmir Sigurðarson og Hannes Sigurðsson.   Fyrsti Íslandsmeistaratitill ÍBV í karla handbolta Tveir flokkar ÍBV í handbolta urðu Íslandsmeistarar 2013, yngra ár 4. flokks drengja og eldra ár 5. flokks kvenna. Þessi sigur 4. flokks drengja var fyrsti Íslandsmeistaratitill í handbolta í sögu ÍBV íþróttafélags. Þjálfarar drengjaliðsins var Jakob Lárusson en þjálfari stúlknaliðsins var Unnur Sigmarsdóttir.   Skemmtilegur opnunarleikur Það var augljóst að mikil eftirvænting ríkti í Vestmannaeyjum þegar blásið var til leiks í opnunarleik Íslandsmótsins í knattspyrnu 2013, sem að þessu sinni fór fram á Hásteinsvelli. Þar áttust við heimamenn í ÍBV og ÍA en í liði ÍBV var stórstjarnan David James. Það fór líka ekki á milli mála að stuðningsmenn liðsins vildu berja stórstjörnuna augum, enda voru ríflega eitt þúsund manns á vellinum og fjölmargir voru mættir mjög tímanlega. ÍBV hafði betur í leiknum 1:0 með marki Gunnars Más Guðmundssonar.   Stórveldi á íþróttasviðinu ÍBV fékk afhentan unglingabikar HSÍ á lokahófi sambandsins 2013, þar sem ÍBV sópaði að sér verðlaunum. Unglingabikar er eftirsóknarverður bikar en hann fær það félag sem að mati HSÍ hefur sinnt unglingastarfi hvað best á tímabilinu. Undir unglingastarfið falla 3. flokkur og yngri iðkendur í karla- og kvennaflokki. ÍBV bætti því enn einni rósinni í hnappagatið og var vel að þessum titli komið.   Heimir Heimir Hallgrímsson er án efa sá þjálfari sem hefur náð lengst af þeim íþróttaþjálfurum sem Eyjarnar hafa alið af sér. Heimir náði frábærum árangri með karla- og kvennalið ÍBV og ekki síður yngri flokka félagsins. Hann var í kjölfarið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari. Undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis náði íslenska karlalandsliðið sögulegum árangri, þótt sætið á HM hafi runnið úr greipum á lokasprettinum. Heimir var svo ráðinn landsliðsþjálfari.   90 nemendur í Íþróttaakademíunni 2013 Góður rómur hefur verið gerður af starfsemi Íþróttaakademíu ÍBV og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og Grunnskóla Vestmannaeyja. Nemendur fá góða kennslu í viðkomandi íþróttagrein, þá er gerð krafa á nemendur beggja akademía um hollt líferni, góða framkomu og námsárangur. Tímabilið 2013-14 voru samtals 90 nemendur í íþróttaakademíu, 39 í FÍV og 51 í GRV. Ian David Jeffs var skólastjóri en hann var þriðji til að sinna starfinu. Árni Stefánsson byrjaði, Erlingur Richardsson tók við af honum og nú Jeffsy, eins og hann er kallaður.   Baráttan um Íslandsmeistaratitlinn 2014 endaði með sigri ÍBV Það varð enginn vonsvikinn af því að hafa fylgt karlaliði ÍBV í handbolta, til Hafnarfjarðar í síðasta leik liðsins í úrslitarimmunni. Verið var að leika hreinan úrslitaleik gegn Haukum og stuðningsmenn ÍBV voru sem fyrr frábærir. Meira en klukkutíma fyrir leik var stúkan orðin full Eyjamegin. Þetta sýndi hug Eyjamanna, - titlinum skyldi landað. Örtröð myndaðist þegar byrjað var að selja miða í hópferð á leikinn. Forsalan fór fram í afgreiðslu Herjólfs og biðröðin náði langt út á bryggju. Fjölmargir Eyjamenn tryggðu sér einnig miða í forsölu Hauka og svo síðar á leikdegi. Enda var það þannig að á leiknum á Ásvöllum voru um 2.500 manns og ekki minna en helmingur voru Eyjamenn. Þrautreyndur Haukamaður sagði að hann hefði aldrei áður séð jafn marga í Íþróttahúsinu, ekki einu sinni þegar Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH mætast. Hann bætti því líka við að hann hefði aldrei áður séð jafn mikla stemningu á handboltaleik á Íslandi og þótti mikið til stuðningsmanna ÍBV koma. Stuðningsmenn ÍBV hafa farið á kostum í úrslitakeppninni, og reyndar fyrir hana líka. Hvítu riddararnir höfðu verið fremstir í flokki, haldið uppi stemningunni og aðrir stuðningsmenn ÍBV ekki látið sitt eftir liggja. Stuðningsmenn ÍBV hafa lyft handboltanum á Íslandi upp á hærri stall í vetur. Þetta eru stór orð en full innistæða fyrir þeim. Leikurinn sjálfur var nánast sem í blámóðunni fyrir mörgum, þvílík var spennan. Fyrri hálfleikur var jafn, Eyjamenn þó með undirtökin en í síðari hálfleik náðu Haukar fjögurra marka forystu og einhverjir farnir að velta því fyrir sér hvort draumurinn væri úti. „Fyrir það fyrsta, við erum að spila úrslitaleik strákar mínir. Njótið þess. Smá bros og losum okkur við spennuna,“ sagði Arnar Pétursson, annar tveggja þjálfara ÍBV í leikhléi sem ÍBV tók um miðjan seinni hálfleikinn þegar staðan var 22:18. Arnar hitti naglann á höfuðið. Leikmenn byrjuðu að spila með gleðina að vopni og það sem fylgdi í kjölfarið fer í sögubækurnar. Peyjarnir okkar söxuðu á forskot Hauka og Theodór Sigurbjörnsson kom ÍBV yfir 23:24 þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. Staðan var jöfn þegar mínúta var eftir. ÍBV fór í sókn, markvörður þeirra varði frá Agnari Smára Jónssyni, sem kastaði sér inn í teig, náði frákastinu og kom boltanum í netið í annarri tilraun. Þvílík tilþrif hjá Agnari Smára, sem skoraði þrettán mörk í leiknum, hvorki meira né minna. Vörn Eyjamanna stóð svo af sér síðustu sókn Hauka og fagnaðarlætin í leikslok voru mögnuð. Leikmenn og forráðamenn féllust tárvotir í faðma með stuðningsmönnum sínum. Fyrsti Íslandsmeistaratitill meistaraflokks karla ÍBV í handbolta staðreynd. Árangurinn náðist því allir lögðust á eitt, leikmenn, þjálfarar, forráðamenn, stuðningsmenn og fleiri. Að nýliðar ÍBV skuli standa uppi sem sigurvegarar í Íslandsmótinu í fyrsta sinn er ótrúlegt, ekki síst í ljósi þess að fyrir aðeins rúmum tveimur árum var ÍBV næstlélegasta lið landsins. Þessi vegferð hófst ekki í haust, hún hófst fyrir nokkrum árum þegar deildin var í skuldaklafa. Skuldirnar voru greiddar upp og þá hófst uppbyggingin sem fjölmargir komu að. En uppskeran er góð, ÍBV er besta handboltalið landsins.   Heimkoma sem seint gleymist „Við komum kl. hálftvö í nótt með Herjólfi og það var full bryggjan af fólki til að taka á móti okkur. Það var slegið upp flugeldasýningu og fleira til gamans gert. Þá var slegið upp veislu sem stóð fram eftir nóttu. Það var seint farið að sofa og snemma farið á fætur í morgun þar sem konan mín var að byrja að vinna eftir fæðingarorlof. Sonur minn 10 mánaða hafði engan skilning á að ég var þreyttur í morgun,“ sagði Gunnar Magnússon, annar þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik karla, glaður í bragði.   Íslands- og bikarmeistarar Eyjamenn eignuðust enn á ný Íslandsmeistara í handbolta þegar 4. flokkur kvenna, yngri, vann Fram í úrslitaleik mótsins í Austurbergi. Lokatölur urðu 20:18 eftir framlengingu en eftir venjulegan leiktíma var staðan 17:17. Eyjaliðið var lengi í gang enda var Fram yfir í hálfleik 11:7. En stelpurnar unnu sig inn í leikinn með mikilli baráttu og eiga hrós skilið fyrir veturinn, enda bæði Íslands- og bikarmeistarar. Þjálfari liðsins var Unnur Sigmarsdóttir.   Loksins kom heimasigur Gengi karlaliðs ÍBV í knattspyrnu stóð ekki undir væntingum sumarið 2014 en loksins tókst meistaraflokki karla að sigra í heimaleik í Pepsi-deildinni en sigurinn kom á Hásteinsvelli gegn Fjölni í mjög skemmtilegum leik þar sem Eyjamenn stjórnuðu ferðinni, þó aðallega í seinni hálfleik. Eyjamenn höfðu unnið síðustu tvo útileiki áður en kom að þessum en það voru útisigurinn í Keflavík og bikarsigurinn gegn Þrótti. Lokatölur voru 4:2 sem verður að teljast sanngjarnt.   Stærsta þjóðhátíðin Sumarið 2014 hélt ÍBV íþróttafélag stærstu Þjóðhátíð sína, en tæplega 15 þúsund gesti voru þá í Herjólfsdal. Hún tókst með ágætum. Veður var ágætt alla dagana, sól og blíða á föstudeginum, skúrir á laugardeginum og skýjað og nokkur vindur á sunnudeginum. Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags sagði m.a. í viðtali við Eyjafréttir: „Það var líka gaman að sjá að hvítu tjöldunum er að fjölga, voru núna 326 á móti rúmlega 290 í fyrra.   6. flokkur Íslandsmeistari Stelpurnar í 6. flokki kvenna hjá ÍBV urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu um mánaðamótin ágúst/september 2014. B- og C-lið flokksins náði einnig mjög góðum árangri, liðin tvö enduðu í þriðja sæti Íslandsmótsins. A-liðið hafði gríðarlega mikla yfirburði í sumar og vann til að mynda sinn riðil með fullt hús stiga og komst því leikandi í úrslitariðilinn sem fram fór nokkrum dögum síðar. Þar voru stelpurnar alls ekki hættar og ákváðu að vinna alla leikina. Þær gerðu það svo vel að ekkert annað lið í riðlinum var með jafn gott markahlutfall. Stelpurnar eru vel að titlinum komnar og eiga bjarta framtíð fyrir sér. Athöfn var á bryggjunni við komu Herjólfs en stelpunum sem skiluðu sér til Eyja voru færðir blómvendir. Evrópukeppni kvennaliðsins ÍBV stelpurnar okkar héldu út til Ítalíu um miðjan október 2014 til þess að keppa tvo leiki gegn ítölsku liði í forkeppni Evrópudeildar. Fyrir ferðina var ljóst að ítalska liðið var gríðarlega sterkt og með nokkrar reyndar stelpur sem höfðu áður leikið í Meistaradeildinni. Fyrri leikur liðanna fór fram á föstudegi og var mikið jafnræði á með liðunum. Stúlkurnar okkar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 14:14. Í síðari hálfleik fóru stelpurnar illa með færin sín og lokatölur urðu 27:24. Það var því ljóst að erfitt verkefni beið stelpnanna næsta dag. Mörk ÍBV í fyrri leiknum skoruðu Jóna S. Halldórsdóttir 7, Telma Amado 6, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Vera Lopes 3, Ester Óskarsdóttir 2 og Elín Anna Baldursdóttir 2. Síðari leikurinn fór, eins og fyrri leikurinn, fram í höll þar sem mikill hiti var og margir stuðningsmenn ítalska liðsins, aðstæður sem stelpurnar þekkja ekki. Í leiknum varð snemma ljóst að þær myndu ekki ná að vinna upp muninn sem hafði myndast eftir fyrri leikinn. Allar stelpurnar fengu því að spila og tapaðist leikurinn með níu marka mun 34:25. Mörk ÍBV skoruðu Jóna S. Halldórsdóttir 8, Vera Lopes 3, Telma Amado 3, Elín Anna Baldursdóttir 3, Sandra Dís Sigurðardóttir 2, Ester Óskarsdóttir 2, Bergey Alexandersdóttir 1, Sóley Haraldsdóttir 1 og Ásta Björt Júlíusdóttir 1.   Gríðarlegur ferðakostnaður Ferðakostnaður ÍBV-íþróttafélags fyrir árið 2014 var kr. 56.500.000,-. Eingöngu er um að ræða ferðir í Íslandsmót en ekki í bikarkeppni, æfingaleiki, deildar- og Lengjubikar, Faxaflóamót og fleira. Ferðajöfnunarsjóður kom til móts við þennan kostnað og úr honum komu nálægt kr. 6.000.000- Til þess að standa straum af þessum kostnaði hefur ÍBV notið mikillar góðvildar einstaklinga og fyrirtækja sem og Vestmannaeyjabæjar.   1200 leikir – 43 starfsmenn á launaskrá – 50% grunnskólabarna æfa íþróttir hjá félaginu Á viðurkenningahátíð Íþróttabandalagsins ræddi Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags um félagið og starf þess. Hún sagði að á árinu 2014 hefði ÍBV spilað rúmlega 1200 leiki í Eyjum og félagið var þá sem oftast áður stærsti viðskipavinur Herjólfs í farþegaflutningum. Félagið átti 23 íþróttamenn sem léku fyrir Íslands hönd með landsliðum og þrír þjálfarar félagsins stýrðu landsliðum Íslands og félagið ætti þar að auki handboltaþjálfara eins besta félagsliðs heims. ÍBV íþróttafélag varð Íslandsmeistari í þremur yngri flokkum og bikarmeistari í tveimur. Og Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í handbolta. ÍBV íþróttafélag hefði að jafnaði 43 starfsmenn á launaskrá, félagið verslaði við fyrirtæki og stofnanir í Eyjum fyrir rúmar 100 milljónir króna. 50% allra grunnskólabarna stunda íþróttir á vegum félagsins og uppeldismenntað fólk sem sér um kennslu yngstu iðkenda félagsins er 10 talsins. 80 ungmenni stunda nám í Íþróttaakademíunni   Bikarmeistarar - Hafa unnið 17 leiki í röð Stelpurnar í þriðja flokki ÍBV í handbolta voru ótrúlegar. Þær töpuðu ekki leik á tímabilinu 2014-15 eftir slakan fyrsta leik gegn Selfyssingum. Þær mættu þeim einmitt í úrslitum bikarsins. Þrjár stelpur sem spila stórt hlutverk hjá meistaraflokki spila með liðinu. Þær Erla Rós Sigmarsdóttir, Arna Þyrí Ólafsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir en þær spiluðu allan leikinn. Í upphafi leiksins var mikið jafnræði á með liðunum en ÍBV virtist þó alltaf vera einu til tveimur skrefum á undan. Í hálfleik var staðan 12:10 eftir flottan kafla ÍBV undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik sást vel hvort liðið væri á toppi deildarinnar. Stelpurnar sýndu sínar bestu hliðar en það var þó ein sem stal senunni. Sóley Haraldsdóttir átti frábæran leik og skoraði ellefu mörk. Þegar sóknir stelpnanna virtust vera að renna út í sandinn gat Sóley bjargað málunum. Lokatölur leiksins urðu 24:18 og var Sóley valin kona leiksins.   Bikarinn til Eyja Karlalið ÍBV í handbolta fékk FH sem mótherja í úrslitaleik bikarkeppninnar 2015 eftir að hafa unnið Hauka í dramatískum leik. - Það gekk allt upp hjá Eyjamönnum í upphafi og var staðan 6:6 eftir fimmtán mínútna leik. FH-ingar náðu þá góðum kafla, spiluðu ótrúlega vörn og góða sókn, þeir breyttu stöðunni í 6:10 á svipstundu. Þá hófst frábær kafli Eyjamanna, áður en flautan gall í hálfleik höfðu strákarnir jafnað í 11:11. Þessi kafli hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks og var staðan orðin 19:14 áður en síðari hálfleikur var hálfnaður. Kolbeinn Aron Arnarson var í ótrúlegu stuði í leiknum en hann varði alls þrjú vítaköst. Staðan var svo 23:19 þegar einungis sex mínútur voru eftir en þá voru flestir farnir að bóka sigurinn. Þá klikkaði nánast allt sem gat klikkað hjá Eyjamönnum þessar síðustu mínútur. FH-ingum tókst að minnka muninn niður í eitt mark og höfðu boltann þegar mínúta var eftir. Vörn ÍBV varði slakt skot frá ungri skyttu FH-inga og sigldi þar með sigrinum í höfn. Allt ætlaði um koll að keyra í Laugardalshöllinni en ótrúleg stemning var í húsinu. Kolbeinn Aron Arnarson var ótrúlegur í úrslitaleiknum og varði nítján skot, þar af þrjú vítaköst. Hann varði einnig mörg skot úr opnum færum á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Agnar Smári Jónsson skoraði mest Eyjamanna í leikjunum eða tíu mörk. Hann skoraði síðasta markið gegn FH. Hvítu Riddararnir stjórnuðu stemningunni mjög vel en þessi stórkostlega stuðningsmannasveit hefur staðið sig ótrúlega vel síðustu tvö ár. Leikmenn og þjálfarar liðsins fara ekki í eitt einasta viðtal án þess að þakka fyrir stuðninginn og stemninguna sem hefur ekki verið meiri í íslenskum handbolta í mörg ár. Og uppskeran er fyrsti bikarmeistaratitill karla frá árinu 1991 þegar Íþróttabandalag Vestmannaeyja vann Víking eftir að hafa lent sjö mörkum undir. Við heimkomu bikarmeistaranna með Herjólfi var skotið upp flugeldum og blys loguðu á Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti. Erfitt er að segja til um hvað margir voru samankomnir á bryggjunni til að samfagna Bikarmeisturunum en þeir voru eitthvað á milli 1000 og 2000 manns. Og til að undirstrika enn hvert hugur veðurguðanna beinist í handboltanum á Íslandi lagðist hvít slikja yfir Eyjarnar eftir móttökuna með Herjólfi. Hvítt er jú litur ÍBV. Þarna endurtók sig sagan frá síðasta vori þegar ÍBV kom heim með Íslandsmeistaratitilinn. Þá skartaði náttúran sínu blíðasta, stjörnubjörtu kvöldi, fullu tungli og logni. Á eftir var sigurhátíð í Höllinni og á Háaloftinu fyrir strákana þar sem frítt var inn og sungið og dansað í fullu húsi fram á morgun.   5. flokkur Íslandsmeistari Stelpurnar í 5. flokki kvenna eru með langbesta liðið á Íslandi í sínum flokki. Þær unnu öll fimm mótin sem voru í boði á árinu 2015, en ekki nóg með það, því liðið vann hvern og einn einasta leik. Rétt eins og það hafi ekki verið nóg þá vann liðið alla leikina nema tvo með tíu marka mun eða meira. Þetta er ótrúlegur árangur hjá stelpunum sem hafa svo sannarlega hælana þar sem önnur lið komast ekki með tærnar. Á síðasta tímabili urðu stelpurnar einnig Íslandsmeistarar. B-lið stelpnanna er einnig það besta á landinu, í síðasta móti vetrarins komst B-liðið upp í fyrstu deild. Engu öðru B-liði hefur tekist að tryggja sér sæti í efstu deild 5. flokks kvenna. Stelpurnar eru einnig með fyrirmyndarþjálfara en feðgarnir Björn Elíasson og Hilmar Ágúst Björnsson stýra þeim.   Tryggvi lét af störfum fyrirvaralaust Tryggvi Guðmundsson, lét af störfum sem aðstoðarþjálfari knattspyrnuliðs karla ÍBV í endaðan júlí 2015. Hann var ekkert að fegra sinn hlut sinn í málinu. Tryggvi mætti undir áhrifum áfengis á æfingu og þá sem aðalþjálfari í forföllum Jóhannesar Harðarsonar yfirþjálfara. Í kjölfarið varð að samkomulagi milli hans og knattspyrnuráðs ÍBV að hann hætti.   Meistarar meistaranna 2015 ÍBV varð meistari meistaranna í karlaflokki í handknattleik eftir nauman sigur á Haukum, 25-24 sigur í Schenker-höllinni. Með sigrinum tókst strákunum að hefna fyrir tapið í fyrra gegn Haukum í sama leik en þá tapaði ÍBV með eins marks mun. Þjálfarar liðsins voru Arnar Pétursson og Sigurður Bragason.   Minningarathöfn um Abel Landakirkja var þéttsetin í minningarathöfn um Abel Dhaira, markmann ÍBV sem lést 27. mars 2016, aðeins 28 ára gamall eftir stutta baráttu við krabbamein. Það var ÍBV og vinir hans sem stóðu fyrir athöfninni þar sem sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur Landakirkju og Guðni Hjálmarsson, forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins í Eyjum fluttu minningarorð. Hvítasunnufólk sá um tónlist og Árný Heiðarsdóttir, sem gekk honum í einskonar móðurstað. ÍBV fáninn var í kór klæddur sorgarklæði þar sem leikmenn meistaraflokks karla sátu. Athöfnin var látlaus og í anda Abels sem ekki lét mikið fyrir sér fara nema þegar hann var mættur á milli stanganna í marki ÍBV.   3. flokkur Íslandsmeistari ÍBV eignaðist Íslandsmeistara í 3. flokki karla í fyrsta skiptið, þessir sömu strákar unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil ÍBV í 4. flokki árið 2013. Í ár var liðið undir stjórn Svavars Vignissonar og tefldi það fram tveimur liðum, einu sem spilaði í 1. deild og öðru sem spilaði í 3. deild. Liðið sem var í 3. deild var einungis skipað leikmönnum fæddir 1999, á yngra ári flokksins. Ágúst Emil Grétarsson var útnefndur maður leiksins en hann skoraði átta mörk, í öllum regnbogans litum. Strákarnir fengu síðan móttöku við hæfi á Básaskersbryggju eftir leik þar sem þeir höfðu ferðast með bikarinn til Eyja í Herjólfi með tilheyrandi látum og söngvum. Þriðji flokkur karla vann einnig í B-úrslitum. Liðið tapaði ekki leik á öllu tímabilinu. Þeir unnu 15 af sínum 16 leikjum í deildinni og voru með 178 mörk í plús.   Lengjubikarmeistarar 2016 Eftir mikla velgengni í Lengjubikarkeppninni tók meistaraflokkur kvenna á móti Breiðabliki í úrslitunum á Hásteinsvelli. ÍBV stelpurnar höfðu betur í 3:2 sigri og fengu því Lengjubikarinn í ár. ÍBV stelpurnar byrjuðu frábærlega en eftir 25 mínútur var staðan orðin 3:0 fyrir okkar stelpum. Blika-stelpurnar minnkuðu muninn í 3:1 á 27. mínútu. Staðan var 3:1 í hálfleik. Gestirnir skoruðu svo annað mark sitt á 85.mínútu leiksins og voru því lokatölur leiksins 3:2 og ÍBV stelpurnar því handhafar Lengjubikarsins 2016. Mörk ÍBV skoruðu þær Chloe Lacasse, Lisa Marie Woods og Rebekah Bass.   Þannig fór það Það var stór áfangi hjá ÍBV að eiga lið bæði í karla- og kvennaliði ÍBV í knattspyrnu í úrslitum Borgunarbikarsins 2016, sem fram fór á Laugardalsvelli dagana 12. og 13. ágúst. Því miður urðu Eyjamenn og -konur að sætta sig við silfurverðlaunin en stuðningsmennirnir klikkuðu ekki og voru síst færri á pöllunum og létu vel í sér heyra. ÍBV stelpurnar tóku á móti Blikum í úrslitaleiknum. Þær höfðu farið nokkuð erfiða leið þar sem þrjú Pepsi-deildar lið urðu á vegi þeirra. Þær slógu KR, Selfoss og Þór/KA úr leik en leikurinn við Þór/KA fór alla leið í framlengingu þar sem Eyjakonur reyndust sterkari aðilinn. Í úrslitaleiknum byrjaði leikurinn alveg skelfilega. Olivia Chance, nýr leikmaður Blika, skoraði mark eftir rúma mínútu þar sem hún átti skot fyrir utan sem rataði í netið. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, uppalin Eyjakona, skoraði annað mark Blika eftir rúmlega tuttugu mínútna leik þar sem hún skallaði í netið eftir hornspyrnu. Svona var staðan í hálfleik og Blikar líklegri til að bæta við marki heldur en ÍBV að minnka muninn. Lið ÍBV kom þó virkilega ferskt út í seinni hálfleikinn þar sem Natasha Anasi minnkaði muninn eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleik. Þá leit allt eins út fyrir að ÍBV gæti jafnað leikinn. Tíu mínútum seinna komust Blikastelpur í 3:1 þegar önnur Vestmannaeyjamær skoraði en Fanndís Friðriksdóttir átti þá hnitmiðað skot út við stöng. Leikurinn fjaraði fljótt út og voru mínúturnar ekki lengi að líða þar sem ÍBV vantaði mörk, allt kom fyrir ekki og tap í bikarúrslitunum því staðreynd Karlalið ÍBV spilaði við Valsara eftir að hafa farið erfiðu leiðina í bikarúrslitin, liðið sló út Huginsmenn, Stjörnuna, Breiðablik og FH. Í úrslitaleiknum mætti liðið Val og ekki byrjaði leikurinn gæfulega fyrir Eyjamenn. Valsarinn Sigurður Egill Lárusson fékk fyrsta færið og skoraði fyrsta markið eftir tæpar tíu mínútur, hann var síðan aftur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystuna eftir tuttugu mínútna leik. Í millitíðinni hafði Gunnar Heiðar Þorvaldsson fengið gott tækifæri til að jafna leikinn fyrir Eyjamenn. Restin af leiknum var nokkuð tíðindalítill og ekki mikið sem gerðist í síðari hálfleik, ÍBV fékk fá eða engin færi til að minnka muninn og Valsarar í raun verðskuldaðir sigurvegarar.   Hrafnhildur til fyrirmyndar Ansi áhugavert atvik átti sér stað í handboltaleik ÍBV og Hauka í Íslandsmótinu í handbolta haustið 2016. Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV, sýndi þá af sér afar íþróttamannslega hegðun. Forsaga málsins er sú að leikmaður ÍBV varð fyrir hnjaski í leiknum og var spurð af dómara leiksins hvort hún þyrfti aðstoð sjúkraþjálfara. Hún svaraði því neitandi en þá var sjúkraþjálfari Haukaliðsins engu að síður lagður af stað inn á völlinn til að hlúa að leikmanni ÍBV en Hrafnhildur hafði beðið sjúkraþjálfara Hauka um að aðstoða sinn leikmann þar sem sjúkraþjálfari ÍBV var staddur inni í klefa að hlúa að öðrum leikmanni. Þar sem dómarar leiksins höfðu ekki gefið sjúkraþjálfara Hauka leyfi til þess að stíga inn á völlinn fékk Haukaliðið tveggja mínútna brottvísun og þurfti að spila manni færri. Það fannst Hrafnhildi ósanngjarnt þar sem hún hafði beðið sjúkraþjálfarann um að fara inn á völlinn. Brá hún þá á það ráð að kippa einum af sínum leikmönnum útaf líka næstu tvær mínúturnar svo áfram yrði jafnt í liðum.Tekið skal fram að ÍBV var undir á þessum tímapunkti og liðið endaði líka á að tapa leiknum. Hrafnhildur fær þó mikið hrós fyrir þessa gríðarlega íþróttamannslegu hegðun en ætla má að afar fáir þjálfarar hefðu gert það sama í þessari stöðu.   Jafnréttisstefna ÍBV íþróttafélags Stefnt skal að því að réttur hvers og eins einstaklings til að stunda íþróttir sé ávallt fyrir hendi. Uppbygging íþrótta, hvort sem um æfingar eða keppni er að ræða, þarf að tryggja að allir hafi sömu tækifæri. Þessi jafnréttishugsjón þarf að verða eitt megineinkenni íþrótta. Einstaklingur á rétt á að vera metinn af verðleikum sínum en ekki vegna uppruna, þjóðfélagsstöðu, litarháttar eða kyns. Hvers vegna á íþróttahreyfingin að vinna að jafnrétti kynja? ,,Rannsóknir á íþróttaiðkun barna og unglinga sýna að þátttaka í íþróttum hefur bein áhrif á andlega og félagslega vellíðan og styrkir sjálfsmynd þeirra.” (RUM, Þórólfur Þórlindsson o.fl. 1994). Þessar sömu rannsóknir sýna einnig að þátttaka stúlkna og drengja er ekki sambærileg. Stúlkur stunda íþróttir síður en strákar og brottfall þeirra er mun meira en stráka. Það er óumdeilt að íþróttir hafa uppeldislegt, menntalegt og heilsufarslegt gildi fyrir þá sem þær stunda. Því er mikilvægt að íþróttafélögin séu meðvituð um ábyrgð sína og áhrifamátt hvað þetta varðar og tryggi að allir hafi þar sambærilega möguleika. ÍBV gerir sig út fyrir að bjóða upp á æfingar í öllum flokkum og af báðum kynjum. Reynt er að bjóða upp á sama æfingamagn hjá báðum kynjum með eins vel menntuðum þjálfurum og kostur er á hverju sinni.   Með þeirri sögu sem hér hefur verið sögð, er reynt að varpa ljósi á það umfangsmikla starf sem fram fer hjá ÍBV íþróttafélagi. Það gerist þó ekki af sjálfu sér. Mikill fjöldi sjálfboðaliða og stuðningsmanna leggja mikið á sig til að halda merki félagsins og Vestmannaeyja hátt á lofti og eru ástæða þess að félagið er jafn öflugt og raun ber vitni. Það nýtur líka mikils velvilja bæjarbúa sem seint verður fullþakkað. Meðan félagið nýtur slíks, er framtíð þess björt. Þetta samantekt ÍBV íþróttafélags er tileinkað öllu því góða fólki sem að baki félagsins stendur.   Ótrúlegur árangur   Árangur af íþróttaiðkun er ekki hið eina, fleira gott leiðir hún af sér en titla. En í þessari samantekt er eingöngu horft á titla félagsins frá því það var stofnað í lok ársins 1996. Á ýmsu hefur gengið á tímabilinu. Sigrar hafa unnist, en líka hafa sum árin valdið vonbrigðum eins og gengur. En óneitanlega hefur árangur félagsins verið glæsilegur. Alls hefur félagið hlotið 87 meistaratitla í handbolta og fótbolta, þar af 7 meistaratitla í efstu deildum þessara íþróttagreina. Að 4300 manna samfélag eins og Vestmannaeyjar geti státað af þeim árangri sem náðst hefur í handbolta og knattspyrnu, er sennilega einstakt. Og að eiga lið í öllum efstu deildum þessara íþróttagreina getur ekkert annað sveitarfélag státað af nema Reykjavík.   1997 M.fl. karla í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Bjarni Jóhannsson M.fl. karla í knattspyrnu - Deildarbikarmeistari Þjálfari: Bjarni Jóhannsson 5. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Erna Þorleifsd./Stefanía Guðjónsdóttir   1998 M.fl. karla í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Bjarni Jóhannsson M.fl. karla í knattspyrnu - Bikarmeistari Þjálfari: Bjarni Jóhannsson M.fl. karla í knattspyrnu - Meistarar meistaranna Þjálfari:Bjarni Jóhannson 2. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Heimir Hallgrímsson 4. fl. B kvenna - Íslandsmeistari Þjálfari: Íris Sæmundsdóttir   1999 4. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Íris Sæmundsdóttir 4. fl. kvenna í innnahússknattsp. - Íslandsmeistari 6. fl. karla í knattspyrnu - Shellmótsmeistari A-liða Þjálfari: Jón Ólafur Daníelsson 4. fl. karla í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Sigurður Bragason/Akba   2000 M.fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Sigbjörn Óskarsson M.fl. kvenna í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari: Sigbjörn Óskarsson 6. fl. B kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari 2. fl. kvenna í knattspyrn - Bikarmeistari 3. fl. kvenna í innanhússknattsp. - Íslandsmeistari 5. fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Stefanía Guðjónsdóttir   2001 M.fl. kvenna í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Sigbjörn Óskarsson M.fl. kvenna í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari:Erlingur Richardsson 3. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari 2. fl. kvenna í innanhússknattsp. - Íslandsmeistari Þjálfari: Sindri Grétarsson 4. fl. kvenna í handbolta - Deildarmeistari Þjálfari: Michael Akbasev   2002 M.fl. kvenna í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Erlingur Richardsson M.fl. kvenna í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari:Unnur Sigmarsdóttir   2003 M.fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistarar Þjálfari: Unnur Sigmarsdóttir M.fl. kvenna í handbolta - Deildarmeistarar Þjálfari: Unnur Sigmarsdóttir M.fl. kvenna í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari:Aðalsteinn Eyjólfsson 4. fl. kvenna í innanhússknattsp. - Íslandsmeistarar 2004 M.fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistarar Þjálfari: Aðalsteinn Eyjólfsson M.fl. kvenna í handbolta - Bikarmeistarar Þjálfari: Aðalsteinn Eyjólfsson M.fl. kvenna í handbolta - Deildarmeistarar Þjálfari: Aðalsteinn Eyjólfsson M.fl. kvenna í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari: Aðalsteinn Eyjólfsson M.fl. karla í handbolta - Íslandsmeistarar í 1. deild Þjálfari: Erlingur Richardsson M.fl. kvenna í knattspyrnu - Bikarmeistari Þjálfari: Heimir Hallgrímsson M.fl. kvenna í knattspyrnu - Deildarbikarmeistari Þjálfari: Heimir Hallgrímsson 5. fl. C kvenna í handbolta - Íslandsmeistari 5. fl. C kvenna í handbolta - Deildarmeistari 4. fl. B kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari   2005 3. fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistari í 2. deild 5. fl. A kvenna í handbolta - Íslandsmeistari 5. fl. A kvenna í handbolta - Deildarmeistari 5. fl. B kvenna í handbolta - Deildarmeistari   2006 M.fl. kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Alfreð Örn Finnsson 6. fl. A karla í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Heimir/Íris Sæmundsd. 6. fl. karla í knattspyrnu - Shellmótsmeistari Þjálfari: Heimir/Íris Sæmundsd.   2007 4. fl. A kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Unnur Sigmarsdóttir 4. fl. B kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Unnur Sigmarsdóttir 3. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari 7 m/lið 3. fl. kvenna í knattspyrnu - Pæjumótsmeistari B-liða 3. fl. kvenna í knattspyrnu - Símamótsmeistari B-liða   2008 M.fl. karla í knattspyrnu - Íslandsmeistari í 1. deild Þjálfari: Heimir Hallgrímsson 6. fl. C kvenna í handbolta - Íslandsmeistari 2. fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Jón Ólafur Daníelsson   2009 6. fl. C karla í handbolta - Deildarbikarmeistari   2010 M.fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari innanhúss Þjálfari: Jón Ólafur Daníelsson M.fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari í 1. deild Þjálfari: Jón Ólafur Daníelsson   2012 M.fl. karla í knattspyrnu - Íslandsmeistari innanhúss Þjálfari: Magnús Gylfason M.fl. kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari innanhúss Þjálfari: Jón Ólafur Daníelsson 2. fl. karla í handbolta - Deildarmeistari í 2. deild   2013 M.fl. karla í handbolta - Íslandsmeistari í 1. deild Þjálfari: Arnar Pétursson/Eringur 4. fl. yngri karla í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Jakob Lárusson 5. fl. eldri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari   2014 M.fl. karla í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Arnar Pétursson/Gunnar 4. fl. eldri karlar í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Stefán Árnason 4. fl. yngri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Unnur Sigmarsdóttir 6. fl. eldri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Elísa Sigurðardóttir 4. fl. yngri kvenna í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Unnur/Jón G.Viggósson 6. fl. A kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari 5. fl. kvenna í knattspyrnu - Símamótsmeistari A-liða Þjálfari: Sigríður Ása Friðriksd.   2015 M.fl. karla í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Gunnar Magnúss/Sig.B. M.fl. karla í handbolta - Meistarar meistaranna Þjálfari: Sigurður Bragas/Gunnar 3. fl. kvenna í handbolta - Bikarmeistari Þjálfari: Jón Gunnl. Viggósson 3. fl. kvenna í handbolta - Deildarmeistari í 1.deild Þjálfari: Jón Gunnl. Viggósson 5. fl. yngri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Hilmar Ágúst Björnsson 5. fl. B kvenna í knattspyrnu - Íslandsmeistari Þjálfari: Sigríður Ása Friðriksd.   2016 M.fl. karla í knattspyrnu - Fótbolti.net meistari Þjálfari: Bjarni Jóhannsson M.fl. kvenna í knattspyrnu - Lengjubikarmeistari Þjálfari: Ian Jeffs 3. fl. karla í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Svavar Vignisson 3. fl. karla í handbolta - Deildarmeistari í 1. deild Þjálfari: Svavar Vignisson 3. fl. karla í handbolta - Íslandsmeistari b-liða Þjálfari: Svavar Vignisson 3. fl. karla í handbolta - Deildarmeistari í 3. deild Þjálfari: Svavar Vignisson 3. fl. kvenna í handbolta - Deildarmeistari í 2. deild Þjálfari: Hrafnhildur Ósk Skúlad. 4. fl. eldri karla í handbolta - Íslandsmeistari B-úrslit Þjálfari: Hilmar Ágúst Björnsson 4. fl. yngri kvenna í handbolta - Deildarmeist. í 2. deild Þjálfari: Björn Elíasson 5. fl. eldri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Hilmar Ágúst Björnsson 6. fl. yngri kvenna í handbolta - Íslandsmeistari Þjálfari: Bergvin Haraldsson     (Heimildir: Eyjafréttir, Morgunblaðið, fundargerðir ÍBV íþróttafélags, Íþróttafélagið Þór í 100 ár)  

Lengjubikar kvenna: Spilaðist vel þrátt fyrir tap

Breiðablik tók á móti ÍBV í A-deild lengjubikars kvenna um síðustu helgi þar sem Eyjakonur þurftu að sætta sig við 3:0 tap. Hildur Antonsdóttir kom Blikum yfir eftir um hálftíma leik en Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir innsigluðu sigurinn fyrir þær grænklæddu með sitthvoru markinu þegar skammt var til leiksloka. Næsti leikur liðsins verður gegn Stjörnunni sunnudaginn 12. mars. „Leikurinn gegn Blikum spilaðist nokkuð vel þrátt fyrir 3:0 tap,“ segir Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV. „Við erum búnar að vera að æfa nýja vörn sem leit miklu betur út á móti Blikum heldur en á móti Val í vikunni á undan sem er mjög jákvæður punktur í okkar spilamennsku. Einnig vorum við að láta boltann ganga mun betur okkar á milli og við héldum honum vel. Mörkin sem við erum að fá á okkur koma mörg eftir mistök hjá okkur, við missum boltann klaufalega eða fylgjum okkar manni ekki alveg inn að marki, hlutir sem við eigum að gera betur og munum laga. Við erum einnig með nokkra leikmenn í meiðslum og markmaðurinn er ekki kominn með leikheimild.“ Nú hafið þið tapað fyrstu tveimur leikjunum í Lengjubikarnum, telur þú að liðið nái að knýja fram góð úrslit gegn Stjörnunni í næsta leik? „Á móti Stjörnunni ættu flestar að vera orðnar heilar og markmaðurinn kominn með leikheimild þannig ég er bjartsýn á að við munum ná góðum úrslitum á móti Stjörnunni. Ég vil samt koma því að hvað ég er rosalega ánægð með allar ungu stelpurnar sem eru búnar að vera að fá tækifæri með okkur í vetur, þær eru svo sannarlega að gefa okkur eldri stelpunum gott spark í rassinn og sýna að framtíðin er björt í kvennaboltanum,“ segir Sóley.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Menningarverðmæti Eyjamanna lokuð ofan í kössum

Ég er hugsi yfir menningarverðmætum okkar Eyjamanna og hvernig við eigum að halda sögu okkar á lofti. Eftir því sem ég kemst næst er töluvert af menningarmunum okkar geymdir í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar við Strandveg. Ég leiddi hugann að þessu þegar ég sá gamlar ljósmyndir af heimili hér í Eyjum. Á einni myndinni voru stórkostlegir munir sem aðstandendur gáfu byggðasafninu á sínum tíma. Nú eru þessir munir geymdir ofan í kössum í stað þess að þeim sé sómi sýndur með því að hafa þá til sýnis á safni, fyrir almenningssjónum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Allir munir sem geymdir eru í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar eru menningarverðmæti þeirra sem byggðu upp samfélagið okkar, Vestmannaeyjar. Við eigum að virða söguna og halda henni á lofti. Eitthvað er um að þessir munir séu dregnir fram í dagsljósið úr geymslunum annað slagið. En að mínu viti er það ekki nóg. Það þarf að koma þeim öllum á einn stað þar sem safnið og þar af leiðandi sagan er sýnd gestum og gangandi. Safnahúsið hefur fyrir löngu sprengt starfsemina utan af sér en Helga Hallbergsdóttir og Kári Bjarnason ásamt öðru starfsfólki safnsins vinna þar mjög gott starf miðað við aðstæður. Nýtt og/eða stærra Safnahús eða Byggðasafn, sem sýndi okkur og gestum og gangandi alla þessa muni sem tengjast sögu Eyjanna væri sannarlega rós í hnappagat bæjaryfirvalda. Við skulum ekki gleyma forfeðrum okkar sem byggðu upp Eyjarnar með mikilli vinnu og eljusemi og lögðu grunninn að samfélagi okkar í dag. Sýnum þeim virðingu okkar þannig að við getum verið stolt af. Sýnum munina frá heimilum forfeðra okkar sem draga upp söguna og svipmyndir forfeðra okkar, sorgir og sigra. Eldheimar risu á mettíma og ekkert var til sparað enda verið að segja stórbrotna sögu. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að koma upp nýju Safnahúsi sem við getum öll verið stolt af. Saga Vestmannaeyja er ótrúlega viðburðarík og kraftmikil og við þurfum að gera henni góð skil.