Ian Jeffs, þjálfari ÍBV:

Vandamálið ekki hér heima heldur á útivelli

Litlar breytingar orðið á liðinu :: Nýr leikmaður væntanlegur

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV:

Vandamálið ekki hér heima heldur á útivelli

:: Litlar breytingar orðið á liðinu :: Nýr leikmaður væntanlegur

„Undirbúningtímabilið er búið að vera svolítið erfitt hjá okkur, mikið af meiðslum og Cloé og Katie að koma seint til baka," sagði Ian Jeffs, þjálfari kvennaliðs ÍBV, í samtali við Eyjafréttir á dögunum. „Á hinn boginn hafa yngri leikmenn fengið fullt af tækifærum og fengið góða leiki gegn toppliðum í Lengjubikarnum. Þær fá hellings reynslu sem er mjög gott. Við höfum líka fengið tækifæri til að bæta okkar leik í fjarveru lykilleikmanna. Styrkleiki okkar í fyrra var mikill hraði fram á við en við höfum ekki haft hann núna í undirbúningnum. Við höfum því þurft að leggja meiri áherslu á uppbyggingu, senda fleiri sendingar okkar á milli og mér finnst við hafa náð að bæta það. Úrslitin hafa kannski ekki verið frábær, en spilamennskan hefur verið jákvæð."
 
Cloé Lacasse hefur verið algjör lykilmaður í liði ÍBV og segir Jeffs hana koma vel undan vetri þrátt fyrir litla leikæfingu. Sömule. „Hún spilaði sinn fyrsta leik gegn Þór/KA um daginn og svo aftur í æfingaleik nokkrum dögum síðar. Hún er í fínu formi en það er öðruvísi að spila leiki og æfa. Það sama má segja um Katie, hún spilaði sinn fyrsta leik gegn Þór/KA og svo hafa Sóley og Kristín Erna líka verið að glíma við meiðsli. Kristín kom til baka eftir aðgerð í mars og það tók hana lengri tíma að komast af stað en við bjuggumst við.“
 
Ekki hafa orðið miklar breytingar á liði ÍBV frá því í fyrra og er markvörðurinn Adelaide Gay eini leikmaðurinn sem fór frá félaginu. „Adelaide er eini leikmaðurinn frá því í fyrra sem er ekki með í ár, allir aðrir eru áfram. Í staðinn fengum við markvörðinn Emily Armstrong frá Bandaríkjunum. Ég tel að þetta sé mjög sterkt fyrir okkur, það er ekki oft sem ÍBV nær að halda sömu leikmönnunum ár eftir ár, vanalega eru þetta tíu leikmenn út og tíu inn. Ég fann það að þrátt fyrir að leikmenn voru að detta inn á síðustu stundu þá tók það engan tíma fyrir þá að komast aftur í rútínu. Það tekur nýja leikmenn alltaf tíma að aðlagast og fyrir okkur að læra inn á styrkleika þeirra. Núna veit ég alveg hvað ég hef í höndunum,“ segir Jeffs.
 
En hvað getur þú sagt um þennan nýja markvörð? „Hún er öðruvísi leikmaður en Adelaide sem var fremur lágvaxinn fyrir markvörð en á móti með mjög góðan leikskilning og tæknilega með bestu markvörðum sem ég hef séð í kvennaboltanum. Það er smá galli að vera lágvaxinn í marki, sérstaklega á Íslandi þar sem mikið er lagt upp úr fyrirgjöfum og föstum leikatriðum. Þegar það var ljóst að Adelaide vildi ekki vera áfram þá vorum við svolítið að horfa í það að fá hávaxinn markmann sem Emily er. Hún er í kringum 180 cm. á hæð sem er frekar hávaxið fyrir kvennamarkmann og ég held að hún muni nýtast okkur mjög vel, sérstaklega í föstum leikatriðum sem var okkar veikleiki,“ segir Jeffs.
 
Ykkur er spáð um miðja deild, er það eðlileg spá að þínu mati? „Já, það er bara eðlilegt miðað við undirbúningstímabilið. Þeir sem eru að spá eru náttúrulega að skoða undirbúningstímabilið og tímabilið í fyrra og reyna að fá einhvers konar svar út frá því. En þessar spár undanfarin ár hafa ekki verið sérlega nákvæmar. Það var enginn að spá Þór/KA titlinum í fyrra, ég held þeim hafi verið spáð fjórða sætinu. Svo var Stjörnunni spáð titlinum en þær enda í fjórða og gátu í raun endað neðar en við þar sem við gáfum svolítið eftir eftir bikarúrslitin. En spá er bara spá og ég hlusta ekkert á þær. Við erum með gott lið og sýndum það í fyrra, við erum með meiri breidd og leikmenn sem eru að koma úr meiðslum, yngri leikmenn reynslumeiri og útlendingar að taka sitt annað tímabil sem er stundum eins og að fá nýjan leikmann. Svo kemur væntanlega tilkynning fljótlega um nýjan leikmann þannig við erum enn sterkari en í fyrra þar sem mér fannst við óheppin að lenda ekki í þriðja sæti. En þetta verður erfitt, það eru fimm til sex lið í deildinni með mikil gæði en ég hef trú á mínu liði,“ segir Jeffs.
 
Hvers konar leikmaður er þetta sem þið eruð að fá? „Hún getur leyst margar stöður en er meira sóknarsinnuð. Hún getur verið á kantinum, sem fremsti maður, í vængbakverði og á miðjunni. Hún hefur góða reynslu af Englandi, Íslandi og Ítalíu og kemur vonandi sterk inn,“ segir Jeffs.
 
En hver eru ykkar markmið? „Það sem ég get gefið út er að við viljum gera betur en í fyrra. Við höfum alltaf lent í fimmta sæti þessi þrjú ár sem ég hef þjálfað liðið en samt alltaf búin að enda með fleiri stig en árið áður. Ég vona að sjálfsögðu að það haldi áfram á þessu tímabili. Ég vonast líka eftir meiri stöðugleika gegn liðunum í efri hlutanum á útivelli og sömuleiðis ekki missa einbeitinguna gegn liðunum sem við eigum að vinna á pappírunum, t.d. Grindavík hérna heima í fyrra og gegn Haukum og Fylki. Við þurfum að klára þessa leiki ef við ætlum að vera þar sem við viljum sem er ofarlega í deildinni,“ segir Jeffs.
 
Þið fenguð að máta ykkur við meistaraefnin í Þór/KA á dögunum hvernig fannst þér sá leikur spilast? „Þær eru með mjög gott lið, líkamlega sterkt og sóknarmenn sem geta klárað leiki upp á eigin spýtur. Það sást mjög vel í leiknum hvað Þór/KA er búið að eiga gott undirbúningstímabil, þær unnu Lengjubikarinn og svo okkur leik Meistara meistaranna. En þær eru nánast búnar að spila á sömu leikmönnunum frá því í febrúar og fúnkera því meira eins og lið. Fyrri hálfleikurinn var jafn en í seinni hálfleik keyrðu þær á okkur og það sýnir bara að við erum á eftir þeim eins og er. En ég hef engar áhyggjur, við munum eflast eftir því sem líður á mótið. Við erum með gott lið líkt og Breiðablik, Valur, Stjarnan og Þór/KA, ég tel að þessi fimm lið verði aftur í efri hlutanum. En eins og ég segi þá var vandamálið okkar ekki hér heima heldur á útivelli,“ segir Jeffs.
 
Aðspurður út í stuðninginn segir Jeffs að hann hafi verið fínn í fyrra en heilt yfir mætti vera betri á kvennaleikjum. „Pepsi-mörk kvenna var góð viðbót og bætir stemninguna í kringum kvennaboltann. Umgjörðin í deildinni er sífellt að batna og fólk alltaf að reyna að gera meira. Ég er bara jákvæður og vona að fólk komi að horfa á okkur, við ætlum að reyna að spila góðan fótbolta og skemmta áhorfendum og vonandi bara koma bara sem flestir á Hásteinsvöllinn og hvetji úr stúkunni en ekki bara í bílnum.“
 

Eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað

Guinot golfmótið var haldið í fimmta sinn um helgina. Fyrir mótinu standa mæðgurnar Ágústa Kristjánsdóttir og Magnúsína Ágústsdóttir. Um 60 konur tóku þátt í mótinu sem tókst glsæilega þrátt fyrir rigninguna.   „Það er gaman að segja frá því að þegar við skipulögðum mótið fyrst varð mamma löggiltur ellilýfeyrisþegi þegar þetta fyrsta opna kvennamót var haldið og það í 70 ára sögu klúbbsins. Mótið var kallað Magnúsínu mót og heppnaðist það mjög vel og við fundum mikinn áhuga. Konurnar sem kepptu skemmtu sér mjög vel og ekki skemmdi fyrir að hún Elsa okkar framkvæmastýra klúbbsins gerði einstaklega vel við okkur. Það vorum einnig nokkrir menn á bak við tjöldin sem græjuðu og tóku til hendinni við undirbúning mótsins og þar verð ég að nefna hann pabba, en þetta hefði ekki verið hægt án hans aðstoar,“ sagði Ágústa í samtali við Eyjafréttir. Mægðurnar fengu strax mikinn meðbyr eftir fyrsta mótið og ákváðu þá að gera þetta einu sinni enn og fengum til liðs við sig Guinot snyrtivörumerkið sem Cosmetics ehf. hefur umboð fyrir. „Þetta lukkaðist enn betur í annað sinn og við höfum haldið þetta núna fimm sinnum og mótið hefur fest sig í sessi sem eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað,“ sagði Ágústa og bætti við að Guinot væri franskt hágæða snyrtivörumerki sem hún og hennar starfsfólk á snyrtistofu Ágústu vinna mikið með, en nýverið flutti Ágústa snyrtistofu sína í Faxafen 5 í Reykjavík.    

Sex leikmenn skrifað undir hjá kvennaliði ÍBV í handbolta

ÍBV skrifaði í gær undir samninga við fjóra leikmenn, Ester Óskarsdóttir og Sandra Dís framlengdu við klúbbinn og Arna Sif Pálsdóttir og Sunna Jónsdóttir bætast í hópinn. Ester og Söndru Dís þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum ÍBV enda hafa þær verið buðarásar í liðinu undanfarið. Ester var á dögunum valin besti leikmaður og besti varnarmaður Olísdeildar kvenna enda var hún frábær í vetur. Frábærir leikmenn og mikil hamingja með að þær verði áfram í ÍBV.   Arna Sif Pálsdóttir er þriðja leikjahæðsta handknattleikskona Íslands frá upphafi með 129 landsleiki. Hún er alin upp hjá HK en hefur búið erlendis síðastliðin níu ár og spilað í Danmörku, Frakklandi og nú síðast í ungverjalandi.   Sunna Jónsdóttir hefur leikið 56 leiki fyrir Íslenska landsliðið. Undanfarin ár hefur hún búið erlendis og spilað sem atvinnumaður, fyrst með BK Heid í Svíðþjóð og svo með Skrim Kongsberg og HK Halden í Noregi. Á Íslandi spilaði hún með Fylki og Fram. Hún tók sér frí frá handbolta á síðasta tímabili þar sem hún eignaðist sitt fyrsta barn. Það er mikill styrkur að fá Örnu og Sunnu til ÍBV enda báðar frábærar bæði innan sem utan vallar, báðar sömdu til tveggja ára. Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari er mjög spennt fyrir að fá þær til liðs við sig en hún þekkir vel til þeirra en hún spilaði bæði á móti þeim í félagsliðum og sem samherji í landsliðinu.     Á mánudagin framlengdu Karólína Bæhrenz Lárudóttir og Greta Kavaliuskaite einnig samninga sína við ÍBV. Karólína  um eitt ár og Greta um tvö.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.