Ágúst Halldórsson - Tíu heitustu piparsveinar Vestmanneyja

Ágúst Halldórsson - Tíu heitustu piparsveinar Vestmanneyja

Eins og flestir vita þá getur lífið verið hverfult og stundum þunn lína á milli þess þegar maður liggur í fullkomnu öryggi í faðmi einhvers sem maður elskar út í vandræðalega augnablikið þegar tvær manneskjur kveðjast eftir skyndikynni.
 
Ef það er eitthvað sem flestir smáborgarar hafa áhuga á, þá er það hverjir eru með hverjum og hverjir eru komnir út á makamarkaðinn eins og hann er stundum kallaður.
Sumir kjósa að vera einir á meðan aðrir troða marvaða í hinni eilífu leit af ást sem getur verið erfitt í smábæ eins og Vestmannaeyjum.
 
Til að gera hlutina auðveldari fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á leitinni, þá ætla ég að kynna í þetta skiptið lista yfir topp tíu heitustu piparsveina Vestmannaeyja.
 
Og hér eru þeir allir.
 
 
10.
Kristgeir Orri Grétarsson, Einar Ottó Hallgrímsson og Hjálmar Viðarsson.
 
Eins og glöggir lesendur hafa jafnvel áttað sig á, þá eru þrjú ung karldýr í tíunda sæti. Þetta er ekki prentvilla því þessir peyjar eru alltaf saman, og eru eiginlega einn og sami maðurinn.
Hörku duglegir naglar sem allir eru búnir með Stýrimannaskólann og starfa allir á sjó.
 
Mestu líkurnar eru að finna þá í eftirpartýi. Ef ekki þar þá finnast þeir alveg pottþétt í hádeginu á sunnudegi á 900 með einn ískaldan afréttara og brakandi ferskar partýsögur.
Heyrst hefur að þeir séu byrjaðir að róast og því einstakt tækifæri til að ná sér í einn af þessum hressu Eyjapeyjum.
 
 
 
 
 
9.
Kolbeinn Aron Arnarsson
 
Síðustu ár hafa verið viðburðarík hjá Kolbeini. Þó svo að hann hafi áður látið að sér kveða sem forsöngvari partýhljómsveitarinnar The Goggz.
Þá hefur Kolbeinn verið í marki meistaraflokks ÍBV í handbolta síðustu ár og varð með þeim Íslands- og bikarmeistari.
 
Gullár í lífi Kolbeins og fékk hann mikla athygli frá kvenpeningi landsins en einhvern veginn gleymdi hann sér í fögnuði titla.
Heyrst hefur að Kolbeinn sé kominn með smá áhyggjur af kvenmannsleysi sínu og hefur því ákveðið að semja við Aftureldingu í von um að finna sér konu í borg óttans.
 
 
 
 
 
 
 
8.
Sigurjón Viðarsson
 
Einn af gulldrengjum Minnu og Steinu í Metabolic  Vestmannaeyja. Sigurjón er ótrúlega vel gefinn og hefur allt nám leikið við hann frá blautu barnsbeini. Hann ætlaði lengi vel að verða lögfræðingur en snerist hugur þegar hafið kallaði. Hann kláraði Stýrimannaskólann og vinnur nú sem slíkur á Þórunni Sveinsdóttur.
 
 
 
 
7.
Daði Magnússon
 
Grjótharðasti tölvunarfræðingur Vestmannaeyja sem stundar sjómennsku í frítímanum. Kemur undan hinu merka Braga Steingríms-Þórarakyni.
 
Daði hætti vinnu hjá Smart Media fyrir nokkru til að fara á malbikið til þess eins að finna sér konuefni. Tvennum sögum fer af gengi Daða í þessari leit sem ætti ekki að vera mikið vandamál með þessi bambabláu augu og karlmannlegu Jay Leno hökuna sína.
 
Stundum kallaður Paris Hilton Vestmannaeyja vegna þess að hann er sonur Magnúsar Braga sem er eigandi Hótels Vestmannaeyja.
 
 
 
 
 
 
6.
Sigurður Sigurðsson
 
 
Sú kona sem nær í Sigurð þarf ekki að svelta því Sigurður stundar nær alla veiði sem hægt er að stunda á Íslandi. Allt frá dorgveiði í gegnum ís að hreindýraveiðum á Austurlandinu.
 
Einnig er Sigurður einn af þeim merku karlmönnum sem fær áhuga á flestu í kringum sig. Hann talar einhver sex tungumál og kikna margar í hnánum þegar hann talar spænsku við innfædda.
 
Hann er einnig búinn að læra margt, þá helst ber að nefna Sjávarútvegsfræði, Spænsku og Stýrimannaskólann. Hann starfar í dag sem stýrimaður á Sigurði Ve.
 
 
 
 
 
5.
Hermann Hreiðarsson
 
 
Ef til vill þekktasti bitinn í súpunni. Þjóðþekktur og hvers manns hugljúfi. Stracta hóteleigandi og athafnamaður. Eftir mörg ár atvinnumennsku í Englandi sneri Hemmi aftur til Íslands og hefur stundað þjálfun sem er hans ástríða.
 
Í dag hefur hann tekið við kvennaliði Fylki sem gæti orðið erfitt verkefni. Hermann hefur sýnt sínar viltu hliðar á vellinum og á hliðarlínunni en er mjúkur eins og þriggja barna einstæð móðir í Costco þegar enginn fótbolti er nálægt.
 
 
 
 
 
4.
Róbert Aron Hostert
 
Ótrúlega hæfileikaríkur handboltamaður ÍBV sem hefur góða nærveru og gæti brætt súrál með strákslegu brosi sínu. Þær hafa ekki margar farið rykfallnar í burtu prinsessurnar frá Róberti í gegnum tíðina.
 
Heyrst hefur eftir ónefndum heimildarmanni mínum að Róbert Aron sé orðinn leiður á piparsveinalífinu og sé að leita að hinni einu réttu.
(Veit ekki hvern ég er að plata með ónefnda heimildarmanninum, það vita það allir að það er Einar Gauti sem kjaftaði þessu).
 
 
 
 
3.
Ólafur Björgvin Jóhannesson
 
Einn af þeim sem allir í Vestmannaeyjum taka eftir. Þekktur fyrir góðmennsku sína sem kom honum jafnvel um koll á sínum tíma því hann var það góður við sjálfan sig að hann náði að éta sig hátt upp í tvö hundruð kíló en er í dag búinn að rífa af sér u.þ.b. hundrað kíló og hvergi hættur.
 
Keypti sér fyrir stuttu fallega íbúð á Ásaveginum sem bíður eftir því að láta troða í sig Omaggio vösum og Ittala drasli.
Ólafur er framkvæmdastjóri Skýlisins og tilvonandi erfingi þess.
 
 
 
 
2.
Sigurgeir í Skuld
 
Sem þarf vart að kynna enda búinn að vinna sig inní hjörtu allra Vestmannaeyinga með myndum sínum. Einstakt náttúrubarn sem fær alla til að brosa með einstökum húmor og smitandi hlátri.
 
Honum hefur tekist það ótrúlega afrek að vera vaxinn eins og Grískt skurðgoð frá unglingsaldri.
Hann er einn af orginal bjargveiðimönnum Eyjanna sem gerir hann af eftirsóttu eintaki. Á alveg tíu spræk ár eftir fyrir þær sem vilja einn með reynslu.
 
 
 
 
1.
Jóhann Sigurður Þórarinsson
 
Eftirsóttasti piparsveinn Vestmannaeyja. Eftir að hafa komið á markaðinn úr heiðskýru lofti hefur hann ekki haft mikinn tíma í að finna ástina. Enda nóg að gera í vinnunni ásamt því að sinna núverandi ást sinni sem er frumkvöðlastarf sem á eftir að gjörbilta heilbrigðisgeiranum.
 
Jóhann Sigruður hefur alla tíð hugsað langt inn í framtíðina sem sést best á því að hann er nú búinn að stunda eldrimannaleikfimi síðustu fimm ár með körlum sem flestir eru á sextugs aldri, tvisvar í viku í Týsheimilinu.
 
Hann er einnig búinn vinna mikið í sjálfum sér og að losa sig við slæma siði eins og að taka í nefið sem hefur gengið einkar vel en með smá hækju sem er gufuretta. Ef horft er lengur en mínútu á hann má sjá fallega dalalæðu koma úr vitum hans, sem er bæði dáleiðandi og róandi.
 
Jóhann Sigurður er með afnot af einni fallegstu penthouse íbúð Reykjavíkur og hefur heyrst í bænum að hann sé að skoða flottustu penthouse íbúð Vestmannaeyja sem verður tilbúin árið 2020.
 
Jóhann Sigurður hefur gaman af fólki, að skemmta sér, að vinna að því sem hann hefur gaman af og ferðalögum.
Hann leitar af góðri konu sem er tilbúin að labba með honum inn í eilífðina meðfram Ofanleitishamrinum, setjast við hlið hans og horfa á sólina setjast á meðan hann blæs gufureykshjörtu út á hafið.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Ágúst Halldórsson
 
 
 
 
 
 
 

Matgæðingur vikunnar - Þriggja rétta veisla a la Jónas Logi

Ég vil þakka Guðríði nágrannakonu minni fyrir áskorunina og þennan frábæra kjúklingarétt sem hún bauð uppá. Ég ætla að gefa uppskrift af 3 réttum.   Forréttur: Saltfisktartar • 350 gr saltfiskur vel útvatnaður (helst hnakkastykki) • 4 msk kapers • 1 stk sítróna • ½ búnt steinselja • 1 stk tómatur (kjarnin tekinn úr) • 3 skvettur ólífuolía • Nýmalaður svartur pipar • Salt ef þarf   Fiskurinn er skorinn í litla teninga og settur í skál. Kapersinn skolaður í köldu vatni og saxaður ásamt tómati og blandað við fiskinn. Börkurinn af sítrónunni er raspaður yfir og safinn kreistur yfir. Steinseljan er smátt söxuð út í ásamt pipar eftir smekk og skvettu af olíu. Blandað vel í skálinni og látið marinerast í 5 mínútur (saltað ef þarf). Sett á disk og borið fram með góðu brauði sem er jafnvel penslað með hvítlauksolíu og ristað í ofni.   Aðalréttur: Ofnbakaður lax með sellerí-rótarmauki og mangósalsa • 800 gr ferskur lax (skorinn í jafnar steikur) • Smátt söxuðum ferskum chilli, engifer og hvítlauk blandað saman í skál ásamt olíu   Penslið yfir fiskstykkinn og saltið smá með flögusalti. Bakið í ofni við 180 gráður í 8-10mín eftir þykkt og smekk.   Sellerírótarmauk • 1 stk sellerirót (afhýdd og skorin í litla bita) • 200 ml mjólk • 50 gr smjör • 50 gr rjómaostur • Salt og pipar Setjið rótina í pott og sjóðið með mjólk þar til hún er mjúk. Maukið ásamt smjöri og rjómaosti, saltið og piprið.   Mangósalsa • 1 stk ferskt mangó • 1 stk rauðlaukur • ¼ agúrka (kjarnhreinsa) • ¼ rauð paprika • 1 stk tómatur • 1 msk kóriander • Safi og rifinn börkur af ½ límónu • 1 tsk maldon salt • Svartur pipar Allt smátt skorið og blandað saman.   Eftirréttur: Panna cotta með Mojito jarðaberjum • 2,5 dl rjómi • 2,5 dl nýmjólk • 3 matarlímsblöð • 50 gr sykur • 1 vanillustöng   Leggið matarlímið í bleyti Skafið vanillufræin úr stönginni og setjið í pott ásamt rjóma,mjólk, sykrinum og stönginni sjálfri Hitið á miðlungshita að suðu, kreistið vatnið af matarlíminu og blandi saman við rjómablöndu og hrærið þar til uppleyst. Látið kólna niður í stofuhita (ca. 20 mín) hrærið og skiptið í glös og setjið í kæli í 3 tíma.   • 250 gr jarðaber • 5 myntulauf • 3 tesk hrásykur • 1 límóna Skera jarðaber og myntu smátt og setja í skál ásamt hrásykri, rifa límónu börk yfir og smá af safa eftir smekk. Geymið í kæli.   Það er best að halda þessu áfram í Smáragötunni og klára botnlangann, þannig að ég skora á Bergstein Jónasson sem næsta matgæðing.  

Herborg Sindradóttir er Eyjamaður vikunnar: Nauðsynlegt að hafa trú á sjálfum sér

 Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í Vík í síðustu viku. GRV sendi þrjá keppendur og það má segja að skólinn hafi staðið uppi sem sigurvegari því nemendur hans hrepptu bæði 1. og 3. sætið í keppninni. Herborg Sindradóttir var í 1. sæti og Jón Grétar Jónasson í 3. sæti. Sara Dröfn Ríkarðsdóttir tók einnig þátt fyrir hönd skólans og stóð sig virkilega vel. Herborg Sindradóttir er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Herborg Sindradóttir. Fæðingardagur: 12.október 2005. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma mín er Ragnheiður Borgþórsdóttir, pabbi minn er Sindri Óskarsson. Systkini mín eru Silja Elsabet, Óskar Alex, Guðbjörg Sól og Teitur. Uppáhalds vefsíða: Ég á enga uppáhalds vefsíðu. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Pepp tónlist, hröð og stuð. Eins og t.d. Al Pacino. Aðaláhugamál: Fimleikar og passa börn. Uppáhalds app: Snapchat og Instagram. Hvað óttastu: Að eitthvað slæmt komi fyrir fjölskyldu og vini mína. Mottó í lífinu: Að gera allt eins vel og ég get. Apple eða Android: Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ég myndi vilja grínast með Óskari afa einu sinni enn. Hvaða bók lastu síðast: Hjarta í molum. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Sigurbjörg Jóna fimleikaþjálfarinn minn er uppáhalds íþróttamaðurinn minn. Upphalds félögin mín eru auðvitað ÍBV og Fimleikafélagið Rán. Ertu hjátrúarfull: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já fimleika. Uppáhaldssjónvarpsefni: Ég hef gaman af arkitektúr og hönnun heimila. Þess vegna er „Heimsókn” einn af mínum uppáhaldsþáttum. Var gaman að taka þátt í keppninni: Já já það var bara fínt, heilmikill lærdómur í æfingunum fyrir keppnina. Áttir þú von á því að vinna: Já alveg eins og allir hinir þátttakendurnir. Hvernig verður maður góður í upplestri og hvaða eiginleika þarf maður að hafa: Bara með því að æfa sig eins og í öllu öðru. Við fengum mikla æfingu í skólanum. Ég held maður þurfi bara að trúa á sjálfan sig eins og í öllu öðru sem maður gerir.

Fyrsta og þriðja sætið til Vestmannaeyja

Þann 5. apríl sl. fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja. Víkurskóli var gestgjafi að þessu sinni og var hátíðin haldin á Hótel Kötlu að Höfðabrekku í Mýrdal.   Skólarnir sem þátt tóku auk Víkurskóla voru Grunnskólinn á Hellu, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Grunnskóli Vestmannaeyja.   Keppendur voru 13 talsins, en að auki var fjöldi gesta viðstaddur hátíðina, m.a. foreldrar keppenda og kennarar skólanna, auk annarra góðra gesta.   Staðarhaldarar á Hótel Kötlu tóku vel á móti keppendum og fararstjórum og buðu þeim upp á ljúffenga súpu við komu á staðinn.   Nemendur Tónlistarskóla Mýrdalshrepps sáu um tónlistaratriði og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.   Veðrið var okkur hliðholt og fært í Landeyjahöfn svo hópurinn frá Vestmannaeyjum komst fram og til baka samdægurs, en ferðalagið til okkar á Stóru upplestrarkeppnina hefur stundum tekið Eyjakrakkana allt upp í þrjá daga.   Allir keppendurnir 13 stóðu sig með mikilli prýði og greinilegt er að vel hefur verið unnið að þjálfun í skólunum í vetur.   Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóðu eftir sem sigurvegarar eftirtaldir nemendur:   1. sæti Herborg Sindradóttir Grunnskóla Vestmannaeyja   2. sæti Karl Anders Þórólfur Karlsson Víkurskóla   3. sæti Jón Grétar Jónasson Grunnskóla Vestmannaeyja  

Réru vegalengdina frá Keflavík til Húsavíkur

Gísli Foster Hjartarson var búinn að vera með það markmið í hausnum að einn daginn skyldi hann róa 100 kílómetra í einum beit. Hann lét að þessu verða núna fyrir páska og tókst heldur betur vel til. 49 manns komu honum til hjálpar og söfnuðust 135.000 kr. „Ég er búinn að tala um það í svolítinn tíma að ætla mér að róa 100 km. Hætti við það í desember, var of önnum kafinn og ekki í nógu góðu standi held ég til að klára það þá. Stakk því svo að Óla í Skýlinu hvort að við ættum ekki að stefna á þetta fyrir páska og hann var sammála því,“ sagði Gísli.   Setið á öllum sjö róðravélum allan tímann Það mættu 49 manns í Hressó og tóku þátt í róðrinum með Gísla, „við rérum saman 515.721 kílómetra, sem er nánast vegalengdin frá Keflavík til Húsavíkur. Margir voru að róa það lengsta sem þeir hafa róið á ævinni og það var nánast setið á öllum sjö róðravélunum allan tímann, alveg magnað og virkilega gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Gísli. Eiginkona Gísla, Jóhanna Jóhannsdóttir stakk svo uppá því að hafa söfnun samhliða þessu. En ágóðinn sem var um 135.000 krónur mun renna til fjölskyldu Ágústs Ásgeirssonar sem var bráðkvaddur í mars.   Milljón metra á róðrarárinu Ertu búinn að setja þér næsta markmið? „Já, næsta verkefni er að róa einn milljón metra á róðrarárinu, frá 1. maí 2017 til 30. apríl 2018 , ég á núna 66.500 metra eftir svo það ætti að hafast, þá þarf maður ekki að gera það aftur.“   Mörg verkefni framundan En Gísli hefur alltaf nóg fyrir stafni og ýmislegt framundan, „langtíma markmiðið er að komast í topp 200 í mínum aldurshóp á CrossFit leikunum, var númer 204 þetta árið, og komast því í að keppa um sæti á lokaleikunum, The Games,“ sagði Gísli sem taldi sig þó ekki vera í nógu góðu standi til að fara alla leið í úrslit, en spenntan að fá að glíma við verkefnið einn daginn. „Jú og svo var ég víst búinn að ræða við Jóhönnu um að gaman væri að fara og keppa á enska meistaramótinu í 2000 metra róðri, finnst ég verða að gera það einhvern tíma á lífsleiðinni og hví ekki næsta haust,“ sagði Gísli   Nýtt húsnæði fyrir Crossfit - Eyjar Gísli er nú um þessar mundir að reyna finna húsnæði undir CrossFit Eyjar, „það gengur vonandi upp fyrir sumarið,“ sagði Gísli að endingu.  

Eyjamaður vikunnar er Mikael Magnússon

Mikael Magnússon nemandi 9. EB í Grunnskóla Vestmannaeyja komst áfram í úrslitakeppni Pangea stærðfræðikeppninnar sem haldin var á dögunum. 89 stigahæstu nemendur í 8. og 9. bekk komast í úrslitaprófið, en í Pangeu 2018 voru skráðir 2763 nemendur. Mikael gat því miður ekki tekið þátt í úrslitunum en fróðlegt hefði verið að sjá hvernig honum hefði vegnað í þeirri keppni. Mikael er Eyjamaður vikunnar á þessu sinni.   Nafn: Mikael Magnússon. Fæðingardagur: 24 janúar 2003. Fæðingarstaður: Landspítalinn. Fjölskylda: Fjóla Finnbogadóttir (mamma), Magnús Gíslason (pabbi) og Eva Magnúsdóttir (litla systir). Uppáhalds vefsíða: Youtube. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Þungarokk. Aðaláhugamál: Tölvuleikir, sjónvarp, trommur, karate og spil. Uppáhalds app: Youtube. Hvað óttastu: Köngulær. Mottó í lífinu: Hugsaðu hvað þig langar til að gera/verða og byrjaðu að vinna að því þangað til að þú kemst þangað. Apple eða Android: Android. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: J.R.R Tolkien. Hvaða bók lastu síðast: Eragon: Brisingur. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Gunnar Nelson og Manchester United. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég stunda karate. Uppáhaldssjónvarpsefni: Marvel þættirnir inná Netflix. Hvað er Pangea stærðfræðikeppnin og hvernig kemst maður í hana: Pangea stærðfræðikeppnin er alþjóðleg stærðfræðikeppni fyrir unglingastigið í skólum og til að komast í hana þarftu að vera unglingur í skóla og vera mjög góður í stærðfræði. Það eru tvær lotur sem þú þarft að ljúka til að komast í keppnina og þær eru þannig að í fyrstu lotunni færðu stærðfræðihefti og ef þú nærð góðri einkunn í því færðu annað hefti í lotu tvö og ef þú stendur þig nógu vel kemstu áfram í úrslitin. Hefur þú alltaf haft áhuga á stærðfræði: Ég myndi ekki kalla það áhuga en ég hef alltaf verið mjög góður í stærðfræðinni alveg síðan ég byrjaði í fyrsta bekk.  

85% grunnskólabarna stunda einhverja íþrótt- eða tómstundir

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í vikunni kynnti Forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar í Rauðagerði Heba Rún Þórðardóttir, könnun sem hún framlvæmdi á íþrótta- og tómstundaiðkun grunnskólabarna veturinn 2017-2018.   Markmið könnunarinnar var að fá yfirlit yfir fjölda barna sem stunda einhverjar íþróttir- og/eða tómstundir og umfang tilboða sem standa börnum til boða. Fjöldi grunnskólabarna er um 528 börn skólaárið 2017-2018. Niðurstöður sýna að um 85% grunnskólabarna stunda einhverja íþrótt- eða tómstundir um 15% enga eða svara ekki. Mörg barnanna stunda fleiri en eina íþrótt- eða tómstundir. Lang flest börn stunda handbolta og fótbolta og er fjöldi iðkenda svipaður eða um 180 börn í hvorri grein. Líklega stunda einhver börn báðar greinar.   Á eftir handbolta og fótbolta eru fimleikar, tónlistarskólinn og æskulýðsstarf kirkjunnar/KFUM-K fjölmennast. Næst kemur sund, skátar, golf, karate og körfubolti. Börnin nefna um 20 íþrótta- og tómstundatilboð. Brottfall barna úr íþróttum- og tómstundum eykst eftir því sem þau eldast og byrjar fljótt eftir 5. bekk.   Fjölskyldu- og tómstundaráð þakkar kynninguna og notar jafnframt tækifærið til að hvetja foreldra og íþrótta- og tómstundaaðila til að leggja sig fram við að halda börnum sem lengst í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Foreldrum er jafnframt bent á að Vestmannaeyjabær greiðir allt að 25.000 kr í frístundastyrk fyrir hvert barn frá 6 - 16 ára gegn framvísun kvittana fyrir útlögðum kostnaði. 

FERMING 2018

Fyrstu fermingarnar í Vestmannaeyjum verða haldnar um helgina. Í síðustu viku kom út fermingarbað Eyjafrétta.      Fallegustu skreytingarnar eru oftast þær einföldustu Áhugamál fermingarbarnanna verða oftar en ekki þema fermingarveislunnar og í skreytingum, einnig velja flestir litaþema sem sjá má í servéttum, kertum og fleiru. Ekki þurfa skreytingarnar að vera flóknar, smá upphækun á matarborðið með blómum, fermingarkerti og persónulegan hlut sem tengist barninu, eins og t.d. fyrstu skóna eða eitthvað sem tengist áhugamáli barnsins, þá ertu kominn með grunn af góðri skreytingu. Ljósmyndir eru mjög fallegt og persónulegt skraut. Myndir af fermingarbarninu í uppvextinum og að gera hluti sem það finnst skemmtilegt. Hægt er að hengja myndirnar upp, leggja undir kúpul eða setja í glerkassa. Góð hugmynd er að endurnýta krukkur og glerflöskur sem vasa fyrir blóm eða kerti.     Fáðu hugmyndir Á Pinterest er hægt að fá innblástur og hugmyndir af allavega veislum og einnig er mikið af DIY(gerðu það sjálfur) skrauti sem hægt er að gera fyrir fermingardaginn. Ef þú vilt læra föndra eitthvað skraut, læra nýtt brot fyrir servétturnar eða fá hugmyndir af fermingargreiðslunni, allt þetta má finna í hafi af hugmyndum sem leynast á pinterest.   Blóm lífga upp á hvaða rými sem er og er mikilvægur partur af góðri skreytingu á fermingarborðið. Löber yfir dúkinn rammar borðið inn og smá skraut á hann skemmir ekki fyrir. Fermingarkerti eru flestir með og er hægt að hafa það í litaþemanu og skreyta það eða láta merkja það barninu og deginum. Öll blómin, löber og kertin á myndinni eru frá Blómaval.       Nátturulegt hár á fermingardaginn Svanhvít Una Yngvadóttir hárgreiðslukona hjá Crispus sem staðsett er í Heilsueyjunni, sagði að fermingarhárið í ár væri náttúrulegt og að hárið ætti að njóta sín. „Hárið er svo brotið upp með fléttu eða tekið upp í aðrahvora hliðina, ég nota alltaf lifandi blóm í fermingagreiðslurnar til að hafa þetta sem náttúrulegast. Annars vita stelpurnar alveg hvað þær vilja sem er frábært. Strákarnir eru flestir stuttklipptir og fallega greiddir. „ Þá erum við að tala um þessa týpisku herraklippingu og rakað í hliðunum, en þeir vita líka hvað þeir vilja og hafa fjölbreyttar óskir,“ sagði Svanhvít.       Fermingarfötin     Fermingartískan er skemmtileg í ár sagði Bertha Johansen eigandi Sölku. „Á stelpurnar hafa samfestingar sett skemmtilegan svip, blúndan er klassísk og kemur bæði inní kjólana og samfestingana og litirnir eru aðallega tveir, hvítur og bleikur. Það eru alltaf fleiri strákar sem kjósa að fara í þægilegar sparibuxur eða einfaldlega svartar gallabuxur, skyrturnar eru aðallega hvítar eða bláar en meiri fjölbreytni er í jökkunum og hálstauinu.“     Fallegar fermingargreiðslur hjá Ozio      Fermingargreiðslur síðustu ára hafa verið fyrst og fremst fallegar og einfaldar sagði Ása Svanhvít Jóhannesdóttir eigandi Ozio. En hún og Jóhanna Birgisdóttir gerðu tvær fallegar og ólíkar greiðslur í fermingarstúlkurnar Evu Sigurðardóttir og Berthu Þorsteinsdóttur.   „Það er mikið um liði og bylgjur þegar kemur að greiðslum. Það gerir hárið fínna og þar kemur breytingin frá slétta hárinu sem stelpur eru gjarnan með,“ sagði Ása. Við mælum samt með að gera eitthvað örlítið meira, „til dæmis að spenna hárið upp, aðra hliðina eða báðar. Einnig eru fléttur mjög vinsælar núna og svo verður greiðslan alltaf sérstakega glæsileg með smá látlausu skrauti sem passar við“ sagði Ása að lokum.         Hægt er að skoða fermingarblað Eyjafrétta hér að neðan eða með því að smella hér:   Fermingarblaðið / Eyjafréttir / Miðvikudagur 14. mars 2018

Viðkvæmir taki vasaklútana með

„Keppnistreyjan kom til landsins sama dag og landsliðstreyjan þannig við gátum ekki farið að stela þrumunni, við hefðum líklega orðið undir í þeirri keppni,“ segir Gunnar Helgason, rithöfundur, um Fálkatreyjuna sem hann klæddist í tilefni þess að fjölskyldu- og íþróttakvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður frumsýnd næstkomandi fimmtudag. Enn hann var í viðtali á K100 í gær, hægt er að hlusta á það hérna.   Heilmikil vinna er að baki kvikmyndinni en tíu ár eru liðin frá því að Gunnar byrjaði að skrifa bókina sem kvikmyndin er byggð á. „Þetta byrjaði sem hugmynd að bók fyrir drengi sem eru hættir að lesa, ég á svona vandamál heima hjá mér, þannig að ég skrifaði fótboltabók til að halda drengjunum mínum að lestri," segir Gunnar um bókina Víti í Vestmannaeyjum sem kom út árið 2011. „Nú er þetta bara orðið bíó, þetta er alveg klikkað. Og þetta er ekkert smá bíó, Bragi Þór Hinriksson leikstýrir þessu og við vorum sammála um það að þetta yrði að vera á stórmyndaskala," segir hann og bætir við að efnistökin séu þannig að viðkvæmir ættu að taka vasaklútana með. „Myndin er um vináttu og hvað það er að vera alvöru manneskja, það er það sem myndin er um í raun og veru, fótboltinn er bara bíllinn sem við notum á leiðinni.“   Nýtt tölublað af Eyjafréttum kemur út á morgun og þar er viðtal við eyjapæjuna Ísey Heiðarsdóttir en hún er ein af aðalleikurum myndarinnar.  

Bjarni Ólafur Guðmundsson er matgæðingur vikunnar: Fljótlegur pastaréttur & þorskhnakkar

Ég þakka Kristó vini mínum fyrir fallegt hrós og traustið. Það kemur nú aldrei nokkur maður að tómum kofanum hjá honum og hann er sannarlega vinsælasti starfsmaður Árvakurs. En ég ætla að bjóða upp á 2 rétti, annarsvegar fljót útbúinn pastarétt, sem var fyrsti rétturinn sem ég gaf Guðrúnu minni þegar ég bauð henni í mat fyrir tæpum 20 árum og hinsvegar þorsknakka með rjómasósu, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. En það má alveg skipta þorskhnakkanum út fyrir humar eða ýsu eða hvaða fisk sem er sem er í uppáhaldi. Útgáfuna af þorskhnakkanum fékk ég hjá vini mínum Grími Gíslasyni fyrir nokkru síðan.   Pastaréttur Sæt sinnepsssósa: • 1 sýrður rjómi 10% • 6 msk. Hellman´s létt majones • 2 tsk. sítrónusafi • 6 msk. sætt franskt sinnep • 6 vænar (kúfaðar) tsk. púður- sykur.   Hræra öllu saman og svo má alveg bæta við ef fólki finnst of lítið af þessu eða hinu  - ég geri það voða mikið. Ég geri alltaf meira en minna af sósunni, því okkur finnst gott að fá okkur af þessu daginn eftir.    • 2-300 gr. pasta (eftir því hvað þið eruð hrifin af því) • 1 dós aspas (skorinn) • 6-8 egg, harðsoðin – skorin í báta • 100 gr. skinka – skorin í bita • 100 gr. 26 % brauðostur – skorinn í bita • ½ agúrka – skorin í bita.   Sjóðum pastað að sjálfsögðu og setjum í sérskál. Annað hráefni setjum við í sérskálar og svo fær heimilisfólkið sér bara það sem því finnst best. Við berum þetta fram með ristuðu brauði og smjöri (viðbiti). Hér áður fyrr blandaði ég öllu saman en nú lofum við fólki að velja. Þessi réttur er jafnvel betri í hádeginu daginn eftir.   Ofnbakaður þorskhnakki með hvítlauk og basil eða með rjómasósu, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. • 6-8 stk. þorskhnakkar • 2-4 hvítlauksgeirar - eftir smekk og stærð • slatti af ferskri basiliku • 150 gr. smjör. Saxa hvítlauk og basiliku smátt og steikja í smjörinu og lofa því að malla í um 10-12 mínútur – passa hitann því það má ekki brenna hvítlaukinn en hann má alveg verða brúnleitur í lokin (verður það oft hjá mér). Raða þorskhnökkunum á ofnplötu og dreifa smjöri, hvítlauk og basiliku jafnt yfir. Þetta má gera nokkrum klukkutímum áður og lofa þessu að vinna saman. Baka í ofni við 180 gráður í 10-12 mín.   Rjómasósan: ½ paprika – skorin í lengjur 8-10 sveppir – skornir í bita 4 hvítlauksgeirar – smátt saxaðir slatti af brokkolí – skorið í bita 2 tómatar – skornir í báta 150 gr. smjör 2 tsk. kjöt og grill krydd ¾ tsk. karrý ½ tsk. Maccormick galic & parsley 2-3 tsk. Oscar fiskikraftur (gæti þurft meira) 2 dl. hvítvín (má sleppa) og sjóða þá niður með sama magni af vatni (ekki eins gott)  750 ml. rjómi. Sko – venjulega slatta ég og dassa allar uppskriftir og smakka svo til, þetta er því ekki nákvæmlega mælt en er mjög nálægt lagi  - það er bara ekkert gaman að fá uppskriftir sem maður má ekki leika sér smá með. Það má líka sleppa t.d. karrýi og setja inn basiliku í staðinn, og þá er ekki verra að eiga krydd frá SALT sem heitir Parmesan cheese & basil og nota það með. Þetta breytir sósunni aðeins. Steikið hvítlauk, papriku, sveppi og brokkolí upp úr smjörinu og kryddið með kjöt og grill, karrýi og hvítlaukskryddinu. Hér þarf ekki endilega að setja allt kryddið, það má vel bæta við þegar smakkað er til. Látið þetta malla smá og skellið svo hvítvíni út í og fiskikraftinum og sjóðið niður í ca 7-10 mín. Bætið rjómanum út í og haldið áfram að smakka til. Ca 10-15 mín. áður en ég ber þetta fram skelli ég tómötunum út í sósuna. • Hvítlauksbrauð: • 2 baquet brauð • 2 stk. hvítlauksgeirar • slatti af ferskri basiliku, smátt saxaðri • 150 gr. smjör • mikið af rifnum gratin osti. Steikja hvítlauk í smjöri og henda svo basilikunni út í – lofa að standa smá. Skera brauðið eftir endilöngu og sulla hvítlaukssmjörinu í og á brauðið. Þarna ræður svolítið ykkar smekkur á hvað er gott hvítlauksbrauð en við troðum miklu af osti í brauðið því okkur finnst það lykillinn. Baka þetta í ofni þar til það er gullinbrúnt. Svo bara sjóða hrísgrjón – bera fram og njóta. Gott hvítvín skemmir þessa kvöldstund ekki neitt, hvað þá góður félagsskapur.   Mig langar að skora á hana Katarinu hans Hlyns. Við höfum fengið alveg dásamlegan mat hjá henni og það væri bara frábært ef hún kynnti okkur fyrir úkraínskri matargerð með rússnesku ívafi.  

Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir er Eyjamaður vikunnar: Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Bikarmót FSÍ í stökkfimi fór fram laugardaginn 10. mars sl. Fimleikafélagið Rán sendi þrjú lið til keppni en stelpurnar í 2. flokki A urðu bikarmeistarar. Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir var einn liðsmanna 2. flokks A og er hún Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir. Fæðingardagur: 20. ágúst 2005. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Pabbi minn heitir Sigurjón Eðvarðsson, mamma mín heitir Elísa Kristmannsdóttir og svo á ég tvo bræður, Kristmann Þór og Jón Erling. Uppáhalds vefsíða: Er voða lítið að skoða vefsíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Öll skemmtileg danstónlist. Aðaláhugamál: Fimleikar, leika mér að dansa og vera með vinum og fjölskyldu. Uppáhalds app: Snapchat og instagram. Hvað óttastu: Að missa fjölskylduna mína og ég er líka hrædd við pöddur. Mottó í lífinu: Lifðu lífinu eins og hver dagur væri sá síðasti. Apple eða Android: Elska Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Enga sérstaka úr mannkynssögunni en ég hefði viljað kynnast ömmu Sigrúnu en hún lést 9 árum áður en ég fæddist. Hvaða bók lastu síðast: Eldgos í garðinum, hef alveg lesið betri bók. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Uppáhaldsíþróttamaðurinn minn er Simone Biles sem vann gullverðlaun á síðustu Ólympíuleikum. Uppáhaldsíþróttafélagið mitt er að sjálfsögðu ÍBV og Rán. Ertu hjátrúarfull: Nei, alls ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég æfi fimleika og fer stundum í Litla Hressó. Uppáhaldssjónvarpsefni: Riverdale og Teen Wolf. Er þetta fyrsti bikarinn sem þú færð í fimleikum: Nei, við fengum líka bikar á stökkmóti árið 2016. Hvernig verður maður góður í stökkfimi: Styrkir líkamann, mætir vel á æfingar, fer eftir því sem þjálfarinn segir, hefur trú á sjálfum sér og alltaf er mikilvægt að hafa gaman. Hver er draumur þinn sem fimleikakona: Halda áfram að bæta mig í fimleikum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn