Bleika brjóstið á uppboði hjá Heimaey hæfingarstöð

Bleika brjóstið á uppboði hjá Heimaey hæfingarstöð

Í tilefni af bleikum október fengum starfsmenn á vinnu og hæfingarstöðinni Heimaey þá frábæru hugmynd að búa til þæfð brjóst. Núna stendur yfir uppboð á brjóstinu sem lýkur á föstudaginn klukkan 12:00. 
„Þau eru öll einstök og misstór, en eiga það öll sameiginlegt að vera til sölu. Aðeins eitt brjóst er til sölu, það stærsta. Allur ágóði sölunnar rennur beint til Krabbavarnar í Vestmannaeyjum.“
 
 
 

Samgönguþingi unga fólksins um helgina

Samgönguþingi unga fólksins lauk í gær en á síðari hluta þingsins störfuðu umræðuhópar og síðan var samþykkt ályktun þingsins sem beint er til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Maríanna Jóhannsdóttir og Jón Gauti Úranusson voru meðal fulltrúa.   Fram kom í lokaorðum Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hann sæi fyrir sér að þing sem þetta yrði reglulegur viðburður hjá ráðuneytinu. Hann lýsti ánægju sinni með þátttökuna og afrakstur þingsins sem hann sagði nýtast vel.   Umræðuhóparnir fjölluðu um eftirtalin efni:   Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta. Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill. Bílprófsaldur og nám til bílprófs. Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki. Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum. Samgöngur í framtíðinni. Umræðustjórar beindu spurningum um málefnin til þátttakenda sem settu fram skoðanir sínar og vangaveltur um umræðuefnin. Hér á eftir eru nokkur atriði sem fram komu í hópunum:   Lengja nám til ökuprófs   Samfélagsþjónusta sem viðurlög við umferðarlagabroti Hækka sektir vegna notkunar snjallsíma í 40 þús. kr. Tekjutengja sektir – mánaðarlaun í sekt? Áróður betri en hækkun á sektum Herða refsingar við ítrekuð brot, senda á námskeið ef menn vilja halda bílprófi Áfengismörk verði óbreytt Fleiri hjólastíga – sérstaklega úti á landi og gera hjólreiðar meira spennandi – skylda hjálmanotkun fyrir alla Bæta strætóáætlanir Halda bílprófsaldri – skrá æfingaakstur Rafmagnsbílar – þarf að taka með í reikninginn umhverfisáhrif af framleiðslu rafgeyma og eyðingu þeirra Taka bílpróf í framhaldsskóla til að jafna aðgengi Samþykkt var eftirfarandi ályktun í lok þingsins:   Ályktun samgönguþings unga fólksins 2017   Horfa þarf til ólíkra samgöngumáta við framtíðarskipulag samgangna á Íslandi. Ungt fólk kýs í vaxandi mæli að búa smærra og nota vistvænar samgöngur. Stjórnvöld skulu þó tryggja einstaklingum svigrúm til að velja sér þann samgöngumáta sem það helst kýs, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjólreiðar, einkabíll eða aðrar tegundir samgangna. Fjölga þarf hleðslustöðvum á landinu til þess að flýta fyrir rafbílavæðingu. Styrkja þarf strætókerfið, meðal annars með því að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og bjóða upp á næturstrætó.   Öruggar samgöngur er undirstaða byggðar og atvinnulífs um land allt, meðal annars flug- og skipasamgöngur, og leggja þarf því áherslu á áframhaldandi uppbyggingu vega á landsbyggðinni, meðal annars með tilliti til hraðrar fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum. Klára þarf að malbika hringveginn. Stjórnvöld þurfa að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum á sviði samgangna samkeppnishæft umhverfi, svo sem fyrirtækjum sem bjóða upp á betri nýtingu farartækja og fjármagn í gegnum deilihagkerfið.   Tæknin tekur hröðum breytingum og þess vegna þarf að aðlaga regluverkið að aukinni snjalltækjanotkun í umferðinni. Hækka þarf sektir fyrir notkun þeirra undir stýri og skoða kosti og galla kerfis þar sem sektir eða refsingar komi jafnt við alla tekjuhópa í landinu. Lækka þarf áfengismörk við akstur til þess að draga úr akstri undir áhrifum. Einnig þarf að herða refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum, til dæmis með stigvaxandi sektum eða samfélagsþjónustu.   Samgönguþing unga fólksins telur ekki ástæðu til að hækka bílprófsaldur upp í 18 ár í stað 17 ára, en vill skoða að samræma menntaskólaaldur og bílprófsaldur. Tryggja þarf að æfingaakstur sé nýttur við ökunámið til að undirbúa unga bílstjóra betur undir umferðina. Þingið telur ástæðu til að skoða réttindi og skyldur ungs fólks í víðara samhengi. Rannsóknir benda til þess að fólk sé lengur í áhættuhóp því seinna sem það öðlast ökuréttindi. Telur þingið það ekki vera aldur ökumanna sem auki slysatíðnina, heldur reynsluleysið sem er óhjákvæmilegt hjá nýjum ökumönnum óháð bílprófsaldri.   Ráðast þarf í gerð fleiri hjólreiðastíga til þess að styrkja frekar við hjólreiðar sem samgöngur og gæta þarf að því að fræða hjólreiðamenn um réttindi sín og skyldur í umferðinni samhliða ört vaxandi fjölda hjólreiðamanna á landinu. Skoða þarf lagningu hjólreiðastíga á landsbyggðinni til að hvetja íbúa landsbyggðarinnar til að nýta sér slíkan samgöngumáta.   Einnig þarf að skilgreina notkun léttra bifhjóla með ítarlegri hætti en nú er gert. Tengja þarf allt landið mun betur saman með því að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir alla landsmenn. Fjölga þarf stærri samgöngutengingum, t.d. með hraðlestum og bæta þarf tíðni strætókerfisins og almenningssamgangna um landið allt.  

Helga­fells­mynd á heim­leið

 „Hér í Vest­manna­eyj­um þekkja marg­ir til þessa mál­verks og það skip­ar sér­stak­an sess í sögu­legri vit­und Eyja­manna,“ seg­ir Kári Bjarna­son, for­stöðumaður Safna­húss Vest­manna­eyja. Vest­manna­eyja­bæ var á dög­un­um gefið hið sögu­fræga mál­verk Hefnd Helga­fells eft­ir Guðna Herm­an­sen (1928-1989) list­mál­ara í Eyj­um. Mbl.is sagði frá. Sag­an af þessu verki er mörg­um kunn og þykir nán­ast for­boði þess sem síðar varð. Þannig var að árið 1971 of­bauð Guðna svo mjög mal­ar­taka úr Helga­felli að hann málaði mynd af því er fjallið greip til sinna ráða og kallaði mál­verkið Hefnd Helga­fells. Hann hafði þá ný­verið farið í sína fyrstu og að því er börn hans segja einu mót­mæla­göngu, sem var far­in að hlíðum Helga­fells. Voru skila­boðin sem í verk­inu fólust þau að sá kæmi dag­ur að Helga­fell myndi vakna af dvala árþúsund­anna og launa fyr­ir spjöll­in – sem það líka gerði. Eld­gos kom nán­ast öll­um að óvör­um.  Guðni Herm­an­sen seldi Jó­hönnu Her­manns­dótt­ur frá Vest­manna­eyj­um, sem bú­sett er í New Jers­ey í Banda­ríkj­un­um, mál­verkið árið 1972 og tók hún það með sér til síns heima í Banda­ríkj­un­um. Hún ákvað svo ný­lega að gefa mál­verkið til Vest­manna­eyja og fór Eyjamaður­inn Stefán Hauk­ur Jó­hann­es­son sendi­herra til henn­ar og sótti verkið, sem senn kem­ur til Íslands.  Verður í for­grunniMál­verkið verður síðan form­lega af­hent Vest­manna­eyja­bæ 23. janú­ar á næsta ári, en þá eru liðin rétt 45 ár frá upp­hafi Eyjagoss­ins. Verður þess minnst með ýmsu móti í Eyj­um, svo og þess að á sama ári eru liðin 90 frá fæðingu Guðna Herm­an­sen. Verður mál­verkið fræga í for­grunni sýn­inga á verk­um lista­manns­ins á af­mælis­ár­inu. „Þótt verkið hafi nán­ast alla tíð verið vest­ur í Banda­ríkj­un­um er at­hygl­is­vert hvað það hef­ur ávallt verið mörg­um of­ar­lega í huga. Þetta er dýr­mætt verk sem auðvitað á hvergi bet­ur heima en hér í Eyj­um,“ seg­ir Kári Bjarna­son. Gísli Páls­son mann­fræðing­ur á heiður­inn af því að fá verkið til baka. Hann er frá Bólstað í Vest­manna­eyj­um og í næstu viku kem­ur út bók eft­ir hann, Fjallið sem yppti öxl­um, þar sem eld­gosið í Eyj­um skip­ar stór­an sess. Gísli setti sig í sam­band við Jó­hönnu og í sam­töl­um þeirra kom fram að hún vildi gefa Vest­manna­ey­ing­um verkið, eins og nú hef­ur gengið eft­ir.  Mál­verkið grét„Þessi mynd er hluti af sögu Eyj­anna og átti alltaf að fara þangað. Mér finnst hins veg­ar vænt um mynd­ina og af eig­in­girni hef ég haldið í hana al­veg fram á þenn­an dag,“ sagði Jó­hanna í sam­tali við Morg­un­blaðið. Hún minn­ist þess að árið 1973, fá­ein­um vik­um eft­ir að Eyjagosið hófst, hafi hrotið fram tár úr því; vatns­drop­ar á stærð við títu­prjóns­hausa, sem hún hafi þurrkað upp. Sú skýr­ing hafi verið nefnd við hana að þarna hafi inn­byrgður raki sprottið fram úr máln­ing­unni, en sjálf trú­ir hún því yf­ir­skil­vit­lega og að þarna hafi hefnd Helga­fells birst ljós­lif­andi.  Á myndinni eru, frá vinstri; Stefán Hauk­ur Jó­hann­es­son sendi­herra, Jó­hanna Her­manns­dóttt­ir og Ein­ar Gunn­ars­son, sendi­herra og fasta­full­trúi Íslands hjá Sam­einuðu þjóðunum, þegar þeir tóku við mál­verk­inu sem nú fer til Eyja. 

Eyjamenn eiga alltaf gott bakland þegar kemur að símakosningum

Karlakór Vestmannaeyja komst áfram í fyrsta þætti, Kórar Íslands á Stöð 2. Þar kepptu þeir við Gospelkór Jóns Vídalíns sem einnig komst áfram og Kalmannskórinn Akranesi og Bartónar frá Reykjavík. Eyjamenn fóru áfram í símakosningu en Gospelkórinn var valinn af dómnefndinni. Báðir kórarnir sem komust áfram voru vel að því komnir. Alls taka 20 kórar þátt í keppninni sem koma fram í fimm þáttum. Þá taka við tveir undanúrslitaþættir með fimm kórum í hvorum þætti og mætast fimm þeirra í lokaþættinum. Dómnefndina skipa söngkonurnar Kristjana Stefánsdóttir og Bryndís Jakobsdóttir og Ari Bragi Kárason, trompettleikari og Íslandsmetshafi í 100 metra hlaupi. Stjórnandi er Friðrik Dór. Öll stóðu þau sig vel og lofar þátturinn góðu og uppleggið er að þetta er fyrst og fremst skemmtiþáttur. Þann pól tóku Eyjamenn. Voru tilbúnir að leggja allt undir og geystust í gegnum Stuðmannalagið Út í Eyjum í útsetningu Braga Þórs Valssonar af mikilli list og feyknar krafti.   Vel er vandað til þáttarins og hver kór var kynntur með stuttum myndbrotum af æfingum og því umhverfi sem starfa í. Geir Jón var föðurlegur í spjalli á undan og þá tók Þórhallur við sprotanum og þvílíkur kraftur sem þarna losnaði úr læðingi. Útsetning Braga Þórs er ekki einföld en það stóð ekki í Karlakór Vestmannaeyja sem trilluðu upp og niður tónstigann á þess að stíga feilspor. Geisluðu af karlmannlegri fegurð og sýndu úr hverju Eyjamenn eru gerðir og uppskáru mikið klapp á áhorfendapöllunum. Þeir heilluðu dómnefnd upp úr skónum og sagðist Ari Braga vilja fá meira að heyra í þeim. Honum varð að ósk sinni því Eyjamenn virðast alltaf eiga gott bakland þegar kemur að símakosningum. En gott gengi þeirra var verðskuldað og verður gaman að fylgjast með Þórhalli og hans köllum þegar kemur að undaúrslitunum. Þar hef ég fulla trú á okkar mönnum.    

Átti að verða hobby en er orðið eitthvað miklu stærra

„Þuríður heiti ég, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, dóttir Jóhönnu Pálsdóttur og Henry Mörköre heitins frá Færeyjum sem stundaði hér sjóinn. Ég og fjölskylda mín fluttum erlendis árið 1978, þá var ég 12 ára. Ég hef alltaf haft áhuga á að elda mat og þegar ég kláraði grunnskólann í Danmörku var faðir minn búinn að finna pláss fyrir mig hjá Sören Geriche, besta kokki í Danmörku á þeim tíma en það tók mig ekki nema 30 ár að uppfylla drauminn hans pabba. Ég tók allt aðra stefnu, lærði fatahönnun sem ég vann við í 12 ár.“ Nú býr Þuríður í Svíþjóð þar sem hún rekur smurbrauðsstofuna Snitten sem gengur vel. Snitten er í bæ sem heitir Vejbystrand, á nesi sem heitir Bjäre þar sem mikið af ferðamönnum í um það bil 25 mínútna keyrslu norðan við Helsingborg. „Þann 1. ágúst 2014 opnaði ég Smurbrauðsstofuna Snitten heima hjá mér í Vejbystrand í Svíþjóð. Má segja að við höfum verið á réttum staða á réttum tíma. Fyrirtækið mitt framleiðir danskt smurbrauð. Synirnir tveir, þeir Ólafur Már og Henry Kristófer rifu hjólageymsluna og var henni síðan breytt í búð. Þar sem maðurinn minn ferðast mikið erlendis hafði ég lítið sem ekkert að gera, meira að segja fengum við okkur hvolp. Smurbrauðsbúðin Snitten, sem upprunanlega átti að vera ,,hobby” varð frá fyrsta degi eitthvað miklu stærra. Hefur aðeins farið upp á við, og vægast sagt bilað að gera.“   Kúnnar koma langt að Þuríður segir kúnna keyra langar leiðir til að koma og versla hjá þeim. „Þar sem þetta er danskt smurbrauðsverslum kaupum við nánast allt í Danmörku, fyrir utan grænmeti. Ég bý í sveitahéraði og get ég nánast labbað yfir og sótt grænmetið sjálf. Það er opið níu mánuði á ári og seljum við í kringum 55.000 til 60.000 handunnar snittur á því tímabili og mun salan í ár vera í kringum 25 milljónir íslenskra króna og vel það.“ Hún segir að fjölskyldan sé mjög dugleg að koma og hjálpa til svo að hún geti fengið að sjá barnabörnin. „Ég hef kennt systur minni Gunný það vel að hún gæti vonandi tekið kunnáttuna og opnað kannski Snitten á Íslandi, hver veit.“ Þau útbúa jólahlaðborð fyrir fyrirtæki en þau hafa ekki gert mikið til að koma sér á framfæri. „Ég hef einungis notað Facebook til að auglýsa og er Facebook síðan með í kringum 4800 fylgjendur en nýlega bjó ég til Instagram síðu. Í júní var Snitten með í Skane magasinet sem er tímarit yfir allt Skane svæðið í Svíþjóð, í því var Snitten valið eitt af tíu fyrirtækjum sem fólki yrði að keyra til og heimsækja.“ Elsti sonurinn Ólafur Már býr í Reykjavík með unnustu sinni Lucy og syninum Christian. Hann er að útskrifast úr Vélskólanum um jólin og er draumur hans að vera á sjó, þar sem hann var aðeins 15 ára gamall þegar hann fór fyrsta túrinn. „Þegar tími gefst kem ég til Íslands að heimsækja fjölskylduna.“   Íshokkýfjölskylda Þau eru mikil íshokkífjölskylda og hafa verið í um 19 ár. „Við höfum búið erlendis vegna íshokkísins, eins og t.d. í Bandaríkjunum, það er víst mikið keppniseðli í manni. Henry sonur minn er í fyrsta flokk í íshokkí í Danmörku, hann fer til Bandaríkjanna á hverju ári í mjög harðar æfingabúðir. Hefur verið þar t.d. með Austin Mathews sem er heimsins besti íshokkíleikmaður. Litla örverpið mitt, Philip Rafnsson sem er orðinn 14 ára er einnig að gera mjög góða hluti, hann er í U15 en æfir með U16, danska unglingalandsliðinu. Í sumar lentu þeir í öðru sæti í Evrópumeistarakeppni í gólfhokkí í Þýskalandi, þá keppti hann fyrir hönd U16 en aðeins 13 ára gamall. Hann stefnir á NHL-deildina í Bandaríkjunum. Svona er týpískur dagur hjá mér, er á Snitten í þrjá til fjóra tíma og sem íshokkímamma þetta fjórum til fimm sinnum í viku,“ sagði Þuríður að endingu og biður um kærar kveðjur heim til Eyja. En vinnan er mikil, hún vinnur bæði kvölds og morgna í smurbrauðinu og er svo sem íshokkí mamma, fjórum til fimm sinnum í viku. Jóhanna móðir Þuríðar er frá Héðinshöfða í Vestmannaeyjum og var hún yngst af 9 systkinum og vann hún mest í frystihúsi i Eyjum. Henry, faðir Þuríðar kom frá Klakksvík í Færeyjum og stundaði hann sjómennsku í Vestmannaeyjum. Hann var með fiskibollugerð í Eyjum á tímabili og voru systkinin oft þar að hjálpa gamla manninum. „Ekki má gleyma móður okkar sem var snillingur í að flaka fiskinn. Pabbi var mjög vinsæll fyrir skerpukjötsframleiðslu sína sem hann var með heima hjá þeim þar sem hann bjó sér til færeyskan hjall.“          

Vaxið ótrúlega hratt og næg verkefni framundan - myndir

Frá því Stefán Lúðvíksson stofnaði Eyjablikk fyrir 20 árum hefur fyrirtækið vaxið og dafnað. Það hefur yfir að ráða rúmgóðu húsnæði við Flatir. Þar vinna um 20 manns og er enginn skortur á verkefnum. Afmælisins var minnst á föstudaginn með fjölmennri veislu í húsnæði Eyjablikks þar sem boðið var upp á veitingar að hætti Sigurðar Gíslasonar á Gott og ljúfa drykki að hætti hússins.   Stefán sagði að aðaluppgangur fyrirtækisins hefði verið síðustu tíu árin og hefði haldist í hendur við mikil umsvif og uppbyggingu í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum. „Já, það hefur verið nóg að gera hjá okkur og við erum með næg verkefni næstu tvö árin.“ Afmælisgleðin fór vel fram þar sem Jakkalakkarnir sungu og léku og maturinn eins og best verður á kosið. Og ekki var í kot vísað því í Eyjablikki er hátt til lofts og vítt til veggja og snyrtimennska í hávegum höfð. Og ekki annað að sjá en að fólk skemmti sér vel með Stefáni og hans fólki í Eyjablikki. Eyjablikk býður upp á fjölþætta þjónustu og vinnur bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. „Fjölbreytni verkefna hefur verið með ólíkindum á þeim árum sem fyrirtækið hefur starfað. Má þar nefna loftræsikerfi, einangrun og klæðningar á hita- og frystilögnum, flasningar, rústfrí smíði, álsmíði, lagning koparþaka, smíði á handriðum ásamt smíði á allra handa færiböndum og körum fyrir sjávarútveginn. Þjónusta við einstaklinga hér í Eyjum er líka stór þáttur í starfsemi okkar. Við hjá Eyjablikk höfum kappkostað við að sinna þeim verkum sem okkur hefur verið treyst fyrir af kostgæfni og með bros á vör, því það skilar sér í ánægðum viðskiptavinum sem leita aftur og aftur til okkar með sínar þarfir,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins. Hjá Eyjablikk ehf. starfa 19 manns þar af eru 2 með sveinspróf og 7 með meistarapróf í sinni iðngrein, blikksmíði, vélvirkjun og stálskipasmíðum. Fjórir starfsmenn eru með suðuréttindi ISO 9606-1. Kappkostað er að hafa vel menntaða og duglega einstaklinga í vinnu.   Óskar Pétur var að sjálfsögðu á staðnum með myndavélina og tók meðfylgjandi myndir.  

Fjóla Sif Ríkharðsdóttir er matgæðingur vikunnar - Tælensk kjúklingasúpa með núðlum & naan brauð

Ég vil byrja á því að þakka Andreu fyrir áskorunina og hlakka mjög til að fá heimboð í humarpizzu . En þar sem ég er mikil súpukona ætla ég að deila með ykkur uppskrift af uppáhaldssúpunni minni.   Tælensk kjúklingasúpa með núðlum Þessi uppskrift er fyrir 4 • 1 lítri kjúklingasoð • 3-4 hvítlauksrif, marin • 1 rautt chillí, fræhreinsað og smátt saxað • ½ tsk. túrmerik • ½ -1 tsk. chillíduft • 400 g kjúklingakjöt, skorið í litla bita • 3 gulrætur, skornar í mjóa strimla • 1 sellerístilkur, sneiddur fínt • 1 lítil græn paprika, fræhreinsuð og skorin í strimla • 3 msk. fiskisósa (frá t.d. Blue Dragon) • 180 ml kókosmjólk • 2 msk. límónusafi • 150-200 g austurlenskar núðlur að eigin vali • salt og pipar að smekk • límónubátar, safi kreistur yfir súpuna. Aðferð: Hitið kjúklingasoðið, ásamt hvítlauk og chillí og kryddið með túrmerik og chillídufti. Látið suðuna aðeins koma upp, lækkið undir og bætið kjúklingakjöti, gulrótum, selleríi og papriku saman við og eldið þar til kjúklingakjötið er eldað í gegn. Hrærið loks fiskisósu og kókosmjólk saman við. Smakkið súpuna til og kryddið með salti og pipar að smekk. Dreypið síðan límónusafa yfir. Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum á pakka eða í um 3-4 mínútur. Sigtið þær frá vatninu og bætið saman við súpuna rétt áður en hún er borin fram. Gott er að hafa Nan-brauð með súpunni sem bæði er hægt að útbúa sjálfur eða kaupa tilbúið út í búð. Hér er uppskrift að brauði   Nan-brauð • 1,5 dl fingurheitt vatn • 2 tsk sykur • 2 tsk þurrger • 4 dl hveiti • 0,5 tsk salt • 2 msk brætt smjör • 2 msk hreint jógúrt • Garam Masala (má sleppa) • gróft salt, t.d. Maldon (má sleppa) Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur. Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur. Skiptið deiginu í 4-6 hluta (eftir hversu stór þú vilt að brauðin verði) og sléttið út í aflöng brauð (það þarf ekkert kökukefli, hendurnar duga vel). Mér þykir gott að krydda brauðin með garam masala og grófu salti áður en ég steiki þau. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita og steikið brauðið í 3-4 mínútur áður en því er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.   Ég skora á Ástu Jónu Jónsdóttir sem næsta matgæðing, hún er rosaleg í eldhúsinu.  

Ástarljóð til Vestmannaeyja og sorgarsöngur yfir Tyrkjaráninu - myndband

Dagskrá 16. júlí til minningar um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum

Ágúst Halldórsson - Tíu heitustu piparsveinar Vestmanneyja

Eins og flestir vita þá getur lífið verið hverfult og stundum þunn lína á milli þess þegar maður liggur í fullkomnu öryggi í faðmi einhvers sem maður elskar út í vandræðalega augnablikið þegar tvær manneskjur kveðjast eftir skyndikynni.   Ef það er eitthvað sem flestir smáborgarar hafa áhuga á, þá er það hverjir eru með hverjum og hverjir eru komnir út á makamarkaðinn eins og hann er stundum kallaður. Sumir kjósa að vera einir á meðan aðrir troða marvaða í hinni eilífu leit af ást sem getur verið erfitt í smábæ eins og Vestmannaeyjum.   Til að gera hlutina auðveldari fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á leitinni, þá ætla ég að kynna í þetta skiptið lista yfir topp tíu heitustu piparsveina Vestmannaeyja.   Og hér eru þeir allir.     10. Kristgeir Orri Grétarsson, Einar Ottó Hallgrímsson og Hjálmar Viðarsson.   Eins og glöggir lesendur hafa jafnvel áttað sig á, þá eru þrjú ung karldýr í tíunda sæti. Þetta er ekki prentvilla því þessir peyjar eru alltaf saman, og eru eiginlega einn og sami maðurinn. Hörku duglegir naglar sem allir eru búnir með Stýrimannaskólann og starfa allir á sjó.   Mestu líkurnar eru að finna þá í eftirpartýi. Ef ekki þar þá finnast þeir alveg pottþétt í hádeginu á sunnudegi á 900 með einn ískaldan afréttara og brakandi ferskar partýsögur. Heyrst hefur að þeir séu byrjaðir að róast og því einstakt tækifæri til að ná sér í einn af þessum hressu Eyjapeyjum.           9. Kolbeinn Aron Arnarsson   Síðustu ár hafa verið viðburðarík hjá Kolbeini. Þó svo að hann hafi áður látið að sér kveða sem forsöngvari partýhljómsveitarinnar The Goggz. Þá hefur Kolbeinn verið í marki meistaraflokks ÍBV í handbolta síðustu ár og varð með þeim Íslands- og bikarmeistari.   Gullár í lífi Kolbeins og fékk hann mikla athygli frá kvenpeningi landsins en einhvern veginn gleymdi hann sér í fögnuði titla. Heyrst hefur að Kolbeinn sé kominn með smá áhyggjur af kvenmannsleysi sínu og hefur því ákveðið að semja við Aftureldingu í von um að finna sér konu í borg óttans.               8. Sigurjón Viðarsson   Einn af gulldrengjum Minnu og Steinu í Metabolic  Vestmannaeyja. Sigurjón er ótrúlega vel gefinn og hefur allt nám leikið við hann frá blautu barnsbeini. Hann ætlaði lengi vel að verða lögfræðingur en snerist hugur þegar hafið kallaði. Hann kláraði Stýrimannaskólann og vinnur nú sem slíkur á Þórunni Sveinsdóttur.         7. Daði Magnússon   Grjótharðasti tölvunarfræðingur Vestmannaeyja sem stundar sjómennsku í frítímanum. Kemur undan hinu merka Braga Steingríms-Þórarakyni.   Daði hætti vinnu hjá Smart Media fyrir nokkru til að fara á malbikið til þess eins að finna sér konuefni. Tvennum sögum fer af gengi Daða í þessari leit sem ætti ekki að vera mikið vandamál með þessi bambabláu augu og karlmannlegu Jay Leno hökuna sína.   Stundum kallaður Paris Hilton Vestmannaeyja vegna þess að hann er sonur Magnúsar Braga sem er eigandi Hótels Vestmannaeyja.             6. Sigurður Sigurðsson     Sú kona sem nær í Sigurð þarf ekki að svelta því Sigurður stundar nær alla veiði sem hægt er að stunda á Íslandi. Allt frá dorgveiði í gegnum ís að hreindýraveiðum á Austurlandinu.   Einnig er Sigurður einn af þeim merku karlmönnum sem fær áhuga á flestu í kringum sig. Hann talar einhver sex tungumál og kikna margar í hnánum þegar hann talar spænsku við innfædda.   Hann er einnig búinn að læra margt, þá helst ber að nefna Sjávarútvegsfræði, Spænsku og Stýrimannaskólann. Hann starfar í dag sem stýrimaður á Sigurði Ve.           5. Hermann Hreiðarsson     Ef til vill þekktasti bitinn í súpunni. Þjóðþekktur og hvers manns hugljúfi. Stracta hóteleigandi og athafnamaður. Eftir mörg ár atvinnumennsku í Englandi sneri Hemmi aftur til Íslands og hefur stundað þjálfun sem er hans ástríða.   Í dag hefur hann tekið við kvennaliði Fylki sem gæti orðið erfitt verkefni. Hermann hefur sýnt sínar viltu hliðar á vellinum og á hliðarlínunni en er mjúkur eins og þriggja barna einstæð móðir í Costco þegar enginn fótbolti er nálægt.           4. Róbert Aron Hostert   Ótrúlega hæfileikaríkur handboltamaður ÍBV sem hefur góða nærveru og gæti brætt súrál með strákslegu brosi sínu. Þær hafa ekki margar farið rykfallnar í burtu prinsessurnar frá Róberti í gegnum tíðina.  Heyrst hefur eftir ónefndum heimildarmanni mínum að Róbert Aron sé orðinn leiður á piparsveinalífinu og sé að leita að hinni einu réttu. (Veit ekki hvern ég er að plata með ónefnda heimildarmanninum, það vita það allir að það er Einar Gauti sem kjaftaði þessu).         3. Ólafur Björgvin Jóhannesson   Einn af þeim sem allir í Vestmannaeyjum taka eftir. Þekktur fyrir góðmennsku sína sem kom honum jafnvel um koll á sínum tíma því hann var það góður við sjálfan sig að hann náði að éta sig hátt upp í tvö hundruð kíló en er í dag búinn að rífa af sér u.þ.b. hundrað kíló og hvergi hættur.  Keypti sér fyrir stuttu fallega íbúð á Ásaveginum sem bíður eftir því að láta troða í sig Omaggio vösum og Ittala drasli. Ólafur er framkvæmdastjóri Skýlisins og tilvonandi erfingi þess.         2. Sigurgeir í Skuld   Sem þarf vart að kynna enda búinn að vinna sig inní hjörtu allra Vestmannaeyinga með myndum sínum. Einstakt náttúrubarn sem fær alla til að brosa með einstökum húmor og smitandi hlátri.  Honum hefur tekist það ótrúlega afrek að vera vaxinn eins og Grískt skurðgoð frá unglingsaldri. Hann er einn af orginal bjargveiðimönnum Eyjanna sem gerir hann af eftirsóttu eintaki. Á alveg tíu spræk ár eftir fyrir þær sem vilja einn með reynslu.         1. Jóhann Sigurður Þórarinsson   Eftirsóttasti piparsveinn Vestmannaeyja. Eftir að hafa komið á markaðinn úr heiðskýru lofti hefur hann ekki haft mikinn tíma í að finna ástina. Enda nóg að gera í vinnunni ásamt því að sinna núverandi ást sinni sem er frumkvöðlastarf sem á eftir að gjörbilta heilbrigðisgeiranum.   Jóhann Sigruður hefur alla tíð hugsað langt inn í framtíðina sem sést best á því að hann er nú búinn að stunda eldrimannaleikfimi síðustu fimm ár með körlum sem flestir eru á sextugs aldri, tvisvar í viku í Týsheimilinu.   Hann er einnig búinn vinna mikið í sjálfum sér og að losa sig við slæma siði eins og að taka í nefið sem hefur gengið einkar vel en með smá hækju sem er gufuretta. Ef horft er lengur en mínútu á hann má sjá fallega dalalæðu koma úr vitum hans, sem er bæði dáleiðandi og róandi.   Jóhann Sigurður er með afnot af einni fallegstu penthouse íbúð Reykjavíkur og hefur heyrst í bænum að hann sé að skoða flottustu penthouse íbúð Vestmannaeyja sem verður tilbúin árið 2020.  Jóhann Sigurður hefur gaman af fólki, að skemmta sér, að vinna að því sem hann hefur gaman af og ferðalögum. Hann leitar af góðri konu sem er tilbúin að labba með honum inn í eilífðina meðfram Ofanleitishamrinum, setjast við hlið hans og horfa á sólina setjast á meðan hann blæs gufureykshjörtu út á hafið.                           Ágúst Halldórsson              

Tíu Heitustu - Nr. 1 - Jóhann Sigurður Þórarinsson

Sýning Þórunnar Báru í Eldheimum opnuð í dag kl. 17.00.

Sýning Þórunnar Báru í Eldheimum verður opnuð í dag kl. 17.00. Verkin á sýningu hennar í Eldheimum eru gerð á árinu 2017 og hafa tilvísun í rannsóknir á þróun lífríkis og jarðfræði í Surtsey en Þórunn Bára hefur unnið með þann efnivið síðastliðinn áratug.   Þórunn Bára vinnur með náttúruskynjun og trúir því að skynreynsla sé vannýtt leið að gagnrýnni hugsun og ábyrgð einstaklings á umhverfi og eigin lífi, sem gæti dregið úr firringu og orðið hvati til góðra verka. Hún vinnur stór litrík verk með óræðum formum í þeirri trú að það stöðvi tímann eitt augnablik og dragi úr streitu í innra samtali manns við hversdagslega náttúru. Þórunn Bára leitar að undirliggjandi formgerð í óreiðu lifandi náttúru sem hún túlkar með óhlutbundnu og hlutbundnu myndmáli. Hún ímyndar sér að með því varpi hún ljósi á undrið í lífinu, fegurðina og margbreytileikann í sköpun og eyðileggingu, lífsbaráttu og leit alls sem lifir í náttúrunni eftir öryggi.   Verkin vinnur Þórunn Bára í seríum og eru þau hluti af heildarverki, nokkurskonar sjónrænni skráningu á lífríki Surtseyjar.   Þórunn Bára lauk prófi í málun og teikningu frá Listaháskólanum í Edinborg og mastersprófi í listum frá Wesleyan háskóla í Bandaríkunum. Þórunn Bára er nú sjálfstætt starfandi myndlistarmaður í Reykjavík og má kynnast verkum hennar á vefsíðunni; www. thorunnbara.is. Verk hennar eru sýnd og til sölu á Gallerí Fold en einnig má nálgast verkin á vinnustofu hennar.      

ELDHEIMAR vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna í Vestmannaeyjum.

Frá því að eldgosasafnið Eldheimar opnaði hefur það notið mikilla vinsælda. Á safninu eru tvær sýningar annarsvegar er saga Heimaeyjargossins 1973 sögð á áhrifamikinn hátt og hinsvegar er fræðslu sýning um þrónu lífs í Surtsey, sem gaus 1963 – 67. Surtsey er einnig á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna fyrir sérstöðu sína. Það er greinilegt að áhugi erlendra ferðamanna á eldgosum er mikill. Frá opnun Eldheima fyrir tæplega 3 árum hafa hátt í 100.000 gestir heimsótt safnið. Flestir þeirra eða um 80% eru erlendir ferðamenn.   Það styrkir áhrifin af Eldheimum að safnið er við rætur Eldfells, fjallsins sem varð til í náttúruhamförunum miklu 1973.. Miðpunktur safnsins eru rústir húss er stóð við Gerðisbraut 10. Það á sér enga hliðstæðu í heiminum að jafn ungar gosminjar hafi verið grafnar upp. Með hjálp nýjustu margmiðlunartækni við hlið húsarústanna er gosnóttin 23.janúar 1973 rifjuð upp. Farið yfir hvernig það var fyrir um 5.300 íbúa Vestmannaeyja að vakna við drumur eldgossins og flýja í skyndi heimili sín. Margir þeirra sáu þau aldrei aftur. Á fjórða hundrað hús og byggingar urði hrauni, ösku og eldi að bráð.   Safnið hefur fengið mjög lofsamleg ummæli hvort sem er í fjölmiðlum eða á Tripatvisor. Safnið hefur tekið við fjölda viðurkenninga s.s. Hönnunarverðlaunum ársins 2015. Það var einnig mikil viðurkenning fyrir safnið að The Guardian valdi það á lista yfir áhugaverðustu nýungar á sviði ferðaþjóinustu um víða veröld á sl. ári. Hönnuður Eldheima er Axel Hallkell Jóhannesson honum hefur svo sannarlega tekist vel til.   Arkitektúr hússins hefur vakið mikla athygli fyrir einstök frumlegheit. Byggingin á sér enga hliðstæðu. Það er hátt til loft og vítt til veggja og hægt að virða fyrir sér húsarústina frá ýmsum sjónarhornum frá svölum á annari hæð eða brú sem liggur í gegnum bygginguna.   Í safninu er einstaklega skemmtilegt rými fyrir veitingasölu og menningarviðburði. Útúr rýminu er gengið út á pall, með stórkostlegu útsýi yfir Vestmannaeyjar. Það er ánægulegt að segja frá því að þetta rými býður uppá einn besta hljómburð landsins. Nokkuð sem styrkir og eflir svo sannarlega mikilvægi og notagildi þessa rýmis. Arkitekt hússins heitir Margrét Kristín Gunnarsdóttir.   Fyrir utan það að vera safn á heimsmælikvarða þá eru Eldheimar einnig menningarmiðstöð. Á safninu eru reglulega metnaðarfullir menningarviðburðir. Tónleikar myndlistasýningar bókmenntadagskrár m.m.   Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður.    

Konan sem leyfir lífinu að sigra

Þau eru misjöfn verkefnin sem lífið leggur á herðar fólks. Hjónin Brynhildur Brynjúlfsdóttir og Rafn Pálsson eða Binna og Rabbi eins og þau eru kölluð í Eyjum hafa glímt við erfið verkefni. Þau eru nú búsett á Álftanesi og rækta þar garðinn sinn. Blaðamaður Eyjafrétta rölti yfir í Vesturtúnið til Binnu og tók hana tali.   ,,Ég er bara stelpa úr Eyjum og er ennþá stelpa, segir Binna þegar hún er spurð hver hún sé. ,,Ég er þriggja barna móðir og amma tveggja barnabarna. Byrjaði að vinna í Útvegsbankanum í Eyjum árið 1977 og er enn í bankageiranum. Nú er það Arion banki. Ég held að uppvaxtarárin í Eyjum hafi mótað mig mest og tíðarandinn sem var þá. Frelsið að búa í litlu samfélagi. Það er eflaust þess vegna sem við settumst að á Álftanesinu þegar við fluttum upp á land. Þar er ég líka nálægt sjónum og ekki alveg inni í mannmergðinni. Það var líka ódýrt að kaupa hér húsnæði á þeim tíma,” segir Binna brosandi.   Spila úr þeim spilum sem gefin eru Binna segir að þegar elsti sonur þeirra Páll Ívar fór í framhaldsnám til Reykjavíkur hafi þau nýtt tækifærið og látið verða af því að taka sig upp og flytja á höfðuðborgarsvæðið. ,,Við fluttum árið 1999, þá var atvinnuástand erfitt í Eyjum og laun lægri en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þau voru töluvert betri. Þar er einstaklingurinn metinn að verðleikum. Það hafa líka allir gott af því að rífa sig upp og breyta til. Það var ekki erfitt að flytja þegar ákvörðunin var tekin, en ég sakna auðvitað fólksins og náttúrunnar í Eyjum.” Þegar Binna flutti upp á land, hóf hún störf til að byrja með hjá Krabbameinsfélaginu en flutti sig fljótlega yfir í Sparisjóð Kópavogs. Binna var nýbyrjuð í verðbréfadeildinni þar þegar hrunið varð og í þeirri deild var lítið að gera eftir hrun. ,,Mér var því sagt upp og fékk stuttu síðar vinnu hjá Umboðsmanni skuldara. Það var erfitt starf og reyndi á. Fólk þurfti að taka erfið skref og oft ýjaði fólk að því að það ætlaði að henda sér í sjóinn eða gera eitthvað annað. Neyðin var svo mikil. Næst lá leið mín í Arionbanka í Hafnarfirði og þar er ég enn.” Binna og Rabbi koma bæði úr stórum fjölskyldum sem hafa þurft að takast á við áföll. ,,Maður spilar úr þeim spilum sem maður fær. Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég var ófrísk af Jónatani Helga þegar Biddý tengdamamma fór. Það var mjög erfitt. Hún hvarf og það hefur aldrei til hennar spurst. Það var líka gífurlegt áfall þegar Jónatan Helgi sonur okkar féll fram af svölum á fjórðu hæð á hóteli á Kanaríeyjum.”   Héldum alltaf í vonina ,,Fyrsta áfallið kom þegar María Ósk, kærasta Jónatans hringdi til að segja okkur frá slysinu og að hann væri í lífshættu á sjúkrahúsi. Hann var með alvarlega höfuðáverka, höfuðkúpan brotin auk þess sem hann var lærbrotinn og með brotin rifbein. Flugleiðir voru okkur innan handar við að finna leiðir til þess að koma okkur til Kanaríeyja eins fljótt og hægt var. Eftir 30 klukkustundir vorum við komin á áfangastað en fengum ekki að sjá Jónatan fyrr en þremur klukkustundum seinna. Það var langur tími að bíða. Reglurnar á gjörgæsludeildinni voru þær að einungis voru leyfðar heimsóknir tvisvar á dag, í klukkutíma í senn. Og aldrei fleiri en þrír í heimsókn í einu. Það voru engar undantekningar gerðar,” segir Binna og það fer ekki á milli mála að það tekur á hana að rifja upp atburðinn. ,,Við vorum hjá Jónatani á sjúkrahúsinu í fjórar vikur og það var mjög erfiður tími. Það tók á að fá bara að sjá hann tvisvar á dag í klukkutíma í senn. Jónatani var haldið sofandi allan tímann og við héldum alltaf í vonina. Við fengum gagnlegar upplýsingar frá læknunum bæði þegar það voru góðar fréttir og slæmar.” Þegar átti að byrja að vekja Jónatan kom í ljós að heilastarfsemin var engin. ,,Fréttirnar voru reiðarslag, annað áfall. Áður en Jónatan var tekinn úr vélunum kom til okkar teymi sem bað um líffæri úr honum.” Binna gerir stutt hlé á frásögn sinni og þurrkar tárin sem brjótast fram.   Leyfum okkur að gráta ,,Við leyfum okkur að gráta þegar við þurfum og það er gott að geta talað um hlutina,” segir þessi sterka kona og heldur áfram með frásögnina. ,,Það var engin umræða um líffæragjafir á Íslandi á þessum tíma. Þetta var rosalega erfið stund. Við þurftum þó ekki að hugsa okkur lengi um. Við vorum nokkuð viss um að Jónatan hefði viljað að líffærin hans gætu komið öðrum til góða. Við fréttum það svo seinna að þrjú ungmenni á Spáni hefðu fengið líffæraígræðslu og allar hefðu þær tekist vel.” Binna er með ákveðnar skoðanir hvað varðar líffæragjafir. ,,Mér finnst að allir ættu að skrá sig eða það sem betra er að það sé gengið út frá því að allir vilji vera líffæragjafar nema þeir taki annað fram fram. Við vissum ekkert um líffæragjafir þegar við þurftum að taka ákvörðun. Við höfðum séð þetta í sjónvarpi og vissum að einhverjir höfðu farið til útlanda og fengið líffæri.” ,,Við fengum að kveðja Jónatan áður en vélarnar voru teknar úr sambandi. Síðan sáum við hann ekki aftur fyrr en hann var dáinn, rétt áður en kistunni var lokað, segir Binna og sársaukinn í augunum segja meira en þúsund orð. ,,Það hjálpar að vita af þessum þremur ungmennum sem fengu líffærin. Það var þá alla vega einhver tilgangur fyrst að Jónatani varð ekki bjargað.”   Lífsviljinn er mikill Það er erfitt að ímynda sér hvernig foreldrar takast á við aðstæður sem Binna og Rabbi voru í á Kanarí-eyjum fyrir ellefu árum síðan. ,,Okkar stoð og stytta var Auður Sæmundsdóttir fararstjóri á Kanaríeyjum. Hún hjálpaði okkur í gegnum ferlið. Við fengum enga aðstoð frá íslenska konsúlnum. Því hlutverki sinnti eldri Spánverji sem var þá í veikindaleyfi. Auður reddaði þeim hlutum sem þurfti. Það var styrkur í því að fá Palla son okkar út, en það var Vestmannaeyingur sem gekk úr sæti fyrir hann svo hann kæmist með næstu vél. Snorri Benedikt varð eftir í góðri umsjá Öldu og Kalla, bróður Rabba. Hvernig komast foreldar í gegnum áfall þegar barnið þeirra slasast lífshættulega og deyr af áverkunum? ,,Ég bara veit ekki hvað ég á að segja. Maður bara verður, ég á fleiri börn og aðra sem standa mér nærri. Lífsviljinn er mikill og maður gerir allt til þess að halda áfram. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta. Við vissum að Jónatan var illa höfðkúpubrotinn en við héldum í vonina og vildum vera til staðar þegar hann myndi vakna, við efuðumst aldrei um það. Þetta voru í rauninni tvö áföll. Fyrst slysið sjálft og svo fréttirnar um að Jónatan myndi ekki ná að lifa það af.” Það gekk ekki þrautalaust að koma jarðneskum leifum Jónatans Helga heim til Íslands. Öllu leiguflugi beint til og frá Íslandi var hætt þegar Jónatan dó mánudaginn 1. maí árið 2006 og erlend flugfélög sem Rabbi og Binna töluðu við voru ekki tilbúin að fljúga til Íslands með Jónatan og foreldra hans.   Best að tala um hlutina ,,Ég vildi ekki láta flytja hann öðruvísi en að við fylgdum honum alla leið. Ég var ekki tilbúin að Jónatan færi með öðru flugi en við. Yrði settur í fraktgeymslu við hinar og þessar aðstæður. Það varð úr að flugfélagið Ernir sendi út leiguflugvél til Kanaríeyja fjórum dögum seinna. Við fengum góða hjálp frá mörgum aðilum sem gerði okkur kleift að fylgja Jónatani alla leið heim.” Binna segir að eftir jarðarför Jónatans hafi komið visst tómarúm og þá hafi úrvinnslan hafist. ,,Við erum heppin að eiga marga góða að. Stórfjölskyldan er samheldin og vinnuveitendur okkar Rabba voru mjög skilningsríkir á meðan við vorum að reyna að fóta okkur áfram í lífinu. Það hjálpaði mikið til að Einar Rafn barnabarnið okkar, sonur Palla fæddist nokkrum mánuðum síðar. Hann er mikill gleðigjafi,” segir Binna og bros færist yfir andlitið. “Svo heldur maður bara áfram lifa. Dauði Jónatans er staðreynd sem ég hugsa um svo til á hverjum degi. Ég hef val. Stundum þarf ég að vera Pollýanna og stundum þarf ég að setja upp grímu. Ég get haft það ömurlega skítt með því að leyfa mér ekki að lífa lífinu fyrir sjálfa mig eða aðra. En ég hef líka skyldur gagnvart öðrum. Svo lærir maður að lifa með þessu og hættir að velta sér upp úr því sem gerðist. Það bætir ekki ástandið að liggja undir sæng. Við sýnum Jónatani Helga enga virðingu með því. Það skiptir máli að halda áfram og komast í gömlu rútínuna. Gera það sem þarf, vaska upp og elda og allt það. Það er hægt að fá hjálp frá fagaðilum. Við fengum mikla hjálp frá sr. Jónu Hrönn, kannski meira í formi sálgæslu en á trúarlegum nótum. Við Rabbi eigum okkar barnatrú og okkur finnst gott að fara upp í Garðakirkjugarð þar sem Jónatan hvílir. Það er yndislegur staður alveg við sjóinn. Það hefur reynst okkur Rabba best að tala um hlutina og nota allar góðar stundir til þess að minnast þeirra sem eru farnir frá okkur.”   Ekki skömm að syrgja Í sorgarferli koma upp alls konar tilfinningar ,,Við höfum farið í gegnum allt sorgarferlið, og þetta er allt einn kokteill stundum. Við höfum alveg átt það til að setjast einhvers staðar niður t.d. á þjóðhátíð eða annars staðar og fara að gráta. Við leyfum okkur það. Það er enginn skömm af því að syrgja,” segir Binna einlæg. ,,Ég held að reiðin hafi aldrei náð tökum á okkur eða við verið föst í sorgarferlinu. Við Rabbi höfum verið mjög samstíga og stutt hvort annað. Við eigum auðvitað okkar erfiðu stundir líka. Áföll og sorgir reyna á hjónabandið, í okkar tilfelli hefur það styrkt sambandið. Ég hef lært að bera virðingu fyrir tilfinningum annarra. Það er ekki bara ég ein sem syrgi, það vill stundum gleymast þegar fólk festist í því að eiga bágt. Ég þoli það illa þegar fólk segir við mig að ég hafi gengið í gegnum svo mikla erfiðleika. Ég er ekki sú eina sem hef gert það. Það ganga allir í gegnum einhverja erfiðleika og þeir geta verið jafn erfiðir og mínir. Það er ekki hægt að mæla hver hefur gengið í gegnum meira en aðrir,” segir Binna með töluverðum þunga. Hvað ráð á Binna handa þeim sem umgangast syrgjendur. ,,Bara að koma, droppa við í kaffibolla. Klapp á bakið eða faðmlag. Það þarf ekkert að segja. Það þarf ekkert að gera. Það styrkti okkur mikið að fá faðmlag, klapp á bakið og finna samúðina og stuðninginn.” Binna segir endalaus áföll breyti lífssýn sinni. ,,Ég sé lífið með öðrum hætti og er hætt að velta mér upp úr því að eiga allt. Mér finnst gaman að eiga fallega hluti en lít þá öðrum augum en áður. Nota kristalsglösin og sparistellið hversdags ef mér sýnist svo.”   ,,Guð, hvenær er nóg nóg?” Í fyrra reið annað áfall yfir fjölskylduna. Yngsti sonur Binnu og Rabba, Snorri Benedikt og kærastan hans, Jóna Þórdís misstu barn í byrjun fæðingar. Það var drengur sem nefndur var Orri Þorri. Hann hvílir hjá Jónatani frænda sínum í Garðakirkjugarði. ,,Það er erfitt að horfa upp á börnin sín í slíkri sorg og geta ekkert gert til að hjálpa. Maður verður einhvern veginn enn meira hjálparvana og vanmáttugur,” segir Binna og beygir af. ,,Ég eiginlega veit ekki hvað ég á að segja. Í fysta skipti langaði mig að breiða upp fyrir haus og ég spurði Guð í alvöru og upphátt „hvenær er nóg nóg?“ Eina sem ég get gert er að vera til staðar fyrir krakkana.” Binna var í strembnu námi með vinnu þar sem hún var að ná sér í vottun fjármálaráðgjafa. Hún hafði því verið undir miklu álagi þegar Orri Þorri dó. ,,Þegar jarðarförin var búin sagði líkaminn minn hingað og ekki lengra. Ég gat mig varla hreyft fyrir verkjum og endalausri þreytu. Ég fór í tveggja mánaða veikindaleyfi og er búin að vera síðustu tíu mánuði að jafna mig. Áföll reyna ekki bara á andlega heldur einnig líkamlega. Þetta hefur verið erfitt tímabil, ég er undir eftirliti lækna og reyni að hvíla mig eins og ég get.“ Samskipti við fólk telur Binna nauðsynleg. ,,Ég er með vinnufélögum á vinnutíma en fer svo í annan hóp þegar heim er komið. Ég er líka að selja Tupperware og á þá í samskiptum við annars konar hóp og stýri þeirri vinnu sjálf. Það er mjög mikilvægt að vera í samskiptum við annað fólk. Það skiptir miklu máli að loka sig ekki af.” Rabbi og Binna hafa komið sér vel fyrir á Álftanesi og útbúið þar skjólgóðan garð og pall. ,,Okkur finnst yndislegt að vera hérna úti á palli. Vonandi fáum við gott sumar. Hér eigum við okkar bestu sumarfrí fyrir utan það að ferðast. Við förum kannski á þjóðhátíð eins og við gerum nær alltaf. Rabbi og strákarnir fara alltaf til Eyja á Þrettándanum, mér finnst gott að vera þá ein heima og huga að því að taka jólin niður, það logar samt alltaf ljós á jólatrénu fram yfir Þrettánda. Ég fer ekki með Herjólfi í Þorlákshöfn nema tilneydd vegna sjóveiki.   Hittum hvorki elg né skógarbjörn Þrátt fyrir að sorgin sé stór þáttur af lífshlaupi okkar þá eru ekki allir dagar sorgardagar. Við erum ósköp venjuleg fjölskylda sem lifir sínu lífi þrátt fyrir að vera mótuð af þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir. ,,Fjölskyldan öll er nýkomin frá Kanada. Við flugum til Edmonton og tókum okkur bílaleigubíl sex saman. Við keyrðum í gegnum Klettafjöllin á leið til Prins George, um þjóðgarðinn Jesper sem skartar tignarlegum fjöllum. Við vorum ekki svo heppinn að hitta elg eða skógarbjörn. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Steinunni og Óðin sem bæði eru í námi í Prins Gerorge. Við fórum svo með Steinunni og fjölskyldu í ferð, keyrðum Icefields Parkway og um Banff þjóðgarðinn þar sem við sáum Klettafjöllin frá öðru sjónarhorni. Þau eru ofboðslega stór og hrikaleg,” segir Binna dreymandi á svip. ,,Kanada er yndislegt land. Það eru allir svo viðmótþýðir og ljúfir. Andrúmsloftið virðist afslappað. Í verslunum fá eldri borgarar vinnu við að taka á móti fólki og bjóða það velkomið. Þegar viðskiptavinir yfirgefa búðina eru þeir spurðir hvort þeir hafi fengið allt sem þeir þurftu. Það er mikil þjónustulund í Kanada. Það virðast vera tengsl milli Íslands og Kanada en mér finnst við Íslendingar vera hrokafyllri og merkilegri með okkur. Án þess þó að hafa nokkurt efni á því. Kanandamenn eru heldur ekki eins miklir umferðadónar og við.” Í lokin er ekki úr vegi að spyrja aðeins út í æskuvinina í Eyjum og einhverjar sögur. Binna er þögul sem gröfin varðandi prakkarstrik í æsku. ,,Við erum æskuvinkonur ég og Erla Þorvalds enda bara eitt hús á milli okkar á Hólagötunni. Við vorum alltaf saman að leika. Með árunum bætust við skólasysturnar Ragnheiður Anna, dóttir Fríðu Sigurðar og Auður Finnboga sem bjó á Höfðaveginum. Við höldum enn hópinn og það var aldrei lognmolla í kringum okkur í ´60 árgangnum. Við Rabbi byjuðum saman mjög ung. Hann kom í fermingarveisluna mína, við vorum byrjuð saman þá,” segir Binna og er sátt við sinn mann.   Leyfir lífinu að sigra ,,Við höfum verið meira saman en sundur. Það var ekki óalgengt á þessum tíma að börn 17 ára væru byrjuð að búa og komin með börn. Tímarnir hafa breyst og fólk skilur þetta ekki í dag. Hvað gera Binna og Rabbi til þess að viðhalda hjónabandinu og ástinni? ,,Við erum bara eins og við erum. Við gerum ekki neitt sérstakt. Tölum saman, rífumst, hreinsum út og allur pakkinn. Við berum virðingu fyrir hvort öðru og við breytum ekki öðrum. Kannski þarf fólk sem vill breyta öðrum að breyta sjálfu sér. Sætta sig við sjálft sig og hinn aðilann. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir breyti sér samkvæmt mínu höfði,” segir Binna með áherslu. ,,Við höfum það gott og erum sátt með okkar líf. Við eigum gott bakland og fjölskyldan skiptir okkur öllu máli. Við verðum að lifa lífinu, annars verður það ömurlegableiðinlegt og það leggur maður ekki á nokkurn mann í kringum sig,” segir konan sem leyfir lífinu að sigra.  

Fjölbreytt kynningarblað - Vestmannaeyjar, fjölbreytt mannlíf og öflugt athafnalíf

Í dag verður 64 síðna blaði um Vestmannaeyjar dreift í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og til lesenda Morgunblaðsins úti á landi, í allt um 70.000 eitnök. Það er mikið átak fyrir litla ritstjórn að gefa út þetta stórt blað sem kynna á Vestmannaeyjar og hvað Eyjamenn eru að gera. Auðvitað verður því ekki öllu gerð skil en víða er stungið niður fæti þannig að þetta kynningarblað um Vestmannaeyjar stendur nokkuð vel undir nafni. Auk þess er hægt að lesa blaðið hér að neðan og inniheldur það nokkur myndbönd.   Hver er kveikjan? Kannski fyrst og fremst metnaður ritstjórnar sem fann strax fyrir miklum velvilja þegar hugmyndin var kynnt fólki. Uppleggið var að draga upp jákvæða mynd af mannlífi og atvinnulífi í Vestmannaeyjum og þar er af nógu að taka. Þessu viljum við koma á framfæri til landsmanna.   Sérstaða samfélagsins er að vera staðsett á eyju og hefur Eyjamönnum lærst að vera sjálfum sér nægir á sem flestum sviðum. Hér eru verslanir óvenju margar miðað við íbúafjölda og vekja athygli ferðamanna fyrir fjölbreytt vöruúrval og hagstætt verð. Veitingahús í Eyjum eru í flokki með þeim bestu á landinu og hefur hróður þeirra borist út fyrir landsteinana. Söfn eru mörg og þykja með því besta sem þekkist hér á landi eins og sjá má í blaðinu. Þá er hér öflugt menningarlíf sem m.a. tengist söfnunum. Leikfélag Vestmannaeyja hefur sett hvert aðsóknarmetið á undaförnum árum og hlýtur það að teljast til tíðinda þegar rúmur fjórðungur bæjarbúa mætir á eina sýningu.   Eyjamenn eru veisluglaðir og kunna að skemmta sér og öðrum. Það sýna Þjóðhátíðin sem er fjölskylduhátíð í sérflokki og það saman má segja um Þrettándagleðina sem hvergi er glæsilegri en í Eyjum. Goslokahátíð hefur þróast í að verða ein allsherjar menningarveisla og er sennilega stærsta ættarmót landsins. Þá má ekki gleyma íþróttamótunum sem draga til sín þúsundir á hverju ári.   Þessu öllu eru gerð skil í blaðinu og vonum við að lesendur kunni að meta það sem við höfum fram að færa. Eyjafréttir vilja þakka öllum sem hafa stutt okkur með einum eða öðrum hætti við útkomu þessa blaðs og vonumst til að standa undir væntingum.   Ómar Garðarsson, ristjóri.     VESTMANNAEYJAR

Sýningin einlæg og í senn kómísk ádeila

Íslenska rappsveitin Reykjavíkurdætur hefur undanfarin misseri sýnt á sér nýja hlið í Borgarleikhúsinu en þar standa yfir sýningar á verkinu RVK DTR– THE SHOW. Um er að ræða verk sem hópurinn samdi sjálfur þar sem lög sveitarinnar eru tengd saman með leikþáttum. Hópurinn notar form spjallþátta til þess að segja sögu og koma sinni meiningu á framfæri. Í sýningunni er Reykjavíkurdætrum gefinn laus taumurinn en eins og flestir vita eru þær vinkonur langt frá því að vera óumdeildar en mikið var rætt og ritað um atvikið þegar leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir gekk út í beinni útsendingu í spjallþættinum Vikunni með Gísla Marteini, í miðjum flutningi Reykjavíkurdætra á laginu „Ógeðsleg“.   Þura Stína Kristleifsdóttir er Vestmannaeyingur í húð og hár og í senn Reykjavíkurdóttir en fyrir rúmu ári síðan gekk hún til liðs við rappsveitina. Þura er sannarlega ekki við eina fjölina felld en hún hefur einnig getið sér gott orð sem plötusnúðurinn DJ SURA, ásamt því að koma reglulega fram með hljómsveit sinni Cyber. Þura útskrifaðist sömuleiðis með BA gráðu í grafískri hönnun fyrir um ári síðan og starfar í dag sem grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Brandenburg samhliða tónlistinni.    „Ég er í sambúð með Arnari Jónmundssyni og kem úr Hrauntúnsmafíunni úr Vestmannaeyjum sem Guðmundur Þ.B afi minn og amma Þura Stína halda þétt utan um,“ segir Þura þegar hún gefur blaðamanni frekari deili á sjálfri sér. Eins og fyrr segir standa Reykjavíkurdætur í ströngu þessa dagana í Borgarleikhúsinu en stórum sviðum er hljómsveitin alls ekki ókunn samkvæmt Þuru. „Reykjavíkurdætur eru hljómsveit sem hefur spilað á öllum helstu tónlistarhátíðum Íslands – nema kannski á þjóðhátíð, sem mér finnst dapurt þar sem Reykjavíkurdætur hafa haft mikil áhrif á rappmenningu á Íslandi. Við höfum spilað á mörgum hátíðum erlendis, þ.á.m. Eurosonic í Hollandi, Trans Musicales í Frakklandi og á Hróaskeldu í Danmörku.“ Þess má geta að hljómsveitin var tilnefnd til tvennra verðlauna á íslensku tónlistarverðlaununum, annars vegar fyrir plötu ársins og hins vegar fyrir sviðsframkomu ársins.   Hvernig og hvenær kemur þú inn í þetta verkefni? „Ég kem frekar óvænt inn í Reykjavíkurdætur en ég fékk símtal fyrir rúmu ári þar sem stelpurnar vantaði DJ fyrir Evróputúr um sumarið. Aðdragandinn var ekki langur en ég hafði bókstaflega hálftíma til að svara hvort ég kæmist með eða ekki. Fyrir mér var þetta ekki erfið ákvörðun þar sem ég hef lengi verið inní íslenska hiphop heiminum og langaði að taka beinan þátt. Þess vegna fannst mér tryllt að loksins væri kominn hópur af stelpum að rappa á Íslandi með sömu sýn um að stelpur eigi fullt erindi í íslenska rappmenningu. En svo er ég líka mjög mikil já manneskja og reyni oftast að taka að mér allt sem ég get og hef áhuga á. Það var hins vegar mjög fyndið að ég hafði ráðið mig í heilan túr án þess að hafa spilað með þeim áður, ég kannaðist við nokkrar þeirra en þekkti þær annars ekkert,“ segir Þura.   Skildi um leið hversu erfitt það er að eiga við fordóma samfélagsins Mikið fjaðrafok var í kringum Reykjavíkurdætur í kjölfar sjónvarpsþáttarins Vikunnar með Gísla Marteini og segir Þura að fyrst þá hafi hún gert sér grein fyrir hversu erfitt það getur reynst að eiga við fordóma samfélagsins. „Ég man að ég horfði á þáttinn og sá alls ekkert athugavert við þetta, fór svo beint að spila á Prikinu og pældi ekkert meira í þessu. Daginn eftir og mörgum dögum seinna voru margir miður sín fyrir mína hönd að vera að fara að spila með þeim í framhaldinu. Ég fékk fáránlegar spurningar í hneykslistón eins og „ertu viss?“, „getur þú bakkað út úr þessu?“, „þetta er alveg rosalegt þetta með Reykjavíkurdætur“. Nánast allir af þeim sem töluðu við mig um þetta voru ekki búnir að sjá atriðið í Vikunni en bara búnir að lesa sér til um málið. Þarna var mér kippt beint út í djúpu laugina, í þeirra raunveruleika, áður en ég var formlega byrjuð í hljómsveitinni og skildi ég um leið hversu erfitt það er að eiga við alla þessa fordóma og gagnrýni sem á ekki rétt á sér í samfélagi sem á það til að vera með sleggjudóma.“   Það er ekkert launungarmál að Reykjavíkurdætur eru pólitískar þegar kemur að textagerð og framkomu þar sem femínismi og kvenréttindi eru í fyrirrúmi. Er það fyrst og fremst hlutverk þessa félagsskapar? „Þessi spurning er orðin svo þreytt í mínum eyrum, en mér finnst alltaf jafn mikilvægt að svara henni þar sem hún er svo fáránleg. Það er auðvitað ekkert launungarmál að það hallar á konur í tónlistarbransanum á Íslandi. En það heyrist ennþá ósönn og úrelt tugga um að við séum bara svona fáar eða jafnvel ekki til í að koma fram. Það er að sjálfsögðu ekki rétt en samt virðast tónleikahaldarar og hátíðir enn eiga í basli með að bóka ekki bara karlmenn. Sem dæmi má sjá konur í þremur atriðum af 16 sem er nú þegar búið að bóka á Þjóðhátíð í ár. Það að kvenréttindi og femínismi skipti okkur máli á ekkert bara við um okkur eða bara við um konur. Þetta er eitthvað sem á að vera sjálfsagt mál en er það ekki. Það á sérstaklega við um mjög karllægt svið rappsins en þar eru kynbundin ummæli látin falla um okkur og þá aðallega sem snúa að kynferði okkar – ekki eins og það myndi að öllu jöfnu snúast um tónlistina, textasmíð eða framkomu. Annars fjallar nýja platan nánast bara um djammið þrátt fyrir að það sé ekki fyrst og fremst hlutverk þessa félagsskapar en ætli þessi spurning haldi samt ekki áfram að koma,“ segir Þura.   Hvernig myndir þú lýsa sýningunni RVK DTR? „Ferlið er búið að vera ótrúlega skemmtilegt, langt og verkið sjálft hefur breyst mjög mikið en við erum auðvitað margar og höfum margt að segja. Þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni sem Kolfinna Nikulásdóttir setur upp eftir útskrift sína úr Listaháskólanum en hún er búin að halda ótrúlega vel utan um okkur og sýninguna. Það hefur auðvitað hjálpað okkur að vera í frábærri aðstöðu Borgarleikhússins og fá tækifæri til að vinna í atvinnuleikhúsi með öllu fagfólkinu sem þar er. En okkur var gefið 100% traust með engri ritskoðun og frjálsar hendur er varðar handrit sýningarinnar. Sýningin er í raun mjög einlæg af okkar hálfu en einnig kómísk ádeila á stöðu kvenna og jafnvel karla sem svara fyrir konur varðandi þeirra hlutverk í nútíma samfélagi,“ segir Þura.   Sýningin fengið góð viðbrögð Viðbrögðin við sýningunni segir Þura hafa verið góð en hún hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. „Við erum auðvitað langflestar ekki menntaðar leikkonur og ekki vanar á sviði leikhúsa og því vissum við kannski ekki alveg hverju við áttum von á. Fréttablaðið gaf okkur þrjár stjörnur og DV fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Það var skrýtið að lesa almenna leikhúsgagnrýni á eitthvað sem er manni svo náið en við vorum auðvitað mjög stoltar og ánægðar með dómana. Það eru þó aðallega viðbrögð áhorfenda og fólksins sem er nú þegar búið að koma á sýninguna sem snertir mann. Að fá standandi lófaklapp á nánast hverri sýningu og að lesa fallega gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir sýningar er ótrúlega fallegt og kærkomin tilbreyting en ég held að ég geti með sanni sagt að þetta séu bestu dómar sem Reykjavíkurdætur hafa fengið á Íslandi.“   Hvert er framhaldið hjá þér og Reykjavíkurdætrum? „Það er EP plata að koma út núna á næstunni með fullt af nýju efni. Svo er ótrúlega mikið á dagskrá framundan en eftir sýningar í Borgarleikhúsinu munum við fara til Færeyja og hita upp fyrir MO á G-Festival. Eins erum við alltaf að spila mikið erlendis en í sumar erum við bókaðar á Spáni, Hollandi, Frakklandi, Noregi, Grænlandi og eitthvað hérna heima líka. Við erum þéttur hópur og bókstaflega systur, það er mikið sem við fáum að upplifa, gera og framkvæma saman. Allt sem er að gerast er svo ótrúlega spennandi en það eru auðvitað forréttindi að fá að ferðast, koma fram fyrir þúsundir og gera það sem okkur finnst skemmtilegast,“ segir Þura að lokum.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>