Gjafmildir Þingholtsfrændur í Gírkassahreppi

Gjafmildir Þingholtsfrændur í Gírkassahreppi

 Á goslokahátíðinni voru nokkrir Þingholtsfrændur þeir, Biggi, Grétar, Gylfi, Huginn og Sigurgeir með opið í nýrri kró sinni sem þeir kalla Zame í Gírkassahreppi. Þeir voru með vínveitingaleyfi á Sjóbarnum á laugardagskvöldið.
Þeir tóku þá góðu ákvörðun að allur ágóði af barnum skyldi renna til góðgerðarmála. Hraunbúðir voru fyrir valinu og að keyptar yrðu vörur sem myndu auka á vellíðan heimilismanna. Það var vel til fundið enda tengjast bardömur þeirra frænda Hraunbúðum allar á einn eða annan hátt.
 
Starfsfólk og heimilismenn á Hraunbúðum eru mjög ánægð með þessa ráðstöfun þeirra frænda og hefur þegar verið ákveðið að festa kaup á nokkrum rafmagnsnuddtækjum fyrir herðar og fætur og nuddsessum.
Þetta verkefni styrktu einnig Gunnar Berg Viktorsson og Heildsala Kristmanns Karlssonar.
 
Fréttatilkynning.
 
 
 

FERMING 2018

Fyrstu fermingarnar í Vestmannaeyjum verða haldnar um helgina. Í síðustu viku kom út fermingarbað Eyjafrétta.      Fallegustu skreytingarnar eru oftast þær einföldustu Áhugamál fermingarbarnanna verða oftar en ekki þema fermingarveislunnar og í skreytingum, einnig velja flestir litaþema sem sjá má í servéttum, kertum og fleiru. Ekki þurfa skreytingarnar að vera flóknar, smá upphækun á matarborðið með blómum, fermingarkerti og persónulegan hlut sem tengist barninu, eins og t.d. fyrstu skóna eða eitthvað sem tengist áhugamáli barnsins, þá ertu kominn með grunn af góðri skreytingu. Ljósmyndir eru mjög fallegt og persónulegt skraut. Myndir af fermingarbarninu í uppvextinum og að gera hluti sem það finnst skemmtilegt. Hægt er að hengja myndirnar upp, leggja undir kúpul eða setja í glerkassa. Góð hugmynd er að endurnýta krukkur og glerflöskur sem vasa fyrir blóm eða kerti.     Fáðu hugmyndir Á Pinterest er hægt að fá innblástur og hugmyndir af allavega veislum og einnig er mikið af DIY(gerðu það sjálfur) skrauti sem hægt er að gera fyrir fermingardaginn. Ef þú vilt læra föndra eitthvað skraut, læra nýtt brot fyrir servétturnar eða fá hugmyndir af fermingargreiðslunni, allt þetta má finna í hafi af hugmyndum sem leynast á pinterest.   Blóm lífga upp á hvaða rými sem er og er mikilvægur partur af góðri skreytingu á fermingarborðið. Löber yfir dúkinn rammar borðið inn og smá skraut á hann skemmir ekki fyrir. Fermingarkerti eru flestir með og er hægt að hafa það í litaþemanu og skreyta það eða láta merkja það barninu og deginum. Öll blómin, löber og kertin á myndinni eru frá Blómaval.       Nátturulegt hár á fermingardaginn Svanhvít Una Yngvadóttir hárgreiðslukona hjá Crispus sem staðsett er í Heilsueyjunni, sagði að fermingarhárið í ár væri náttúrulegt og að hárið ætti að njóta sín. „Hárið er svo brotið upp með fléttu eða tekið upp í aðrahvora hliðina, ég nota alltaf lifandi blóm í fermingagreiðslurnar til að hafa þetta sem náttúrulegast. Annars vita stelpurnar alveg hvað þær vilja sem er frábært. Strákarnir eru flestir stuttklipptir og fallega greiddir. „ Þá erum við að tala um þessa týpisku herraklippingu og rakað í hliðunum, en þeir vita líka hvað þeir vilja og hafa fjölbreyttar óskir,“ sagði Svanhvít.       Fermingarfötin     Fermingartískan er skemmtileg í ár sagði Bertha Johansen eigandi Sölku. „Á stelpurnar hafa samfestingar sett skemmtilegan svip, blúndan er klassísk og kemur bæði inní kjólana og samfestingana og litirnir eru aðallega tveir, hvítur og bleikur. Það eru alltaf fleiri strákar sem kjósa að fara í þægilegar sparibuxur eða einfaldlega svartar gallabuxur, skyrturnar eru aðallega hvítar eða bláar en meiri fjölbreytni er í jökkunum og hálstauinu.“     Fallegar fermingargreiðslur hjá Ozio      Fermingargreiðslur síðustu ára hafa verið fyrst og fremst fallegar og einfaldar sagði Ása Svanhvít Jóhannesdóttir eigandi Ozio. En hún og Jóhanna Birgisdóttir gerðu tvær fallegar og ólíkar greiðslur í fermingarstúlkurnar Evu Sigurðardóttir og Berthu Þorsteinsdóttur.   „Það er mikið um liði og bylgjur þegar kemur að greiðslum. Það gerir hárið fínna og þar kemur breytingin frá slétta hárinu sem stelpur eru gjarnan með,“ sagði Ása. Við mælum samt með að gera eitthvað örlítið meira, „til dæmis að spenna hárið upp, aðra hliðina eða báðar. Einnig eru fléttur mjög vinsælar núna og svo verður greiðslan alltaf sérstakega glæsileg með smá látlausu skrauti sem passar við“ sagði Ása að lokum.         Hægt er að skoða fermingarblað Eyjafrétta hér að neðan eða með því að smella hér:   Fermingarblaðið / Eyjafréttir / Miðvikudagur 14. mars 2018

Viðkvæmir taki vasaklútana með

„Keppnistreyjan kom til landsins sama dag og landsliðstreyjan þannig við gátum ekki farið að stela þrumunni, við hefðum líklega orðið undir í þeirri keppni,“ segir Gunnar Helgason, rithöfundur, um Fálkatreyjuna sem hann klæddist í tilefni þess að fjölskyldu- og íþróttakvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður frumsýnd næstkomandi fimmtudag. Enn hann var í viðtali á K100 í gær, hægt er að hlusta á það hérna.   Heilmikil vinna er að baki kvikmyndinni en tíu ár eru liðin frá því að Gunnar byrjaði að skrifa bókina sem kvikmyndin er byggð á. „Þetta byrjaði sem hugmynd að bók fyrir drengi sem eru hættir að lesa, ég á svona vandamál heima hjá mér, þannig að ég skrifaði fótboltabók til að halda drengjunum mínum að lestri," segir Gunnar um bókina Víti í Vestmannaeyjum sem kom út árið 2011. „Nú er þetta bara orðið bíó, þetta er alveg klikkað. Og þetta er ekkert smá bíó, Bragi Þór Hinriksson leikstýrir þessu og við vorum sammála um það að þetta yrði að vera á stórmyndaskala," segir hann og bætir við að efnistökin séu þannig að viðkvæmir ættu að taka vasaklútana með. „Myndin er um vináttu og hvað það er að vera alvöru manneskja, það er það sem myndin er um í raun og veru, fótboltinn er bara bíllinn sem við notum á leiðinni.“   Nýtt tölublað af Eyjafréttum kemur út á morgun og þar er viðtal við eyjapæjuna Ísey Heiðarsdóttir en hún er ein af aðalleikurum myndarinnar.  

Bjarni Ólafur Guðmundsson er matgæðingur vikunnar: Fljótlegur pastaréttur & þorskhnakkar

Ég þakka Kristó vini mínum fyrir fallegt hrós og traustið. Það kemur nú aldrei nokkur maður að tómum kofanum hjá honum og hann er sannarlega vinsælasti starfsmaður Árvakurs. En ég ætla að bjóða upp á 2 rétti, annarsvegar fljót útbúinn pastarétt, sem var fyrsti rétturinn sem ég gaf Guðrúnu minni þegar ég bauð henni í mat fyrir tæpum 20 árum og hinsvegar þorsknakka með rjómasósu, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. En það má alveg skipta þorskhnakkanum út fyrir humar eða ýsu eða hvaða fisk sem er sem er í uppáhaldi. Útgáfuna af þorskhnakkanum fékk ég hjá vini mínum Grími Gíslasyni fyrir nokkru síðan.   Pastaréttur Sæt sinnepsssósa: • 1 sýrður rjómi 10% • 6 msk. Hellman´s létt majones • 2 tsk. sítrónusafi • 6 msk. sætt franskt sinnep • 6 vænar (kúfaðar) tsk. púður- sykur.   Hræra öllu saman og svo má alveg bæta við ef fólki finnst of lítið af þessu eða hinu  - ég geri það voða mikið. Ég geri alltaf meira en minna af sósunni, því okkur finnst gott að fá okkur af þessu daginn eftir.    • 2-300 gr. pasta (eftir því hvað þið eruð hrifin af því) • 1 dós aspas (skorinn) • 6-8 egg, harðsoðin – skorin í báta • 100 gr. skinka – skorin í bita • 100 gr. 26 % brauðostur – skorinn í bita • ½ agúrka – skorin í bita.   Sjóðum pastað að sjálfsögðu og setjum í sérskál. Annað hráefni setjum við í sérskálar og svo fær heimilisfólkið sér bara það sem því finnst best. Við berum þetta fram með ristuðu brauði og smjöri (viðbiti). Hér áður fyrr blandaði ég öllu saman en nú lofum við fólki að velja. Þessi réttur er jafnvel betri í hádeginu daginn eftir.   Ofnbakaður þorskhnakki með hvítlauk og basil eða með rjómasósu, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. • 6-8 stk. þorskhnakkar • 2-4 hvítlauksgeirar - eftir smekk og stærð • slatti af ferskri basiliku • 150 gr. smjör. Saxa hvítlauk og basiliku smátt og steikja í smjörinu og lofa því að malla í um 10-12 mínútur – passa hitann því það má ekki brenna hvítlaukinn en hann má alveg verða brúnleitur í lokin (verður það oft hjá mér). Raða þorskhnökkunum á ofnplötu og dreifa smjöri, hvítlauk og basiliku jafnt yfir. Þetta má gera nokkrum klukkutímum áður og lofa þessu að vinna saman. Baka í ofni við 180 gráður í 10-12 mín.   Rjómasósan: ½ paprika – skorin í lengjur 8-10 sveppir – skornir í bita 4 hvítlauksgeirar – smátt saxaðir slatti af brokkolí – skorið í bita 2 tómatar – skornir í báta 150 gr. smjör 2 tsk. kjöt og grill krydd ¾ tsk. karrý ½ tsk. Maccormick galic & parsley 2-3 tsk. Oscar fiskikraftur (gæti þurft meira) 2 dl. hvítvín (má sleppa) og sjóða þá niður með sama magni af vatni (ekki eins gott)  750 ml. rjómi. Sko – venjulega slatta ég og dassa allar uppskriftir og smakka svo til, þetta er því ekki nákvæmlega mælt en er mjög nálægt lagi  - það er bara ekkert gaman að fá uppskriftir sem maður má ekki leika sér smá með. Það má líka sleppa t.d. karrýi og setja inn basiliku í staðinn, og þá er ekki verra að eiga krydd frá SALT sem heitir Parmesan cheese & basil og nota það með. Þetta breytir sósunni aðeins. Steikið hvítlauk, papriku, sveppi og brokkolí upp úr smjörinu og kryddið með kjöt og grill, karrýi og hvítlaukskryddinu. Hér þarf ekki endilega að setja allt kryddið, það má vel bæta við þegar smakkað er til. Látið þetta malla smá og skellið svo hvítvíni út í og fiskikraftinum og sjóðið niður í ca 7-10 mín. Bætið rjómanum út í og haldið áfram að smakka til. Ca 10-15 mín. áður en ég ber þetta fram skelli ég tómötunum út í sósuna. • Hvítlauksbrauð: • 2 baquet brauð • 2 stk. hvítlauksgeirar • slatti af ferskri basiliku, smátt saxaðri • 150 gr. smjör • mikið af rifnum gratin osti. Steikja hvítlauk í smjöri og henda svo basilikunni út í – lofa að standa smá. Skera brauðið eftir endilöngu og sulla hvítlaukssmjörinu í og á brauðið. Þarna ræður svolítið ykkar smekkur á hvað er gott hvítlauksbrauð en við troðum miklu af osti í brauðið því okkur finnst það lykillinn. Baka þetta í ofni þar til það er gullinbrúnt. Svo bara sjóða hrísgrjón – bera fram og njóta. Gott hvítvín skemmir þessa kvöldstund ekki neitt, hvað þá góður félagsskapur.   Mig langar að skora á hana Katarinu hans Hlyns. Við höfum fengið alveg dásamlegan mat hjá henni og það væri bara frábært ef hún kynnti okkur fyrir úkraínskri matargerð með rússnesku ívafi.  

Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir er Eyjamaður vikunnar: Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Bikarmót FSÍ í stökkfimi fór fram laugardaginn 10. mars sl. Fimleikafélagið Rán sendi þrjú lið til keppni en stelpurnar í 2. flokki A urðu bikarmeistarar. Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir var einn liðsmanna 2. flokks A og er hún Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir. Fæðingardagur: 20. ágúst 2005. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Pabbi minn heitir Sigurjón Eðvarðsson, mamma mín heitir Elísa Kristmannsdóttir og svo á ég tvo bræður, Kristmann Þór og Jón Erling. Uppáhalds vefsíða: Er voða lítið að skoða vefsíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Öll skemmtileg danstónlist. Aðaláhugamál: Fimleikar, leika mér að dansa og vera með vinum og fjölskyldu. Uppáhalds app: Snapchat og instagram. Hvað óttastu: Að missa fjölskylduna mína og ég er líka hrædd við pöddur. Mottó í lífinu: Lifðu lífinu eins og hver dagur væri sá síðasti. Apple eða Android: Elska Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Enga sérstaka úr mannkynssögunni en ég hefði viljað kynnast ömmu Sigrúnu en hún lést 9 árum áður en ég fæddist. Hvaða bók lastu síðast: Eldgos í garðinum, hef alveg lesið betri bók. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Uppáhaldsíþróttamaðurinn minn er Simone Biles sem vann gullverðlaun á síðustu Ólympíuleikum. Uppáhaldsíþróttafélagið mitt er að sjálfsögðu ÍBV og Rán. Ertu hjátrúarfull: Nei, alls ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég æfi fimleika og fer stundum í Litla Hressó. Uppáhaldssjónvarpsefni: Riverdale og Teen Wolf. Er þetta fyrsti bikarinn sem þú færð í fimleikum: Nei, við fengum líka bikar á stökkmóti árið 2016. Hvernig verður maður góður í stökkfimi: Styrkir líkamann, mætir vel á æfingar, fer eftir því sem þjálfarinn segir, hefur trú á sjálfum sér og alltaf er mikilvægt að hafa gaman. Hver er draumur þinn sem fimleikakona: Halda áfram að bæta mig í fimleikum.  

Eykur öryggi Eyjamanna og slökkviliðsmanna

Fram til dagsins í dag þá hefur Slökkvilið Vestmannaeyja ekki haft yfir að ráða búnaði til að bjarga fólki eða berjast við eld í húsum sem eru hærri en 2-3 hæðir og „má segja að allt frá byggingu Hásteinsblokkarinnar þá hafi verið byggt upp fyrir getu slökkviliðsins.“ Friðrik Páll Arnfinnsson Slökkviliðsstjóri   Það var svo í janúar 2017 þegar Friðrik Páll benti enn einu sinni á alvarleika málsins með neikvæðri umsögn um byggingu íbúða á Fiskiðjureitnum þar sem hann sagði m.a. að „slökkviliðið er vanbúið tækjum í dag og hefur ekki yfir þeim lyftibúnaði að ráða sem nauðsynlegur er til björgunar af svölum háhýsa og til að sinna slökkvistarfi utanfrá í háhýsum.“ Eftir það fór málið loksins af stað hjá Umhverfis- og skipulagsráði og í framhaldinu bæjarstjórn. Friðrik fór svo fljótlega að svipast um eftir hentugu tæki og bauðst svo þessi bíll í lok síðasta árs,og í dag er bíllinn kominn.   „Þetta verður gríðarleg bylting og eykur ekki bara öryggi eyjamanna og slökkviliðsmanna, heldur auðveldar slökkviliðinu alla vinnu utanhúss hvort sem um er að ræða háhýsi eða bara vinnu á „venjulegu“ húsþaki þar sem þarf t.d. að rjúfa þakið til að reykræsta eða komast að eldi,“ sagði Friðrik Páll.   Bíllinn kemur frá slökkviliðinu í Sundsvall í Svíþjóð og er af gerðinni Scania P94, árgerð 2000 og er með 32m lyftibúnaði(skotbómu) frá Bronto Skylift. „Á bómunni er karfa fyrir 3.menn og öflug vatnsbyssa(monitor). Vatnslögn er upp alla bómu og að körfu og því þarf aðeins að tengja bílinn við t.d. brunahana eða dælubíl og þá er komið vatn upp í körfu. Þetta er sérhæft björgunartæki og búnaðurinn því talsvert flóknari og viðameiri en í hefðbundnum körfubíl en öllum búnaðinum þ.m.t.vatnsbunu og hreyfingu á monitor er bæði hægt að stjórna úr körfunni og svo líka úr sæti neðst á bómunni,“ sagði Friðrik Páll.   Þessa dagana er verið að undirbúa bílinn þar sem það þarf að merkja hann upp á nýtt, koma fyrir aukabúnaði o.fl, „svo munu taka við æfingar þar sem slökkviliðsmenn verða þjálfaðir í notkun á honum,“ sagði Friðrik Páll að endingu.    

Ástþór Hafdísarson vann í teiknisamkeppni MS

Á dögunum tók Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þátt í vali á verðlaunamyndum í teiknisamkeppni 4. bekkinga sem hófst sl. haust í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn. Keppnin hefur notið mikilla vinsælda til margra ára meðal grunnskólanemenda, kennara og skólastjórnenda og tók Lilja það sérstaklega fram þegar vinningsmyndirnar voru valdar að allar svona keppnir innan skólanna skiptu miklu máli fyrir skólastarfið og væru góð hvatning fyrir nemendur. Að auki væri þetta skemmtileg leið til að brjóta upp hefðbundið skólastarf.   Þátttakan í keppninni var sérstaklega góð að þessu sinni en rúmlega 1.400 myndir bárust frá 60 skólum alls staðar að af landinu. Tíu myndir voru valdar úr þessum mikla fjölda og er óhætt að segja að fréttirnar hafi vakið mikla lukku þegar skólastjórnendum voru færð tíðindin. Verðlaunahöfum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá Mjólkursamsölunni, sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi, og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag og efla liðsheild í samvinnu og samráði við umsjónakennara.   „Myndefnið í keppninni er frjálst en má gjarnan tengjast mjólk, hollustu og heilbrigði og er virkilega gaman að sjá þá miklu hugmyndaauðgi sem nemendurnir búa yfir. Nemendurnir eru í 4. bekk og því ekki nema 9 og 10 ára gamlir og frábært að sjá hversu hæfileikaríkir þeir eru og hve mikinn metnað margir leggja í myndirnar sínar,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðsfulltrúi MS og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar.   Ástþór Hafdísarson frá  Grunnskóla Vestmannaeyja var einn af þeim tíu sem unnu til verðlauna. Þetta er í fyrsta skipti sem nemandi frá Eyjum vinnur. Hann og bekkurinn hans fengu 40.000kr að gjöf og geta nýtt peninginn í að gera eitthvað skemmtilegt saman.   Aðrir vinninghafar voru: Ágúst Bragi Daðason, Fellaskóla í Fellabæ Eva Natalía Tosti, Kelduskóla Reykjavík Helgi Bjarnason, Álfhólsskóla Kópavogi Herdís Kristjánsdóttir, Melaskóla Reykjavík Jakub Stypulkowski, Grunnskólanum í Sandgerði Mia Ðuric, Fellaskóla Reykjavík Sara Dögg Sindradóttir, Hrafnagilsskóla Sveinar Birnir Sigurðsson, Síðuskóla Akureyri Valgerður Amelía Reynaldsdóttir, Gerðaskóla Garði    

Ljúfir tónar á degi tónlistarskólans - myndir

Í tilefni af degi tónlistarskólanna 2018 var Tónlistarskóli Vestmannaeyja með opið hús laugardaginn 17. febrúar sl. Þar gafst áhugasömum tækifæri til að heimsækja skólann, ræða við kennarana og að sjálfsögðu prófa hljóðfærin.    Ýmsir tónleikar voru í boði frá hæfileikaríkum nemendum skólans sem eru á öllum aldri. Eftir tónleika var hægt að fara um skólann, sjá hvað er í boði, prófa og njóta góðra tóna. Eins og góðum viðburði sæmir voru léttar veitingar í boði fyrir gesti og gangandi sem voru hæstánægðir með framtak skólans og ekki síst þau allra yngstu.    120 nemendur læra við skólann Jarl Sigurgeirsson starfandi skólastjóri Tónlistarskólans sagði í samtali við Eyjafréttir að dagurinn hefði gengið vel og gaman að sjá hvað margir litu við hjá þeim. Nemendur skólans eru núna 120 og er æft á allskonar hljófæri.    Opni dagurinn byrjaði á tónleikum hjá lúðrasveitinni. „Það eru núna 19 krakkar í lúðrasveitinni og er því skipt í yngri og eldri deild. Því miður hefur lúðrasveitarstarfið dalað nokkuð,“ sagði Jarl.   Skólalúðrasveit Vestmannaeyja 40 ára Skólalúðrasveit Vestmannaeyja fagnar 40 ára afmæli næsta fimmtudag. „Skólalúðrasveit Vestmannaeyja er sjálfstæð en hefur þó mikil tengsl inn í Tónlistarskólann. Það er gaman að segja frá því að Skólalúðrasveitin verður 40 ára núna næsta fimmtudag 22.febrúar. Við stillum fagnaðarlátunum í hóf þann daginn, en stefnum á að spila fyrir skátana um kvöldið sem eiga 80 ára afmæli sama dag,“ sagði Jarl. Afmælinu verður samt fagnað með vorinu. „ Þá munum við halda afmælistónleika þar sem sveitirnar munu spila ásamt gömlum félögum,“ sagði Jarl að lokum.    Hér má sjá myndir frá Óskari Pétri.  

Ekki hægt að skipa tvo skólastjóra yfir GRV

Á fundi fræðsluráðs í vikunni var lögð fram niðurstaða samráðshóps sem skipaður var af fræðsluráði þann 15. janúar sl. En samráðshópur fræðsluskrifstofu, Kennarafélags Vestmannaeyja og skólaráð hefur skoðað kosti og galla þess að hafa einn skólastjóra eða tvo yfir GRV.   Ljóst þykir að vegna ákvæða í lögum um grunnskóla er ekki hægt að skipa tvo skólastjóra yfir GRV án þessa að skipta skólanum í tvær skólaeiningar. Það er samróma álit samráðshópsins að vera áfram með einn skólastjóra. Atriði á borð við mikilvægi þess að halda í GRV sem einn sameinaðan skóla hefur þar mikið vægi og einnig að ekki er einhugur varðandi það að breyta og hafa tvo skólastjóra. Starfshópurinn leggur áherslu á að óbreytt skipurit stjórnunar kallar áfram á aðgerðir til að tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og almennt stjórnun í GRV.   Sérálit Kennarafélags Vestmannaeyja Fulltrúar KV skiluðu séráliti þar sem þeir vilja árétta áherslur sem Kennarafélag Vestmannaeyja setur fram um að skoðaðar verði aðrar leiðir eins og fleiri deildastjóra og að áfram verði unnið að því að styrkja stoðkerfi skólans.   Samþykkt að GRV verði áfram sem einn skóli með einum skólastjóra Fræðsluráð þakkar samráðshópnum fyrir þær ábendingar og álit sem komið hafa fram. Í ljósi þessara niðurstaðna og umræðu sem ráðið hefur átt um málið á 301. og 302. fundi þess samþykkir ráðið að GRV verði áfram sem einn skóli með einum skólastjóra. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðsins, fræðslufulltrúa og skólastjóra GRV að fara vel yfir þær ábendingar sem komið hafa fram og vinni áfram að aðgerðum sem tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og stjórnun almennt í GRV. Fræðsluráð þakkar samstarfshópnum fyrir þeirra góðu vinnu, segir í bókun ráðsins.  

Eyjamenn kunna að hafa gaman

Sóli Hólm leggur nú land undir fót og mætir á Háaloftið í Vestmannaeyjum með splunkunýtt uppistand sem hlotið hefur frábærar viðtökur í kjallaranum á Hard Rock Cafe í Reykjavík. Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Háaloftinu.   „Ég er ótrúlega spenntur að koma til Vestmannaeyja með uppistandið mitt. Ég hef skemmt nokkrum sinnum í Vestmannaeyjum og alltaf gengið frábærlega. Eyjamenn kunna að hafa gaman, hvort sem það er fyrstu helgina í ágúst eða síðustu helgina í febrúar,“ sagði Sóli í samtali við Eyjafréttir.  Lætur drauminn rætast Sóli sagðist hafa komið fram í Höllinni en aldrei á Háaloftinu áður, „kollegar mínir fyrir sunnan sem hafa gert það segja að það henti einkar vel fyrir uppistand svo ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu. Ég er búinn að vera með þessa uppistandssýningu á Hard Rock í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri en þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera þegar ég greindist með krabbamein síðasta sumar. Þá ákvað ég að um leið og mér yrði batnað myndi ég kýla á að láta þennan draum rætast, að vera með eigin sýningu, og blessunarlega hafa viðtökurnar verið frábærar og alltaf verið uppselt hingað til,“ sagði Sóli.  Afi hans var bæjarstjóri Sóli á rætur að rekja til Eyja, „ég á mínar tengingar til Vestmannaeyja. Afi minn, Hilmir Hinriksson, var af Gilsbakkakyni og faðir hans, Hinrik G. Jónsson var bæjarstjóri í Eyjum frá 1938-1946. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að margir mæti sem muni eftir langafa sem bæarstjóra, en það væri ánægjulegt,“ sagði Sóli Hólm að lokum.  

Við leggjum metnað í að veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu

Jón Pétursson framkvæmdarstjóri fjölskyldu og fræðslusvið sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta að það væri löngu vitað að þróun á hlutfalli eldra fólks í Vestmannaeyjum væri að hækka mikið. „Þessi þróun hefur gegnið hratt í gegn frá árinu 2006. Fyrir þennan tíma var hlutfall +67 ára í Eyjum nokkuð undir landsmeðaltali en í dag erum við um 2% yfir meðaltali.“ Jón tók við núverandi starfi 2006 „ég fór strax að skoða hvernig væntanleg íbúaþróun yrði hér í Eyjum. Þá sá ég að börnum muni fækka hratt sem hefur haft mikil áhrif á skólakerfið og einnig að fjöldi eldra fólks muni vaxa hratt. Fjölgun í aldurshópi +67 má skýra út frá afleiðingum gossins.“     Ýmislegt í vinnslu í málefnum aldraða Jón sagði að margt væri í vinnslu í átt að bættri þjónustu við eldri borgara „ Búið er að vinna mikið starf í uppbyggingu á innra starfi og gæðamálum. Á Hraunbúðum erum við búin að koma upp bættri aðstöðu dagvistunar og færa matsalinn, endurnýja bjöllukerfið á heimilinu, færa til og líkamsræktarsalinn, koma upp aðstandendaherbergi, fjölga herbergjum og byggja álmu með bættri aðstöðu fyrir fólk með sérhæfðan vanda. Áfram verður unnið í uppbyggingu á innra starfinu og gæðamálum. Útbúa á hvíldarherbergi fyrir fólk í dagdvöl. Klára á garð sem tengdur er nýrri álmu. Vinna þarf áfram að ýmsum endurbótum og lagfærðingum innanhúss. Verið er kaupa öflugan fjölþjálfa í líkamsræktaraðstöðina. Áfram verður reynt að fá heimild frá ríkinu fyrir fleiri hjúkrunarrýmum,“ sagði Jón.   Dvalarrými á Hraunbúðum breytt í hjúkrunarrými Jón sagði að vilyrði hefur verið fyrir því að dvalarrými á Hraunbúðum verði breytt í hjúkrunarrými. „Stefnt er að því að breyta hluta dvalarrýma á Hraunbúðum í hjúkrunarrými. Byrjað er að byggja við Eyjahraun 1 – 6 fimm viðbótar íbúðir auk tengibyggingu við Hraunbúðir. Allar íbúðir í Eyjahrauni 1 – 6 samtals 11 íbúðir verða skilgreindar sem þjónustuíbúðir og eru hugsaðar fyrir þá sem eru í bráðri þörf á meiri þjónustu, eða bíða eftir vistun á Hraunbúðum eða maki er komin með vistun þar en viðkomandi ekki. Þessar íbúðir munu því koma að hluta til í stað dvalarrýma og verður það alfarið í höndum bæjarins að ákveða úthlutun þeirra,“ sagði Jón.   Snjallforrit sem auðveldar heimaþjónustuna Á næstu dögum hefst innleiðing á svokölluðu CareOns kerfi sem auðveldar allt utanumhald um heimaþjónustu sveitarféalgsins. „Um er að ræða snjallforrit sem starfsmenn heimaþjónustu nýta til að auka öryggi, sveigjanleika, hagræðingu og gæði þjónustunnar. Aðstandendur munu með samþykki þjónustuþega og í gegnum sama kerfi nýtt það til að fylgjast með þjónustunni. Unnið er samtímis að því að efla heimaþjónustu með því að koma á kvöld og helgarþjónustu við þá sem þurfa á að halda,“ sagð Jón.   Sífellt farið yfir þjónustuþætti Jón sagði að sífellt væri verið að fara yfir þá þjónustuþætti sem nýtast eldra fólki sem best. „Unnið er út frá þeirri stefnu sem gildir að aldraðir borgarar geti með viðeigandi stuðningi og einstaklingsmiðaðri þjónustu dvalið sem lengst á eigin heimili og að réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf sé virtur,“ sagði Jón. „Að lokum verð ég að nefna hversu hrærður ég er yfir þeim mikla velvilja og stuðningi sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í okkar samfélagi sýnir eldra fólki. Ekki má heldur gleyma að nefna það öfluga starf sem aldraðir veita í gegnum félag eldri borgara í Vestmannaeyjum. Við búum í góðu samfélagi sem leggur metnað í veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið,“ sagði Jón að lokum.   Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er umfjöllun um málefni aldraða. Allt um nýju álmuna á Hraunbúðum sem sérstakelga er fyrir fólk með heilabilun og þá sem þurfa sértæka aðstoð. Aðferðina sem farið verður í þar sem kallast amaste og svo miklu meira. Hægt er að nálgast viðtölin í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Nýliðaæfing Karlakórs Vestmannaeyja

Karlakórinn heldur nýliðaæfingu á sínum hefðbundna æfingatíma, sunnudaginn nk. 18. febrúar kl. 16:00. Er þetta kjörið tækifæri fyrir söngelska karla að koma og syngja í frábærum félagsskap. Á dagskrá kórsins þetta vorið eru m.a. æfingaferð á meginlandið sem og árlegir vortónleikar í maí.   Eftirfarandi tvær mýtur eru algengar meðal þeirra sem langar að prófa en hafa sig ekki í það:   Þú telur þig ekki geta sungið. Það kann að vera rétt að það sé ekki einn af kostum þínum að syngja einn og óstuddur, en í kór geta allir sungið sem geta farið eftir einföldum leiðbeiningum, hlýtt stjórnanda og hlustað á það sem aðrir eru að gera í kring um þá. Í kórum í dag eru meðlimir sem þurftu mikla leiðsögn til að byrja með en náðu fljótt og örugglega að stilla sig inn á þá bylgjulengd sem kórsöngur er á og eru allir þeir í dag fanta góðir kórsöngvarar     Þú telur þig ekki hafa tíma. Það getur vel passað og við rengjum það ekki, en um leið viljum við benda þér á að ein megin stoð kórsins eru sjómenn. Eins og gefur að skilja eru þeir ekki alltaf í landi þegar kórkallið kemur. Þeir láta það þó ekki stoppa sig í að vera með þegar þeir geta. Karlakórinn á ekki að vera kvöð heldur skemmtun. Þú kemur þegar þú getur. Vertu bara hreinskilin með hver tími þinn er ef hann er takmarkaður og allir eru sáttir.       Stjórn Karlakórs Vestmannaeyja  

Fréttapýramídi Eyjafrétta 2017

Fréttapýramítinn var afhentur á Háaloftinu í hádeginu í dag. Að þessu sinni voru Eyjamenn ársins þrjár, en það voru mæðurnar Oddný Þ. Garðarsdóttir, Vera Björk Einarsdóttir og Þóranna M. Sigurbergsdóttir sem eru Eyjamenn ársins 2017. Þær eru konur sem sýnt hafa hvernig hægt er að snúa missi í mátt.   Vinkonurnar þrjár gáfu út bókina móðir, missir, máttur síðasta haust. Þar sem þær deila reynslu sinni á því að missa barn. Það þarf kjark til þess að opinbera dýpstu sorgir sínar og vanlíðan fyrir framan almenning. Að segja frá reynslu sinni að missa barn og sína þar með mátt sinn.   Skrifa bók þar sem reynslunni er lýst á einlægan, heiðarlegan og fallegan hátt .   Þóranna, Oddný og Vera lýsa því í bókinni hvernig allur bærinn tók utan um þær. Fólk sem þær þekktu lítið sem ekkert bönkuðu uppá hjá þeim til þess að aðstoða eða sýna stuðning í stóru sem smáu.   Það segir mikið um samstöðuna í Eyjum, að þær vinkonurnar skuli vera þakklátar fyrir að hafa búið þar þegar sorgin knúði dyra hjá þeim.   Með bókinni Móðir, missir, máttur hafa þær hjálpað fjölskyldum sínum og vinum en einnig bæjarbúum sem upplifðu missinn með þeim og fannst þeir eflaust oft lítið geta gert til þess að takast á við atburðina.   Fyrirtæki ársins 2017 Fleirri verðlaun voru veitt, fyrirtæki ársins 2017 var að mati ritstjórnar Eyjafrétta The brothers brewery. Þeir byrjuðu að brugga í bílskúr, en eiga nú besta brugghúsið á Íslandi. Hugmyndin var upphaflega lítið áhugamál sem kviknaði en í dag sér ekki fyrir endan á ævintýrinu. Áhuginn og ástríðan leynir sér ekki og allir eru velkomnir til þeirra. Þeir láta samfélagið sig varða og hafa styrkt krabbameinfélagið í Vestmannaeyjum og hafa hafið samstarf við Heimaey vinnu- og hæfingarstöð. En fyrst og fremst hafa þeir komið bæjarmenningunni á nýjar víddir.   Framtak til menningarmála Þriðjudaginn 23. janúar eru 45 ár síðan eldgos á Heimey hófst. En þá urðu til 5300 sögur af fólki sem þurfti að yfirefa heimilin sín. Þegar hugmynd kom upp um að safna saman nöfnum þeirra sem fóru með hverjum bát greip Ingibergur Óskarsson boltann og hefur unnið að því hörðum höndum að safna og skrásetja nöfnin og hefur hann náð ótrúlegum árangri sem hægt er á sjá á síðunni hans allir í bátanna, ásamt fullt af sögum sem ekki eru síðri. Ingibergur Óskarssson halut Fréttapýramídann fyrir þetta einstaka framtak til menningarsögu Eyjanna og á eftir að verða ómetanleg heimild þegar fram líða stundir.   Framlag til íþrótta árið 2017. Sigríður Lára Garðarsdóttir hóf að æfa knattspyrnu með ÍBV fimm ára gömul og hefur hún leikið með félaginu allar götur síðan. Snemma komu hæfileikar og metnaður Sigríðar Láru í ljós en hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki einungis 15 ára gömul, en í dag, tæpum tíu árum síðar, eru leikirnir orðnir 148.   Sigríður Lára hefur sömuleiðis látið að sér kveða með yngri landsliðum Íslands og núna síðast fylgdumst með henni spila með A-landsliðinu, en hún var til að mynda í byrjunarliði liðsins í lokakeppni EM síðasta sumar.   En umfram allt er Sigríður Lára góð fyrirmynd, innan sem utan vallar og er vel að því komin að hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþrótta árið 2017. Hægt er að lesa nánar um athöfnina í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.    

98% ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum

Á miðvikudaginn fjallaði fjölskyldu- og tómstundaráð um þann hluta þjónustukönnunar Gallup sem að ráðinu snýr. Almenn og vaxandi ánægja mældist með alla þessa þjónustuþætti. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.    98% þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (92%) voru 98% ánægð en einungis 2% óánægð. Ánægjan eykst mikið á milli ára og er einkunn Vestmannaeyjabæjar (á skalanum 1 til 5) 4,4 og því hátt yfir landsmeðaltali sem er 4,0.   83% ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   78% ánægð með aðstöðu við fatlað fólk Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (72%) sögðust 78% vera ánægð en 22% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   76% ánægð með þjónustu við eldri borgara Þá var spurt hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (75%) sögðust 76% vera ánægð en 24% óánægð og eykst ánægjan verulega á milli ára og er nokkuð hátt yfir landsmeðaltali. Elliði Vignisson birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

“Efndanna er vant þá heitið er gert”

„Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eða eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti Hjaltason alþingismaður í samtali við Eyjafréttir. Hann sagði einnig að hann hefði lofað þessu í kosningabaráttunni, „Efndanna er vant þá heitið er gert. Það er í raun furðulegt, að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. „Þetta er stór dagur hjá okkur,“ sagði hann að endingu.   Frumvarpið hljóðar svona og mun gagnast líka Grímseyingum, Hríseyingum og Flateyingum       1. gr. Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi: Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem luktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.   2. gr. 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir skv. e-lið 8. gr. til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.   3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.   Greinargerð. Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Það þarf að leysa þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og að auki einnig öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar, sem búseta er í, árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey í Eyjafirði.   Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins. Í máli 4904/2007 fjallaði umboðsmaður Alþingis um kvörtun yfir gjaldtöku vegna afnota af ferjunni m/s Herjólfi, sem sigldi á þeim tíma milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og hækkun Eimskipafélags Íslands ehf. á gjaldskrá ferjunnar í ársbyrjun 2007. Var því m.a. haldið fram að m/s Herjólfur teldist þjóðvegur í skilningi vegalaga. Umboðsmaður komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ferjur yrðu ekki skilgreindar sem þjóðvegir, hvorki samkvæmt núgildandi vegalögum, nr. 80/2007, né eldri vegalögum. Umboðsmaður tók fram að m/s Herjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í samgöngum milli Vestmannaeyja og annarra hluta landsins og hefði hlutverk sem væri að nokkru marki eðlislíkt því hlutverki sem vegir hefðu almennt í samgöngum hér á landi. Þrátt fyrir það var álit umboðsmanns að það atriði eitt og sér leiddi ekki til þess, að virtum ákvæðum vegalaga, að litið yrði á ferjuna sem „þjóðveg“ milli Vestmannaeyja og lands í skilningi vegalaga. Í ljósi þessarar niðurstöðu er það mat flutningsmanns frumvarps þessa að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á vegalögum til að taka af öll tvímæli um þann ásetning löggjafans að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreininguna á þjóðvegum samkvæmt vegalögum. Árið 2017 var unnin ítarleg þjónustugreining fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af RHA, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að krafa íbúa um hreyfanleika er að aukast og fólk vill geta komist á milli lands og Eyja með sem minnstum fyrirvara og að tíðni ferða sé sem mest. Töluvert er um að fólk fari upp á meginlandið til að sækja sér þjónustu, vinnu og afþreyingu. Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki sem treysta á flutninga milli lands og Eyja, svo sem flutning á hráefni fyrir fiskvinnslu og fiskafurðir á markað o.s.frv. Fyrir þessa aðila er mikilvægt að engar tafir verði á flutningum. Einnig kemur fram að tryggar ferjusiglingar eru líka mikilvægar fyrir aðila í ferðaþjónustu. Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið gildi jafnt um íbúa annarra eyja í kringum landið. Í kafla 4.1 greiningarinnar er fjallað um „þjóðveg á milli lands og Eyja“ og þar er m.a. lagt til að Vegagerðin búi til sérstakan þjónustuflokk, eftir að ferjuleiðir verða skilgreindar sem þjóðvegur. Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.    

Greinar >>

Georg Eiður: Stórskipahöfn í Vestmannaeyjum

Hefur verið draumur margra hér í Vestmannaeyjum árum og áratugum saman og reglulega setja framboð, sem bjóða fram hér í Eyjum, fram mjög vel útfærðar hugmyndir, en ekkert gerist.   Á 183. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 29.09.2015 var á dagskrá mál sem heitir bætt aðstaða fyrir móttöku skemmtiferðaskipa. Framkvæmdastjóri lagði fram uppfærða kostnaðaráætlun á flotbryggju norðan Eiðis. Hafnsögumaður fór yfir möguleika á móttöku skemmtiferðaskipa og sérstaklega ræddur möguleiki á aðstöðu norðan Eiðis og í Skansfjöru.   Mín afstaða á þessu hefur alltaf verið skýr. Stórskipa viðlegukantur við Eiðið er málið en hugmyndir um viðlögukant við Skansfjöru myndi fyrst og fremst aðeins nýtast skemmtiferðaskipum og þá aðeins þegar best og blíðast væri.   Vandamálið er kannski fyrst og fremst kostnaðar áætlunin, en Skans hugmyndin var áætlað að myndi kosta ca. 1300 milljónir en þá að sjálfsögðu fyrir utan allar framkvæmdir á landinu sjálfu, en stórskipa viðlögubryggja fyrir Eiðinu áætlað að kosti milli 6-7 milljarða.   Stærsti munurinn er hins vegar sá að slík bryggja myndi að sjálfsögðu auka verulega möguleika okkar á að taka allar stærðir af skipum, bæði skemmtiferðaskipum en líka gámaskipum. Einnig væri möguleiki þar að landa hugsanlega beint í gáma, enda er löndunar höfnin okkar nánast sprungin, eitthvað sem mun klárlega ekki lagast með komu tveggja nýrra togara núna í sumar, en að sjálfsögðu gerist þetta ekki af sjálfu sér.   Á 184. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 03.11.2015 óskaði ég eftir því að við tækjum aftur upp umræðuna um móttöku skemmtiferðaskipa og bókaði þar, að stefnt yrði að því að koma upp flotbryggju með landgangi við Eiðiðsfjöru, strax næsta sumar. framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir og ræða við hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni, sem hafa áhuga á að nýta sér flotbryggjuna í suðlægum áttum, með það í huga að í staðinn komi þeir að, eða sjái um, uppbyggingu á aðstöðu á Eiðinu. Ekki er gert ráð fyrir að ferðamenn fari gangandi frá Eiðinu og framkvæmdastjóra því falið að ræða við ferðaþjónustaðila um það mál.   Hugmyndin á bak við þessa bókun var bæði til þess að reyna að ýta málinu af stað, en að sjálfsögðu líka til þess að reyna að beina meirihlutanum á rétta leið, því að að mínu mati er þessi Skansfjöru hugmynd að mestu leyti tóm þvæla, enda augljóst að mínu mati, að aðstæður þar bjóði ekki upp á skíka aðstöðu, fyrir utan það að það er náttúrlulega alveg galið að hægt verði að þjónusta gámaskip þar með tilheyrandi flutningum á gámum í gegn um miðbæinn.   Að sjálfsögðu var meirihlutinn algjörlega ósammála mér, en enn meiri vonbrigðum olli það mér að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans líka og m.a. minnir mig að amk. annar bæjarfulltrúinn hafi greitt atkvæði gegn minni hugmynd.   Nú er til kynningar framtíðar skipulagsáætlun sem á að gilda til 2035. Þar er einnig talað um viðlögukant fyrir Eiðinu og/eða í Skansfjöru. Þetta er nú sennilega það mál sem ég hef mest rifist um í nefndum bæjarins, en það er mín skoðun að framboð sem setja fram þessa hugmynd og halda inni Skans hugmyndinni, geri það bara til þess að tefja málið. Eiðis hugmyndin er ágæt eins hún er kynnt í þessu framtíðar skipulagi, en það er þó einn stór galli á henni sem ég hefði viljað sjá breytt, en í útfærslunni er aðeins talað um að hægt væri að leggjast að viðlögukantinum að sunnan verðu.   Mín skoðun er hins vegar sú, að ef þetta verður einhvern tímann að veruleika þá eigi að gera þetta þannig að hægt sé að leggjast að kantinum, bæði norðan og sunnan megin og tvöfalda þannig nýtingar möguleikana og að sjálfsögðu þá líka tekjurnar.   Góður vinur minn úr starfinu með Eyjalistanum (en störfum mínum fyrir Eyjalistan lauk formlega í dag) spáði því í samtali okkar um síðustu helgi að stórskipa viðlögukanntur fyrir Eiðinu myndi aldrei verða að veruleika vegna kostnaðar.   Fyrir mig hins vegar snýst þetta ekki bara um að eyða fullt af peningum, heldur einmitt þver öfugt að auka verulega tekjurnar til lengri tíma litið, en kannski má segja að þetta mál sé einmitt svona mál sem að þeir sem byggðu upp Eyjuna okkar á sínum tíma, hefðu einfaldlega bara vaðið í, en í dag virðist vera ríkjandi einhvers konar kjarkleysi og það ekki bara hjá meirihlutanum, heldur minnihlutanum líka.  

VefTíví >>