Fréttatilkynning:

Landakirkju gospel á vorhátíð

Fréttatilkynning:

Landakirkju gospel á vorhátíð

Vorhátíð Landakirkju verður haldin sunnudaginn 29. apríl nk. Á hátíðinni kennir ýmisa grasa en hún hefst með fjölskyldumessu á sunnudagsmorgun kl. 11:00 þar sem Sunday School Party Band mun leika undir söng kirkjugesta, biblíusagan verður á sínum stað og mikið verður sprellað. Að lokinni messu býður sóknarnefnd kirkjugestum í grillaðar pulsur og með því og leiðtogar í barna- og unglingastarfi sjá um leiki fyrir börnin.
 
Kl. 20:00 bjóðum við svo Eyjamönnum upp á kraftmikla gospelmessu en Kór Landakirkju hefur undanfarnar vikur lagt hart að sér við undirbúning hennar undir stjórn Kitty Kovács. Kórnum til halds og trausts verða svo Messuguttarnir sem að þessu sinni skipa trommuleikarinn Birgir Nielsen, bassaleikarinn Kristinn Jónsson og gítarleikarinn og æskulýðsfulltrúinn Gísli Stefánsson. Kitty Kovács stjórnandi kórsins leikur undir á píanó. Fjöldi einsöngvara mun syngja mun syngja í messunni, þau Guðlaugur Ólafsson, Andra Hugó Runólfsson, Sæþór Vídó Þorbjarnarson, Marta Jónsdóttir og Edda Sigfúsdóttir. Gísli Stefánsson æskulýðsfulltrúi Landakirkju mun svo predika. Við skorum á alla að láta þetta ekki framhjá sér fara.
 

Thelma Lind er Eyjamaður vikunnar: Vann gjafabréf í tombólu

Skóladagur GRV var haldinn sl. miðvikudag en þar var í boði fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur og aðra gesti. Líkt og fyrri ár var tombólan á sínum stað en meðal vinninga var gjafabréf frá Eyjafréttum en handhafi þess fékk að vera Eyjamaður vikunnar. Hin níu ára gamla Thelma Lind Ágústsdóttir varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna gjafabréfið og er hún því Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Thelma Lind Ágústsdóttir. Fæðingardagur: 8. desember, 2009. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma: Kristjana Sif, pabbi: Ágúst Sævar, systir mín heitir Andrea og stjúpsystir Guðbjörg Sól. Uppáhalds vefsíða: Friv.com og Youtube.com Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Havana og Friends. Aðaláhugamál: Fara í sund. Uppáhalds app: Rider. Hvað óttastu: Skrímsli. Mottó í lífinu: Að koma fram við alla eins og ég vill að aðrir komi fram við mig. Apple eða Android: Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ariana Grande og Sara Larsson.  Hvaða bók lastu síðast: Vera til vandræða er alveg mögnuð. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Agnar Smári og ÍBV. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Fimleika og Fótbolta. Uppáhaldssjónvarpsefni: Winx. Var gaman á skóladeginum: Já, mjög gaman. Kom þér á óvart að vinna gjafabréfið: Já mjög. Það að vera Eyjamaður vikunnar er að margra mati mesti heiður sem að manni getur hlotnast í lífinu. Heldur þú að krakkarnir í bekknum verði öfundsjúkir út í þig eða eigi bara eftir að samgleðjast þér: Samgleðjast mér.    

Ómar Garðarsson er matgæðingur vikunnar - Grænmetissúpa súpusnillings

Það getur verið erfitt að vera bestur í einhverju en maður á ekki að láta það þvælast fyrir sér frekar en Zlatan Ibrahimovic sem nú hefur lagt sjálfa Los Angeles að fótum sér. Óumdeildur snillingur í fótbolta eins og ég er súpugerð. Er þó öllu hógværari en Zlatan sem keypti opnu í LA Times til láta vita að viðbrögð borgarbúa við komu hans væru honum þóknanleg. Já, sannur snillingur. Þegar mér bauðst tækifæri á að opinbera snilli mína í súpugerð hér í Eyjafréttum gat ég ekki sagt nei og kem hér með eina í einfaldari kantinum. Mín uppskrift er samkvæmt sérfræðiáliti um 80 prósent Vegan en lítið þarf til að stíga skrefið til fulls.   Súpa af dýrari gerðinni • Hveiti og smjör í bollu. • Vatn eftir þörfum. • Grænmetiskraftur. • Rjómi. • Koníak. • Salt og pipar. • Sveppir eða annað grænmeti. • Laukur, einn eða tveir eftir magni. • Rauð paprika, algjört skilyrði.   Saxið grænmetið smátt og steikið í smjöri. Vegan sérfræðingurinn mælir með Vegan smjöri eða smjörlíki og hafrarjóma, Oatly. Bollan hrærð úti í vatninu og grænmetinu hrært saman við. Látið malla við vægan hita í tvo til þrjá klukkutíma. Salt og pipar og grænmetiskraftur eftir smekk. Rjómanum bætt út í og í lokin smá Koníaki sem fullkomnar verkið. Berist fram með góðu brauði.   Ég skora á Pál Grétarsson, mág minn sem er mikill snillingur í matargerð eins og þeir þekkja sem voru með honum á Huginn VE.  

Enginn Djass þessa Hvítasunnuna

Nú líður að Hvítasunnuhelgi og eru því eflaust ófáir sem hugsa með söknuði til Daga lita og tóna. Einu helgarinnar þar sem hlýða mátti á lifandi djass í Vestmannaeyjum. „Það er fyrst og fremst af söknuði sem við stöndum fyrir þessari hátíð,“ segir Sæþór Vídó formaður Bandalags vestmanneyskra söngva- og tónskálda, BEST, sem stendur að jazzhátíðinni Food & Funk sem fram fara átti fram um helgina. „Við fengum nokkra veitingastaði í lið með okkur til að prufukeyra þetta í ár. En hugmyndin er, ef vel gengur, að gera þetta árlega og blanda saman næringu sálar og líkama í allsherjar veislu.Og þegar kemur að góðum mat erum við Eyjamenn mjög ríkir af góðum kokkum og veitingastöðum.“ Hátíðin átti að fara fram um helgina þar sem Þrjú tríó áttu leika á fimm stöðum um helgina. Þetta eru staðirnir Brothers Brewery, Gott, Einsi kaldi, Tanginn og Slippurinn. Tríóin þrjú eru, Camper Giorno Trio skipað þeim Bjarna Má Ingólfssyni á gítar, Sigmari Þór Matthíassyni á Bassa og Skúla Gíslasyni á trommum. Djasstríó Ómars skipa þeir Ómar Einarsson á gítar, Jón Rafnsson á bassa og Eric Qvick á trommur. Síðast en ekki síst eru það svo fulltrúar okkar Eyjamanna, tríóið Eldar. Það skipa þeir Þórir Ólafsson á hljómborð, Kristinn Jónsson á bassa og Birgir Nielsen á trommur.   „Því miður vegna óviðráðanlegra aðstæðna verður ekkert af þessu um helgina en við erum hins vegar ekki búnir að blása hátíðina af," sagði Sæþór í samtali við Eyjafréttir í dag. „Við erum að gæla við að hafa hátíðina núna í enda júní í staðinn, þann 29. og 30. júní en það verður nánar auglýst síðar.“  

Höfðingleg gjöf Kiwanis til GRV

Í hádeginu komu saman félaga úr Kiwanisklúbbnum Helgafelli í Barnaskóla Vestmannaeyja og var tilefnið að afhenda skólanum tölvubúnað að gjöf. Í þessum gjafapakka voru 25 fartölvur og 20 spjaldtölvur til notkunar við námið. Að þessu tilefni flutti Erlingur Richardsson skólastjóri ávarp og útskýrði notkunargildi og kom á framfæri þakklæti til klúbbfélaga í Helgafelli fyrir þessa höfðinglegu gjöf, segir í tilkynningu frá blúbbnum.   Það var síðan fulltrúi nemenda sem veitti gjöfinni viðtöku frá Jónatani Guðna forseta Helgafells. Viðstaddir afhendingu voru kennarar og hópur nemenda skólanns, ásamt Helgafellsfélögum. Erlingur Richardsson skólastjóri sagði i samtali við Eyjafréttir að í aðalnámskrá grunnskóla er lögð mikil áhersla á að kennsla í upplýsingatækni verði kennd í gegnum aðrar námsgreinar, þ.e.a.s þvert á greinar. „Með þessari rausnarlegu gjöf, frá Kiwanisklúbbnum, þá erum við fyrst og fremst að opna á þann möguleika að kennarar og nemendur geti notað upplýsingatæknina í hinum ýmsu námsgreinum, í bland með hefðbundnum kennslubókum. Um leið og við erum komin með 25 fartölvur í skólann þá geta t.d allir nemendur í einum bekk unnið um leið á fartölvur, eða jafnvel tveir til þrír bekkir unnið í hópavinnu á sama tíma. Markmiðið er svo auðvitað að bæta við fartölvum, en þessi gjöf ýtir okkur vissulega áfram varðandi nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni til náms og kennslu í grunnskólanum. Við sjáum fyrir okkur að nýta Chromebook meira á unglingastiginu þar sem þau geta unnið um leið með fingrasetningu við hefðbundna verkefnavinnu. Spjaldtölvurnar notum við meira við kennslu á yngri stigum.“  

Ávarp Guðmundar Þ.B. á Verkalýðsdaginn

Guðmundur Þ. B. Ólafsson flutti ávarp á baráttudegi verkalýðsins í Vestmannaeyjum í ár og hér að neðan er ávarpið í heild sinni. Eyjafréttir birtu myndir af kaffisamsætinu í Alþýðuhúsinu hérna.   Ágætu vinir, mér er sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur á þessum baráttudegi.   Ég er ekki lengur launþegi á almennum vinnumarkaði, orðinn eldri borgari og tek mínar eigur úr lífeyrissjóði sem ég hef lagt fyrir í um 50 ár. Reyndar er ég og ríkissjóður ekki sammála um eignarréttinn, ríkið stendur í þeirri meiningu að eignin sé þeirra og greiðslur skertar í samræmi við það. Hef 50 þúsund krónur í ellilífeyrir á mánuði eftir skatta, takk fyrir það höfðingjar.   En nóg af mér, sem er þó lýsandi dæmi fyrir stöðu eldri borgara á Íslandi í dag að ekki sé talað um kjör öryrkja, þvílík skömm.   Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, er baráttudagur allra launþega. Reyndar eru allir dagar baráttudagar launþega fyrir betri kjörum og verða það á meðan óbreytt ástand ríkir. Það er sama hvar borið er niður, almennu launafólki er haldið niðri í launum eins og kostur er. Það má nefnilega ekki stefna stöðugleikanum í hættu, sama gamla rullan sem atvinnurekendur og stjórnvöld kyrja. Þeir sömu sem hafa skafið til sín hundruði þúsunda króna hækkun á mánaðarlaunin ofan á mánaðarlegu milljónirnar sem þeir höfðu fyrir.   Endalaust er böðlast á þeim sem minnst hafa og minna mega sín. Fólki er ætlað að framfleyta sér á launum sem eru undir fátækramörkum, mörkum sem stjórnvöld viðurkenna að enginn geti framfleytt sér á. Vert er að spyrja, ef tekjur á milli 200 til 300 þúsund krónur á mánuði eiga að duga, hvað hafa þá einhverjir með margar milljónir á mánuði við þær að gera? Nei! þá kemur annað hljóð í strokkinn.   Meðal mánaðarlaun 10 hæstu stjórnenda, á árinu 2016 voru 7,7 milljónir, já meðal mánaðarlaun Fréttir, allar götur síðan, hafa frætt okkur um stanslausar hækkanir til stjórnenda og stjórnmálamanna. Sumt af því vegna Kjaradóms, já Kjaradóms, eins og það sé eitthvað fyrirbæri sem enginn getur ráðið við. Viljum við bara ekki öll láta Kjaradóm sjá um launin okkar, með sínar reglubundnu hækkanir, upp á 45% eins og nýleg ákvörðun ber vitni um?   Því miður hefur skilningur fyrir bættum kjörum skilað því að þorri launþega þurfa að vinna langan vinnudag til að ná endum saman. Venjuleg vinnuvika á Íslandi er heilum vinnudegi lengri en í Noregi, svo dæmi sé tekið. Eru mörg dæmi um að annað foreldri sem vill vera heima og hugsa um börn og heimili, sem getur látið það gerast? Eru mörg dæmi um það? Það hafa fæstir efni á því.   Lífeyrissjóðirnir eru okkar eign Baráttan verður að skila réttlæti í lífeyriskerfinu, réttlæti sem snýst um að eigendur sjóðanna, launafólkið kjósi sjálft um stjórnir sjóðanna og þaðan verði fulltrúum atvinnurekenda sópað út, þeir eiga ekki krónu í eignum sjóðanna, við erum eigendurnir.   Það er svo annað mál með þetta blessaða lífeyriskerfi, hvers vegna er sjóðunum ekki fækkað og hvers vegna eru lífeyrisréttindi allra landsmanna ekki þau sömu? Já stórt er spurt og skiljanlegt þegar það er haft í huga að alþingismenn með ráðherrana í broddi fylkingar sömdu sérstök lög fyrir sig og sína, lög um lífeyrisréttiandi sem stendur öðrum þjóðfélagsþegnum ekki til boða.   Eru breyttir tímar í vændum? Óbreytt ástand verður ekki liðið og baráttann heldur áfram. Með þrotlausri baráttu er von. Baráttuhugur og áherslur sem meðal annars hafa komið með röddum nýrra og eldri foringja verkalýðsins undanfarið vekur von, von um bjartari og betri tíð.   Trúin á að ekki verði lengur valtað yfir kröfur launafólks er mikil og slík vinnubrögð eiga að tilheyra liðinni tíð, það sama á við um undanlátsemi og tjónkun við stjórnvöld og atvinnurekendur.   Vinir, baráttan er framundan og þar þurfa allir að standa saman. Góðar stundir.       Guðmundur Þ. B. Ólafsson  

Það er hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum

Tveggja tonna steini hefur verið komið fyrir við norrænu sendiráðin í Berlín, en steininn er úr Eldfelli eða síðan gosinu. Steinninn hefur vakið mikla athygli en til-gangur hans er að vekja athygli á margmiðlunarsýningu um ógnarkrafta náttúrunnar á Íslandi í sameiginlegu rými sendiráðanna. Fyrir þessu framtaki stendur Eyjamaðurinn Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín.   Ógnarkraftar náttúrunnar voru í aðalhlutverki í Felleshus, norrænni miðstöð sendiráðanna í Berlín í síðustu viku þegar sýninguna MAGMA var opnuð en tilefnið er 100 ára fullveldi Íslands. Sýningin byggist að mestu á margmiðlunartækni og er hún byggð á gagnvirkum sýningum sem Gagarín hefur sett upp bæði í Lava Centre á Hvolsvelli og Perlunni. Búast má við að um þrjátíu þúsund gestir sæki sýninguna, sem stendur til 1. júlí næstkomandi. Sendiráð Íslands í Berlín hefur veg og vanda af undirbúningi sýningarinnar, í samvinnu við Gagarín og Basalt, en Icelandair, Íslandsstofa, Landsvirkjun, Samskip, Lava Centre og Perlan eru bakhjarlar. Sýningin dregur fram frumkrafta Íslands, eldinn, hraunið, seigluna og kraftinn og beinir sjónum að því hvernig náttúruöflin hafa skapað landið og mótað fólkið sem það býr.   Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli Risavöxnum hraunmola hefur verið komið fyrir í Felleshus sem gestir geta snert og myndað. Þetta er yngsti steinn í Þýskalandi en eins og áður segir var hann tekin úr Eldfellshrauninu fyrir hálfum mánuði síðan og sá Samskip um flutningin. Martin sagði að steininn hafi vakið mikla athygli, ,,Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli og var það tilgangurinn. Það er upplýsingar um gosið við hliðina á steininum og ýmist er fólk að lesa þær, láta taka myndir af sér við steininn og sumir klifra jafnvel uppá hann. Jón úr Vör sagði að það væri hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum. Eigum við ekki að segja að ég sé núna byrjaður að taka þorpið til mín í bókstaflegri merkingu, þetta er sem sagt bara rétt að byrja! Þetta lækni heimþrána?.“   Vinir Elmars Erlingssonar gáfu mynd af Íslandi og eru á leið til Eyja Eins og margir vita bjuggu hjónin Erlingur Richardsson og Vigdís Sigurðardóttir í Berlín ásamt börnum sínum á meðan Erlingur var að þjálfa þar. Á opnunina í síðustu viku kom hópur úr Picasso-grunnskólanum í Berlín en þar hafa nokkrir krakkar verið að læra um Ísland í 2 kennslustundir á viku í allan vetur. Þetta er hópur sem tengist Elmari Erlingssyni og hyggst hópurinn heimsækja Eyjarnar okkar heim í október. ,,Hópurinn gaf sendiráðinu stóra mynd sem krakkarnir höfðu teiknað af Íslandi. Það var landakort með ýmsum teikningum á sem þeim þótti minna á Ísland. Þar eru hestar, eldgos, tröll, álfar og ýmsar forynjur og síðan rak ég augun í nafnið ,,Heimir Hallgrímsson? innan um allar þessar fígúrur. Þó að það væri nú freistandi að stríða Heimi dálítið með þennan félagsskap þá segir manni þetta bara það hversu mögnuðum árangri hann hefur náð, að krökkum í Berlín skuli detta í hug að skrifa nafnið hans Heimis þegar Ísland ber á góma segir meira en mörg orð," sagði Martin að lokum.  

Björgvin E. Björgvinsson: „Þetta er vinningslagið“

Goslokanefnd og Bandalag vestmanneyskra söngva- og tónskálda hafa valið goslokalagið 2018. Sameiginleg nefnd Goslokanefndar og BEST valdi úr 15 innsendum lögum og úr varð að lagið Aftur heima eftir Björgvin E. Björgvinsson var valið. Björgvin bjó í Vestmannaeyjum frá 1966 til 1980 og spilaði meðal annars í hljómsveitinni Brak sem gerði garðinn frægan hér áður með þeim Kalla Björns, Ingimar í Vöruval og fleirum. Björgvin starfar sem áfangastjóri við Fjölbrautarskóla Suðurlands, er íslenskufræðingur að mennt og hefur þýtt rúmlega 30 barnabækur og samið eina. Einnig má þess geta að Björgvin og Stella Hauks voru systrabörn. Lagið verður hljóðritað einhvern tíma á næstu dögum og verður frumflutt þegar nær dregur Goslokahátíð.   Nafn: Björgvin E. Björgvinsson Fæðingardagur: 20. 02. 1961 Fæðingarstaður: Gamla Landspítalahúsið við Hringbraut í Reykjavík. Fjölskylda: Giftur Helgu Sighvatsdóttur skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga. Við eigum einn son, Sighvat Örn, sem er kvikmyndafræðingur og er að ljúka námi úr Margmiðlunarskólanum í eftirvinnslu kvikmynda. Uppáhalds vefsíða: Uuuuu. Er maður ekki alltaf að fara inn á Veður.is og Vegagerðina? Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég hlusta á flest en ég brosi þegar ég heyri í Yes, Pink Floyd og Emerson, Lake & Palmer. Aðaláhugamál: Hef gaman af heilaleikfimi eins og vísnagerð og svo fer ég í nokkurra daga sumargöngur með allan búnað á baki. Uppáhalds app: Er ekki svo langt leiddur enn að eiga svoleiðis uppáhalds. Hvað óttastu: Að fá svona spurningu. Mottó í lífinu: Kaffi fyrst. Apple eða Android: Já. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ég held að það gæti verið áhugavert að eiga stund á Agórunni í Aþenu með Sókratesi. Hvaða bók lastu síðast: Afleggjarann eftir Auði Övu Ólafsdóttur – sú bók er alger konfektmoli. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Eldflaugin Guðjón Valur Sigurðsson er minn uppáhalds íþróttamaður. Svo hef ég alltaf verið Þórari og fylgist með ÍBV héðan úr Flóanum. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég iðka mest augnhreyfingar yfir vetrartímann, þar sem ég vinn mikið við tölvur, en fer í góðar göngur inn á milli. Geng hins vegar talsvert á sumrin. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttir á Rúv. Má eiginlega ekki missa af þeim. Kom þér á óvart að lagið þitt varð fyrir valinu: Það er nú kannski frekar hrokafullt að segja þetta, en þegar ég sendi lagið sagði ég við Helgu: „Þetta er vinningslagið“. Glotti að vísu smá, en ef maður hefur ekki sjálfur trú á því sem maður gerir þá er varla hægt að ætlast til að aðrir hafi það. Ertu mikið að semja almennt: Fyrir mörgum árum samdi ég barnabók. Upp úr henni gerði ég leikrit sem sýnt var í Möguleikhúsinu. Síðan hef ég þýtt yfir 20 bækur í bókaflokknum Skemmtilegu smábarnabækurnar og hátt í 10 barnabækur til viðbótar. Einu sinni sendi ég ljóð í ljóðasamkeppni og... ...vann. Mest hef ég fengist við að semja lausavísur og tækifæriskveðskap, en lagasmíðar hef ég ekki fengist við – „Aftur heima“ er fyrsta lagið. Um hvað fjallar textinn í laginu: Textinn hefst á sólarupprás og sjónarhornið færist hægt með sólargangi frá austri til vesturs yfir Heimaey. Mörg helstu einkenni Eyjanna eru persónugerð, e.t.v. sem tákn um að þrátt fyrir allt og allt heldur lífið sínu striki. Mosinn sem teygir sig inn á hraunið ritar okkur nýja sögu. Fegurð Eyjanna, fjölbreytileikinn og lífsgleði Eyjamanna er í fyrirrúmi.  

Vestmannaeyjabörn til Noregs, 45 árum seinna

Í tilefni 90 ára afmælis Íslendingafélagsins í Ósló var ákveðið koma á endurfundum allra barna frá Vestmannaeyjum sem fóru til Noregs árið 1973 og þeirra sem tóku á móti börnunum eða komu á einhvern hátt að ferðinni. Guðrún Erlingsdóttir er ein af fimm sem eru í undirbúningsnefnd.   Hvaðan kom hugmyndin og af hverju var ákveðið að fara aftur? Hugmyndin kom frá Íslendingafélaginu í Noregi og það var Hjalti Garðarsson sem hafði samband við mig. Hann sagði að Íslendingafélagið vildi bjóða húsið í Norefjell sem er rétt utan við Ósló og aðstöðuna þar í kring ef þeir sem fóru til Noregs vildu nýta sér það og hittast einn dag. Aðstöðuna þekkja margir Eyjakrakkar frá því að þeir voru í Norefjell 1973. Ég kom strax með þá hugmynd að við sem erum í sambandi við fólkið sem tók á móti okkur gætum boðið þeim að koma og hitta okkur og því var vel tekið. Ég hóaði svo saman nokkrum Eyjakrökkum á fésbókina. Magga Braga í Eyjum, Ingiberg Óskars, Ingu Jónu Hilmisdóttur og Þórunni Óskarsdóttur sem var fararstjóri í Norefjell og við höfum haldið utan um viðburðinn hér heima.   Fólk á að njóta þess að vera saman Hvað er planið, hvað á að gera þar? Íslendingafélagið er búið að tala við íslenska sendiherrann í Noregi og eitthvað af Íslendingum sem þekkja til ferðarinnar 1973. Dagskráin hefst kl. 14.00, laugardaginn 14. júní með ávarpi sendiherrans og svo nýtur fólk þess að vera saman. Seinna um daginn hitar Íslendingafélagið grillið og grillar pylsur og fólk fær aðstöðu til þess að grilla það sem það vill. Svo er fyrirhugaður brekkusöngur þegar líða fer að kveldi.   Ferðin er fyrir alla sem fóru til Noregs 1973 Fyrir hverja er þessi ferð? Ferðin er fyrir alla sem fóru til Noregs 1973 eða rúmlega 900 manns, fararstjóra, gestgjafa sem tóku á móti okkur og að sjálfsögðu eru makar velkomnir líka. Einhverjir koma einnig frá Íslendingafélaginu í Noregi.   Guðrún sagði hafa komið fram gagnrýni á að ferðin sé farin með of stuttum fyrirvara. „Sú gagnrýni á rétt á sér. En okkur í undirbúninghópnum fannst um að gera að stökkva á vagninn og ég veit að einhverjir ætla að fara fyrr út eða vera lengur og heimsækja þá staði sem krakkarnir gistu á þ.e.a.s. þeir sem ekki voru í Norefjell en alls voru Eyjabörn á 11 stöðum í Noregi. Það eru allir á eigin vegum bæði með flug og gistingu en við erum með fésbókarhópinn „Vestmannaeyjabörn til Noregs 45 árum seinna“ þar sem við reynum að miðla upplýsingum og hvetja fólk til að koma. Við höfum náð til rúmlega 500 af rúmlega 900 í gegnum fésbókina og vonandi verður fólk áfram duglegt að bæta við Eyjafólki og láta þá sem ekki eru á fésbókinni vita. Við skoðuðum hópflug en það kom ekki vel út miðað við vinnuna sem hefði þurft að leggja í,“ sagði Guðrún.   Þiggjum allar hugmyndir og aðstoð Við fimm sem skipum undirbúnings hópinn ásamt stjórnarmönnum úr Íslendingafélaginu í Noregi og Hjalta Garðarssyni, þiggjum allar hugmyndir og aðstoð við að koma á endurfundum í Noregi og hver veit ef vel tekst til að leikurinn verði endurtekinn á 50 ára afmæli Noregsferðarinnar. 37 manns hafa sagst ætla að mæta og 77 er merktir kannski. Ég held að við getum verið ánægð ef við náum 50 manns en því fleiri því betra. Öll praktísk atriði og hugmyndir er hægt að ræða á „Vestmannaeyjabörn til Noregs 45 árum seinna“ á Facebook.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

VefTíví >>

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri