Mikið fjör á Öskudeginum - myndir

Mikið fjör á Öskudeginum - myndir

Það var mikið líf í miðbænum á miðvikudaginn þegar krakkar á öllum aldri fögnuðu Öskudeginum með því að klæða sig upp í búninga og syngja eins og hefð er fyrir. Nokkur fjöldi lagði leið sína í höfuðstöðvar Eyjafrétta til að þenja raddböndin eins og sjá má á myndum sem teknar voru. Eins og svo oft þá voru lög á borð við Gamla Nóa og Alúetta alls ráðandi í lagavali krakkana enda afar hentug upp á að safna mestu sælgætu á sem skemmstum tíma.

ELDHEIMAR vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna í Vestmannaeyjum.

Frá því að eldgosasafnið Eldheimar opnaði hefur það notið mikilla vinsælda. Á safninu eru tvær sýningar annarsvegar er saga Heimaeyjargossins 1973 sögð á áhrifamikinn hátt og hinsvegar er fræðslu sýning um þrónu lífs í Surtsey, sem gaus 1963 – 67. Surtsey er einnig á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna fyrir sérstöðu sína. Það er greinilegt að áhugi erlendra ferðamanna á eldgosum er mikill. Frá opnun Eldheima fyrir tæplega 3 árum hafa hátt í 100.000 gestir heimsótt safnið. Flestir þeirra eða um 80% eru erlendir ferðamenn.   Það styrkir áhrifin af Eldheimum að safnið er við rætur Eldfells, fjallsins sem varð til í náttúruhamförunum miklu 1973.. Miðpunktur safnsins eru rústir húss er stóð við Gerðisbraut 10. Það á sér enga hliðstæðu í heiminum að jafn ungar gosminjar hafi verið grafnar upp. Með hjálp nýjustu margmiðlunartækni við hlið húsarústanna er gosnóttin 23.janúar 1973 rifjuð upp. Farið yfir hvernig það var fyrir um 5.300 íbúa Vestmannaeyja að vakna við drumur eldgossins og flýja í skyndi heimili sín. Margir þeirra sáu þau aldrei aftur. Á fjórða hundrað hús og byggingar urði hrauni, ösku og eldi að bráð.   Safnið hefur fengið mjög lofsamleg ummæli hvort sem er í fjölmiðlum eða á Tripatvisor. Safnið hefur tekið við fjölda viðurkenninga s.s. Hönnunarverðlaunum ársins 2015. Það var einnig mikil viðurkenning fyrir safnið að The Guardian valdi það á lista yfir áhugaverðustu nýungar á sviði ferðaþjóinustu um víða veröld á sl. ári. Hönnuður Eldheima er Axel Hallkell Jóhannesson honum hefur svo sannarlega tekist vel til.   Arkitektúr hússins hefur vakið mikla athygli fyrir einstök frumlegheit. Byggingin á sér enga hliðstæðu. Það er hátt til loft og vítt til veggja og hægt að virða fyrir sér húsarústina frá ýmsum sjónarhornum frá svölum á annari hæð eða brú sem liggur í gegnum bygginguna.   Í safninu er einstaklega skemmtilegt rými fyrir veitingasölu og menningarviðburði. Útúr rýminu er gengið út á pall, með stórkostlegu útsýi yfir Vestmannaeyjar. Það er ánægulegt að segja frá því að þetta rými býður uppá einn besta hljómburð landsins. Nokkuð sem styrkir og eflir svo sannarlega mikilvægi og notagildi þessa rýmis. Arkitekt hússins heitir Margrét Kristín Gunnarsdóttir.   Fyrir utan það að vera safn á heimsmælikvarða þá eru Eldheimar einnig menningarmiðstöð. Á safninu eru reglulega metnaðarfullir menningarviðburðir. Tónleikar myndlistasýningar bókmenntadagskrár m.m.   Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður.    

Konan sem leyfir lífinu að sigra

Þau eru misjöfn verkefnin sem lífið leggur á herðar fólks. Hjónin Brynhildur Brynjúlfsdóttir og Rafn Pálsson eða Binna og Rabbi eins og þau eru kölluð í Eyjum hafa glímt við erfið verkefni. Þau eru nú búsett á Álftanesi og rækta þar garðinn sinn. Blaðamaður Eyjafrétta rölti yfir í Vesturtúnið til Binnu og tók hana tali.   ,,Ég er bara stelpa úr Eyjum og er ennþá stelpa, segir Binna þegar hún er spurð hver hún sé. ,,Ég er þriggja barna móðir og amma tveggja barnabarna. Byrjaði að vinna í Útvegsbankanum í Eyjum árið 1977 og er enn í bankageiranum. Nú er það Arion banki. Ég held að uppvaxtarárin í Eyjum hafi mótað mig mest og tíðarandinn sem var þá. Frelsið að búa í litlu samfélagi. Það er eflaust þess vegna sem við settumst að á Álftanesinu þegar við fluttum upp á land. Þar er ég líka nálægt sjónum og ekki alveg inni í mannmergðinni. Það var líka ódýrt að kaupa hér húsnæði á þeim tíma,” segir Binna brosandi.   Spila úr þeim spilum sem gefin eru Binna segir að þegar elsti sonur þeirra Páll Ívar fór í framhaldsnám til Reykjavíkur hafi þau nýtt tækifærið og látið verða af því að taka sig upp og flytja á höfðuðborgarsvæðið. ,,Við fluttum árið 1999, þá var atvinnuástand erfitt í Eyjum og laun lægri en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þau voru töluvert betri. Þar er einstaklingurinn metinn að verðleikum. Það hafa líka allir gott af því að rífa sig upp og breyta til. Það var ekki erfitt að flytja þegar ákvörðunin var tekin, en ég sakna auðvitað fólksins og náttúrunnar í Eyjum.” Þegar Binna flutti upp á land, hóf hún störf til að byrja með hjá Krabbameinsfélaginu en flutti sig fljótlega yfir í Sparisjóð Kópavogs. Binna var nýbyrjuð í verðbréfadeildinni þar þegar hrunið varð og í þeirri deild var lítið að gera eftir hrun. ,,Mér var því sagt upp og fékk stuttu síðar vinnu hjá Umboðsmanni skuldara. Það var erfitt starf og reyndi á. Fólk þurfti að taka erfið skref og oft ýjaði fólk að því að það ætlaði að henda sér í sjóinn eða gera eitthvað annað. Neyðin var svo mikil. Næst lá leið mín í Arionbanka í Hafnarfirði og þar er ég enn.” Binna og Rabbi koma bæði úr stórum fjölskyldum sem hafa þurft að takast á við áföll. ,,Maður spilar úr þeim spilum sem maður fær. Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég var ófrísk af Jónatani Helga þegar Biddý tengdamamma fór. Það var mjög erfitt. Hún hvarf og það hefur aldrei til hennar spurst. Það var líka gífurlegt áfall þegar Jónatan Helgi sonur okkar féll fram af svölum á fjórðu hæð á hóteli á Kanaríeyjum.”   Héldum alltaf í vonina ,,Fyrsta áfallið kom þegar María Ósk, kærasta Jónatans hringdi til að segja okkur frá slysinu og að hann væri í lífshættu á sjúkrahúsi. Hann var með alvarlega höfuðáverka, höfuðkúpan brotin auk þess sem hann var lærbrotinn og með brotin rifbein. Flugleiðir voru okkur innan handar við að finna leiðir til þess að koma okkur til Kanaríeyja eins fljótt og hægt var. Eftir 30 klukkustundir vorum við komin á áfangastað en fengum ekki að sjá Jónatan fyrr en þremur klukkustundum seinna. Það var langur tími að bíða. Reglurnar á gjörgæsludeildinni voru þær að einungis voru leyfðar heimsóknir tvisvar á dag, í klukkutíma í senn. Og aldrei fleiri en þrír í heimsókn í einu. Það voru engar undantekningar gerðar,” segir Binna og það fer ekki á milli mála að það tekur á hana að rifja upp atburðinn. ,,Við vorum hjá Jónatani á sjúkrahúsinu í fjórar vikur og það var mjög erfiður tími. Það tók á að fá bara að sjá hann tvisvar á dag í klukkutíma í senn. Jónatani var haldið sofandi allan tímann og við héldum alltaf í vonina. Við fengum gagnlegar upplýsingar frá læknunum bæði þegar það voru góðar fréttir og slæmar.” Þegar átti að byrja að vekja Jónatan kom í ljós að heilastarfsemin var engin. ,,Fréttirnar voru reiðarslag, annað áfall. Áður en Jónatan var tekinn úr vélunum kom til okkar teymi sem bað um líffæri úr honum.” Binna gerir stutt hlé á frásögn sinni og þurrkar tárin sem brjótast fram.   Leyfum okkur að gráta ,,Við leyfum okkur að gráta þegar við þurfum og það er gott að geta talað um hlutina,” segir þessi sterka kona og heldur áfram með frásögnina. ,,Það var engin umræða um líffæragjafir á Íslandi á þessum tíma. Þetta var rosalega erfið stund. Við þurftum þó ekki að hugsa okkur lengi um. Við vorum nokkuð viss um að Jónatan hefði viljað að líffærin hans gætu komið öðrum til góða. Við fréttum það svo seinna að þrjú ungmenni á Spáni hefðu fengið líffæraígræðslu og allar hefðu þær tekist vel.” Binna er með ákveðnar skoðanir hvað varðar líffæragjafir. ,,Mér finnst að allir ættu að skrá sig eða það sem betra er að það sé gengið út frá því að allir vilji vera líffæragjafar nema þeir taki annað fram fram. Við vissum ekkert um líffæragjafir þegar við þurftum að taka ákvörðun. Við höfðum séð þetta í sjónvarpi og vissum að einhverjir höfðu farið til útlanda og fengið líffæri.” ,,Við fengum að kveðja Jónatan áður en vélarnar voru teknar úr sambandi. Síðan sáum við hann ekki aftur fyrr en hann var dáinn, rétt áður en kistunni var lokað, segir Binna og sársaukinn í augunum segja meira en þúsund orð. ,,Það hjálpar að vita af þessum þremur ungmennum sem fengu líffærin. Það var þá alla vega einhver tilgangur fyrst að Jónatani varð ekki bjargað.”   Lífsviljinn er mikill Það er erfitt að ímynda sér hvernig foreldrar takast á við aðstæður sem Binna og Rabbi voru í á Kanarí-eyjum fyrir ellefu árum síðan. ,,Okkar stoð og stytta var Auður Sæmundsdóttir fararstjóri á Kanaríeyjum. Hún hjálpaði okkur í gegnum ferlið. Við fengum enga aðstoð frá íslenska konsúlnum. Því hlutverki sinnti eldri Spánverji sem var þá í veikindaleyfi. Auður reddaði þeim hlutum sem þurfti. Það var styrkur í því að fá Palla son okkar út, en það var Vestmannaeyingur sem gekk úr sæti fyrir hann svo hann kæmist með næstu vél. Snorri Benedikt varð eftir í góðri umsjá Öldu og Kalla, bróður Rabba. Hvernig komast foreldar í gegnum áfall þegar barnið þeirra slasast lífshættulega og deyr af áverkunum? ,,Ég bara veit ekki hvað ég á að segja. Maður bara verður, ég á fleiri börn og aðra sem standa mér nærri. Lífsviljinn er mikill og maður gerir allt til þess að halda áfram. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta. Við vissum að Jónatan var illa höfðkúpubrotinn en við héldum í vonina og vildum vera til staðar þegar hann myndi vakna, við efuðumst aldrei um það. Þetta voru í rauninni tvö áföll. Fyrst slysið sjálft og svo fréttirnar um að Jónatan myndi ekki ná að lifa það af.” Það gekk ekki þrautalaust að koma jarðneskum leifum Jónatans Helga heim til Íslands. Öllu leiguflugi beint til og frá Íslandi var hætt þegar Jónatan dó mánudaginn 1. maí árið 2006 og erlend flugfélög sem Rabbi og Binna töluðu við voru ekki tilbúin að fljúga til Íslands með Jónatan og foreldra hans.   Best að tala um hlutina ,,Ég vildi ekki láta flytja hann öðruvísi en að við fylgdum honum alla leið. Ég var ekki tilbúin að Jónatan færi með öðru flugi en við. Yrði settur í fraktgeymslu við hinar og þessar aðstæður. Það varð úr að flugfélagið Ernir sendi út leiguflugvél til Kanaríeyja fjórum dögum seinna. Við fengum góða hjálp frá mörgum aðilum sem gerði okkur kleift að fylgja Jónatani alla leið heim.” Binna segir að eftir jarðarför Jónatans hafi komið visst tómarúm og þá hafi úrvinnslan hafist. ,,Við erum heppin að eiga marga góða að. Stórfjölskyldan er samheldin og vinnuveitendur okkar Rabba voru mjög skilningsríkir á meðan við vorum að reyna að fóta okkur áfram í lífinu. Það hjálpaði mikið til að Einar Rafn barnabarnið okkar, sonur Palla fæddist nokkrum mánuðum síðar. Hann er mikill gleðigjafi,” segir Binna og bros færist yfir andlitið. “Svo heldur maður bara áfram lifa. Dauði Jónatans er staðreynd sem ég hugsa um svo til á hverjum degi. Ég hef val. Stundum þarf ég að vera Pollýanna og stundum þarf ég að setja upp grímu. Ég get haft það ömurlega skítt með því að leyfa mér ekki að lífa lífinu fyrir sjálfa mig eða aðra. En ég hef líka skyldur gagnvart öðrum. Svo lærir maður að lifa með þessu og hættir að velta sér upp úr því sem gerðist. Það bætir ekki ástandið að liggja undir sæng. Við sýnum Jónatani Helga enga virðingu með því. Það skiptir máli að halda áfram og komast í gömlu rútínuna. Gera það sem þarf, vaska upp og elda og allt það. Það er hægt að fá hjálp frá fagaðilum. Við fengum mikla hjálp frá sr. Jónu Hrönn, kannski meira í formi sálgæslu en á trúarlegum nótum. Við Rabbi eigum okkar barnatrú og okkur finnst gott að fara upp í Garðakirkjugarð þar sem Jónatan hvílir. Það er yndislegur staður alveg við sjóinn. Það hefur reynst okkur Rabba best að tala um hlutina og nota allar góðar stundir til þess að minnast þeirra sem eru farnir frá okkur.”   Ekki skömm að syrgja Í sorgarferli koma upp alls konar tilfinningar ,,Við höfum farið í gegnum allt sorgarferlið, og þetta er allt einn kokteill stundum. Við höfum alveg átt það til að setjast einhvers staðar niður t.d. á þjóðhátíð eða annars staðar og fara að gráta. Við leyfum okkur það. Það er enginn skömm af því að syrgja,” segir Binna einlæg. ,,Ég held að reiðin hafi aldrei náð tökum á okkur eða við verið föst í sorgarferlinu. Við Rabbi höfum verið mjög samstíga og stutt hvort annað. Við eigum auðvitað okkar erfiðu stundir líka. Áföll og sorgir reyna á hjónabandið, í okkar tilfelli hefur það styrkt sambandið. Ég hef lært að bera virðingu fyrir tilfinningum annarra. Það er ekki bara ég ein sem syrgi, það vill stundum gleymast þegar fólk festist í því að eiga bágt. Ég þoli það illa þegar fólk segir við mig að ég hafi gengið í gegnum svo mikla erfiðleika. Ég er ekki sú eina sem hef gert það. Það ganga allir í gegnum einhverja erfiðleika og þeir geta verið jafn erfiðir og mínir. Það er ekki hægt að mæla hver hefur gengið í gegnum meira en aðrir,” segir Binna með töluverðum þunga. Hvað ráð á Binna handa þeim sem umgangast syrgjendur. ,,Bara að koma, droppa við í kaffibolla. Klapp á bakið eða faðmlag. Það þarf ekkert að segja. Það þarf ekkert að gera. Það styrkti okkur mikið að fá faðmlag, klapp á bakið og finna samúðina og stuðninginn.” Binna segir endalaus áföll breyti lífssýn sinni. ,,Ég sé lífið með öðrum hætti og er hætt að velta mér upp úr því að eiga allt. Mér finnst gaman að eiga fallega hluti en lít þá öðrum augum en áður. Nota kristalsglösin og sparistellið hversdags ef mér sýnist svo.”   ,,Guð, hvenær er nóg nóg?” Í fyrra reið annað áfall yfir fjölskylduna. Yngsti sonur Binnu og Rabba, Snorri Benedikt og kærastan hans, Jóna Þórdís misstu barn í byrjun fæðingar. Það var drengur sem nefndur var Orri Þorri. Hann hvílir hjá Jónatani frænda sínum í Garðakirkjugarði. ,,Það er erfitt að horfa upp á börnin sín í slíkri sorg og geta ekkert gert til að hjálpa. Maður verður einhvern veginn enn meira hjálparvana og vanmáttugur,” segir Binna og beygir af. ,,Ég eiginlega veit ekki hvað ég á að segja. Í fysta skipti langaði mig að breiða upp fyrir haus og ég spurði Guð í alvöru og upphátt „hvenær er nóg nóg?“ Eina sem ég get gert er að vera til staðar fyrir krakkana.” Binna var í strembnu námi með vinnu þar sem hún var að ná sér í vottun fjármálaráðgjafa. Hún hafði því verið undir miklu álagi þegar Orri Þorri dó. ,,Þegar jarðarförin var búin sagði líkaminn minn hingað og ekki lengra. Ég gat mig varla hreyft fyrir verkjum og endalausri þreytu. Ég fór í tveggja mánaða veikindaleyfi og er búin að vera síðustu tíu mánuði að jafna mig. Áföll reyna ekki bara á andlega heldur einnig líkamlega. Þetta hefur verið erfitt tímabil, ég er undir eftirliti lækna og reyni að hvíla mig eins og ég get.“ Samskipti við fólk telur Binna nauðsynleg. ,,Ég er með vinnufélögum á vinnutíma en fer svo í annan hóp þegar heim er komið. Ég er líka að selja Tupperware og á þá í samskiptum við annars konar hóp og stýri þeirri vinnu sjálf. Það er mjög mikilvægt að vera í samskiptum við annað fólk. Það skiptir miklu máli að loka sig ekki af.” Rabbi og Binna hafa komið sér vel fyrir á Álftanesi og útbúið þar skjólgóðan garð og pall. ,,Okkur finnst yndislegt að vera hérna úti á palli. Vonandi fáum við gott sumar. Hér eigum við okkar bestu sumarfrí fyrir utan það að ferðast. Við förum kannski á þjóðhátíð eins og við gerum nær alltaf. Rabbi og strákarnir fara alltaf til Eyja á Þrettándanum, mér finnst gott að vera þá ein heima og huga að því að taka jólin niður, það logar samt alltaf ljós á jólatrénu fram yfir Þrettánda. Ég fer ekki með Herjólfi í Þorlákshöfn nema tilneydd vegna sjóveiki.   Hittum hvorki elg né skógarbjörn Þrátt fyrir að sorgin sé stór þáttur af lífshlaupi okkar þá eru ekki allir dagar sorgardagar. Við erum ósköp venjuleg fjölskylda sem lifir sínu lífi þrátt fyrir að vera mótuð af þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir. ,,Fjölskyldan öll er nýkomin frá Kanada. Við flugum til Edmonton og tókum okkur bílaleigubíl sex saman. Við keyrðum í gegnum Klettafjöllin á leið til Prins George, um þjóðgarðinn Jesper sem skartar tignarlegum fjöllum. Við vorum ekki svo heppinn að hitta elg eða skógarbjörn. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Steinunni og Óðin sem bæði eru í námi í Prins Gerorge. Við fórum svo með Steinunni og fjölskyldu í ferð, keyrðum Icefields Parkway og um Banff þjóðgarðinn þar sem við sáum Klettafjöllin frá öðru sjónarhorni. Þau eru ofboðslega stór og hrikaleg,” segir Binna dreymandi á svip. ,,Kanada er yndislegt land. Það eru allir svo viðmótþýðir og ljúfir. Andrúmsloftið virðist afslappað. Í verslunum fá eldri borgarar vinnu við að taka á móti fólki og bjóða það velkomið. Þegar viðskiptavinir yfirgefa búðina eru þeir spurðir hvort þeir hafi fengið allt sem þeir þurftu. Það er mikil þjónustulund í Kanada. Það virðast vera tengsl milli Íslands og Kanada en mér finnst við Íslendingar vera hrokafyllri og merkilegri með okkur. Án þess þó að hafa nokkurt efni á því. Kanandamenn eru heldur ekki eins miklir umferðadónar og við.” Í lokin er ekki úr vegi að spyrja aðeins út í æskuvinina í Eyjum og einhverjar sögur. Binna er þögul sem gröfin varðandi prakkarstrik í æsku. ,,Við erum æskuvinkonur ég og Erla Þorvalds enda bara eitt hús á milli okkar á Hólagötunni. Við vorum alltaf saman að leika. Með árunum bætust við skólasysturnar Ragnheiður Anna, dóttir Fríðu Sigurðar og Auður Finnboga sem bjó á Höfðaveginum. Við höldum enn hópinn og það var aldrei lognmolla í kringum okkur í ´60 árgangnum. Við Rabbi byjuðum saman mjög ung. Hann kom í fermingarveisluna mína, við vorum byrjuð saman þá,” segir Binna og er sátt við sinn mann.   Leyfir lífinu að sigra ,,Við höfum verið meira saman en sundur. Það var ekki óalgengt á þessum tíma að börn 17 ára væru byrjuð að búa og komin með börn. Tímarnir hafa breyst og fólk skilur þetta ekki í dag. Hvað gera Binna og Rabbi til þess að viðhalda hjónabandinu og ástinni? ,,Við erum bara eins og við erum. Við gerum ekki neitt sérstakt. Tölum saman, rífumst, hreinsum út og allur pakkinn. Við berum virðingu fyrir hvort öðru og við breytum ekki öðrum. Kannski þarf fólk sem vill breyta öðrum að breyta sjálfu sér. Sætta sig við sjálft sig og hinn aðilann. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir breyti sér samkvæmt mínu höfði,” segir Binna með áherslu. ,,Við höfum það gott og erum sátt með okkar líf. Við eigum gott bakland og fjölskyldan skiptir okkur öllu máli. Við verðum að lifa lífinu, annars verður það ömurlegableiðinlegt og það leggur maður ekki á nokkurn mann í kringum sig,” segir konan sem leyfir lífinu að sigra.  

Fjölbreytt kynningarblað - Vestmannaeyjar, fjölbreytt mannlíf og öflugt athafnalíf

Í dag verður 64 síðna blaði um Vestmannaeyjar dreift í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og til lesenda Morgunblaðsins úti á landi, í allt um 70.000 eitnök. Það er mikið átak fyrir litla ritstjórn að gefa út þetta stórt blað sem kynna á Vestmannaeyjar og hvað Eyjamenn eru að gera. Auðvitað verður því ekki öllu gerð skil en víða er stungið niður fæti þannig að þetta kynningarblað um Vestmannaeyjar stendur nokkuð vel undir nafni. Auk þess er hægt að lesa blaðið hér að neðan og inniheldur það nokkur myndbönd.   Hver er kveikjan? Kannski fyrst og fremst metnaður ritstjórnar sem fann strax fyrir miklum velvilja þegar hugmyndin var kynnt fólki. Uppleggið var að draga upp jákvæða mynd af mannlífi og atvinnulífi í Vestmannaeyjum og þar er af nógu að taka. Þessu viljum við koma á framfæri til landsmanna.   Sérstaða samfélagsins er að vera staðsett á eyju og hefur Eyjamönnum lærst að vera sjálfum sér nægir á sem flestum sviðum. Hér eru verslanir óvenju margar miðað við íbúafjölda og vekja athygli ferðamanna fyrir fjölbreytt vöruúrval og hagstætt verð. Veitingahús í Eyjum eru í flokki með þeim bestu á landinu og hefur hróður þeirra borist út fyrir landsteinana. Söfn eru mörg og þykja með því besta sem þekkist hér á landi eins og sjá má í blaðinu. Þá er hér öflugt menningarlíf sem m.a. tengist söfnunum. Leikfélag Vestmannaeyja hefur sett hvert aðsóknarmetið á undaförnum árum og hlýtur það að teljast til tíðinda þegar rúmur fjórðungur bæjarbúa mætir á eina sýningu.   Eyjamenn eru veisluglaðir og kunna að skemmta sér og öðrum. Það sýna Þjóðhátíðin sem er fjölskylduhátíð í sérflokki og það saman má segja um Þrettándagleðina sem hvergi er glæsilegri en í Eyjum. Goslokahátíð hefur þróast í að verða ein allsherjar menningarveisla og er sennilega stærsta ættarmót landsins. Þá má ekki gleyma íþróttamótunum sem draga til sín þúsundir á hverju ári.   Þessu öllu eru gerð skil í blaðinu og vonum við að lesendur kunni að meta það sem við höfum fram að færa. Eyjafréttir vilja þakka öllum sem hafa stutt okkur með einum eða öðrum hætti við útkomu þessa blaðs og vonumst til að standa undir væntingum.   Ómar Garðarsson, ristjóri.     VESTMANNAEYJAR

Sýningin einlæg og í senn kómísk ádeila

Íslenska rappsveitin Reykjavíkurdætur hefur undanfarin misseri sýnt á sér nýja hlið í Borgarleikhúsinu en þar standa yfir sýningar á verkinu RVK DTR– THE SHOW. Um er að ræða verk sem hópurinn samdi sjálfur þar sem lög sveitarinnar eru tengd saman með leikþáttum. Hópurinn notar form spjallþátta til þess að segja sögu og koma sinni meiningu á framfæri. Í sýningunni er Reykjavíkurdætrum gefinn laus taumurinn en eins og flestir vita eru þær vinkonur langt frá því að vera óumdeildar en mikið var rætt og ritað um atvikið þegar leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir gekk út í beinni útsendingu í spjallþættinum Vikunni með Gísla Marteini, í miðjum flutningi Reykjavíkurdætra á laginu „Ógeðsleg“.   Þura Stína Kristleifsdóttir er Vestmannaeyingur í húð og hár og í senn Reykjavíkurdóttir en fyrir rúmu ári síðan gekk hún til liðs við rappsveitina. Þura er sannarlega ekki við eina fjölina felld en hún hefur einnig getið sér gott orð sem plötusnúðurinn DJ SURA, ásamt því að koma reglulega fram með hljómsveit sinni Cyber. Þura útskrifaðist sömuleiðis með BA gráðu í grafískri hönnun fyrir um ári síðan og starfar í dag sem grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Brandenburg samhliða tónlistinni.    „Ég er í sambúð með Arnari Jónmundssyni og kem úr Hrauntúnsmafíunni úr Vestmannaeyjum sem Guðmundur Þ.B afi minn og amma Þura Stína halda þétt utan um,“ segir Þura þegar hún gefur blaðamanni frekari deili á sjálfri sér. Eins og fyrr segir standa Reykjavíkurdætur í ströngu þessa dagana í Borgarleikhúsinu en stórum sviðum er hljómsveitin alls ekki ókunn samkvæmt Þuru. „Reykjavíkurdætur eru hljómsveit sem hefur spilað á öllum helstu tónlistarhátíðum Íslands – nema kannski á þjóðhátíð, sem mér finnst dapurt þar sem Reykjavíkurdætur hafa haft mikil áhrif á rappmenningu á Íslandi. Við höfum spilað á mörgum hátíðum erlendis, þ.á.m. Eurosonic í Hollandi, Trans Musicales í Frakklandi og á Hróaskeldu í Danmörku.“ Þess má geta að hljómsveitin var tilnefnd til tvennra verðlauna á íslensku tónlistarverðlaununum, annars vegar fyrir plötu ársins og hins vegar fyrir sviðsframkomu ársins.   Hvernig og hvenær kemur þú inn í þetta verkefni? „Ég kem frekar óvænt inn í Reykjavíkurdætur en ég fékk símtal fyrir rúmu ári þar sem stelpurnar vantaði DJ fyrir Evróputúr um sumarið. Aðdragandinn var ekki langur en ég hafði bókstaflega hálftíma til að svara hvort ég kæmist með eða ekki. Fyrir mér var þetta ekki erfið ákvörðun þar sem ég hef lengi verið inní íslenska hiphop heiminum og langaði að taka beinan þátt. Þess vegna fannst mér tryllt að loksins væri kominn hópur af stelpum að rappa á Íslandi með sömu sýn um að stelpur eigi fullt erindi í íslenska rappmenningu. En svo er ég líka mjög mikil já manneskja og reyni oftast að taka að mér allt sem ég get og hef áhuga á. Það var hins vegar mjög fyndið að ég hafði ráðið mig í heilan túr án þess að hafa spilað með þeim áður, ég kannaðist við nokkrar þeirra en þekkti þær annars ekkert,“ segir Þura.   Skildi um leið hversu erfitt það er að eiga við fordóma samfélagsins Mikið fjaðrafok var í kringum Reykjavíkurdætur í kjölfar sjónvarpsþáttarins Vikunnar með Gísla Marteini og segir Þura að fyrst þá hafi hún gert sér grein fyrir hversu erfitt það getur reynst að eiga við fordóma samfélagsins. „Ég man að ég horfði á þáttinn og sá alls ekkert athugavert við þetta, fór svo beint að spila á Prikinu og pældi ekkert meira í þessu. Daginn eftir og mörgum dögum seinna voru margir miður sín fyrir mína hönd að vera að fara að spila með þeim í framhaldinu. Ég fékk fáránlegar spurningar í hneykslistón eins og „ertu viss?“, „getur þú bakkað út úr þessu?“, „þetta er alveg rosalegt þetta með Reykjavíkurdætur“. Nánast allir af þeim sem töluðu við mig um þetta voru ekki búnir að sjá atriðið í Vikunni en bara búnir að lesa sér til um málið. Þarna var mér kippt beint út í djúpu laugina, í þeirra raunveruleika, áður en ég var formlega byrjuð í hljómsveitinni og skildi ég um leið hversu erfitt það er að eiga við alla þessa fordóma og gagnrýni sem á ekki rétt á sér í samfélagi sem á það til að vera með sleggjudóma.“   Það er ekkert launungarmál að Reykjavíkurdætur eru pólitískar þegar kemur að textagerð og framkomu þar sem femínismi og kvenréttindi eru í fyrirrúmi. Er það fyrst og fremst hlutverk þessa félagsskapar? „Þessi spurning er orðin svo þreytt í mínum eyrum, en mér finnst alltaf jafn mikilvægt að svara henni þar sem hún er svo fáránleg. Það er auðvitað ekkert launungarmál að það hallar á konur í tónlistarbransanum á Íslandi. En það heyrist ennþá ósönn og úrelt tugga um að við séum bara svona fáar eða jafnvel ekki til í að koma fram. Það er að sjálfsögðu ekki rétt en samt virðast tónleikahaldarar og hátíðir enn eiga í basli með að bóka ekki bara karlmenn. Sem dæmi má sjá konur í þremur atriðum af 16 sem er nú þegar búið að bóka á Þjóðhátíð í ár. Það að kvenréttindi og femínismi skipti okkur máli á ekkert bara við um okkur eða bara við um konur. Þetta er eitthvað sem á að vera sjálfsagt mál en er það ekki. Það á sérstaklega við um mjög karllægt svið rappsins en þar eru kynbundin ummæli látin falla um okkur og þá aðallega sem snúa að kynferði okkar – ekki eins og það myndi að öllu jöfnu snúast um tónlistina, textasmíð eða framkomu. Annars fjallar nýja platan nánast bara um djammið þrátt fyrir að það sé ekki fyrst og fremst hlutverk þessa félagsskapar en ætli þessi spurning haldi samt ekki áfram að koma,“ segir Þura.   Hvernig myndir þú lýsa sýningunni RVK DTR? „Ferlið er búið að vera ótrúlega skemmtilegt, langt og verkið sjálft hefur breyst mjög mikið en við erum auðvitað margar og höfum margt að segja. Þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni sem Kolfinna Nikulásdóttir setur upp eftir útskrift sína úr Listaháskólanum en hún er búin að halda ótrúlega vel utan um okkur og sýninguna. Það hefur auðvitað hjálpað okkur að vera í frábærri aðstöðu Borgarleikhússins og fá tækifæri til að vinna í atvinnuleikhúsi með öllu fagfólkinu sem þar er. En okkur var gefið 100% traust með engri ritskoðun og frjálsar hendur er varðar handrit sýningarinnar. Sýningin er í raun mjög einlæg af okkar hálfu en einnig kómísk ádeila á stöðu kvenna og jafnvel karla sem svara fyrir konur varðandi þeirra hlutverk í nútíma samfélagi,“ segir Þura.   Sýningin fengið góð viðbrögð Viðbrögðin við sýningunni segir Þura hafa verið góð en hún hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. „Við erum auðvitað langflestar ekki menntaðar leikkonur og ekki vanar á sviði leikhúsa og því vissum við kannski ekki alveg hverju við áttum von á. Fréttablaðið gaf okkur þrjár stjörnur og DV fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Það var skrýtið að lesa almenna leikhúsgagnrýni á eitthvað sem er manni svo náið en við vorum auðvitað mjög stoltar og ánægðar með dómana. Það eru þó aðallega viðbrögð áhorfenda og fólksins sem er nú þegar búið að koma á sýninguna sem snertir mann. Að fá standandi lófaklapp á nánast hverri sýningu og að lesa fallega gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir sýningar er ótrúlega fallegt og kærkomin tilbreyting en ég held að ég geti með sanni sagt að þetta séu bestu dómar sem Reykjavíkurdætur hafa fengið á Íslandi.“   Hvert er framhaldið hjá þér og Reykjavíkurdætrum? „Það er EP plata að koma út núna á næstunni með fullt af nýju efni. Svo er ótrúlega mikið á dagskrá framundan en eftir sýningar í Borgarleikhúsinu munum við fara til Færeyja og hita upp fyrir MO á G-Festival. Eins erum við alltaf að spila mikið erlendis en í sumar erum við bókaðar á Spáni, Hollandi, Frakklandi, Noregi, Grænlandi og eitthvað hérna heima líka. Við erum þéttur hópur og bókstaflega systur, það er mikið sem við fáum að upplifa, gera og framkvæma saman. Allt sem er að gerast er svo ótrúlega spennandi en það eru auðvitað forréttindi að fá að ferðast, koma fram fyrir þúsundir og gera það sem okkur finnst skemmtilegast,“ segir Þura að lokum.    

Nýr og kraftmeiri Honda Civic frumsýndur á laugardaginn

Nýr og kraftmeiri Honda Civic frumsýndur laugardaginn 20. maí hjá Bragganum, Flötum 20, laugardaginn 20. maí milli kl. 11:00 og 16:00   Nýi Honda Civic er allt í senn sportlegur og kraftmikill, glæsilegur á götu, rúmgóður og lipur í akstri. Honda Civic hefur löngum verið þekktur sem kraftmesti bíllinn í sínum flokki og nýjasta útgáfan sem verður frumsýnd á morgun heldur í þá hefð og gott betur. Allar umsagnir og úttektir erlendis eru á sama veg, hér er á ferðinni einn öflugasti bíll sinnar tegundar sem fram hefur komið í langan tíma og verður enginn aðdáandi Honda Civic svikinn af þessum frábæra bíl.   Í kjölfar bílasýningarinnar í Genf setti sportútgáfan Honda Civic Type R, brautarmet á Nürburgring-brautinni í flokki framhjóladrifinna bíla þegar hann fór hringinn á 7 mínútum og 43,8 sekúndum. Áætlað er að sú útgáfa komi á götuna seinni part sumars.   Bíllinn endurspeglar sköpunargáfu hönnuða og verkfræðinga Honda auk þeirrar fullkomnunar í tækni sem þeir hafa sífellt að leiðarljósi. Þrátt fyrir kraftinn er Civic sparneytinn bíll þar sem hægt er að velja á milli tveggja VTEC turbo Earth Dream véla, 129 hestafla eða 182 hestafla. Bíllinn er léttur í akstri, einstaklega rúmgóður með sérstaklega rausnarlegt fótapláss. Að auki virðist sem skottið nánast stækki í takt við fjölda farþega, en Honda hefur lagt mikinn metnað í að hafa farangursrými Civic rúmgóð og aðgengileg. Civic hefur komið gríðarlega vel út úr öryggisprófunum og hlaut til að mynda fimm stjörnur í alhliða prófunum NHTSA (National Highway Traffic Safety Administration).   Við erum afskaplega spennt fyrir að kynna þessa kröftugu viðbót við Honda hópinn sem bílaáhugamenn og -konur hafa lengi beðið eftir. Þess vegna ætlum við að bjóða gestum og gangandi að taka vel á móti nýjum og endurhönnuðum Honda Civic    

Thelma Sigurðardóttir er Eyjamaður vikunnar

Thelma Sigurðardóttir var á dögunum ráðin sem leikskólastjóri Kirkjugerðis í eitt ár en hún mun taka við af Emmu Sigurgeirsdóttur leikskólastjóra í ágúst. Thelma hefur lokið B.ed. í grunnskólakennarafræði og bætt við sig námi í mannauðsstjórnun. Thelma er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Thelma Sigurðardóttir. Fæðingardagur: 2. janúar 1986. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar! Fjölskylda: Andri Ólafsson er makinn minn og saman eigum við tvo dásamlega drengi sem heita Ólafur og Sigurður. Draumabíllinn: Engin sérstakur, nóg að hann komi mér þangað sem þarf. Uppáhaldsmatur: Naut og lamb. Versti matur: Hrogn og lifur! Uppáhalds vefsíða: Ekkert uppáhald frekar en annað, skoða allt í bland, lífstílsbloggararnir eflaust efst á lista, heimilið, tískan, uppeldi- og barnaumræður heilla mig mest þessa dagana. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Tónlist sem ég tengi ánægjulegar stundir við, hvort sem það er þjóðhátíðarlög, partýlög með vinunum eða barnalög með litlu gormunum mínum! – Þetta er allskonar bara! Aðaláhugamál: Fjölskyldan og vinirnir, allt skipulag, tölur og reikningur, líkamsrækt, heimilið, hönnun & stílesering, ferðalög og útivist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Hann afa minn, Óla afa! Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það toppar fátt Eyjarnar okkar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV og strákarnir mínir þrír! Svo er hún Kayla algjör töffari líka! Ertu hjátrúarfull/ur: jaaaá.. kannski smá! Sef á glósunum fyrir próf og svona bull! Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, almenna líkamsrækt þegar tækifæri gefst! Uppáhaldssjónvarpsefni: Ég horfi sjaldan á sjónvarp, en núna eru það Pepsi mörkin! Annars finnst mér þættir sem snúa að heimili og hönnun skemmtilegir og flest allt grín & fjör. Hvernig leggst nýja starfið í þig: Alveg ótrúlega vel, hlakka mikið til að fá að takast á við þetta krefjandi og skemmtilega verkefni. Ég hef trú á því að þetta verði dýrmæt reynsla. Hefur þú starfað með börnum áður: Já, ég tók þátt í uppsetningu á fimm ára deildinni í upphafi hennar og vann þar svo áfram næstu fjögur árin. Svo starfaði ég einnig við þjálfun í fótbolta hjá ÍBV í mörg ár! Eru krakkar í Vestmannaeyjum þægustu börn í heimi: Já er það ekki? Besti staður að búa á og bestu börn í heimi, það er nú ekki slæmt!  

Heilluð af eldgosinu

16 nemendur frá Gymnasium Michelstadt í Þýskalandi, ásamt þremur kennurum, heimsóttu nemendur í 10. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja í síðustu viku. Voru þau í Eyjum í heila viku við ýmsa iðju, borðuðu fondú á Eldfelli og skoðuðu togara úr flota Vestmannaeyja auk þess að dvelja einn sólarhring í Skógum.   Skólinn Gymnasium Michelstadt er að koma í sína þriðju skólaheimsókn til Vestmannaeyja og er mikill áhuga á að koma á föstu samstarfi á milli skólanna tveggja sem gengur út á að annað hvert ár fær GRV nemendur frá þeim í heimsókn og á móti fara krakkar frá Eyjum til þeirra. Stefnt er á að hópur nemenda frá GRB fari einmitt út til Þýskalands í haust og fái að kynnast Gymnasium Michelstadt og nærumhverfi. Samkvæmt Evu Káradóttur, kennara við GRV og einum af umsjónamönnum verkefnisins, byrjaði heimsóknin á Skógum á sunnudegi en þar var hópurinn einn sólahring á Skógar hostel sem býður upp á mjög góða aðstöðu fyrir hópa. „Nokkrar mæður úr hópnum höfðu vaknað snemma um morguninn til að elda dýrindissúpu sem við tókum með okkur og rann hún vel ofan í mannskapinn með doritos og osti,“ segir Eva og heldur áfram. „Eftir skemmtilega kvöldvöku þar sem hópurinn var hristur saman var morgunninn eftir farið í þriggja tíma gönguferð upp á Fimmvörðuháls, síðan að Sólheimajökli, horft á mynd um Eyjafjallagosið á Þorvaldseyri og skoðað Seljalandsfoss áður en farið var til Eyja um kvöldið.“ Flestir nemenda GRV voru einnig að fara á þessa staði í fyrsta skipti þannig að upplifunin var ekki bara þýsku krakkanna.   Gæddu sér á fondú á Eldfelli Þegar til Eyja var komið gistu gestirnir frá Þýskalandi í heimahúsum þar sem íslenskir jafnaldrar þeirra fengu að spreyta sig í hlutverki gestgjafa. Yfir daginn vörðu þýsku krakkarnir síðan einhverjum tíma í skólanum, þar sem þeim gafst tækifæri á að kynnast starfinu sem þar fer fram. Heimsóknin einskorðaðist þó ekki aðeins við kennslustofuna og var afþreyingin af ýmsum toga eins og Eva lýsir. „Þau fóru t.d. upp á Eldfell þar sem þau fengu að smakka súkkulaði- og osta fondú. Einnig var oft farið í sund og kom þá í ljós hversu mikil forréttindi það er að hafa svona frábæra sundlaug í bænum,“ segir Eva og heldur upptalningunni áfram. „Þau skemmtu sér vel á Rauðagerði, skoðuðu m.a. togara, frystihús, söfnin okkar og lundana svo eitthvað sé nefnt. Þau dorguðu niðri á bryggju, fóru á hestbak og hvaðeina. Þetta var mjög skemmtileg vika þar sem fullt af fólki tók þátt, gaf af sér og með sér og vill skólinn koma til skila þakklæti til foreldra, kennara og allra sem tóku þátt í að gera þessa viku svona eftirminnilega. Það er einstakt að geta tekið svona skemmtilega og vel á móti öðrum nemendum og okkar krakkar bíða spennt eftir að endurgjalda heimsóknina næsta haust.“ Þess má geta að einn þýsku nemendanna var fatlaður og ekki fær um að ganga sjálfur en þökk sé dugnaði og útsjónarsemi kennara, sem héldu á honum þar sem aðgengi var slæmt, komst hann á alla áfangastaði ferðarinnar, þar með talið Eldfell. Af því sögðu er rétt að minna á að aðgengi fyrir fólk með fötlun er víða óviðunandi og er það skylda okkar sem samfélags að gera úrbætur á því.   Þetta er mjög sérstök eyja Þýski kennarinn Jörg Lippmann hefur alls tíu sinnum komið til Vestmannaeyja, fyrst sem túristi en nú sem fararstjóri þýska skólans Gymnasium Michelstadt. Strax eftir fyrstu kynni sín af landinu fékk Jörg brennandi áhuga á landinu og er alveg ljóst að honum hefur tekist að smita nemendur sína af áhuganum. „Ég hef sjálfur komið hingað í kringum tíu skipti en með hóp af krökkum er þetta fjórða skiptið mitt,“ segir Jörg aðspurður hve oft hann hafi komið til Vestmannaeyja á lífsleiðinni. „Til að byrja með var samstarf skólanna án heimsókna nemenda og þá í gegnum Comeniusarverkefnið sem er tveggja til þriggja ára samstarfsverkefni milli evrópskra skóla. Tveir af þeim skólum sem voru í verkefninu voru Grunnskóli Vestmannaeyja og skólinn okkar. Fljótlega sáum við að okkur líkaði vel við Íslendingana og þeim við okkur þannig að ákveðið var að halda áfram samstarfi milli skólanna,“ segir Jörg og bætir við að kostirnir við samstarfið séu m.a. þeir að nemendur þurfi að tjá sig á ensku sín á milli. „Nemendur beggja skóla geta ekki tjáð sig á sínu móðurmáli og þurfa því að nota ensku sem er þá sameiginlegur grundvöllur þeirra og að mínu mati kostur.“ Sjálfur fór Jörg fyrst til Íslands árið 1988 í sumarfrí með foreldrum sínum og segist hann strax hafa heillast af landi og menningu. „Ég heillaðist strax af Skandinavíu og sérstaklega Íslandi og í kjölfar fyrstu heimsóknarinnar ferðaðist ég hingað í nokkur skipti með vinum mínum þegar ég var í námi,“ segir Jörg sem hefur greinilega tekist að smita nemendur sína af áhuga sínum á Íslandi. „Við erum einnig í samstarfi við skóla frá Spáni og Ítalíu og geta nemendur því valið hvert þeir vilja fara. Hópurinn sem vildi fara til Íslands var langstærstur og þurftum við því miður að færa nemendur í aðra hópa þar sem það var ekki hægt að ferðast með svo stóran hóp.“   Eldgosið stendur upp úr En hvað er svona frábært við Ísland og þá sérstaklega Vestmannaeyjar? „Ef þú myndir spyrja nemendurna þá myndu þeir líklega svara því að tilhugsunin um að vera svo nálægt virku eldfjalli sé yfirþyrmandi, þeir hafa aldrei upplifað slíkar aðstæður. Að standa fyrir framan raunverulegt hús inni í Eldheimum og heyra sögurnar af gosinu fannst þeim líka mjög magnað. Annað sem þeim þykir athyglisvert er að vera svona nálægt sjónum en það er mjög nýtt fyrir þá þar sem við búum inni í miðju landi,“ segir Jörg. En hvað með veðrið, það hlýtur líka að vera viðbrigði? „Já, en ég var búinn að undirbúa þau vel. Í fyrstu var veðrið betra en við bjuggumst við, sól og blíða en fljótlega lærðu þau að veðrið hérna getur verið mjög óútreiknanlegt, ólíkt því sem gerist í Þýskalandi þar sem veðrið er oft eins dögum saman. Í stað þess að plana marga daga fram í tímann ákváðum við því að taka einn dag í einu og sjá hvað væri hentugt að gera hverju sinni,“ segir Jörg. Að lokum segist Jörg vera stoltur að fá að kynna þýskum nemendum fyrir stað eins og Vestmannaeyjum. „Það er óvenjulegt að koma með hóp af krökkum til Íslands og sérstaklega til Vestmannaeyja, þetta er mjög sérstök eyja. Mér líður hálfpartinn eins og upphafsmanni að þessu samstarfi og það gerir mig stoltan. Við fáum síðan Íslendingana til okkar í haust og þá viljum við sýna þeim hvernig lífið er í Þýskalandi, engi, eplatré og örlítið hærra hitastig. Ég vona svo sannarlega að íslensku nemendurnir, líkt og nemendur okkar, eigi eftir að upplifa allt öðruvísi hluti en þau eiga að venjast hér á Íslandi.“  

Við lifum á fleiru en launum einum saman

„Í tengslum við 1. maí koma launin upp í huga fólks eða frekar skortur á mannsæmandi launum fyrir 40 stunda vinnuviku. Í daglegu lífi eru nokkrir mikilvægir þættir sem þurfa að vera í lagi ásamt laununum og vinnuumhverfi, til að standa undir mannsæmandi lífskjörum,“ sagði Arnar Hjaltalín í samtali við Eyjafréttir af tilefni fyrsta maí, hátíðar- og baráttudags verkafólks. Arnar kemur inn á stöðu verkafólks almennt og stöðuna í heilbrigðismálum og samgöngum í Vestmannaeyjum. „Í samfélagi eins og Eyjum sem landfræðilega eru einangraðar þurfum við að berjast fyrir þjónustu sem almenningur víðast hvar veltir ekki einu sinni fyrir sér,“ sagði Arnar. „Heilbrigðisþjónusta hefur breyst mikið og nú er ekki lengur rekið hefðbundið sjúkrahús hér heldur heilsugæsla. Sem gerir það að verkum að við þurfum að leita í síauknu mæli til Reykjavíkur eftir sjálfsagðri þjónustu með tilheyrandi kostnaði sem leggst þungt á marga. Skýrasta birtingarmyndin eru barnafjölskyldur sem þurfa oft og tíðum að vera vikum saman á meginlandinu vegna veikinda barna eða meðgöngu móður. Sú röskun á fjölskyldulífi, vinnutap með tilheyrandi kostnaði og annað óhagræði er ekki líðandi. Lítið sem ekkert er komið á móts við þá aðila er þurfa að fá þjónustu heilbrigðiskerfisins og búsettir eru í Eyjum. Heldur er ríkisvaldið að spara pening á kostnað fólksins er býr hér. Ungt fólk kemur að máli við mig sem býr hér eða er að huga að flutningum hingað. Kemur skýrt fram í máli þeirra að þetta hefur áhrif á ákvarðanir þeirra til búsetu.“ Um samgöngur, sagði Arnar þær vera lífæð samfélagsins og annar stóri áhrifaþátturinn í búsetuákvörðun og lífskjörum. „Að stórt bæjarfélag á borð við Eyjarnar skuli búa við jafnmikla óvissu og háa verðlagningu í samgöngum er fyrir löngu orðið ólíðandi. Við verðum að fá samgöngurnar í lag og við þurfum að geta farið milli lands og Eyja á öllum tímum sólarhringsins eins og íbúar í öðrum byggðalögum geta gert. Nú er staðan sú að ef við komumst á annað borð upp á land, þá er ekki nóg með að fjölskyldufólk þurfi að borga tugi þúsunda fyrir leggina hér á milli. Heldur þarf einnig að borga tugi þúsunda fyrir gistingu aðeins vegna þess að Herjólfur liggur ónotaður og bundinn við bryggju yfir nóttina, og fólk kemst þar af leiðandi ekki heim til sín. Upplit yrði á öðrum íbúum þessa lands ef þjóðvegum væri lokað með hliðum á næturnar og þeir yrðu að kaupa sér næturgistingu þar sem þeir væru staddir eða vera upp á ættingja komnir.“ Arnar sagði aðgengi að námi vera lykillinn að framtíðinni. „Nú þegar hafa miklar framfarir orðið í tækni sem leysir mannshöndina af hólmi. Framfarirnar eru að verða sífellt hraðari og innan 10 til 15 ára, en líklega fyrr, stöndum við frammi fyrir gjörbreyttum vinnumarkaði og þar með gjörbreyttu þjóðfélagi. Nám í iðngreinum verður orðið að stórum hluta tækninám og ný störf sem áður voru ófaglærð munu krefjast tæknimenntunar jafnframt því sem ófaglærðum störfum mun fækka með miklum hraða. Við verðum að vera við þessu búin og efla námið hér frekar því nú er svo komið að tæknivitið verður í askana látið. Við höfum nú þegar grunnskóla, stúdentspróf, iðnnám að hluta, vísi að háskólanámi auk símenntunarmiðstöðvar. Ekki er forsenda til annars en hafa sérhæfða tækniskóla á suðvesturhorninu. Því eigum við sem búum fjarri Reykjavík kröfu á að ungmennum af landsbyggðinni séu tryggð sömu fjárhagslegu skilyrði til búsetu og framfærslu við nám þar, eins og ef þau byggju í foreldrahúsum í höfuðborginni. Jafnrétti til náms er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins og lykillinn að framtíð atvinnu- og mannlífs hér.“ Arnar sagði að sem betur fer sé samfélagið í stöðugri þróun, ný tækni í atvinnuháttum, nýir íbúar sem sumir komi langt að og þar með breytist taktur samfélagsins. „Þetta eru nýjar áskoranir, ný úrlausnarefni ásamt breyttum viðhorfum sem fylgja þessu. Við skulum fagna þessum breytingum, styðja við þær með áherslu á okkar lífsgildi og menningu ásamt þeirri gestrisni sem okkur er töm. En komum að laununum í samanburði á lífskjörum. Það er eiginlega orðið hjákátlegt að heyra marga atvinnurekendur í útflutningsatvinnugreinunum segja að ekki sé hægt að borga hærri laun því þá fari allt á hliðina. Sama hvort að evran er á 100 eða 200 krónur þá eru laun verkafólks of mikil að þeirra mati. Á sama tíma eru borguð mun hærri laun í fiskvinnslum í okkar samanburðarlöndum. Að sjálfsögðu ætti að fara saman góður hagur og háar arðgreiðslur fyrirtækis með hærri launum, en það hefur ekki gerst undanfarin ár í útflutningsgreinunum. Kannski er bara best að arðgreiðslurnar séu skattlagðar mikið af ríkinu því ekki fara aurarnir til starfsfólksins í réttu hlutfalli við þær. Hægt væri að nota skatttekjurnar til að jafna lífsskilyrði íbúa á landsbyggðinni við suðvesturhornið. Baráttan fyrir lífskjörunum mun ekki taka enda, það koma ávallt nýjar áskoranir og ný tækifæri sem munu leiða þjóðfélagið og verkalýðshreyfinguna saman inn í betri framtíð,“ sagði Arnar að endingu.  

Kristín Valtýsdóttir: Stöndum vörð um jafnrétti kynjanna

Kristín Valtýsdóttir hefur ekki alveg sest í helgan stein þó nokkur ár séu síðan hún hætti að vinna í fiski. „Ég er ennþá að elda ofan í ÍBV-strákana og ég ætla helst ekki að hætta alveg að gera eitthvað utan heimilisins,“ sagði Kristín í spjalli í Alþýðuhúsinu. „Ég byrjaði að vinna í fiski sem smákrakki og hélt því áfram þar til ég varð sextug.“   Hvað er fyrsti maí fyrir þig? „Hann er hátíðardagur veraklýðsins og við eigum halda honum á lofti sem baráttudeginum okkar. Sjálfri finnst mér vanta baráttu, kröfugöngur og sýna að okkur er alvara. Áhuginn er svolítið á undanhaldi.“  Kristín vill ekki kenna stéttarfélögunum um, það vanti baráttuandann í fólkið. „Þetta snýst um að nýta sér þjónustuna sem félögin bjóða upp á eins og kaupa fargjöld á hagstæðu verði og fá leigða bústaði og íbúðir. Lengra nær það ekki.“  Eitt af stóru málunum í huga Kristínar eru jafnréttismálin. „Þegar ég var krakki þótti sjálfsagt að kallarnir væru með hærri laun en við. Okkur fannst svo ekkert um það konunum en svona var þetta. Jafnréttismálin eru ekki komin í höfn því launamunur kynjanna er alltof mikill. Kannski er konur hræddar við að biðja um hærri laun. Svo þurfum við að passa upp á að fólk í fiski fá góð laun því þetta er mjög erfið vinna. Og svo eigum við að vera góð hvert við annað,“ sagði Kristín að endingu.    

Ekki í samkeppni hvert við annað heldur um skiptingu auðs sem við öll sköpum

„Það er mér einstök ánægja að koma hingað á þessum degi. Kynni mín af verkalýðsmálum hér eru á þann veg að ég veit að blóðið rennur vel í æðum verkafólks hér í Eyjum. Hér hef ég setið fjölmenna fundi á átakatímum og vitnað í skoðanir og tekið með mér brýningu í starfið á landsvísu,“ sagði Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins í barátturæðu á 1. maí hátíðarhöldum Drífanda stéttarfélags í Alþýðuhúsinu á mánudaginn. Hún sagði Vestmannaeyjar hafa reynt margt og fáir staðir á landinu viti hversu hverfull svokallaður stöðugleiki getur verið. „Þar er ég ekki einungis að tala um náttúruöflin heldur stöðu fiskverkafólks og allra þeirra afleiddu starfa sem okkar helsta útflutningsgrein skapar. Hin síðari ár höfum við lifað bæði innflutningsbann frá einum af okkar stærstu mörkuðum og glímt við afleiðingar sjómannaverkfalls sem kom hart niður á fiskverkafólki. Í þeirri deilu kom svo glögglega í ljós hvað hagsmunir vinnandi fólks eru samtvinnaðir, kjarabarátta sjómanna hefur áhrif langt út fyrir þeirra raðir en í þeirri baráttu stóð fiskverkafólk á Íslandi þétt við bakið á þeim og þannig á það líka að vera.“   Baráttan lítið breyst Drífa sagði baráttu stéttarfélaga og vinnandi fólks fyrir mannsæmandi kjörum baráttu okkar allra sem í eðli sínu hafi lítið breyst síðustu hundrað ár, þetta sé hin sígilda togstreita á milli arðs og launa. Vitnaði hún í hugmyndir HB Granda um að leggja niður fiskvinnslu á Akranesi. Hafi framkvæmdastjórinn látið hafa eftir sér að helsta samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins sé að skila sem mestum arði. „Ég þurfti að lesa þessa setningu tvisvar til að trúa henni. Sumir atvinnurekendur líta sem sagt ekki á það sem samfélagslega ábyrgð lengur að halda byggð í landinu, að fólk fái þrifist, geti unnið fyrir sér og fái sanngjarnt endurgjald sinnar vinnu. Samfélagslega ábyrgðin er orðin að krónum og aurum og sem mestum arði og væntanlega þá sem mestum arðgreiðslum.“   Ekki tekið þegjandi Varaði hún við þessari hugsun sem gæti í sinni verstu mynd leitt til þess að fiskvinnslan endaði í Kína í ljósi hagkvæmnarinnar. „Sem betur fer hafa fyrirtæki hér í Eyjum sýnt annars konar samfélagslega ábyrgð hingað til og ég vona að atvinnurekendur hér myndu ekki láta svona ummæli falla. Allavega yrði því ekki tekið þegjandi og hljóðalaust,“ sagði Drífa og benti á að í þessu væri vandi verkalýðshreyfingarinnar. Á meðan íbúar á einum stað missi spón úr aski sínum fagni íbúar á öðrum stað aukinni atvinnu og aukinni vinnslu. „Hin nýja hótun samtaka fyrirtækja í fiskvinnslu um að færa vinnsluna úr landi sýnir það svo ekki verði um villst. Við erum ekki í samkeppni hvert við annað heldur skipulag atvinnuvega og skiptingu þess auðs sem við öll eigum þátt í að skapa.“   Byggjum á samtryggingu og aðstoð Drífa sagði verkalýðshreyfinguna byggja á samtryggingu og aðstoð. „Þú leggur þitt af mörkum til félagsins og færð það sem þú þarft til baka. Ef þú veikist stendur sjúkrasjóðurinn við bakið á þér. Ef atvinnurekandinn sakar þig um fjárdrátt, eins og nýleg dæmi sanna, þá þarftu ekki sjálf að standa straum af kostnaði við að verja þig, heldur er það greitt úr sameiginlegum sjóðum félagsmanna. Ef þér er sagt upp ólöglega þá stendur félagið með þér. Með því að reka öll þessi einstaklingsmál er félagið samt að styrkja stöðu allra á vinnumarkaði. Dómsmál eru fordæmisgefandi og það er ekki hægt að snuða starfsfólk í trausti þess að það geti ekki borið hönd yfir höfuð sér. Þessi samtrygging, að allir greiði í stéttarfélag og stéttarfélagið standi með öllum kalla ég íslenska módelið. Þetta er ekki norræna módelið heldur okkar eigin veruleiki sem við erum öfunduð af um allan heim. Þegar ég tala við félaga í öðrum löndum þarf ég yfirleitt að segja þetta tvisvar. Í nágrannalöndum okkar er það þannig að fólk velur sjálft hvort það greiðir félagsgjald í stéttarfélagið. Það gerir það að verkum að fátækasta fólkið, fólk í tímabundinni vinnu og í óöruggum störfum velur að gera það ekki og þá fær það heldur ekki þjónustu frá félaginu. Stéttarfélögin eru því ekki að aðstoða þá sem mest þurfa á því að halda. Niðurstaðan er sú að ráðningar verða ótryggari, kjörin verða lakari og staða einstaklinga á vinnumarkaði veikari. Sem sagt – allir tapa. En stéttarfélög eru aldrei sterkari en fólkið sem í þeim er. Á þeim árum sem ég hef starfað innan hreyfingarinnar hef ég séð hversu auðvelt það er fyrir einstaka félaga að hafa áhrif. Það verður að segjast eins og er að það er ekki slegist um að gerast trúnaðarmaður eða setjast í stjórn stéttarfélags. Fólk sem gagnrýnir verkalýðshreyfinguna fyrir að vera lina og úrelta hefur alla möguleika á að beita sér og láta til sín taka. Það er verðugt og mikilvægt og skilur á milli sterkrar hreyfingar og veikrar,“ sagði Drífa.   Bölsýnisspár ekki gengið eftir Hún sagði verkefnin næg framundan en líka hefði mikið áunnist, t.d. í róttækum tillögum að kjarasamningum 2015. Að fólk ætti að geta séð fyrir sér á laununum sínum. Að fullvinnandi fólk þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að eiga mat út mánuðinn eða leyfa börnun- um sínum að stunda tómstundir. „Viðbrögðin sem við fengum voru þau að hér myndi allt fara á annan endann ef kröfum okkar yrði mætt. Verðbólga færi hér uppúr öllu valdi og við yrðum öll ver sett. Við náðum töluverðum árangri í þessum samningum, svona miðað við það sem okkur bauðst í upphafi en við þurftum að sýna tennurnar og hafa mikið fyrir árangrinum,“ sagði Drífa og bætti við að spár um að allt færi í kaldakol hefðu ekki gengið eftir. „Við höfum samt enn ekki náð því takmarki að lægstu taxtar dugi fyrir grunnframfærslu eins og nýleg umfjöllun um fátækt á Íslandi ber með sér. Það er því óhögguð krafa og þegar hún er uppfyllt getum við farið að ræða stöðugleika og ábyrgð vinnandi fólks.“   Baráttan um arðinn Og áfram hélt Drífa og sagði að alvarleg veikindi ættu ekki að vera ávísun á fáttækt, ekki ætti að þurfa að leita langt yfir skammt eftir fæðingarþjónustu og það ætti ekki að vera skilyrði fyrir því að eignast íbúð að eiga efnaða foreldra. „Allt þetta eru verkefni sem þarf að leysa í dag og skiptir kjör verkafólks á Íslandi miklu máli. Við berjumst ekki bara fyrir fleiri krónum og aurum í launaumslagið heldur því sem hefur áhrif á líf okkar til hins betra.“ Drífa sagði að frá upphafi hafi kjarabaráttan staðið um skiptingu arðs af rekstri fyrirtækja, hvað mikið kemur í hlut eigenda annars vegar og launþega hinsvegar. Stórfyrirtæki skili ævintýralegum hagnaði á meðan fólk fær ekki nógu góð laun og krafan sé að lækka arðinn og hækka launin. „Við getum gert það í gegnum launaumslagið eða við getum gert það í gegnum skattkerfið. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að vinnandi fólk á Íslandi njóti afrakstursins í stað þess að peningarnir fari jafnvel án þess að hafa viðkomu hjá skattinum úr landi.“   Þurfum á útlendingunum að halda Drífa hvatti til jákvæðs viðhorfs til útlendinga sem hingað koma sem í flestum tilfellum sé fátækt fólk sem reyni að freista gæfunnar annars staðar. Það sé ekki vandamálið. „Staðreyndin er sú að flest vestræn samfélög þurfa á fólki að halda til að halda úti velferðarkerfinu. Hér í Eyjum eru ekki nógu margar vinnufúsar hendur til að standa undir samfélaginu, við eigum því að vera þakklát fyrir að fólk kjósi að flytja hingað og aðstoða okkur við verkin sem þarf að vinna. Við erum ekki andstæðingar eða óvinir, við erum samherjar í því að byggja gott og réttlátt samfélag þar sem allir eiga að geta lifað með reisn,“ sagði Drífa og hvatti fólk til að muna að baráttan er þeirra og ekki náist árangur nema allir standi saman. „Það þýðir að stundum þarf að gera málamiðlanir en saman erum við svo miklu sterkari. Eflum félögin okkar, þéttum samstöðuna og nýtum það sem við höfum byggt upp í marga áratugi launafólki til heilla.“  

Sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að lög og kjarasamningar haldi

„Stéttarbaráttan á Íslandi er afar sterk miðað við mörg önnur lönd en mætti að sjálfsögðu vera sterkari. Við erum með þétt net af stéttarfélögum og almennt er fólk skráð í félag. Það þýðir að félögin geta veitt öllum þjónustu sem til þess leita. Við urðum líka vör við það í samningunum 2015 þegar við boðuðum til verkfalla og lögðum niður vinnu í tvo og hálfan dag að það var mjög auðvelt að virkja fólk til þátttöku, bæði í aðdraganda átakanna og svo í átökunum sjálfum. Verkalýðshreyfingin er hins vegar aldrei sterkari en þau sem taka þátt í henni og það mætti vera meiri þátttaka í grasrótarstarfi og oft mætti samstaðan innan hreyfingarinnar vera sterkari,“ sagði Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins þegar Eyjafréttir spurðu hana um stöðu stéttabaráttunnar á Íslandi í dag.   Starfsgreinasambandið hefur verið talsvert í fréttum vegna brota á starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Er munur á fjölda og eðli brota á landsbyggðinni og í Reykjavík? „Fjöldi brota á vinnumarkaði fer í raun eftir fjölda fyrirtækja á hverjum stað. Á sumum landssvæðum, eins og á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi er mikill fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja og þeim fylgja oft og tíðum erfiðleikar. Bæði er það vanþekking þeirra sem reka fyrirtæki og eins getur verið um einbeittan brotavilja. Í byggingariðnaði er það sama uppi á teningnum. Þar sem er mesta þenslan og mest um að vera, þar leynast líka brotin. Sem betur fer er eftirlit stéttarfélaga hvað sterkast á svæðum þar sem mest umsvif eru.“   Ólíkir hagsmunir Talandi um landsbyggð og höfuðborgarsvæðis, er núningur þar á milli í sambandinu? „Ég myndi kannski ekki tala um núning á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins en það er þannig að höfuðborgarsvæðið semur sérstaklega í kjarasamningum og landsbyggðin semur sérstaklega þó að niðurstaðan sé yfirleitt sú sama. Þetta á sér sögulegar skýringar þar sem Dagsbrún, hið gamla verkamannafélag í Reykjavík samdi aldrei með öðrum félögum og arftaki Dagsbrúnar, Efling stéttarfélag hefur haldið uppteknum hætti. Öll þessi félög eru hins vegar í Starfsgreinasambandinu og það er samstarf á milli félaganna, bæði í aðdraganda samninganna og við samningsgerðina sjálfa. Svo verður að líta til þess að hagsmunirnir eru oft ólíkir en það er reynt að virða það og flestir hafa skilning á því. Til dæmis skiptir það landsbyggðafélögin meira máli hvernig er samið í fiskvinnslunni. Sömuleiðis fara miklir peningar landsbyggðafélaganna í ferðakostnað, bæði fyrir félagsmenn til að sækja þjónustu og eins til að sækja fundi.“   Hringi fyrst í Arnar Eiga félög af landsbyggðinni rödd innan sambandsins? „Já, svo sannarlega. Landsbyggðafélögin eru þau félög sem eru hvað virkust í starfinu innan Starfsgreinasambandsins og veita hvað mest aðhald. Stóru félögin á höfuðborgarsvæðinu eru frekar sjálfum sér nóg en minni félögin sækja frekari aðstoð. Þá eru félög eins og Drífandi mjög virk í að veita aðhald og koma á framfæri upplýsingum um stöðuna í þeim atvinnugreinum sem eru ráðandi á hverju svæði. Þegar mig vantar upplýsingar um stöðu fiskverkafólks þá er iðulega fyrsta símtalið mitt til Arnars í Drífanda.“   Ekki enn haft áhrif Hvernig sérðu stöðu minni bæjarfélaga í ljósi sterkrar stöðu krónunnar sem bitnar á útflutningsgreinum? Er það farið að hafa áhrif á ykkar fólk á þessum stöðum? „Á flestum stöðum hefur þetta enn sem komið er ekki mikil áhrif. Þar kemur til að ferðaþjónustan bætir upp hugsanlega fækkun starfa og eins eru innfluttar vörur ódýrari en áður og kaupmáttur hefur því vaxið. Það er hins vegar áhyggjuefni að mörg fyrirtæki bera fyrir sig veikari stöðu og flytja vinnslu á milli landshluta eða leggja hana af. Það er ótrúleg skammsýni og skortur á ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þetta sjáum við gerast til dæmis á Akranesi þegar Grandi hótar að loka. Við hins vegar kaupum það ekki að fyrirtæki sem hafa malað gull hin síðari ár þurfi allt í einu að herða sultarólina með ófyrirséðum afleiðingum fyrir vinnandi fólk.“   Verðum líka að verja réttindi erlends starfsfólks Erlent fólk er að verða æ stærri hluti af vinnuafli hér á landi. Því fylgja áskoranir og ábyrgð, ekki síst stéttarfélaganna. Erum við sem þjóð að standa okkur í þessu og eins stéttarfélögin? Hvað brennur helst á og hvernig má gera betur? „Það er ein stærsta áskorun stéttarfélaganna að verja réttindi erlends starfsfólks. Ef við leyfum því að gerast að útlendingar sem koma hingað til að vinna séu á lakari kjörum en Íslendingar þá hefur það áhrif á okkur öll til frambúðar. Þá lækka laun í heildinni hér á landi. Við erum lítil þjóð sem hagar sér stundum eins og hún sé milljóna þjóð og við þurfum útlendinga til að halda úti velferðarkerfinu og atvinnulífinu. Sem betur fer erum við svo heppin að fólk er til í að koma utanúr heimi og aðstoða okkur hérna. Þetta fólk kemur hins vegar oft frá allt öðrum vinnumarkaði og gerir sér ekki grein fyrir að hér er beinlínis ólöglegt að borga undir töxtum eða snuða fólk um önnur lágmarkskjör. Við höfum því lagt áherslu á að þýða mjög mikið af efni. ASÍ hefur sérstaklega staðið sig vel í þessu síðustu ár með bæklingum og veggspjöldum til að koma skilaboðunum til sem flestra. Svo erum við með vinnustaðaeftirlit þar sem okkar fulltrúar geta upplýst alla sem vinna um réttindi þeirra. Mörg stéttarfélög eru með túlka á sínum fundum eða halda sérstaka fundi með ákveðnum tungumálum. Hin síðari ár höfum við líka orðið mjög vör við útlendinga sem vilja koma hingað og vinna uppá fæði og húsnæði. Það er ekki löglegt hér á landi þó það sé löglegt í mörgum öðrum löndum. Í Evrópu hefur atvinnuleysi ungs fólks verið gríðarlega hátt og margir sem vilja bara vinna til að geta sýnt fram á það í ferilskránni sinni að þau hafi unnið handtak á ævinni. Það eru því gríðarlegar áskoranir sem fylgja því að vinnumarkaðurinn er í örum vexti og útlendingar sækja hingað í sí auknum mæli. Það má líka benda á það að íslenskir vinnufélagarnir veita oft bestu upplýsingarnar. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að lög og kjarasamningar haldi,“ sagði Drífa Snædal að endingu.  

Páll Hjarðar er Eyjamaður vikunnar: Held að spárnar séu nokkuð réttar

Nú er fótboltinn farinn að rúlla og léku bæði karla- og kvennalið ÍBV um helgina á Hásteinsvelli. Stelpurnar unnu KR og karlarnir náðu að halda jöfnu gegn Fjölni eftir að hafa misst mann út af í upphafi leiks. Formaður knattspyrnuráðs karla er Páll Hjarðar og er hann Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Páll Þ Hjarðar. Fæðingardagur: 26.04.79. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Giftur Önnu Rós Hallgrímsdóttur og eigum við þrjú börn: Almar Benedikt, Ásdísi Höllu og Ara Pál. Draumabíllinn: Enginn sérstakur, bílar eru óþarfir í Eyjum. Ættum öll að reyna tileinka okkur að minnka notkun þeirra. Uppáhaldsmatur: Andabringur. Versti matur: Kjúklingasúpa. Uppáhalds vefsíða: Allar fréttasíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Nirvana og allt með Óla frænda. Aðaláhugamál: Ætli það sé ekki sniðugt að svara þessu, fótbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Mér nægir bara að hitta þá sem ég er að hitta nú þegar. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Jökuldalurinn. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV og svo börnin mín. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, bara alls ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég fer í Hressó þrisvar á ári og svo tek ég þátt í Vestmannaeyjahlaupinu og enda yfirleitt ofarlega. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttir, heimildamyndir og íþróttir. Eitthvað sem hefur komið þér á óvart: Já ég viðurkenni að þetta er allt aðeins umfangsmeira en ég reiknaði með, þó að ég hafi alveg verið meðvitaður um að þetta væri mikið. Hvar sérðu fyrir þér að ÍBV verði í röðinni í lok móts: Ég spái að við verðum á því róli sem aðrir hafa verið að spá okkur. En auðvitað vona ég að við verðum ofar. Hver er bestur í ÍBV-liðinu: Þessu myndi ég aldrei svara svona snemma tímabils.  

Ljúfsárar minningar um löngu horfin æskubrek og æskustörf í Eyjum - myndir

 Eyjahjartað bauð upp á fimmtu dagskrá sína í Safnahúsinu síðastliðinn sunnudag og líkt og fyrri skipti var fullt út úr dyrum og gleði í loftinu. Kári Bjarnason sem stýrði dagskránni að vanda sagði að þau Helga Hallbergsdóttir hefðu ákveðið að flytja dagskrána upp þar sem allt hefði yfirfyllst síðast í Einarsstofu. Þegar blaðamaður leit yfir salinn sá hann að sama vandamálið blasti við á bryggjusvæði Sagnheima, byggðasafns, um 130 manns tróð sér þar sem hægt var að koma stól niður.   Dagskráin sjálf var einstaklega vel heppnuð. Hinir fjórir fyrirlesarar eru allt þjóðþekktir einstaklingar og fóru á skemmtilegan og á stundum ljúfsáran hátt yfir löngu horfin æskubrek og æskustörf í Vestmannaeyjum. Ómar Valdimarsson var sá eini sem gat rakið ættir sínar hingað enda kallaði hann erindi sitt: Fólkið mitt í Eyjum og það var gaman að sjá myndirnar af ættmennum hans, lífs og liðnum, sem hann sýndi og spjallaði útfrá. Er Ómar skyldur Andersenunum sem er mikill og merkilegur ættbogi hér í Eyjum. Guðmundur Andri Thorsson hefur komið nokkrum sinnum áður í Safnahúsið og lesið upp úr verkum sínum en að þessu sinni fjallaði hann um sumarið 1974 er hann starfaði í Ísfélaginu og var á verbúð, kornungur maðurinn. Erindi Guðmundar Andra bar heitið Núll í tombólukassa. Minningar sumarstráks. Frábær og skáldleg lýsing á kostulegum uppákomum og einstaklingum þar sem Einar klink var greinilega enn ákaflega ljóslifandi í minningunni. Egill Helgason fór með áhorfendur í huganum upp á vörbílspallinn hjá Stebba Ungverja og fjallaði einnig um sumardvöl sína í Eyjum árið 1974, þá aðeins fjórtán ára peyi. Hann bjó ekki á verbúðinni eins og Guðmundur Andri heldur hjá Svölu og Óla í Suðurgarði. Sagði hann líka á persónulegan og næman hátt frá fólkinu í vesturbænum þar sem hann bjó. Síðastur ræðumanna var enginn annar en Bubbi og byrjaði hann á því að lesa upp úr væntanlegri ljóðabók sinni sem mun bera heitið Hreistur. Hann las nokkra kafla sem hann sagði að væru sérstaklega tengdir veru sinni í Eyjum. Bestur þótti blaðamanni Bubbi vera þegar hann fór að segja sögur og hann hefði vel mátt eyða lengri tíma í þann þátt, því Bubbi er frábær sögumaður þegar hann tekur á sprett. Draugasagan frá því hann bjó í Landlyst var t.d. bráðsmellin. Guðmundur Andri, Egill og Bubbi sögðu að tíminn í Vestmannaeyjum hefði haft áhrif á líf þeirra og þar hefðu þeir orðið að mönnum. Þeir lýstu líka mannlífspotti sem frystihúsin voru, ekki síst verbúðirnar sem voru heimur út af fyrir sig. Þar var á einu lofti fólk alls staðar að úr heiminum, ungar sálir og saklausar sem hent var út í djúpu laugina og fólk með sár á sálinni, misjafnlega djúp og stór. Einar Gylfi Jónsson lokaði þessari skemmtilegu stund með því að tilkynna að næsta Eyjahjarta yrði haldið í september en að hann yrði að segja fyrirlesurum frá því fyrst að þeir ættu að koma áður en hann tilkynni hverjir kæmu. Þannig lauk Eyjahjartanu í Safnahúsi, frábær dagskrá með þjóðþekktum einstaklingum sem eins og Kári orðaði það í kynningu sinni lyftu undir þjóðarstoltið. Sannarlega dagskrárröð sem hefur slegið í gegn.     Myndir frá Eyjahjartanu

Með lögreglubakteríuna

Þórir Rúnar Geirsson er Eyjapeyi í húð og hár. Sonur Geirs Jóns Þórissonar fyrrverandi yfirlögregluþjóns og Ingu Traustadóttur sjúkraliða. Þórir Rúnar ólst upp í Eyjum til 14 ára aldurs. Hann fetaði í fótspor föður síns og vinnur nú sem rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Blaðamaður mætti á lögreglustöðina við Hverfisgötu á slaginu tvö og gaf sig fram í afgreiðslu. Stuttu síðar mætir Þórir Rúnar brosandi og heilsar með þéttu faðmlagi. Í slyddunni hröðum við tvö okkur á kaffihús við Rauðarárstíg.   Þórir Rúnar Geirsson flutti til Reykjavíkur með fjölskyldunni 1992. Hann kom sjaldan til Eyja fyrst eftir flutningana og missti við það tengsl við kunningja og vini. Hann hefur nú endurnýjað tengslin við Eyjar en hver er hann þessi viðkunnalegi, hávaxni Eyjamaður?   Allt bannað er spennandi ,,Ég er tæplega fertugur fjögurra barna faðir, lögreglumaður til 18 ára, nemandi og tónlistarmaður, ég lauk lögregluskólanum árið 2001. Í framhaldsskóla var ég í námi í rafvirkjun en svo æxluðust hlutirnir þannig að ég fór að vinna í lögreglunni. Á gamals aldri vaknaði upp draumurinn um að klára rafvirkjanámið og nú er ég í kvöldnámi meðfram fullri vinnu og stefni á útskrift á þessu ári. Það er gott að vera með sveinspróf í einhverri iðn og ég stefni á meistararéttindi í framtíðinni,“segir Þórir Rúnar með ákveðni. ,,Mér fannst löggan heillandi og spennandi sem barn en hafði ekki löngun til þess að verða lögreglumaður. Ég upplifði það sem barn að pabbi var aldrei heima og ferðalögin á sumrin voru stytt þegar pabbi var kallaður til vinnu. Pabbi var ákveðinn í því að ég færi ekki í lögregluna og ætlaði að sjá til þess að ég fengi ekki vinnu á þeim vettvangi. En allt sem er bannað er spennandi,“ segir Þórir Rúnar og í trássi við vilja föður síns sótti hann um sumarvinnu hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1999 og fékk vinnuna. ,,Pabbi var ekki sáttur þegar hann frétti af sumarstarfinu. Það var hins vegar ekki aftur snúið, ég fékk lögreglubakteríuna. Starfið er skemmtilegasta starf sem ég hef verið í og hér er ég enn 18 árum síðar. Mamma var ekki síður ósátt við starfsvettvanginn og sérstaklega að ég skildi hætta í rafvirkjanáminu. Ég vona að mamma sé stolt af mér í dag.“   Fólk á sínum lægsta punkti Þórir Rúnar hóf störf sem almennur lögreglumaður en starfar í dag sem rannsóknarlögreglumaður og líkar það vel. Þórir Rúnar segir það ólíkt að starfa sem almennur lögreglumaður eða sem rannsóknarlögreglumaður. Samt sem áður eiga bæði störfin það sameiginlegt að snúast um samskipti við fólk sem er á mismunandi stað í lífinu. ,,Sem almennur lögreglumaður fór ég í útköll, oft þar sem fólk var berskjaldað eða á sínum lægsta punkti í lífinu. Það þurfti að leysa hlutina, rannsaka málið á vettvangi og skila um það skýrslu. Sem rannsóknarlögreglumaður er það mitt hlutverk að rannsaka sakamál hvort sem það lýtur að sekt eða sýknu. Ég þarf að komast til botns í viðkomandi máli og rannsaka það til fulls svo það geti farið áfram sína leið til ákæruvaldsins og þaðan áfram til dómstóla.“   Heppinn með foreldra Þórir Rúnar segir að álagið sé ekki meira í almennu lögreglustarfi en í starfi rannsóknarlögreglumanns. Hann segir hins vegar að álagið sem fylgi því að vera lögreglumaður úti á landi geti verið meira en í Reykjavík. ,,Í litlu samfélagi vita allir allt um alla og það getur verið erfitt að koma inn í aðstæður hjá fólki, koma inn í líf þeirra á viðkvæmum tímapunkti og hitta það svo kannski í Krónunni daginn eftir. Það er auðvitað persónubundið hvað lögreglumenn taka inn á sig, en tvennt verður lögreglumaður að gera, sýna virðingu og vera kurteis. Ég alla vega nenni ekki að vera leiðinlegi gæinn,“ segir Þórir Rúnar brosandi. Þórir þarf að hugsa sig um þegar blaðamaður spyr hvaða þættir hafa mótað hann. ,,Þetta er erfið spurning.“ Skyndilega birtir yfir Þóri Rúnari og hann segir: ,,Ég er heppinn með foreldra. Móðir mín er yndisleg kona, ótrúlega sterk með mikið langlundargeð, hún er góð kona. Pabbi er mín fyrirmynd og minn besti vinur. Ég get alltaf leitað til hans með öll mín vandamál og hann gefur mér alltaf góð ráð.“   Bitnar á fjölskyldunni Nú verður Þórir Rúnar hugsi, ,,sko ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Ég tel mig rosa líkan pabba. Alltaf tilbúinn til vinnu og á það til að láta það bitna á fjölskyldunni, þ.e.a.s að vera mín heima fyrir er stundum lítil.“ Þórir Rúnar verður alvarlegur á svip og segir: ,,Ég ætlaði aldrei að verða eins og pabbi en nú set ég börnin mín í sömu stöðu. Þetta er starfið mitt og eftir 18 ár líður mér eins og ég sé nýbyrjaður. Ég veit að ég er ekki að bjarga heiminum en ég get lagt mitt af mörkum.“ ,,Ég er fæddur inn í Betelsöfnuðinn og var þar sem krakki. Tók niðurdýfingaskírn í Betel 14 ára gamall og það mótaði mig sem slíkan. Mér var stundum strítt á því að vera í Betel en ég varð aldrei fyrir neinu einelti,“ segir Þórir Rúnar. ,,Ég var í Barnaskólanum og þekki helst krakkana þaðan. Ég var ekki í miklum tengslum við félaga mína eftir að ég flutti suður, það var engin facebook til þá og ég fór ekki mikið til Eyja fyrr en mamma og pabbi keyptu íbúð í Áshamrinum. Þá byrjuðum við að koma á Þrettándann. Ég hef þó haldið sambandi við marga og er að kynnast öðrum aftur.   Fundaði með verðandi eiginkonu ,,Ég er Vestmannaeyingur í húð og hár,“ heldur Þórir Rúnar stoltur áfram. ,,Mér finnst ég heppinn að hafa fæðst í Vestmannaeyjum og lít á þær sem mitt heimili. Við fluttum suður 1992 þegar pabbi fékk stöðu í Reykjavík og í allt of mörg ár hefur mig langað að flytja aftur til Eyja. Hvítasunnukirkjan er eitthvað sem mér þykir vænt um. Ragnheiður móðuramma var mjög trúuð og mikil bænakona sem og Dúna föðuramma mín. Þær báðu fyrir okkur og sögðu sögur,“ segir Þórir Rúnar með hlýju í röddinni. ,,Trúin hefur veitt mér styrk, í gegnum skilnaðinn við fyrri konu mína þá var trúin mitt haldreipi. Skilnaðinn má að hluta til rekja til þess að ég var aldrei heima og fyrrverandi konan mín þráði annað líf en það sem ég gat veitt henni. Við eignuðumst saman tvo stráka, Geir Jón 13 ára og Víking Ómar 11 ára. Í gegnum erfiðleikana við skilnaðinn kynntist ég gífurlega góðri og heilsteyptri konu, Guðrúnu Maríu Jónsdóttur. Hún er öðruvísi týpa og veit hvernig starfið mitt er,“ segir ástfanginn Þórir Rúnar. ,,Ég nennti ekki að fara í aðra vitleysu og fundaði með Guðrúnu Maríu strax í byrjun okkar kynna. Þar lét ég hana vita að ég væri lögreglumaður og hún gæti ekki treyst því að ég kæmi heim þegar ég ætti að koma heim. Guðrún María gekk að þeim skilyrðum, hún er sjálfstæð kona og er meira að segja búin að samþykkja að flytja til Eyja þegar tækifæri gefst. Saman eigum við Elísabetu Ingu 6 ára og Ingimar Hrafn 3 ára,“ segir stoltur eiginmaður og fjögurra barna faðir. Vilji barnanna skiptir öllu máli Þórir Rúnar telur sig heppinn hvað varðar sambandið við fyrrverandi eiginkonu sína þegar kemur að börnum þeirra. ,,Við eigum gott samband og ég hef umgengni aðra hverja viku. Ég hef ekki upplifað neinar tálmanir og á gott samband við strákana mína. Við viljum að strákunum líði sem best og þeir upplifi ekki þvinganir. Fólk á ekki að líta á umgengni sem minn rétt eða þinn rétt. Vilji barnanna er það sem öllu skiptir, þau elska mömmu og pabba jafnmikið. Það er líka bannað að tala illa um föður eða móður, þetta eru foreldar barnanna,“ segir Þórir Rúnar með miklum þunga.   Pabbi breytist í Vestmannaeying Þrátt fyrir að Þórir Rúnar sé mikil Eyjamaður voru flutningarnir til Reykjavíkur þegar hann var 14 ára ekki erfiðir. ,, Mér fannst þetta spennandi, pabbi fór í febrúar og ég flutti svo til hans í ágúst. Við deildum saman rúmi á Leifsgötunni hjá ömmu og afa. Mamma var eftir í Eyjum með systkini mín, Narfa Ísak, Símon Geir og Ragnheiði Lind. Þegar húsið okkar í Stóragerði seldist í desember sama ár komu mamma og systkinin til okkar. Við bjuggum þröngt til að byrja með, í íbúð sem amma og afi áttu. Við bræðurnir þrír sváfum í sama herbergi, þeir í koju og ég á dýnu á gólfinu. Mamma og pabbi sváfu í geymslunni í kjallaranum með systur mína á milli sín.“ Þórir Rúnar heldur áfram að rifja upp fyrstu árin í Reykjavík. ,,Pabbi byrjaði að byggja í Grafarvoginum árið 1993 og við fluttum inn í nýja húsið sama ár. Þar varð okkar heimili og við fengum víðáttubrjálæði til að byrja með. Pabbi er alinn upp á Skólavörðuholtinu en langaði alltaf að fara út á land að vinna. Svo bauðst honum vinna í Vestmannaeyjum og þá breytist hann í Vestmannaeying. Pabbi var alltaf ákveðinn í að flytja aftur til Eyja þegar starfsævinni lyki og það gerðu þau mamma þegar hann hætti sem yfirlögregluþjónn.“   Dýrmætt að sýna ástina Það fer ekki á milli mála að Þórir Rúnar ber mikla virðingu fyrir foreldrum sínum. ,,Mamma flutti suður frekar ung. Þau pabbi voru búin að þekkjast síðan krakkar, voru saman í unglingastarfinu í Hvítasunnukirkjunni. Það er gott að hafa góðar fyrirmyndir. Það er ekki sjálfgefið að fólk sé gift og það er mér dýrmætt að mamma og pabbi séu enn saman. Þau geta talað saman og þau eru ennþá ástfangin, leiðast og kyssast góða nótt og góða dag.“ ,,Þetta er dýrmætt og ákveðin skilaboð til mín að vera góður við mína eiginkonu og sýna henni ást,“ segir Þórir Rúnar með tilfinningu og heldur áfram: ,,Það er svo mikilvægt að sýna ástina. Segja ég elska þig, það skiptir máli og gott að heyra þau orð.“   Jesús gerir mig að betri manni Þórir Rúnar kemur aftur að trúnni. ,,Hún hefur alltaf skipt mig miklu máli og gerir enn í dag. Það er mjög mikilvægt að hafa þessa trú og ég er þakklátur að hafa fæðst inn í kirkju. Ég kynntist konunni minni í kirkju þegar hún var tiltölulega nýbyrjuð að sækja hana. Trúarlíf er lífstíll. Ég á persónulegt samband við Jesú og mér finnst gott að geta lagt áhyggjur mínar á hann,“ segir Þórir Rúnar með mikilli sannfæringu. Af hverju kristni er að verða tabú í þjóðfélaginu hefur Þórir Rúnar ekki skýringu á. ,, Kannski er samfélagið opnara, ég skal ekki segja. En mér þykir það leitt að fólk fjarlægist Guði og Jesú. Það eru góð gildi kennd í kirkjunni, boðorðin 10 og Gullna reglan svo eitthvað sé nefnt.“ Spurður hvort trúaðir menn þurfi að vera heilagir svarar Þórir Rúnar. ,,Ég er breyskur maður með kosti og galla og þó að ég trúi á Guð þá er ég ekkert betri en hver annar. Ég geri mitt besta í samfélaginu við Jesú, geri mistök og þarfnast fyrirgefningar á hverjum degi. Samfélagið við Jesú gerir mig að betri manni.“   Með bassahneigð Þórir Rúnar hefur mörg áhugmál, tónlist er eitt þeirra og það besta sem hann gerir er að spila á bassa. ,,Það er mikill happafengur að fá að spila á bassa í Tjarnarprestakalli, í Ástjarnarkirkjunni á Völlunum. Að spila með kór Ástjarnarkirkju sem er gríðalega góður kór eru forréttindi. Það eru þrír Eyjamenn sem syngja í kórnum. Bjartey Sigurðardóttir, Guðrún Erlingsdóttir og Kristjana Þórey Ólafsdóttir auk þriggja annarra sem tengjast Eyjum. Matthías V. Baldursson stýrir kór og hljómsveit af miklum myndarbrag en hann á líka ættir að rekja til Eyja.” Áfram heldur Þórir Rúnar: ,,Sem meðlimur í húsbandinu í Ástjarnarkirkju hef ég fengið útrás fyrir mína bassahneigð. Ég spilaði áður á gítar í Fíladelfíu þegar ég var peyi en svo vantaði bassaleikara og ég tók að mér að fylla það skarð. Mér finnst gaman að spila og bassinn er rótin, hann er rythminn. Þegar þú dansar þá er það bítið í trommunum og rythminn í bassanum. Ég er í fullri vinnu, í námi og með fjölskyldu. Að spila með húsbandinu er mín hvíld.“ ,,Eftir erfiða vinnuviku er það ákveðin hugarró að stíga á stokk með Begga (Þorbergi Skagfjörð Ólafssyni) og Frissa ( Friðriki Karlssyni) ásamt Matta ( Matthíasi V. Baldurssyni) og kórnum og finna fyrir hverri nótu. Það hreinsast allt út, það er ekki hægt annað en að vera í núinu þegar ég hlusta á gítarinn, trommurnar, rythman og hljómborðið. Mér finnst æðislegt að lofa Guð með tónlist, það er toppurinn. Ég finn nærveru Guðs þegar við syngjum lofsöngva, þetta er eitthvað yfirnáttúrulegt,“ segir Þórir Rúnar með einlægni.   Ég á þetta svo skilið Spurður út í æskuna segir Þórir Rúnar hlæjandi: ,, Ég vil nú meina að ég hafi alltaf verið stilltur en foreldar mínir eru ekki á sama máli. Ég var ekki auðveldur og hugsa að ef ég væri barn í dag þá hefði ég verið greindur með ofvirkni og athyglisbrest. Mér gekk ágætlega í skóla án þess þó að vera toppnemandi. Hafði gaman af ýmsu en var lélegur að læra heima. Það voru ekki gleðilegar stundir þegar mamma fann ókláruð heimaverkefni falin í skrifborðinu mínu.“ Þórir Rúnar heldur áfram: ,,Íslenska og lestur hafa reynst mér auðveld fög en stærðfræðin var erfiðari. Það kemur ekki mikið að sök í lögreglunni en er þeim mun erfiðara í rafvirkjuninni. Ég hef nú róast og er skárri í dag, held að það hafi ræst ágætlega úr mér,“ segir Þórir Rúnar hugsi. ,,Ég sé sjálfan mig í krökkunum mínum. Vá, hvað ég á þetta allt skilið. Pabbi væri ekki svona gráhærður og sköllóttur ef hann ætti mig ekki. Ég skemmdi svo margt heima,“ segir Þórir Rúnar og það er ekki laust við að það örli á eftirsjá. ,,Eitt sinn var pabbi nýbúinn að pússa gluggakisturnar í bílskúrnum og þá fékk ég löngun til þess að saga þær. Mig vantaði alltaf eitthvað að gera. Þegar pabbi setti nýja bílinn okkar í bílskúrinn fann ég mér steina og nuddaði bílinn með þeim. Ég var bara brjálæðislega ofvirkur. Narfi Ísak bróðir minn er rosalega virkur en hann notaði það á annan hátt. Hann tók til á meðan ég rústaði. Í dag hef ég róast en hann er ennþó ofvirkur,“ segir Þórir Rúnar glottandi.   Gott að vera orkumikill í Eyjum Synir Þóris Rúnars virðast hafa erft uppátækjasemi og ofvirkni föðurins. ,,Þegar ég og konan mín vorum nýbyrjuð saman þá vorum við bæði með mikinn höfuðverk. Hún fór inn í rúm og lagði sig en ég lagði mig í sófann á meðan strákarnir horfðu á sjónvarpið. Ég steinsofnaði og vakna við það að nágranninn er að hringja dyrabjöllunni og strákarnir eru horfnir. Þegar ég opna stendur hann með strákana mína, hvíta frá toppi til táar.” ,,Strákarnir höfðu farið í leyfisleysi inn í bílskúr nágrannans og tekið þaðan hvíta málningu sem þeir notuðu til að mála götur, bíla og sjálfa sig. Þarna skyldi ég vel líðan foreldra minna á árum áður. Þau eiga miklar þakkir skyldar að endast þetta og ég vona að ég geti gefið þeim til baka. Ég heyrði aldrei að það væri eitthvað að mér og það var gott að vera orkumikill í Eyjum. Ég var alla daga úti að leika, niðri á höfn, prílandi upp á Eldfell og víðar,“ segir fyrrum orkuboltinn.   Vil vera leiðbeinandi barnanna Nú verður Þórir Rúnar alvarlegur: ,,Elsti strákurinn minn er greindur með ofvirkni og athyglisbrest. Með aðstoð góðra lækna og lyfja virkar hann vel í samfélaginu. Erfiðleikar og greiningar eru ekki eins mikið tabú í dag og þau voru. Strákurinn minn gefur mikla ást og hefur stórt hjarta, hann vill allt fyrir mig gera. Hann er mjög næmur og tekur eftir líðan fólks. Hann segir mér alveg til syndanna, ég eigi að vera rómantískari við konuna mína, bjóða henni út að borða og á stefnumót.“ Þórir Rúnar heldur áfram: ,, Hann er algjör draumur eins og öll hin. Ég vissi ekki fyrr en ég varð pabbi sjálfur hvað börnin gætu verið mismunandi en samt lík. Stundum örlar fyrir stressi yfir framtíð barnanna minna. Kannski spilar starfið eitthvað inn í. Ég er ekki mikið fyrir boð og bönn og ef ég mátti ekki gera eitthvað þá fyrst varð það spennandi. Ég vil frekar vera leiðbeinandi fyrir börnin mín. Það verður samt að halda uppi aga.“   Langar heim Hvað er framundan hjá Þóri Rúnari Geirssyni? ,,Markmiðið er að klára rafvirkjanámið á þessu ári, fara í sveinspróf og svo meistaranám þegar til þess gefst tækifæri. Ég myndi vilja fá starf sem lögreglumaður í Eyjum og vinna við rafvirkjun á milli. Konan mín er snyrtifræðingur og hana langar að læra fótaaðgerðafræði. Við ættum að hafa ágætis atvinnumöguleika í Eyjum. Mig langar að flytja heim til Eyja þar sem ég væri nær pabba og mömmu og systur minni sem er nýflutt á Hólagötuna. Börnunum líður vel í Eyjum og ég sæi fram á meiri tíma með fjölskyldunni. Enginn veit ævina fyrr en öll er, sjáum hvað setur.“   Mamma er kærleikurinn Aftur kemur Þórir Rúnar að foreldrum sínum. ,,Ég fæ einlægnina frá mömmu, hún er einstök kona. Pabbi væri ekki það sem hann er í dag ef hann hefði ekki haft mömmu. Hún kveinkar sér aldrei en ef hún gerir það þá er eitthvað mikið að. Þau virka svo vel saman og eru fyrirmyndir okkar krakkanna. Pabbi er yndislegur og kærleiksríkur og hefur kennt mér svo margt. Mínar bestu stundir eru með pabba. Pabbi er kletturinn og mamma er kærleikurinn.“ Í lokin rifjar Þórir Rúnar það upp að hann og systkini hans fengu aldrei að fara út eftir útvistartíma þó svo að önnur börn í hverfinu væru úti að leika sér. Hann sagðist oft hafa óskað þess að pabbi hans væri ekki lögreglumaður heldur smiður. ,,Í dag er ég þakklátur foreldrum mínum, börn hafa ekkert að gera úti seint á kvöldin, Það er nefnilega ástæða fyrir útvistarreglum.“ Fjölskylda Þóris Rúnar hélt reglulega samverukvöld og gerir það enn þegar öll systkinin hittast. Þetta átti að koma að einhverju leyti í stað útileikja á kvöldin. Í dag spjöllum við og eigum samveru og ég jafnvel tek upp gítarinn. Svo endum við með sálmasöng og bæn. Þetta er mjög gefandi“ segir Þórir Rúnar Geirsson einlægur að lokum.  

Eyjahjartað - Guðmundur Andri, Egill Helga, Bubbi og Ómar Vald

Á morgun kl. 13.00 mæta þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Egill Helgason fjölmiðlamaður, Bubbi Mortens tónlistarmaður og Ómar Valdimarsson blaðamaður með meiru í Sagnheima og ætla að segja frá þeim löngu liðnu dögum þegar þeir ungir og óábyrgir menn dvöldu í Vestmannaeyjum.   Það er Eyjahjartað sem stendur fyrir komu þeirra fjórmenninganna. Guðmundur Andri, Egill og Bubbi höfðu boðað komu sína síðasta haust en af því gat ekki orðið en nú eru þeir ákveðnir í að mæta og hefur Ómar Valdimarsson bæst í hópinn. Hingað til hafa brottfluttir Eyjamenn rifjað upp árin í Eyjum og hafa vinsældirnar farið sívaxandi. Í byrjun mars mættu hátt í 200 manns í Einarsstofu til að hlýða á Pál Magnússon á Símstöðinni, Gísla Pálsson á Bólstað og Brynju Pétursdóttir frá Kirkjubæ. Það verður örugglega fróðlegt að fá hina hliðina, heyra hvað þjóðþekktum einstaklingum finnst um þann tíma sem þeir voru í Eyjum. Er ekki að efa að þeir Guðmundur Andri, Egill, Bubbi og Ómar eiga eftir að koma með nýjan og skemmtilegan vinkil á lífið í Vestmannaeyjum á síðustu öld.   Þau sem standa að Eyjahjartanu eru Kári Bjarnason, Atli Ásmundsson, Þuríður Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson sem lofar góðri skemmtun á sunnudaginn. Í viðtali síðasta haust sagði Einar Gylfi um spjall sem hann, Atli og Þuríður áttu við Guðmund Andra, og Bubba: „Egill vann í Ísfélaginu eina vertíð og bjó hjá Óla í Suðurgarði sem segir allt sem segja þarf. Guðmundur Andri var í móttökunni í Ísfélaginu sumarið 1974 og bjó á verbúðinni þannig að þeir voru þar sem hjartað sló örast í Eyjum á þessum tíma.“ Bubbi var miklu lengur viðloðandi Eyjarnar. Allt frá árinu 1974 til 1980 að fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús kom út. „Hann vann í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og Vinnslustöðinni og bjó á verbúðunum, í Landlyst og Líkhúsinu. Hann kynntist mönnum eins og Einari klink og fleirum sem settu svip á mannlífið í Eyjum á þessum árum.“   „Ég og Þura stefnum á að koma og hlökkum mikið til. Það segir sitt um frásagnagleði þeirra félaga að málglatt fólk eins og við, Gylfi í Húsavík, Atli greifi og Þura í Borgarhól komu varla að orði þegar við hittum þá. Það var mikið hlegið og það verður ekkert öðruvísi í Sagnheimum á sunnudaginn,“ sagði Einar Gylfi að endingu.   Guðmundur Andri kallar erindi sitt Núll í tombólukassa. Minningar sumarstráks. Egill kallar sitt erindi Á vörubílspallinum hjá Stebba Ungverja en Bubbi er ekki með orðalengingar og kallar sína frásögn einfaldlega Hreistur. Ómar kallar sitt erindi, Fólkið mitt í Eyjum. Einar Gylfi flytur svo lokaorð fyrir hönd undirbúningsnefndar. Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13.00 í Sagnheimum á annarri hæð í Safnahúsinu. Kári vildi koma að þökkum til forvígismanna Eyjahjartans fyrir þeirra vinnu við að koma saman hverri dagskránni eftir aðra og hvetur sem flesta til að koma, hlusta á skemmtilega upprifjun einstaklinga sem dvöldu hér á mótunarárum og einfaldlega gleðjast með glöðum.    

Guðni Ágústsson og Jóhannes eftirherma í Höllinni í kvöld

Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður Sunnlendinga og ráðherra átti marga góða spretti í Vestmannaeyjum sem ræðumaður. Eftirminnilegast í huga þess sem þetta skrifar er ræðan sem hann flutti í Safnaðarheimili Landakirkju þar sem hann afhenti Mara pípara og fleirum Lagnaverðlaun fyrir vel unnið verk.   Útgangspunkturinn var að píparar hefðu gert betur í að ná hita í kropp Íslendinga en prestar í gegnum aldirnar. Þá er ekki síður eftirminnileg hátíðarræðan í fimmtugsafmæli Magnúsar Kristinssonar í Týsheimilinu þar sem salurinn lá í krampa allan tímann. Þar var uppleggið þegar MK gaf nýkjörnum þingmanni, Guðna Ágústssyni nokkur góð ráð um hvernig hann ætti að haga seglum í starfi sínu sem þingmaður. Jóhannes Kristjánsson, eftirherma hefur oft skemmt Eyjamönnum og nú ætla þeir að mæta saman í Höllinni á laugardaginn þar sem Eftirherman og Orginalinn láta gamminn geysa. „Jóhannes á 40 ára afmæli sem skemmtikraftur. Í mörg ár hafa menn skorað á okkur að koma fram saman og skemmta fólki, hann sem eftirherma sem á ekki sinn líka, ég að segja sögur enda gefið út metsölubók með skemmtisögum: Guðni léttur í lund,“ segir Guðni um þetta framtak þeirra félaga. „Nú förum við um landið undir slagorðinu: Eftirherman og Orginalinn láta gamminn geysa. Dregið af því að þegar ég hringi stundum í vini mína spyrja menn hvort er þetta eftirherman eða orginalinn? Við byrjuðum í Grindavík svo á Flúðum og Hvolsvelli og fyllum nú Salinn í Kópavogi. Og Landnámssetrið aftur og aftur.   En við erum svo að svara kalli og koma til fólksins í landsbyggðunum. Förum vestur á firði í byrjun maí á Selfoss og til ykkar í Vestmannaeyjum í Höllina laugardagskvöldið 22. apríl. Við eigum von á brjálaðri höll því Vestmannaeyingur kunna að hlæja og skemmta sér. Jóhannes er í miklu stuði og margir koma í gegnum hann. Hann er miklu meira en eftirherma, hann holdgervist og verður í framan eins og fórnarlambið. Nú er það spurningin hvort ég nái þeim hæðum sem ég gerði í afmæli Magga Kristins forðum þegar allir Eyjamenn urðu Framsóknarmenn heila nótt, svo rann af þeim og þeir urðu aftur Sjálfstæðismenn. Við hlökkum til að koma til Eyja og búumst við brjálaðri Höll.“    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Breiðablik sigraði TM mótið eftir úrslitaleik við Val

TM mótið eða Pæjumótið eins og það er oft kallað fór fram í þar síðustu viku en það er knattspyrnumót ætlað stelpum í 5. flokki. Mótið hófst á fimmtudag og lauk á laugardaginn með úrslitaleikjum. Að þessu sinni voru 84 lið frá 26 félögum sem tóku þátt í mótinu en það er aukning um átta lið. Í ár varð Breiðablik 1 TM móts meistari eftir sigur á Val 1 sem einmitt vann mótið í fyrra. Leikurinn fór 1-1 en þar sem að mark Breiðabliks kom fyrr urðu þær grænklæddu sigurvegarar. ÍBV 1 náði ágætis árangri á mótinu og spilaði um þriðja sætið en tapaði fyrir Stjörnunni 1, lokastaða 0:3.   Mótstjórinn hæst ánægður með útkomuna Þegar blaðamaður ræddi við Sigríði Ingu Kristmannsdóttur, mótstjóra, eftir helgina sagði hún mótið hafa gengið snurðulaust og vel fyrir sig, hvert sem á var litið. „Í dag er nær allt starf í kringum mótið orðið fjáraflanir fyrir iðkendur félagsins, sem rennur beint í ferðasjóð þeirra,“ sagði Sigríður Inga en á annað hundrað manns komu með einum eða öðrum hætti að þessari fjáröflun. „Svo erum við með í kringum 40 dómara sem fyrirtæki í bænum lána okkur yfir mótið og viljum við koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra. Mótið gekk í alla staði mjög vel, ef við horfum framhjá veðrinu á föstudaginn. Við fengum mikið hrós frá félögunum fyrir dagskrána, matinn, dómarana og að allar tímasetningar hafi staðist.“ Þrátt fyrir að Pæjumótið snúist fyrst og fremst um fótbolta þá er hæfileikakeppnin ávallt einn af hápunktum helgarinnar. „Í hæfileikakeppninni koma öll félög með atriði. Það er ýmist söngur eða dans, og allt frá einni stelpu upp í 30 stelpur í atriðunum. Í ár fengu KA stelpur verðlaun fyrir frumlegasta atriðið og Víkings stelpur fyrir flottasta atriðið. Ingó Veðurguð átti síðan að sjá um ball eftir hæfileikakeppnina en varð veðurtepptur í Reykjavík þar sem það var ekki flug á föstudag og hann rétt missti af Herjólfi. En við vorum svo heppin að Hreimur Örn var hérna sem foreldri og gátum við dobblað hann í að redda okkur. Það var mikið stuð á ballinu, dansað og sungið með,“ sagði Sigríður Inga. Á mótinu voru spilaðir 415 leikir allt í allt en öll úrslit eru inni á tmmotid.is. Sunna Daðadóttir, dóttir Þóru Hrannar Sigurjónsdóttur og Daða Pálssonar, var fulltrúi ÍBV í landsleiknum og var hún var einnig kosin í lið mótsins á lokahófinu.  

Stjórnmál >>

Greinar >>

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í mínum huga frá því ég man eftir mér. Á Siglufirði var Sjómannadagurinn stór hátíð þar sem sjómenn tókust á í hinum ýmsu keppnisgreinum skunduðu svo á ball á Hótel Höfn og tóku það stundum óklárt. Knattspyrnu á malarvellinum í sjóstökkum og bússum man ég eftir. Stakkasund í höfninni og reiptog. Keppni í netabætingu, kappróður og margt fleira. Í minningunni skipti þetta miklu máli fyrir unga drengi. Þeir urðu margir ákveðnir að verða kaldir kallar eins og sjóararnir, með uppbrettar ermar á köflóttu vinnuskyrtunum. Ég var einn þeirra sem fetaði þann veg að verða sjómaður og sé ekki eftir því. Ekki var maður burðugur fyrstu túrana en þetta hafðist allt með aðstoð og kennslu góðra sjómanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lenda með góðum skipstjórum og áhöfnum. Nú er Sjómannadagurinn nánast aflagður á Siglufirði en þeir í austurbænum, Ólafsfirði hafa tekið upp merkið og halda veglega uppá daginn.   Dansað á þremur stöðum Ég og mín fjölskylda fluttum til Eyja 1989. Þá voru dansleikir og skemmtanir í þremur húsum. Höllinni, Alþýðuhúsinu og Kiwanishúsinu. Líklega um sex- til sjö hundruð manns þegar allt er talið. Og enn fleiri á dansleikjunum eftir skemmtanirnar. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Minn fyrsti Sjómannadagur í Eyjum var 1989. Þá fórum við áhöfnin á Frigginni sem Magni Jó var með, í Höllina til Pálma Lór og vorum niðri á Mylluhól. Einn bar var á hæðinni og sú sem sá um barinn þurfti að bregða sér í eldhúsið til að uppvarta. Komin var löng röð við barinn. Þá brá ég mér innfyrir barborðið og afgreiddi brennivín ofan í þyrsta sjómenn, tvöfaldan, þrefaldan og black russian. Þangað til ég sá bardömuna koma til baka. Enginn þurfti að borga á barnum hjá mér. Fyrirgefðu Pálmi minn.   Í Sjómannadagsráði Eftir nokkur ár í Eyjum var ég kominn í Sjómannadagsráð fyrir Jötunn og ekki varð aftur snúið. Afskaplega skemmtilegur tími að skipuleggja og vinna við Sjómannadaginn. Margir sjómenn sem maður hefur unnið með gegnum árin við skipulagningu og vinnu við daginn. Við þá segi ég takk fyrir samstarfið drengir þetta var stundum erfitt en á endanum alltaf gaman og gefandi. Að standa með sinn félagsfána við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra við Landakirkju á Sjómannadegi og hlusta á Snorra Óskarsson minnast okkar föllnu félaga er í raun einstakt og ómetanlegt í minningunni. Þar drjúpum við sjómenn höfði fyrir Guði og mönnum. Við finnum fyrir smæð okkar fyrir Almættinu og náttúruöflunum. Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í Eyjum og er enn. Sjómennirnir sjálfir hafa borið merkið, skipulagt og unnið vinnuna kringum hátíðina. Þannig viljum við hafa það. Við peyjana í Sjómannadagsráði segi ég, þið eruð dugnaðarforkar og sjómannastéttinni til sóma.   Sjómenn, fjölskyldur og allir Vestmannaeyingar til hamingju með Sjómannadaginn og mætum öll á viðburði helgarinnar.   Með Sjómannadagskveðju Valmundur Valmundsson