Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nú er veturinn genginn í garð og rútína og hversdagsleiki orðinn fastur í sessi á flestum heimilum. Margir þekkja að það getur verið heilmikil áskorun að púsla saman öllu því sem þarf að gera í dagsins önn. Boltarnir eru oft ansi margir, bæði í einkalífi og starfi og margir þurfa að hafa sig alla við til að halda öllu gangandi. Þegar álag verður of mikið, sérstaklega ef við upplifum að við erum farin að „ströggla“, getur það haft neikvæð áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Við förum að finna fyrir streitu. Vr birti þessa grein og er hún góð lesning fyrir alla.
 
 
Hvað er streita?
 
Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að vísa í streituviðbragðið sjálft (sem er lífeðlisfræðilegt varnarviðbragð líkamans), streituvaldana sjálfa (ytri og innri), sem og streitutengda vanheilsu. Það er mikilvægt að hafa í huga að streita er í eðli sínu jákvæð. Ef tímabundið stress fær að koma og svo líða hjá og við gefum okkur tækifæri til að jafna okkur á eftir, getur það mögulega bætt frammistöðu okkar. Það skerpir athygli þá stundina og gerir okkur kleift að takast á við álag og uppákomur af ýmsum toga. Til dæmis getur það aukið viðbragðsflýti og gert okkur kleift að vinna hraðar og af meiri einbeitingu sem er vissulega mjög hjálplegt.
 
Forðist langvarandi álag
 
Ef álagið er hins vegar langvarandi og möguleikar til þess að endurheimta orku litlir, getur yfirálag og langvinn streita haft skaðleg áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Tilfinningar sem maður upplifir sem neikvæðar eru ekki hættulegar í sjálfu sér, þær gætu þó orðið það ef brugðist er við með því að t.d. vinna meira, hraðar og af meiri ákafa, sleppa matarhléum og kaffipásum, draga úr hvíld, sleppa hreyfingu, líkamsrækt og áhugamálum. Ef maður festist í slíku mynstri mun langvarandi álag smám saman slæva ónæmiskerfið og veikja varnir líkamans. Því er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir álagsþáttum og þekkja eigin streitueinkenni. Ekki er síður mikilvægt að hlúa vel að sér og fylla á orkubirgðirnar til móts við það sem tapast á álagstímum.
 
Einkenni langvarandi streitu geta verið margvísleg
 
Einkenni langvarandi streitu geta birst bæði í líkamlegum og andlegum einkennum, hugsunum og hegðun. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkir, vöðvabólga, orkuleysi, hækkaður blóðþrýstingur, stoðkerfisvandi og verkir, svimi eða óáttun, svefnvandamál, minnkuð kynhvöt, meltingarvandamál, sem og hjarta- og æðavandamál. Tilfinningalífið getur einkennst af kvíða, depurð, ótta, sektarkennd, pirringi, reiði og óánægju. Ef streitustig er mjög hátt og langvarandi aukast líkur á ofsakvíðaköstum.
 
Streitutengd hegðun getur lýst sér þannig að fólk er stöðugt að flýta sér (þó ekkert liggi á), leitast við að gera margt í einu, sleppa pásum eða hættir að gera ánægjulega hluti vegna þreytu eða tímaskorts. Sumir pirrast auðveldlega og skeyta skapi sínu á umhverfinu. Eirðarleysi, slæmir ávanar, óheppilegar neysluvenjur, auknar reykingar og áfengisneysla: eru allt dæmigerð viðbrögð þegar sjálfstýringin fer á. Dæmi um hugræna þætti er að hafa margar (óskýrar) hugsanir samtímis, hrakspár og/eða sveigjanleiki í hugsunum, hugsanir um eigin vangetu, áhyggjur, áhugaleysi, heilaþoka, rörsýn. Við langt genginn streituvanda hrakar athygli og einbeitingu og geta heilans til að hugsa, gera áætlanir og muna hluti skerðist.
 
Að vinna gegn streitu
 
1. Vaknaðu til vitundar um sjálfan þig
Mikilvægt er að þekkja sjálfan sig, vera vakandi yfir því sem veldur manni streitu og þekkja streitueinkennin. Þannig verðum við betur undirbúin og líklegri til að bregðast við erfiðum aðstæðum okkur í hag. Kortlagning streituvalda og einkenna er mjög mikilvæg.
 
2. Gerðu áætlun
Það getur verið gagnlegt að hafa góða yfirsýn yfir vikuna eða jafnvel mánuðinn. Settu inn í stundatöflu eða dagbók allt sem þú veist að er framundan hjá þér eins og fundir, afmælisboð, læknisheimsóknir, próf eða skilafrestir ef það á við. Margir upplifa til dæmis heilmikla streitu í tengslum við matarinnkaup og því gæti verið gott að vera búinn að útbúa matseðil fyrir vikuna, að minnsta kosti fyrir virku dagana.
 
3. Einfaldaðu lífið eins og þú getur
Við erum svo dugleg að flækja lífið að óþörfu og oftar en ekki er það vegna þess að við erum illa skipulögð og skortir yfirsýn. Hvar getur þú einfaldað líf þitt? Með því að losna við litlu flækjurnar eigum við meiri orku á tankinum fyrir stærri álagsvalda
 
4. Settu tóninn fyrir daginn
Margir kannast við það að vera á síðustu stundu með allt og vita að það getur verið mjög óþægilegt. Það gæti verið hjálplegt að vakna örlítið fyrr á morgnana og gefa sér þannig aðeins rýmri tíma í morgunverkin og jafnvel að njóta þeirra, frekar en að hlaupa úr einu í annað og fara út um dyrnar með öndina í hálsinum af því að enn einn daginn erum við á síðustu stundu.
 
5. Forgangsraðaðu og gerðu raunhæfar kröfur
Þegar álag á okkur er mikið er mikilvægt að forgangsraða. Sumt skiptir meira máli en annað. Það getur vel verið að um tímabundið ástand sé að ræða og þá er gott að minna sig á það. Við þurfum að horfast í augu við að ekki er raunhæft að gera þær kröfur til okkur að sinna öllu jafnvel þegar það eru álagstímabil. Veltu fyrir þér hvað má bíða akkúrat núna. Má þvottahrúgan bíða eða á göngutúrinn að bíða? Hver og einn þarf að svara því fyrir sig.
 
6. Hlúðu að þér og vertu í núinu
Það er mjög mikilvægt að hlúa að sjálfum sér og tíminn sem fer í það þarf ekki að vera langur. Vissulega væri kostur ef við gætum passað vel uppá mataræðið og svefninn, hreyft okkur reglulega og gert ánægjulega hluti en stundum er það bara dálítið flókið. Margir kannast við að byrja haustið með háleit markmið um að taka einmitt á öllum þessum grunnþáttum heilsunnar. Vissulega er mikilvægt að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf svo maður upplifi ekki að manni hafi mistekist. Ef ég kemst ekki líkamsræktina í dag sökum álags eða anna, þá gæti ég mögulega gert eitthvað annað í staðinn eins og fara í stuttan göngutúr eða gengið stigana í stað þess að taka lyftuna. Allt telur þetta og bara það að gefa sér 5 mínútur hér og þar í dagsins önn skiptir máli.
 
Leyfðu þér að njóta kaffibollans, vera örlítið lengur í sturtunni, staldra við og horfa uppí himininn og bara vera og skynja í augnablik, vera heils hugar til staðar í samtali. Þetta þarf ekki að taka mikinn tíma frá þér en getur skipt sköpum. Notaðu nokkrar mínútur hér og þar til að stinga þér í samband og hlaða orkutankinn.
 
7. Innri röddin
Allar líkur eru á að þú sért að gera þitt allra besta - minntu þig stöðugt á það. Þegar streitukerfi líkamans virkjast hefur það iðulega áhrif á hugsanir okkar með neikvæðum hætti sem aftur virkjar streitukerfið þannig að vítahringur skapast. Þá verðum við líklegri til að fara að beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn?“ „Ég er alveg ómöguleg/ur,“ og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru ekki hjálplegar og því er mikilvægt að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar. Sýndu sjálfum þér skilning og umburðarlyndi í stað þess að brjóta þig niður.
 
Sigrún Ása Þórðardóttir og Snædís Eva Sigurðardóttir, sálfræðingar í Heilsuborg.
 
Grein birtist í 4. tölublaði VR 2017
 

17. júní verður haldinn hátíðlegur

Þjóðhátíðardagur Íslendinga er á sunnudaginn og verður haldinn hátíðlegur. Lagt verður af stað í skrúðgöngu frá Íþróttamiðstöðinni kl. 13.45 og verður gengið niður á Stakkagerðistún þar sem dagskráin hefst klukkan 14.00   Dagskrá 17. júní 2018.   9.00   Fánar dregnir að húni í bænum.   10.30 Hraunbúðir   Fjallkona – Thelma Lind Þórarinsdóttir flytjur hátíðarljóð.   Tónlistaratriði – Una Þorvaldsd., Jarl Sigurgeirs. og Sara Renee.   15.00   Lúðrasveit Vestmannaeyja leikur fyrir heimilisfólk og aðra hátíðargesti á Hraunbúðum.    13.30 Íþróttamiðstöð   Bæjarbúar og aðrir gestir safnast saman fyrir skrúðgöngu, lagt af stað kl. 13.45. Gengið verður frá Íþróttamiðstöðinni niður Illugagötu, inn Faxastíg og áfram Vestmannabraut að Stakkagerðistúni í lögreglufylgd. Félagar úr Lúðrasveit Vestmannaeyja leika fyrir göngunni og fánaberar úr Skátafélaginu Faxa leiða gönguna ásamt öðrum.   14.00 Stakkagerðistún   Lúðrasveit Vestmannaeyja spilar af krafti.   Hátíðarræða - Ásmundur Friðriksson alþingismaður   Fjallkona – Thelma Lind Þórarinsdóttir flytur hátíðarljóð   Fimleikasýning fimleikafélagsins Ránar   Ávarp nýstúdenta- Vigdís Hind Gísladóttir og Jóhanna Helga Sigurðardóttir   Tónlistaratriði – Una Þorvaldsd., Jarl Sigurgeris. og Sara Renee.       Leikfélag Vestmannaeyja skemmtir hátíðargestum.   Hoppukastalar og fjör ef veður leyfir.   Frítt inn á Sagnheima í tilefni dagsins.       Stefnt er að því að sýna leik Íslands og Argentínu á risaskjá á Stakkagerðistúni laugardaginn 13. júní kl. 13.00       Breytingar verða auglýstar á facebook síðu Vestmannaeyjabæjar og á www.vestmannaeyjar.is.  

Fjölbreytt og flott dagsskrá á sjómannadeginum í ár - myndir

Sjávarútvegur hefur alla tíð verið strærsta atvinnugrein okkar Eyjamanna og er því sjómannadagshelgin í hávegum höfð. Öllu til tjaldað og dagskráin glæsileg. Ölstofan The brothers brewery hóf dagskránna þessa sjómannahelgi þegar sjómannabjórinn Sverrir fór á dælu, en Sjómaður ársins er Sverrir Gunnlaugsson. Hann var ekki komin í land á fimmtudaginn og því mætti eiginkona hans Kolbrún Óladóttir og tók við viðurkenningunni. Næsti viðburður var í Alþýðuhúsinu þar sem rapparinn Emmsjé Gauti var með tvenna tónleikum. Dagskrá föstudagsins hófst snemma með opna Sjómannamóti Ísfélags Vestmannaeyja í golfi. Breki VE61 var skírður við hátíðlega athöfn við Kleifabryggju og bauð Vinnslustöðin upp á tónlistaratriði og veitingar. Skonrokkhópurinn spilaði síðan um kvöldið fyrir fullri Höll. Líkt og fyrri ár stóðust Skonrokkarar væntingar tónleikagesta með ábreiðum sínum á helstu slögurum rokksögunnar.   Stemming á Vigtartorginu á laugardaginn Laugardagurinn hófst með árlegri dorgveiðikeppni Sjóve og Jötuns á Nausthamarsbryggju þar sem veg- leg verðlaun voru í boði fyrir m.a. stærsta fisk og flesta veidda fiska. Eftir að Eyjaflotinn hafði þeytt skipsflautur sínar og Séra Guðmundur Örn Jónsson blessað daginn hófst formleg dagskrá á Vigtartorginu þar sem margt var í boði. Kappróðurinn var á sínum stað en þar stóðu liðsmenn Jötunns öðrum framar og unnu róðurinn. Áhafnabikarinn hlaut Kap VE. Koddaslagurinn var einnig með hefðbundnu sniði og var keppnisskapið þar ekki síðra, þar tókust á gæs og steggur, sem reyndar ætla ekki að giftast hvor öðru og þar var enginn sigurvegari þar sem þau enduðu bæði í sjónum. Raggi togari, sigurvegari koddaslagsins síðan í fyrra hélt ekki titlinum í ár, en hann tapaði fyrir Óskari Birgi Sigurþórssyni. Næst var komið að netakeppninni. Til að gera langa sögu stutta að þá fékk áhöfn Þórunnar Sveinsdóttur kennslu í að gera pelastikk þegar farið var á sjó eftir helgi, en það ber að nefna að þetta er eitt það fyrsta sem sjómenn læra. Fyrir krakkana voru hoppukastalarnir vinsælir ásamt foosball vellinum. Einnig fengu þau tækifæri til þess að fara í koddaslag. En ekki enduðu börnin í sjónum heldur á dýnu. Ýmislegt góðgæti var á bosðtóðnum, fulltrúar frá Kjörís stóðu vaktina og gáfu gestum og gangandi ís, SS grilluðu pyslur ofan í liðið og fimleikarnir gáfu flos. Veðrið var ekkert til að kvarta yfir og heilt yfir var skemmtunin fjöl- breytt og frábær á Vigtartorgi í ár.   Vel heppnuð hátíðarsamkoma Hátíðarsamkoma Sjómannadagsráðs í Höllinni á laugardagskvöldið stóð undir nafni. Það er aldrei slegið af gæðunum í matnum hjá Einsa Kalda enda var enginn af þeim 500 gestum sem voru í Höllinni þetta kvöld fyrir vonbrigðum. Maturinn var frábær. Veislustjóri var Sólmundur Hólm sem sagðist hafa komist næst sjómennsku með því að skrá ævisögu Gylfa Ægissonar. Hann hafði sig annars lítið í frammi. Tvær ungar Eyjakonur stigu á svið með Jarli Sigurgeirssyni, Erla Dís Davíðsdóttir 13 ára og Bryndís Guðjónsdóttir 15 ára og fengu þær góðar viðtökur. Einn af hápunktum kvöldsins var uppboð á fyrstu flöskunni af Sjómannabjórnum Sverri frá Brothers Brewery. Er hann nefndur eftir Sverri Gunnlaugssyni, skipstjóra sem á að baki 50 ár á sjónum. Flaskan var slegin á 401 þúsund krónum af útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE 401. Rann allur peningurinn til góðgerðarmála. Það var mikið fjör þegar Albatros með Sverri Bergmann hóf leik og skemmtu ásamt söngvurunum Stefaníu Svavars, Stebba Jak. Á eftir var svo dansað fram á morgun og fór allt vel fram. Háaloftið var líka opið með allskonar tilboð og kósýheit.   Gott ef klerkurinn sló ekki Sóla Hólm við Klukkan níu á sunnudagsmorguninn voru fánar dregnir að hún og hefðbundin skötuveisla var í Höfðabóli þar sem Sjómannadagsráð mætti ásamt fleiri gestum til þeirra heiðurshjóna, Dóru og Árna. Þá lá leiðin í á Sjómannamessu í Landakirkju þar sem séra Viðar Stefánsson predikaði. Að ósekju hefðu fleiri mátt mæta í messuna en þeir sem komu komust að því að messur þurfa ekki að vera leiðinlegar. Séra Viðar minnti sjómenn á mátt trúarinnar í baráttu við náttúruöflin sagði líka léttar sögur úr sveitinni af óklæddum konum og fleirum. Brá hann á leik og söng gamankvæði úr uppsveitum Árnessýslu og var mikið hlegið. Gott ef klerkurinn sló ekki Sóla Hólm við sem kvöldinu áður stýrði sjómannahátíðinni í Höllinni. Að lokinni messu var minningarathöfn við Minnisvarða hrapaðra og drukknaða sem Snorri Óskarsson stýrði að venju. Lúðrasveitin lék nokkur lög. Félagar í sjómannafélögunum og Félagi bjargveiðimanna voru í heiðursverði með félagsfánana. Hjónin Hulda Long og Magnús Ríkharðsson, skipstjóri á Breka VE lögðu blómsveig við Minnivarðann. Að venju var hægt að ganga að veglegum hnallþórum í Alþýðuhúsinu þar sem Eykyndilskonur sáu um veitingar af alkunnri snilli. Þaðan fóru allir út vel mettir. Klukkan þrjú var svo dagkrá á Stakkagerðistúni sem hófst með leik Lúðrasveitarinnar og Karlakór Vestmannaeyja söng nokkur lög. Aldnir sægarpar voru heiðraðir og stýrði Snorri Óskarsson athöfninni á sinn líflega hátt. Þeir sem heiðraðir voru eru Friðrik Alfreðsson, sjómaður, Eyjólfur Pétursson, skipstjóri oftast kenndur við Vestmannaey VE og Ágúst Guðmundsson betur þekktur sem Gústi á Kapinni. Hátíðarræðu flutti Andrés Þ. Sigurðsson. Þá voru veitt verðlaun fyrir afrek laugardagsins, kappróður, koddaslag, lokahlaup, sjómannaþraut, dorgveiðimót og Sjómannamótið í Golfi. Leikfélagið, Fimleikafélagið Rán skemmtu og hoppukastalar voru í boði og popp og flos.   Myndir - Óskar Pétur Friðriksson

Jón og Friðrik Jónssynir semja lagið í ár

„Þetta erum við að hafa gaman og vonandi verður útkoman góð,“ segir Friðrik Dór Jónsson, en þeir Jón Jónsson, bróðir hans, eru búnir að semja tvö Þjóðhátíðarlög. Annað er viljandi þakið klisjum og er alvöru Þjóðhátíðarlag samkvæmt Jóni. Hitt er í smíðum en þegar Fréttablaðið náði í skottið á þeim bræðrum voru þeir í stúdíói með Stop Wait Go bræðrum, Ásgeiri Orra og Pálma Ragnari Ásgeirssonum, að leggja lokahönd á síðara lagið, greinir vísir.is frá   „Við erum með lag sem verður ein heild í myndbandinu en sem lag í spilun í útvarpi og á Spotify verða þau tvö. Þetta er í fyrsta sinn sem það eru tvö Þjóðhátíðarlög. Annað laganna er aðallagið en hitt er meira til gamans. Aðallagið er einlægt og á að kalla fram hina einu sönnu Þjóðhátíðarstemningu. Það er því þakið klisjum; epískt, með upphækkun, C-kafla og bakröddum,“ segir Jón og Friðrik bætir við: „Aðaltvistið er að það séu bónuspælingar í gangi.“   Þeir bræður hafa hent hundruðum slagara í eyru landsmanna en hafa lítið unnið saman fyrr en nú. „Við gerðum eitt lag á fyrstu plötu Frikka og Komum heiminum í lag, sem var fyrir hjálparstarf. Annars unnum við bara saman í gamla daga á umbúðalagernum hjá Saltkaup. Frikki tók ekki lyftaraprófið reyndar en var samt að keyra,“ segir Jón og hlær. „Jón tók prófið enda löghlýðnari en ég,“ bætir Friðrik við.   „Við stígum stundum á svið saman og það er gott að vera komnir með sameiginlegt lag sem við getum gripið í,“ segir Jón en þeir ætla að halda til Vestmannaeyja, vonandi í dag eða á morgun, eftir því hvernig vindar blása og taka upp myndband. „Það er vilji til að gera eitthvað annað en myndband af okkur að labba inn í söngklefa. Það er búið að vera þannig undanfarin ár. En við sjáum til hvernig það tekst. Kannski förum við bara í söngklefa í Eyjum,“ segir Jón.   Vísir.is  

Thelma Lind er Eyjamaður vikunnar: Vann gjafabréf í tombólu

Skóladagur GRV var haldinn sl. miðvikudag en þar var í boði fjölbreytt dagskrá fyrir nemendur og aðra gesti. Líkt og fyrri ár var tombólan á sínum stað en meðal vinninga var gjafabréf frá Eyjafréttum en handhafi þess fékk að vera Eyjamaður vikunnar. Hin níu ára gamla Thelma Lind Ágústsdóttir varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna gjafabréfið og er hún því Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Thelma Lind Ágústsdóttir. Fæðingardagur: 8. desember, 2009. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma: Kristjana Sif, pabbi: Ágúst Sævar, systir mín heitir Andrea og stjúpsystir Guðbjörg Sól. Uppáhalds vefsíða: Friv.com og Youtube.com Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Havana og Friends. Aðaláhugamál: Fara í sund. Uppáhalds app: Rider. Hvað óttastu: Skrímsli. Mottó í lífinu: Að koma fram við alla eins og ég vill að aðrir komi fram við mig. Apple eða Android: Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ariana Grande og Sara Larsson.  Hvaða bók lastu síðast: Vera til vandræða er alveg mögnuð. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Agnar Smári og ÍBV. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Fimleika og Fótbolta. Uppáhaldssjónvarpsefni: Winx. Var gaman á skóladeginum: Já, mjög gaman. Kom þér á óvart að vinna gjafabréfið: Já mjög. Það að vera Eyjamaður vikunnar er að margra mati mesti heiður sem að manni getur hlotnast í lífinu. Heldur þú að krakkarnir í bekknum verði öfundsjúkir út í þig eða eigi bara eftir að samgleðjast þér: Samgleðjast mér.    

Ómar Garðarsson er matgæðingur vikunnar - Grænmetissúpa súpusnillings

Það getur verið erfitt að vera bestur í einhverju en maður á ekki að láta það þvælast fyrir sér frekar en Zlatan Ibrahimovic sem nú hefur lagt sjálfa Los Angeles að fótum sér. Óumdeildur snillingur í fótbolta eins og ég er súpugerð. Er þó öllu hógværari en Zlatan sem keypti opnu í LA Times til láta vita að viðbrögð borgarbúa við komu hans væru honum þóknanleg. Já, sannur snillingur. Þegar mér bauðst tækifæri á að opinbera snilli mína í súpugerð hér í Eyjafréttum gat ég ekki sagt nei og kem hér með eina í einfaldari kantinum. Mín uppskrift er samkvæmt sérfræðiáliti um 80 prósent Vegan en lítið þarf til að stíga skrefið til fulls.   Súpa af dýrari gerðinni • Hveiti og smjör í bollu. • Vatn eftir þörfum. • Grænmetiskraftur. • Rjómi. • Koníak. • Salt og pipar. • Sveppir eða annað grænmeti. • Laukur, einn eða tveir eftir magni. • Rauð paprika, algjört skilyrði.   Saxið grænmetið smátt og steikið í smjöri. Vegan sérfræðingurinn mælir með Vegan smjöri eða smjörlíki og hafrarjóma, Oatly. Bollan hrærð úti í vatninu og grænmetinu hrært saman við. Látið malla við vægan hita í tvo til þrjá klukkutíma. Salt og pipar og grænmetiskraftur eftir smekk. Rjómanum bætt út í og í lokin smá Koníaki sem fullkomnar verkið. Berist fram með góðu brauði.   Ég skora á Pál Grétarsson, mág minn sem er mikill snillingur í matargerð eins og þeir þekkja sem voru með honum á Huginn VE.  

Enginn Djass þessa Hvítasunnuna

Nú líður að Hvítasunnuhelgi og eru því eflaust ófáir sem hugsa með söknuði til Daga lita og tóna. Einu helgarinnar þar sem hlýða mátti á lifandi djass í Vestmannaeyjum. „Það er fyrst og fremst af söknuði sem við stöndum fyrir þessari hátíð,“ segir Sæþór Vídó formaður Bandalags vestmanneyskra söngva- og tónskálda, BEST, sem stendur að jazzhátíðinni Food & Funk sem fram fara átti fram um helgina. „Við fengum nokkra veitingastaði í lið með okkur til að prufukeyra þetta í ár. En hugmyndin er, ef vel gengur, að gera þetta árlega og blanda saman næringu sálar og líkama í allsherjar veislu.Og þegar kemur að góðum mat erum við Eyjamenn mjög ríkir af góðum kokkum og veitingastöðum.“ Hátíðin átti að fara fram um helgina þar sem Þrjú tríó áttu leika á fimm stöðum um helgina. Þetta eru staðirnir Brothers Brewery, Gott, Einsi kaldi, Tanginn og Slippurinn. Tríóin þrjú eru, Camper Giorno Trio skipað þeim Bjarna Má Ingólfssyni á gítar, Sigmari Þór Matthíassyni á Bassa og Skúla Gíslasyni á trommum. Djasstríó Ómars skipa þeir Ómar Einarsson á gítar, Jón Rafnsson á bassa og Eric Qvick á trommur. Síðast en ekki síst eru það svo fulltrúar okkar Eyjamanna, tríóið Eldar. Það skipa þeir Þórir Ólafsson á hljómborð, Kristinn Jónsson á bassa og Birgir Nielsen á trommur.   „Því miður vegna óviðráðanlegra aðstæðna verður ekkert af þessu um helgina en við erum hins vegar ekki búnir að blása hátíðina af," sagði Sæþór í samtali við Eyjafréttir í dag. „Við erum að gæla við að hafa hátíðina núna í enda júní í staðinn, þann 29. og 30. júní en það verður nánar auglýst síðar.“  

Höfðingleg gjöf Kiwanis til GRV

Í hádeginu komu saman félaga úr Kiwanisklúbbnum Helgafelli í Barnaskóla Vestmannaeyja og var tilefnið að afhenda skólanum tölvubúnað að gjöf. Í þessum gjafapakka voru 25 fartölvur og 20 spjaldtölvur til notkunar við námið. Að þessu tilefni flutti Erlingur Richardsson skólastjóri ávarp og útskýrði notkunargildi og kom á framfæri þakklæti til klúbbfélaga í Helgafelli fyrir þessa höfðinglegu gjöf, segir í tilkynningu frá blúbbnum.   Það var síðan fulltrúi nemenda sem veitti gjöfinni viðtöku frá Jónatani Guðna forseta Helgafells. Viðstaddir afhendingu voru kennarar og hópur nemenda skólanns, ásamt Helgafellsfélögum. Erlingur Richardsson skólastjóri sagði i samtali við Eyjafréttir að í aðalnámskrá grunnskóla er lögð mikil áhersla á að kennsla í upplýsingatækni verði kennd í gegnum aðrar námsgreinar, þ.e.a.s þvert á greinar. „Með þessari rausnarlegu gjöf, frá Kiwanisklúbbnum, þá erum við fyrst og fremst að opna á þann möguleika að kennarar og nemendur geti notað upplýsingatæknina í hinum ýmsu námsgreinum, í bland með hefðbundnum kennslubókum. Um leið og við erum komin með 25 fartölvur í skólann þá geta t.d allir nemendur í einum bekk unnið um leið á fartölvur, eða jafnvel tveir til þrír bekkir unnið í hópavinnu á sama tíma. Markmiðið er svo auðvitað að bæta við fartölvum, en þessi gjöf ýtir okkur vissulega áfram varðandi nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni til náms og kennslu í grunnskólanum. Við sjáum fyrir okkur að nýta Chromebook meira á unglingastiginu þar sem þau geta unnið um leið með fingrasetningu við hefðbundna verkefnavinnu. Spjaldtölvurnar notum við meira við kennslu á yngri stigum.“  

Ávarp Guðmundar Þ.B. á Verkalýðsdaginn

Guðmundur Þ. B. Ólafsson flutti ávarp á baráttudegi verkalýðsins í Vestmannaeyjum í ár og hér að neðan er ávarpið í heild sinni. Eyjafréttir birtu myndir af kaffisamsætinu í Alþýðuhúsinu hérna.   Ágætu vinir, mér er sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur á þessum baráttudegi.   Ég er ekki lengur launþegi á almennum vinnumarkaði, orðinn eldri borgari og tek mínar eigur úr lífeyrissjóði sem ég hef lagt fyrir í um 50 ár. Reyndar er ég og ríkissjóður ekki sammála um eignarréttinn, ríkið stendur í þeirri meiningu að eignin sé þeirra og greiðslur skertar í samræmi við það. Hef 50 þúsund krónur í ellilífeyrir á mánuði eftir skatta, takk fyrir það höfðingjar.   En nóg af mér, sem er þó lýsandi dæmi fyrir stöðu eldri borgara á Íslandi í dag að ekki sé talað um kjör öryrkja, þvílík skömm.   Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, er baráttudagur allra launþega. Reyndar eru allir dagar baráttudagar launþega fyrir betri kjörum og verða það á meðan óbreytt ástand ríkir. Það er sama hvar borið er niður, almennu launafólki er haldið niðri í launum eins og kostur er. Það má nefnilega ekki stefna stöðugleikanum í hættu, sama gamla rullan sem atvinnurekendur og stjórnvöld kyrja. Þeir sömu sem hafa skafið til sín hundruði þúsunda króna hækkun á mánaðarlaunin ofan á mánaðarlegu milljónirnar sem þeir höfðu fyrir.   Endalaust er böðlast á þeim sem minnst hafa og minna mega sín. Fólki er ætlað að framfleyta sér á launum sem eru undir fátækramörkum, mörkum sem stjórnvöld viðurkenna að enginn geti framfleytt sér á. Vert er að spyrja, ef tekjur á milli 200 til 300 þúsund krónur á mánuði eiga að duga, hvað hafa þá einhverjir með margar milljónir á mánuði við þær að gera? Nei! þá kemur annað hljóð í strokkinn.   Meðal mánaðarlaun 10 hæstu stjórnenda, á árinu 2016 voru 7,7 milljónir, já meðal mánaðarlaun Fréttir, allar götur síðan, hafa frætt okkur um stanslausar hækkanir til stjórnenda og stjórnmálamanna. Sumt af því vegna Kjaradóms, já Kjaradóms, eins og það sé eitthvað fyrirbæri sem enginn getur ráðið við. Viljum við bara ekki öll láta Kjaradóm sjá um launin okkar, með sínar reglubundnu hækkanir, upp á 45% eins og nýleg ákvörðun ber vitni um?   Því miður hefur skilningur fyrir bættum kjörum skilað því að þorri launþega þurfa að vinna langan vinnudag til að ná endum saman. Venjuleg vinnuvika á Íslandi er heilum vinnudegi lengri en í Noregi, svo dæmi sé tekið. Eru mörg dæmi um að annað foreldri sem vill vera heima og hugsa um börn og heimili, sem getur látið það gerast? Eru mörg dæmi um það? Það hafa fæstir efni á því.   Lífeyrissjóðirnir eru okkar eign Baráttan verður að skila réttlæti í lífeyriskerfinu, réttlæti sem snýst um að eigendur sjóðanna, launafólkið kjósi sjálft um stjórnir sjóðanna og þaðan verði fulltrúum atvinnurekenda sópað út, þeir eiga ekki krónu í eignum sjóðanna, við erum eigendurnir.   Það er svo annað mál með þetta blessaða lífeyriskerfi, hvers vegna er sjóðunum ekki fækkað og hvers vegna eru lífeyrisréttindi allra landsmanna ekki þau sömu? Já stórt er spurt og skiljanlegt þegar það er haft í huga að alþingismenn með ráðherrana í broddi fylkingar sömdu sérstök lög fyrir sig og sína, lög um lífeyrisréttiandi sem stendur öðrum þjóðfélagsþegnum ekki til boða.   Eru breyttir tímar í vændum? Óbreytt ástand verður ekki liðið og baráttann heldur áfram. Með þrotlausri baráttu er von. Baráttuhugur og áherslur sem meðal annars hafa komið með röddum nýrra og eldri foringja verkalýðsins undanfarið vekur von, von um bjartari og betri tíð.   Trúin á að ekki verði lengur valtað yfir kröfur launafólks er mikil og slík vinnubrögð eiga að tilheyra liðinni tíð, það sama á við um undanlátsemi og tjónkun við stjórnvöld og atvinnurekendur.   Vinir, baráttan er framundan og þar þurfa allir að standa saman. Góðar stundir.       Guðmundur Þ. B. Ólafsson  

Það er hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum

Tveggja tonna steini hefur verið komið fyrir við norrænu sendiráðin í Berlín, en steininn er úr Eldfelli eða síðan gosinu. Steinninn hefur vakið mikla athygli en til-gangur hans er að vekja athygli á margmiðlunarsýningu um ógnarkrafta náttúrunnar á Íslandi í sameiginlegu rými sendiráðanna. Fyrir þessu framtaki stendur Eyjamaðurinn Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín.   Ógnarkraftar náttúrunnar voru í aðalhlutverki í Felleshus, norrænni miðstöð sendiráðanna í Berlín í síðustu viku þegar sýninguna MAGMA var opnuð en tilefnið er 100 ára fullveldi Íslands. Sýningin byggist að mestu á margmiðlunartækni og er hún byggð á gagnvirkum sýningum sem Gagarín hefur sett upp bæði í Lava Centre á Hvolsvelli og Perlunni. Búast má við að um þrjátíu þúsund gestir sæki sýninguna, sem stendur til 1. júlí næstkomandi. Sendiráð Íslands í Berlín hefur veg og vanda af undirbúningi sýningarinnar, í samvinnu við Gagarín og Basalt, en Icelandair, Íslandsstofa, Landsvirkjun, Samskip, Lava Centre og Perlan eru bakhjarlar. Sýningin dregur fram frumkrafta Íslands, eldinn, hraunið, seigluna og kraftinn og beinir sjónum að því hvernig náttúruöflin hafa skapað landið og mótað fólkið sem það býr.   Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli Risavöxnum hraunmola hefur verið komið fyrir í Felleshus sem gestir geta snert og myndað. Þetta er yngsti steinn í Þýskalandi en eins og áður segir var hann tekin úr Eldfellshrauninu fyrir hálfum mánuði síðan og sá Samskip um flutningin. Martin sagði að steininn hafi vakið mikla athygli, ,,Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli og var það tilgangurinn. Það er upplýsingar um gosið við hliðina á steininum og ýmist er fólk að lesa þær, láta taka myndir af sér við steininn og sumir klifra jafnvel uppá hann. Jón úr Vör sagði að það væri hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum. Eigum við ekki að segja að ég sé núna byrjaður að taka þorpið til mín í bókstaflegri merkingu, þetta er sem sagt bara rétt að byrja! Þetta lækni heimþrána?.“   Vinir Elmars Erlingssonar gáfu mynd af Íslandi og eru á leið til Eyja Eins og margir vita bjuggu hjónin Erlingur Richardsson og Vigdís Sigurðardóttir í Berlín ásamt börnum sínum á meðan Erlingur var að þjálfa þar. Á opnunina í síðustu viku kom hópur úr Picasso-grunnskólanum í Berlín en þar hafa nokkrir krakkar verið að læra um Ísland í 2 kennslustundir á viku í allan vetur. Þetta er hópur sem tengist Elmari Erlingssyni og hyggst hópurinn heimsækja Eyjarnar okkar heim í október. ,,Hópurinn gaf sendiráðinu stóra mynd sem krakkarnir höfðu teiknað af Íslandi. Það var landakort með ýmsum teikningum á sem þeim þótti minna á Ísland. Þar eru hestar, eldgos, tröll, álfar og ýmsar forynjur og síðan rak ég augun í nafnið ,,Heimir Hallgrímsson? innan um allar þessar fígúrur. Þó að það væri nú freistandi að stríða Heimi dálítið með þennan félagsskap þá segir manni þetta bara það hversu mögnuðum árangri hann hefur náð, að krökkum í Berlín skuli detta í hug að skrifa nafnið hans Heimis þegar Ísland ber á góma segir meira en mörg orð," sagði Martin að lokum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.