Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nú er veturinn genginn í garð og rútína og hversdagsleiki orðinn fastur í sessi á flestum heimilum. Margir þekkja að það getur verið heilmikil áskorun að púsla saman öllu því sem þarf að gera í dagsins önn. Boltarnir eru oft ansi margir, bæði í einkalífi og starfi og margir þurfa að hafa sig alla við til að halda öllu gangandi. Þegar álag verður of mikið, sérstaklega ef við upplifum að við erum farin að „ströggla“, getur það haft neikvæð áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Við förum að finna fyrir streitu. Vr birti þessa grein og er hún góð lesning fyrir alla.
 
 
Hvað er streita?
 
Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að vísa í streituviðbragðið sjálft (sem er lífeðlisfræðilegt varnarviðbragð líkamans), streituvaldana sjálfa (ytri og innri), sem og streitutengda vanheilsu. Það er mikilvægt að hafa í huga að streita er í eðli sínu jákvæð. Ef tímabundið stress fær að koma og svo líða hjá og við gefum okkur tækifæri til að jafna okkur á eftir, getur það mögulega bætt frammistöðu okkar. Það skerpir athygli þá stundina og gerir okkur kleift að takast á við álag og uppákomur af ýmsum toga. Til dæmis getur það aukið viðbragðsflýti og gert okkur kleift að vinna hraðar og af meiri einbeitingu sem er vissulega mjög hjálplegt.
 
Forðist langvarandi álag
 
Ef álagið er hins vegar langvarandi og möguleikar til þess að endurheimta orku litlir, getur yfirálag og langvinn streita haft skaðleg áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Tilfinningar sem maður upplifir sem neikvæðar eru ekki hættulegar í sjálfu sér, þær gætu þó orðið það ef brugðist er við með því að t.d. vinna meira, hraðar og af meiri ákafa, sleppa matarhléum og kaffipásum, draga úr hvíld, sleppa hreyfingu, líkamsrækt og áhugamálum. Ef maður festist í slíku mynstri mun langvarandi álag smám saman slæva ónæmiskerfið og veikja varnir líkamans. Því er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir álagsþáttum og þekkja eigin streitueinkenni. Ekki er síður mikilvægt að hlúa vel að sér og fylla á orkubirgðirnar til móts við það sem tapast á álagstímum.
 
Einkenni langvarandi streitu geta verið margvísleg
 
Einkenni langvarandi streitu geta birst bæði í líkamlegum og andlegum einkennum, hugsunum og hegðun. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkir, vöðvabólga, orkuleysi, hækkaður blóðþrýstingur, stoðkerfisvandi og verkir, svimi eða óáttun, svefnvandamál, minnkuð kynhvöt, meltingarvandamál, sem og hjarta- og æðavandamál. Tilfinningalífið getur einkennst af kvíða, depurð, ótta, sektarkennd, pirringi, reiði og óánægju. Ef streitustig er mjög hátt og langvarandi aukast líkur á ofsakvíðaköstum.
 
Streitutengd hegðun getur lýst sér þannig að fólk er stöðugt að flýta sér (þó ekkert liggi á), leitast við að gera margt í einu, sleppa pásum eða hættir að gera ánægjulega hluti vegna þreytu eða tímaskorts. Sumir pirrast auðveldlega og skeyta skapi sínu á umhverfinu. Eirðarleysi, slæmir ávanar, óheppilegar neysluvenjur, auknar reykingar og áfengisneysla: eru allt dæmigerð viðbrögð þegar sjálfstýringin fer á. Dæmi um hugræna þætti er að hafa margar (óskýrar) hugsanir samtímis, hrakspár og/eða sveigjanleiki í hugsunum, hugsanir um eigin vangetu, áhyggjur, áhugaleysi, heilaþoka, rörsýn. Við langt genginn streituvanda hrakar athygli og einbeitingu og geta heilans til að hugsa, gera áætlanir og muna hluti skerðist.
 
Að vinna gegn streitu
 
1. Vaknaðu til vitundar um sjálfan þig
Mikilvægt er að þekkja sjálfan sig, vera vakandi yfir því sem veldur manni streitu og þekkja streitueinkennin. Þannig verðum við betur undirbúin og líklegri til að bregðast við erfiðum aðstæðum okkur í hag. Kortlagning streituvalda og einkenna er mjög mikilvæg.
 
2. Gerðu áætlun
Það getur verið gagnlegt að hafa góða yfirsýn yfir vikuna eða jafnvel mánuðinn. Settu inn í stundatöflu eða dagbók allt sem þú veist að er framundan hjá þér eins og fundir, afmælisboð, læknisheimsóknir, próf eða skilafrestir ef það á við. Margir upplifa til dæmis heilmikla streitu í tengslum við matarinnkaup og því gæti verið gott að vera búinn að útbúa matseðil fyrir vikuna, að minnsta kosti fyrir virku dagana.
 
3. Einfaldaðu lífið eins og þú getur
Við erum svo dugleg að flækja lífið að óþörfu og oftar en ekki er það vegna þess að við erum illa skipulögð og skortir yfirsýn. Hvar getur þú einfaldað líf þitt? Með því að losna við litlu flækjurnar eigum við meiri orku á tankinum fyrir stærri álagsvalda
 
4. Settu tóninn fyrir daginn
Margir kannast við það að vera á síðustu stundu með allt og vita að það getur verið mjög óþægilegt. Það gæti verið hjálplegt að vakna örlítið fyrr á morgnana og gefa sér þannig aðeins rýmri tíma í morgunverkin og jafnvel að njóta þeirra, frekar en að hlaupa úr einu í annað og fara út um dyrnar með öndina í hálsinum af því að enn einn daginn erum við á síðustu stundu.
 
5. Forgangsraðaðu og gerðu raunhæfar kröfur
Þegar álag á okkur er mikið er mikilvægt að forgangsraða. Sumt skiptir meira máli en annað. Það getur vel verið að um tímabundið ástand sé að ræða og þá er gott að minna sig á það. Við þurfum að horfast í augu við að ekki er raunhæft að gera þær kröfur til okkur að sinna öllu jafnvel þegar það eru álagstímabil. Veltu fyrir þér hvað má bíða akkúrat núna. Má þvottahrúgan bíða eða á göngutúrinn að bíða? Hver og einn þarf að svara því fyrir sig.
 
6. Hlúðu að þér og vertu í núinu
Það er mjög mikilvægt að hlúa að sjálfum sér og tíminn sem fer í það þarf ekki að vera langur. Vissulega væri kostur ef við gætum passað vel uppá mataræðið og svefninn, hreyft okkur reglulega og gert ánægjulega hluti en stundum er það bara dálítið flókið. Margir kannast við að byrja haustið með háleit markmið um að taka einmitt á öllum þessum grunnþáttum heilsunnar. Vissulega er mikilvægt að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf svo maður upplifi ekki að manni hafi mistekist. Ef ég kemst ekki líkamsræktina í dag sökum álags eða anna, þá gæti ég mögulega gert eitthvað annað í staðinn eins og fara í stuttan göngutúr eða gengið stigana í stað þess að taka lyftuna. Allt telur þetta og bara það að gefa sér 5 mínútur hér og þar í dagsins önn skiptir máli.
 
Leyfðu þér að njóta kaffibollans, vera örlítið lengur í sturtunni, staldra við og horfa uppí himininn og bara vera og skynja í augnablik, vera heils hugar til staðar í samtali. Þetta þarf ekki að taka mikinn tíma frá þér en getur skipt sköpum. Notaðu nokkrar mínútur hér og þar til að stinga þér í samband og hlaða orkutankinn.
 
7. Innri röddin
Allar líkur eru á að þú sért að gera þitt allra besta - minntu þig stöðugt á það. Þegar streitukerfi líkamans virkjast hefur það iðulega áhrif á hugsanir okkar með neikvæðum hætti sem aftur virkjar streitukerfið þannig að vítahringur skapast. Þá verðum við líklegri til að fara að beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn?“ „Ég er alveg ómöguleg/ur,“ og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru ekki hjálplegar og því er mikilvægt að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar. Sýndu sjálfum þér skilning og umburðarlyndi í stað þess að brjóta þig niður.
 
Sigrún Ása Þórðardóttir og Snædís Eva Sigurðardóttir, sálfræðingar í Heilsuborg.
 
Grein birtist í 4. tölublaði VR 2017
 

Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir er Eyjamaður vikunnar: Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Bikarmót FSÍ í stökkfimi fór fram laugardaginn 10. mars sl. Fimleikafélagið Rán sendi þrjú lið til keppni en stelpurnar í 2. flokki A urðu bikarmeistarar. Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir var einn liðsmanna 2. flokks A og er hún Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sigrún Gígja Sigurjónsdóttir. Fæðingardagur: 20. ágúst 2005. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Pabbi minn heitir Sigurjón Eðvarðsson, mamma mín heitir Elísa Kristmannsdóttir og svo á ég tvo bræður, Kristmann Þór og Jón Erling. Uppáhalds vefsíða: Er voða lítið að skoða vefsíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Öll skemmtileg danstónlist. Aðaláhugamál: Fimleikar, leika mér að dansa og vera með vinum og fjölskyldu. Uppáhalds app: Snapchat og instagram. Hvað óttastu: Að missa fjölskylduna mína og ég er líka hrædd við pöddur. Mottó í lífinu: Lifðu lífinu eins og hver dagur væri sá síðasti. Apple eða Android: Elska Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Enga sérstaka úr mannkynssögunni en ég hefði viljað kynnast ömmu Sigrúnu en hún lést 9 árum áður en ég fæddist. Hvaða bók lastu síðast: Eldgos í garðinum, hef alveg lesið betri bók. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Uppáhaldsíþróttamaðurinn minn er Simone Biles sem vann gullverðlaun á síðustu Ólympíuleikum. Uppáhaldsíþróttafélagið mitt er að sjálfsögðu ÍBV og Rán. Ertu hjátrúarfull: Nei, alls ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég æfi fimleika og fer stundum í Litla Hressó. Uppáhaldssjónvarpsefni: Riverdale og Teen Wolf. Er þetta fyrsti bikarinn sem þú færð í fimleikum: Nei, við fengum líka bikar á stökkmóti árið 2016. Hvernig verður maður góður í stökkfimi: Styrkir líkamann, mætir vel á æfingar, fer eftir því sem þjálfarinn segir, hefur trú á sjálfum sér og alltaf er mikilvægt að hafa gaman. Hver er draumur þinn sem fimleikakona: Halda áfram að bæta mig í fimleikum.  

Eykur öryggi Eyjamanna og slökkviliðsmanna

Fram til dagsins í dag þá hefur Slökkvilið Vestmannaeyja ekki haft yfir að ráða búnaði til að bjarga fólki eða berjast við eld í húsum sem eru hærri en 2-3 hæðir og „má segja að allt frá byggingu Hásteinsblokkarinnar þá hafi verið byggt upp fyrir getu slökkviliðsins.“ Friðrik Páll Arnfinnsson Slökkviliðsstjóri   Það var svo í janúar 2017 þegar Friðrik Páll benti enn einu sinni á alvarleika málsins með neikvæðri umsögn um byggingu íbúða á Fiskiðjureitnum þar sem hann sagði m.a. að „slökkviliðið er vanbúið tækjum í dag og hefur ekki yfir þeim lyftibúnaði að ráða sem nauðsynlegur er til björgunar af svölum háhýsa og til að sinna slökkvistarfi utanfrá í háhýsum.“ Eftir það fór málið loksins af stað hjá Umhverfis- og skipulagsráði og í framhaldinu bæjarstjórn. Friðrik fór svo fljótlega að svipast um eftir hentugu tæki og bauðst svo þessi bíll í lok síðasta árs,og í dag er bíllinn kominn.   „Þetta verður gríðarleg bylting og eykur ekki bara öryggi eyjamanna og slökkviliðsmanna, heldur auðveldar slökkviliðinu alla vinnu utanhúss hvort sem um er að ræða háhýsi eða bara vinnu á „venjulegu“ húsþaki þar sem þarf t.d. að rjúfa þakið til að reykræsta eða komast að eldi,“ sagði Friðrik Páll.   Bíllinn kemur frá slökkviliðinu í Sundsvall í Svíþjóð og er af gerðinni Scania P94, árgerð 2000 og er með 32m lyftibúnaði(skotbómu) frá Bronto Skylift. „Á bómunni er karfa fyrir 3.menn og öflug vatnsbyssa(monitor). Vatnslögn er upp alla bómu og að körfu og því þarf aðeins að tengja bílinn við t.d. brunahana eða dælubíl og þá er komið vatn upp í körfu. Þetta er sérhæft björgunartæki og búnaðurinn því talsvert flóknari og viðameiri en í hefðbundnum körfubíl en öllum búnaðinum þ.m.t.vatnsbunu og hreyfingu á monitor er bæði hægt að stjórna úr körfunni og svo líka úr sæti neðst á bómunni,“ sagði Friðrik Páll.   Þessa dagana er verið að undirbúa bílinn þar sem það þarf að merkja hann upp á nýtt, koma fyrir aukabúnaði o.fl, „svo munu taka við æfingar þar sem slökkviliðsmenn verða þjálfaðir í notkun á honum,“ sagði Friðrik Páll að endingu.    

Ástþór Hafdísarson vann í teiknisamkeppni MS

Á dögunum tók Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þátt í vali á verðlaunamyndum í teiknisamkeppni 4. bekkinga sem hófst sl. haust í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn. Keppnin hefur notið mikilla vinsælda til margra ára meðal grunnskólanemenda, kennara og skólastjórnenda og tók Lilja það sérstaklega fram þegar vinningsmyndirnar voru valdar að allar svona keppnir innan skólanna skiptu miklu máli fyrir skólastarfið og væru góð hvatning fyrir nemendur. Að auki væri þetta skemmtileg leið til að brjóta upp hefðbundið skólastarf.   Þátttakan í keppninni var sérstaklega góð að þessu sinni en rúmlega 1.400 myndir bárust frá 60 skólum alls staðar að af landinu. Tíu myndir voru valdar úr þessum mikla fjölda og er óhætt að segja að fréttirnar hafi vakið mikla lukku þegar skólastjórnendum voru færð tíðindin. Verðlaunahöfum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá Mjólkursamsölunni, sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi, og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag og efla liðsheild í samvinnu og samráði við umsjónakennara.   „Myndefnið í keppninni er frjálst en má gjarnan tengjast mjólk, hollustu og heilbrigði og er virkilega gaman að sjá þá miklu hugmyndaauðgi sem nemendurnir búa yfir. Nemendurnir eru í 4. bekk og því ekki nema 9 og 10 ára gamlir og frábært að sjá hversu hæfileikaríkir þeir eru og hve mikinn metnað margir leggja í myndirnar sínar,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðsfulltrúi MS og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar.   Ástþór Hafdísarson frá  Grunnskóla Vestmannaeyja var einn af þeim tíu sem unnu til verðlauna. Þetta er í fyrsta skipti sem nemandi frá Eyjum vinnur. Hann og bekkurinn hans fengu 40.000kr að gjöf og geta nýtt peninginn í að gera eitthvað skemmtilegt saman.   Aðrir vinninghafar voru: Ágúst Bragi Daðason, Fellaskóla í Fellabæ Eva Natalía Tosti, Kelduskóla Reykjavík Helgi Bjarnason, Álfhólsskóla Kópavogi Herdís Kristjánsdóttir, Melaskóla Reykjavík Jakub Stypulkowski, Grunnskólanum í Sandgerði Mia Ðuric, Fellaskóla Reykjavík Sara Dögg Sindradóttir, Hrafnagilsskóla Sveinar Birnir Sigurðsson, Síðuskóla Akureyri Valgerður Amelía Reynaldsdóttir, Gerðaskóla Garði    

Ljúfir tónar á degi tónlistarskólans - myndir

Í tilefni af degi tónlistarskólanna 2018 var Tónlistarskóli Vestmannaeyja með opið hús laugardaginn 17. febrúar sl. Þar gafst áhugasömum tækifæri til að heimsækja skólann, ræða við kennarana og að sjálfsögðu prófa hljóðfærin.    Ýmsir tónleikar voru í boði frá hæfileikaríkum nemendum skólans sem eru á öllum aldri. Eftir tónleika var hægt að fara um skólann, sjá hvað er í boði, prófa og njóta góðra tóna. Eins og góðum viðburði sæmir voru léttar veitingar í boði fyrir gesti og gangandi sem voru hæstánægðir með framtak skólans og ekki síst þau allra yngstu.    120 nemendur læra við skólann Jarl Sigurgeirsson starfandi skólastjóri Tónlistarskólans sagði í samtali við Eyjafréttir að dagurinn hefði gengið vel og gaman að sjá hvað margir litu við hjá þeim. Nemendur skólans eru núna 120 og er æft á allskonar hljófæri.    Opni dagurinn byrjaði á tónleikum hjá lúðrasveitinni. „Það eru núna 19 krakkar í lúðrasveitinni og er því skipt í yngri og eldri deild. Því miður hefur lúðrasveitarstarfið dalað nokkuð,“ sagði Jarl.   Skólalúðrasveit Vestmannaeyja 40 ára Skólalúðrasveit Vestmannaeyja fagnar 40 ára afmæli næsta fimmtudag. „Skólalúðrasveit Vestmannaeyja er sjálfstæð en hefur þó mikil tengsl inn í Tónlistarskólann. Það er gaman að segja frá því að Skólalúðrasveitin verður 40 ára núna næsta fimmtudag 22.febrúar. Við stillum fagnaðarlátunum í hóf þann daginn, en stefnum á að spila fyrir skátana um kvöldið sem eiga 80 ára afmæli sama dag,“ sagði Jarl. Afmælinu verður samt fagnað með vorinu. „ Þá munum við halda afmælistónleika þar sem sveitirnar munu spila ásamt gömlum félögum,“ sagði Jarl að lokum.    Hér má sjá myndir frá Óskari Pétri.  

Ekki hægt að skipa tvo skólastjóra yfir GRV

Á fundi fræðsluráðs í vikunni var lögð fram niðurstaða samráðshóps sem skipaður var af fræðsluráði þann 15. janúar sl. En samráðshópur fræðsluskrifstofu, Kennarafélags Vestmannaeyja og skólaráð hefur skoðað kosti og galla þess að hafa einn skólastjóra eða tvo yfir GRV.   Ljóst þykir að vegna ákvæða í lögum um grunnskóla er ekki hægt að skipa tvo skólastjóra yfir GRV án þessa að skipta skólanum í tvær skólaeiningar. Það er samróma álit samráðshópsins að vera áfram með einn skólastjóra. Atriði á borð við mikilvægi þess að halda í GRV sem einn sameinaðan skóla hefur þar mikið vægi og einnig að ekki er einhugur varðandi það að breyta og hafa tvo skólastjóra. Starfshópurinn leggur áherslu á að óbreytt skipurit stjórnunar kallar áfram á aðgerðir til að tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og almennt stjórnun í GRV.   Sérálit Kennarafélags Vestmannaeyja Fulltrúar KV skiluðu séráliti þar sem þeir vilja árétta áherslur sem Kennarafélag Vestmannaeyja setur fram um að skoðaðar verði aðrar leiðir eins og fleiri deildastjóra og að áfram verði unnið að því að styrkja stoðkerfi skólans.   Samþykkt að GRV verði áfram sem einn skóli með einum skólastjóra Fræðsluráð þakkar samráðshópnum fyrir þær ábendingar og álit sem komið hafa fram. Í ljósi þessara niðurstaðna og umræðu sem ráðið hefur átt um málið á 301. og 302. fundi þess samþykkir ráðið að GRV verði áfram sem einn skóli með einum skólastjóra. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðsins, fræðslufulltrúa og skólastjóra GRV að fara vel yfir þær ábendingar sem komið hafa fram og vinni áfram að aðgerðum sem tryggja og efla stjórnunarhlutverk skólastjóra og stjórnun almennt í GRV. Fræðsluráð þakkar samstarfshópnum fyrir þeirra góðu vinnu, segir í bókun ráðsins.  

Eyjamenn kunna að hafa gaman

Sóli Hólm leggur nú land undir fót og mætir á Háaloftið í Vestmannaeyjum með splunkunýtt uppistand sem hlotið hefur frábærar viðtökur í kjallaranum á Hard Rock Cafe í Reykjavík. Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Háaloftinu.   „Ég er ótrúlega spenntur að koma til Vestmannaeyja með uppistandið mitt. Ég hef skemmt nokkrum sinnum í Vestmannaeyjum og alltaf gengið frábærlega. Eyjamenn kunna að hafa gaman, hvort sem það er fyrstu helgina í ágúst eða síðustu helgina í febrúar,“ sagði Sóli í samtali við Eyjafréttir.  Lætur drauminn rætast Sóli sagðist hafa komið fram í Höllinni en aldrei á Háaloftinu áður, „kollegar mínir fyrir sunnan sem hafa gert það segja að það henti einkar vel fyrir uppistand svo ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu. Ég er búinn að vera með þessa uppistandssýningu á Hard Rock í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri en þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera þegar ég greindist með krabbamein síðasta sumar. Þá ákvað ég að um leið og mér yrði batnað myndi ég kýla á að láta þennan draum rætast, að vera með eigin sýningu, og blessunarlega hafa viðtökurnar verið frábærar og alltaf verið uppselt hingað til,“ sagði Sóli.  Afi hans var bæjarstjóri Sóli á rætur að rekja til Eyja, „ég á mínar tengingar til Vestmannaeyja. Afi minn, Hilmir Hinriksson, var af Gilsbakkakyni og faðir hans, Hinrik G. Jónsson var bæjarstjóri í Eyjum frá 1938-1946. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að margir mæti sem muni eftir langafa sem bæarstjóra, en það væri ánægjulegt,“ sagði Sóli Hólm að lokum.  

Við leggjum metnað í að veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu

Jón Pétursson framkvæmdarstjóri fjölskyldu og fræðslusvið sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta að það væri löngu vitað að þróun á hlutfalli eldra fólks í Vestmannaeyjum væri að hækka mikið. „Þessi þróun hefur gegnið hratt í gegn frá árinu 2006. Fyrir þennan tíma var hlutfall +67 ára í Eyjum nokkuð undir landsmeðaltali en í dag erum við um 2% yfir meðaltali.“ Jón tók við núverandi starfi 2006 „ég fór strax að skoða hvernig væntanleg íbúaþróun yrði hér í Eyjum. Þá sá ég að börnum muni fækka hratt sem hefur haft mikil áhrif á skólakerfið og einnig að fjöldi eldra fólks muni vaxa hratt. Fjölgun í aldurshópi +67 má skýra út frá afleiðingum gossins.“     Ýmislegt í vinnslu í málefnum aldraða Jón sagði að margt væri í vinnslu í átt að bættri þjónustu við eldri borgara „ Búið er að vinna mikið starf í uppbyggingu á innra starfi og gæðamálum. Á Hraunbúðum erum við búin að koma upp bættri aðstöðu dagvistunar og færa matsalinn, endurnýja bjöllukerfið á heimilinu, færa til og líkamsræktarsalinn, koma upp aðstandendaherbergi, fjölga herbergjum og byggja álmu með bættri aðstöðu fyrir fólk með sérhæfðan vanda. Áfram verður unnið í uppbyggingu á innra starfinu og gæðamálum. Útbúa á hvíldarherbergi fyrir fólk í dagdvöl. Klára á garð sem tengdur er nýrri álmu. Vinna þarf áfram að ýmsum endurbótum og lagfærðingum innanhúss. Verið er kaupa öflugan fjölþjálfa í líkamsræktaraðstöðina. Áfram verður reynt að fá heimild frá ríkinu fyrir fleiri hjúkrunarrýmum,“ sagði Jón.   Dvalarrými á Hraunbúðum breytt í hjúkrunarrými Jón sagði að vilyrði hefur verið fyrir því að dvalarrými á Hraunbúðum verði breytt í hjúkrunarrými. „Stefnt er að því að breyta hluta dvalarrýma á Hraunbúðum í hjúkrunarrými. Byrjað er að byggja við Eyjahraun 1 – 6 fimm viðbótar íbúðir auk tengibyggingu við Hraunbúðir. Allar íbúðir í Eyjahrauni 1 – 6 samtals 11 íbúðir verða skilgreindar sem þjónustuíbúðir og eru hugsaðar fyrir þá sem eru í bráðri þörf á meiri þjónustu, eða bíða eftir vistun á Hraunbúðum eða maki er komin með vistun þar en viðkomandi ekki. Þessar íbúðir munu því koma að hluta til í stað dvalarrýma og verður það alfarið í höndum bæjarins að ákveða úthlutun þeirra,“ sagði Jón.   Snjallforrit sem auðveldar heimaþjónustuna Á næstu dögum hefst innleiðing á svokölluðu CareOns kerfi sem auðveldar allt utanumhald um heimaþjónustu sveitarféalgsins. „Um er að ræða snjallforrit sem starfsmenn heimaþjónustu nýta til að auka öryggi, sveigjanleika, hagræðingu og gæði þjónustunnar. Aðstandendur munu með samþykki þjónustuþega og í gegnum sama kerfi nýtt það til að fylgjast með þjónustunni. Unnið er samtímis að því að efla heimaþjónustu með því að koma á kvöld og helgarþjónustu við þá sem þurfa á að halda,“ sagð Jón.   Sífellt farið yfir þjónustuþætti Jón sagði að sífellt væri verið að fara yfir þá þjónustuþætti sem nýtast eldra fólki sem best. „Unnið er út frá þeirri stefnu sem gildir að aldraðir borgarar geti með viðeigandi stuðningi og einstaklingsmiðaðri þjónustu dvalið sem lengst á eigin heimili og að réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf sé virtur,“ sagði Jón. „Að lokum verð ég að nefna hversu hrærður ég er yfir þeim mikla velvilja og stuðningi sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í okkar samfélagi sýnir eldra fólki. Ekki má heldur gleyma að nefna það öfluga starf sem aldraðir veita í gegnum félag eldri borgara í Vestmannaeyjum. Við búum í góðu samfélagi sem leggur metnað í veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið,“ sagði Jón að lokum.   Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er umfjöllun um málefni aldraða. Allt um nýju álmuna á Hraunbúðum sem sérstakelga er fyrir fólk með heilabilun og þá sem þurfa sértæka aðstoð. Aðferðina sem farið verður í þar sem kallast amaste og svo miklu meira. Hægt er að nálgast viðtölin í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Nýliðaæfing Karlakórs Vestmannaeyja

Karlakórinn heldur nýliðaæfingu á sínum hefðbundna æfingatíma, sunnudaginn nk. 18. febrúar kl. 16:00. Er þetta kjörið tækifæri fyrir söngelska karla að koma og syngja í frábærum félagsskap. Á dagskrá kórsins þetta vorið eru m.a. æfingaferð á meginlandið sem og árlegir vortónleikar í maí.   Eftirfarandi tvær mýtur eru algengar meðal þeirra sem langar að prófa en hafa sig ekki í það:   Þú telur þig ekki geta sungið. Það kann að vera rétt að það sé ekki einn af kostum þínum að syngja einn og óstuddur, en í kór geta allir sungið sem geta farið eftir einföldum leiðbeiningum, hlýtt stjórnanda og hlustað á það sem aðrir eru að gera í kring um þá. Í kórum í dag eru meðlimir sem þurftu mikla leiðsögn til að byrja með en náðu fljótt og örugglega að stilla sig inn á þá bylgjulengd sem kórsöngur er á og eru allir þeir í dag fanta góðir kórsöngvarar     Þú telur þig ekki hafa tíma. Það getur vel passað og við rengjum það ekki, en um leið viljum við benda þér á að ein megin stoð kórsins eru sjómenn. Eins og gefur að skilja eru þeir ekki alltaf í landi þegar kórkallið kemur. Þeir láta það þó ekki stoppa sig í að vera með þegar þeir geta. Karlakórinn á ekki að vera kvöð heldur skemmtun. Þú kemur þegar þú getur. Vertu bara hreinskilin með hver tími þinn er ef hann er takmarkaður og allir eru sáttir.       Stjórn Karlakórs Vestmannaeyja  

Fréttapýramídi Eyjafrétta 2017

Fréttapýramítinn var afhentur á Háaloftinu í hádeginu í dag. Að þessu sinni voru Eyjamenn ársins þrjár, en það voru mæðurnar Oddný Þ. Garðarsdóttir, Vera Björk Einarsdóttir og Þóranna M. Sigurbergsdóttir sem eru Eyjamenn ársins 2017. Þær eru konur sem sýnt hafa hvernig hægt er að snúa missi í mátt.   Vinkonurnar þrjár gáfu út bókina móðir, missir, máttur síðasta haust. Þar sem þær deila reynslu sinni á því að missa barn. Það þarf kjark til þess að opinbera dýpstu sorgir sínar og vanlíðan fyrir framan almenning. Að segja frá reynslu sinni að missa barn og sína þar með mátt sinn.   Skrifa bók þar sem reynslunni er lýst á einlægan, heiðarlegan og fallegan hátt .   Þóranna, Oddný og Vera lýsa því í bókinni hvernig allur bærinn tók utan um þær. Fólk sem þær þekktu lítið sem ekkert bönkuðu uppá hjá þeim til þess að aðstoða eða sýna stuðning í stóru sem smáu.   Það segir mikið um samstöðuna í Eyjum, að þær vinkonurnar skuli vera þakklátar fyrir að hafa búið þar þegar sorgin knúði dyra hjá þeim.   Með bókinni Móðir, missir, máttur hafa þær hjálpað fjölskyldum sínum og vinum en einnig bæjarbúum sem upplifðu missinn með þeim og fannst þeir eflaust oft lítið geta gert til þess að takast á við atburðina.   Fyrirtæki ársins 2017 Fleirri verðlaun voru veitt, fyrirtæki ársins 2017 var að mati ritstjórnar Eyjafrétta The brothers brewery. Þeir byrjuðu að brugga í bílskúr, en eiga nú besta brugghúsið á Íslandi. Hugmyndin var upphaflega lítið áhugamál sem kviknaði en í dag sér ekki fyrir endan á ævintýrinu. Áhuginn og ástríðan leynir sér ekki og allir eru velkomnir til þeirra. Þeir láta samfélagið sig varða og hafa styrkt krabbameinfélagið í Vestmannaeyjum og hafa hafið samstarf við Heimaey vinnu- og hæfingarstöð. En fyrst og fremst hafa þeir komið bæjarmenningunni á nýjar víddir.   Framtak til menningarmála Þriðjudaginn 23. janúar eru 45 ár síðan eldgos á Heimey hófst. En þá urðu til 5300 sögur af fólki sem þurfti að yfirefa heimilin sín. Þegar hugmynd kom upp um að safna saman nöfnum þeirra sem fóru með hverjum bát greip Ingibergur Óskarsson boltann og hefur unnið að því hörðum höndum að safna og skrásetja nöfnin og hefur hann náð ótrúlegum árangri sem hægt er á sjá á síðunni hans allir í bátanna, ásamt fullt af sögum sem ekki eru síðri. Ingibergur Óskarssson halut Fréttapýramídann fyrir þetta einstaka framtak til menningarsögu Eyjanna og á eftir að verða ómetanleg heimild þegar fram líða stundir.   Framlag til íþrótta árið 2017. Sigríður Lára Garðarsdóttir hóf að æfa knattspyrnu með ÍBV fimm ára gömul og hefur hún leikið með félaginu allar götur síðan. Snemma komu hæfileikar og metnaður Sigríðar Láru í ljós en hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki einungis 15 ára gömul, en í dag, tæpum tíu árum síðar, eru leikirnir orðnir 148.   Sigríður Lára hefur sömuleiðis látið að sér kveða með yngri landsliðum Íslands og núna síðast fylgdumst með henni spila með A-landsliðinu, en hún var til að mynda í byrjunarliði liðsins í lokakeppni EM síðasta sumar.   En umfram allt er Sigríður Lára góð fyrirmynd, innan sem utan vallar og er vel að því komin að hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþrótta árið 2017. Hægt er að lesa nánar um athöfnina í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.    

98% ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum

Á miðvikudaginn fjallaði fjölskyldu- og tómstundaráð um þann hluta þjónustukönnunar Gallup sem að ráðinu snýr. Almenn og vaxandi ánægja mældist með alla þessa þjónustuþætti. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.    98% þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (92%) voru 98% ánægð en einungis 2% óánægð. Ánægjan eykst mikið á milli ára og er einkunn Vestmannaeyjabæjar (á skalanum 1 til 5) 4,4 og því hátt yfir landsmeðaltali sem er 4,0.   83% ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   78% ánægð með aðstöðu við fatlað fólk Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (72%) sögðust 78% vera ánægð en 22% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   76% ánægð með þjónustu við eldri borgara Þá var spurt hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (75%) sögðust 76% vera ánægð en 24% óánægð og eykst ánægjan verulega á milli ára og er nokkuð hátt yfir landsmeðaltali. Elliði Vignisson birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Samgönguráðherra og bæjarstjórn funduðu í gær

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði í dag með bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju.Ráðherra boðaði til fundarins í framhaldi af fjölmennum íbúafundi í Eyjum, 21. febrúar sl. um samgöngur á sjó. Á fundinum með bæjarstjórn var rætt um hvaða rekstrarfyrirkomulag nýrrar ferju myndi tryggja bestu og hagkvæmustu þjónustuna. Fram kom í máli ráðherra að af þeim möguleikum, sem hann fór yfir á íbúafundinum, væri útboð til skemmri tíma, mögulega til tveggja ára, hagkvæmasta leiðin. Ráðherra minnti á að útboð væri almennt viðurkennd leið til að ná hagkvæmri niðurstöðu fyrir almenningssamgöngur, eins og gert er nú á sjó, landi og í lofti, enda sé sú þjónusta sem óskað er eftir vel skilgreind.Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna sem óskuðu eindregið eftir því að gerður yrði samningur við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar.Á fundinum lagði ráðherra til að samráðshópur með fulltrúum Vegagerðarinnar, ráðuneytisins og Vestmannaeyingum kæmi að undirbúningi útboðsskilyrða s.s. skilgreiningu á þjónustu með hag íbúa að leiðarljósi.Engin niðurstaða náðist á fundinum, en fundargestir voru sammála um að markmiðið væri að tryggja hag íbúa Vestmannaeyja, fyrirtækja og annarra sem best.Viðræðum verður haldið áfram og mun ráðherra boða til næsta fundar eftir helgi.

Greinar >>

Óður til gleðinnar

Eitt það besta sem fyrir mann getur komið er að geta glaðst. Stundum gleðst maður ákaflega, stundum lítið og stundum allt þar á milli eins og gengur. Gleðin er í sjálfri sér sannarlega jákvæð og því ætti maður að reyna að gleðjast sem oftast ef nokkur kostur er.   Nú á dögunum hafði ég sannarlega ástæðu til að gleðjast og það hreint ekki svo lítið. Nýr samgönguráðherra ákvað sem sé að sömu fargjöld giltu milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Hann ákvað jafnframt að breytingin tæki gildi ekki seinna en strax. Nógu löngu væru fyrrverandi samgönguráðherrar búnir að velta þessu brýna hagsmunamáli okkar Eyjamanna fyrir sér, segjast sýna því skilning og lofa að kippa málum í liðinn án þess að standa við orð sín.   Í gleði minni yfir þessu framfaraspori sem stigið var með svo skjótum hætti var þó einn skuggi. Úr forystusveit sjálfstæðismanna í Eyjum bárust raddir sem greinilega glöddust ekki. Þeim fannst ákvörðun ráðherrans ekki vera neitt annað en sýndarmennska, Sjálfstæðisflokkurinn hefði hvort eð er ætlað að samræma þessi fargjöld einhvern tíma í framtíðinni. Þessi rök eru svo innantóm og marklaus að furðu sætir að nokkurri forystusveit stjórnmálaflokks skuli koma til hugar að setja þau fram. En þannig brást forystusveitin við engu að síður.   Forystusveitin hefði að mínu mati átt að gleðjast með bæjarbúum yfir samræmingu fargjalda. Í stað þess „spældist“ sveitin og varð að aðhlátursefni.   En auðvitað geta sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum girt upp um sig í þessu máli. Það geta þeir m.a. gert með því að leggja fram ályktun á næsta bæjarráðsfundi þar sem samgönguráðherra eru þökkuð skjót og góð viðbrögð í þessu mikla hagsmunamáli okkar Vestmannaeyinga. Í kjölfarið gætum við öll sem einn sannarlega glaðst og þá líður okkur betur.   Ragnar Óskarsson    

VefTíví >>