Nýtt markaðsátak til stuðnings mannlífi og menningu

Nýtt markaðsátak til stuðnings mannlífi og menningu

Vestmannaeyjabær blæs hér til útgáfuteitis í tilefni að því að verið er að ræsa nýtt markaðsátak til stuðnings mannlífi og menningu í Vestmannaeyjum. 
 
Hvar: Eldheimum
Hvenær: laugar­daginn 11. nóvember
Klukkan: 16–18
 
Boðið verður upp á léttar veitingar og ljúfa tóna í flutningi Júníusar Meyvants. Elliði Vignisson, bæjarstjóri, mun segja frá verkefninu og kynna nýtt og glæsilegt veftímarit sem fer í loftið á laugardaginn.
 
 

Eyjamenn kunna að hafa gaman

Sóli Hólm leggur nú land undir fót og mætir á Háaloftið í Vestmannaeyjum með splunkunýtt uppistand sem hlotið hefur frábærar viðtökur í kjallaranum á Hard Rock Cafe í Reykjavík. Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Háaloftinu.   „Ég er ótrúlega spenntur að koma til Vestmannaeyja með uppistandið mitt. Ég hef skemmt nokkrum sinnum í Vestmannaeyjum og alltaf gengið frábærlega. Eyjamenn kunna að hafa gaman, hvort sem það er fyrstu helgina í ágúst eða síðustu helgina í febrúar,“ sagði Sóli í samtali við Eyjafréttir.  Lætur drauminn rætast Sóli sagðist hafa komið fram í Höllinni en aldrei á Háaloftinu áður, „kollegar mínir fyrir sunnan sem hafa gert það segja að það henti einkar vel fyrir uppistand svo ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu. Ég er búinn að vera með þessa uppistandssýningu á Hard Rock í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri en þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera þegar ég greindist með krabbamein síðasta sumar. Þá ákvað ég að um leið og mér yrði batnað myndi ég kýla á að láta þennan draum rætast, að vera með eigin sýningu, og blessunarlega hafa viðtökurnar verið frábærar og alltaf verið uppselt hingað til,“ sagði Sóli.  Afi hans var bæjarstjóri Sóli á rætur að rekja til Eyja, „ég á mínar tengingar til Vestmannaeyja. Afi minn, Hilmir Hinriksson, var af Gilsbakkakyni og faðir hans, Hinrik G. Jónsson var bæjarstjóri í Eyjum frá 1938-1946. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að margir mæti sem muni eftir langafa sem bæarstjóra, en það væri ánægjulegt,“ sagði Sóli Hólm að lokum.  

Við leggjum metnað í að veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu

Jón Pétursson framkvæmdarstjóri fjölskyldu og fræðslusvið sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta að það væri löngu vitað að þróun á hlutfalli eldra fólks í Vestmannaeyjum væri að hækka mikið. „Þessi þróun hefur gegnið hratt í gegn frá árinu 2006. Fyrir þennan tíma var hlutfall +67 ára í Eyjum nokkuð undir landsmeðaltali en í dag erum við um 2% yfir meðaltali.“ Jón tók við núverandi starfi 2006 „ég fór strax að skoða hvernig væntanleg íbúaþróun yrði hér í Eyjum. Þá sá ég að börnum muni fækka hratt sem hefur haft mikil áhrif á skólakerfið og einnig að fjöldi eldra fólks muni vaxa hratt. Fjölgun í aldurshópi +67 má skýra út frá afleiðingum gossins.“     Ýmislegt í vinnslu í málefnum aldraða Jón sagði að margt væri í vinnslu í átt að bættri þjónustu við eldri borgara „ Búið er að vinna mikið starf í uppbyggingu á innra starfi og gæðamálum. Á Hraunbúðum erum við búin að koma upp bættri aðstöðu dagvistunar og færa matsalinn, endurnýja bjöllukerfið á heimilinu, færa til og líkamsræktarsalinn, koma upp aðstandendaherbergi, fjölga herbergjum og byggja álmu með bættri aðstöðu fyrir fólk með sérhæfðan vanda. Áfram verður unnið í uppbyggingu á innra starfinu og gæðamálum. Útbúa á hvíldarherbergi fyrir fólk í dagdvöl. Klára á garð sem tengdur er nýrri álmu. Vinna þarf áfram að ýmsum endurbótum og lagfærðingum innanhúss. Verið er kaupa öflugan fjölþjálfa í líkamsræktaraðstöðina. Áfram verður reynt að fá heimild frá ríkinu fyrir fleiri hjúkrunarrýmum,“ sagði Jón.   Dvalarrými á Hraunbúðum breytt í hjúkrunarrými Jón sagði að vilyrði hefur verið fyrir því að dvalarrými á Hraunbúðum verði breytt í hjúkrunarrými. „Stefnt er að því að breyta hluta dvalarrýma á Hraunbúðum í hjúkrunarrými. Byrjað er að byggja við Eyjahraun 1 – 6 fimm viðbótar íbúðir auk tengibyggingu við Hraunbúðir. Allar íbúðir í Eyjahrauni 1 – 6 samtals 11 íbúðir verða skilgreindar sem þjónustuíbúðir og eru hugsaðar fyrir þá sem eru í bráðri þörf á meiri þjónustu, eða bíða eftir vistun á Hraunbúðum eða maki er komin með vistun þar en viðkomandi ekki. Þessar íbúðir munu því koma að hluta til í stað dvalarrýma og verður það alfarið í höndum bæjarins að ákveða úthlutun þeirra,“ sagði Jón.   Snjallforrit sem auðveldar heimaþjónustuna Á næstu dögum hefst innleiðing á svokölluðu CareOns kerfi sem auðveldar allt utanumhald um heimaþjónustu sveitarféalgsins. „Um er að ræða snjallforrit sem starfsmenn heimaþjónustu nýta til að auka öryggi, sveigjanleika, hagræðingu og gæði þjónustunnar. Aðstandendur munu með samþykki þjónustuþega og í gegnum sama kerfi nýtt það til að fylgjast með þjónustunni. Unnið er samtímis að því að efla heimaþjónustu með því að koma á kvöld og helgarþjónustu við þá sem þurfa á að halda,“ sagð Jón.   Sífellt farið yfir þjónustuþætti Jón sagði að sífellt væri verið að fara yfir þá þjónustuþætti sem nýtast eldra fólki sem best. „Unnið er út frá þeirri stefnu sem gildir að aldraðir borgarar geti með viðeigandi stuðningi og einstaklingsmiðaðri þjónustu dvalið sem lengst á eigin heimili og að réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf sé virtur,“ sagði Jón. „Að lokum verð ég að nefna hversu hrærður ég er yfir þeim mikla velvilja og stuðningi sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í okkar samfélagi sýnir eldra fólki. Ekki má heldur gleyma að nefna það öfluga starf sem aldraðir veita í gegnum félag eldri borgara í Vestmannaeyjum. Við búum í góðu samfélagi sem leggur metnað í veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið,“ sagði Jón að lokum.   Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er umfjöllun um málefni aldraða. Allt um nýju álmuna á Hraunbúðum sem sérstakelga er fyrir fólk með heilabilun og þá sem þurfa sértæka aðstoð. Aðferðina sem farið verður í þar sem kallast amaste og svo miklu meira. Hægt er að nálgast viðtölin í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Nýliðaæfing Karlakórs Vestmannaeyja

Karlakórinn heldur nýliðaæfingu á sínum hefðbundna æfingatíma, sunnudaginn nk. 18. febrúar kl. 16:00. Er þetta kjörið tækifæri fyrir söngelska karla að koma og syngja í frábærum félagsskap. Á dagskrá kórsins þetta vorið eru m.a. æfingaferð á meginlandið sem og árlegir vortónleikar í maí.   Eftirfarandi tvær mýtur eru algengar meðal þeirra sem langar að prófa en hafa sig ekki í það:   Þú telur þig ekki geta sungið. Það kann að vera rétt að það sé ekki einn af kostum þínum að syngja einn og óstuddur, en í kór geta allir sungið sem geta farið eftir einföldum leiðbeiningum, hlýtt stjórnanda og hlustað á það sem aðrir eru að gera í kring um þá. Í kórum í dag eru meðlimir sem þurftu mikla leiðsögn til að byrja með en náðu fljótt og örugglega að stilla sig inn á þá bylgjulengd sem kórsöngur er á og eru allir þeir í dag fanta góðir kórsöngvarar     Þú telur þig ekki hafa tíma. Það getur vel passað og við rengjum það ekki, en um leið viljum við benda þér á að ein megin stoð kórsins eru sjómenn. Eins og gefur að skilja eru þeir ekki alltaf í landi þegar kórkallið kemur. Þeir láta það þó ekki stoppa sig í að vera með þegar þeir geta. Karlakórinn á ekki að vera kvöð heldur skemmtun. Þú kemur þegar þú getur. Vertu bara hreinskilin með hver tími þinn er ef hann er takmarkaður og allir eru sáttir.       Stjórn Karlakórs Vestmannaeyja  

Fréttapýramídi Eyjafrétta 2017

Fréttapýramítinn var afhentur á Háaloftinu í hádeginu í dag. Að þessu sinni voru Eyjamenn ársins þrjár, en það voru mæðurnar Oddný Þ. Garðarsdóttir, Vera Björk Einarsdóttir og Þóranna M. Sigurbergsdóttir sem eru Eyjamenn ársins 2017. Þær eru konur sem sýnt hafa hvernig hægt er að snúa missi í mátt.   Vinkonurnar þrjár gáfu út bókina móðir, missir, máttur síðasta haust. Þar sem þær deila reynslu sinni á því að missa barn. Það þarf kjark til þess að opinbera dýpstu sorgir sínar og vanlíðan fyrir framan almenning. Að segja frá reynslu sinni að missa barn og sína þar með mátt sinn.   Skrifa bók þar sem reynslunni er lýst á einlægan, heiðarlegan og fallegan hátt .   Þóranna, Oddný og Vera lýsa því í bókinni hvernig allur bærinn tók utan um þær. Fólk sem þær þekktu lítið sem ekkert bönkuðu uppá hjá þeim til þess að aðstoða eða sýna stuðning í stóru sem smáu.   Það segir mikið um samstöðuna í Eyjum, að þær vinkonurnar skuli vera þakklátar fyrir að hafa búið þar þegar sorgin knúði dyra hjá þeim.   Með bókinni Móðir, missir, máttur hafa þær hjálpað fjölskyldum sínum og vinum en einnig bæjarbúum sem upplifðu missinn með þeim og fannst þeir eflaust oft lítið geta gert til þess að takast á við atburðina.   Fyrirtæki ársins 2017 Fleirri verðlaun voru veitt, fyrirtæki ársins 2017 var að mati ritstjórnar Eyjafrétta The brothers brewery. Þeir byrjuðu að brugga í bílskúr, en eiga nú besta brugghúsið á Íslandi. Hugmyndin var upphaflega lítið áhugamál sem kviknaði en í dag sér ekki fyrir endan á ævintýrinu. Áhuginn og ástríðan leynir sér ekki og allir eru velkomnir til þeirra. Þeir láta samfélagið sig varða og hafa styrkt krabbameinfélagið í Vestmannaeyjum og hafa hafið samstarf við Heimaey vinnu- og hæfingarstöð. En fyrst og fremst hafa þeir komið bæjarmenningunni á nýjar víddir.   Framtak til menningarmála Þriðjudaginn 23. janúar eru 45 ár síðan eldgos á Heimey hófst. En þá urðu til 5300 sögur af fólki sem þurfti að yfirefa heimilin sín. Þegar hugmynd kom upp um að safna saman nöfnum þeirra sem fóru með hverjum bát greip Ingibergur Óskarsson boltann og hefur unnið að því hörðum höndum að safna og skrásetja nöfnin og hefur hann náð ótrúlegum árangri sem hægt er á sjá á síðunni hans allir í bátanna, ásamt fullt af sögum sem ekki eru síðri. Ingibergur Óskarssson halut Fréttapýramídann fyrir þetta einstaka framtak til menningarsögu Eyjanna og á eftir að verða ómetanleg heimild þegar fram líða stundir.   Framlag til íþrótta árið 2017. Sigríður Lára Garðarsdóttir hóf að æfa knattspyrnu með ÍBV fimm ára gömul og hefur hún leikið með félaginu allar götur síðan. Snemma komu hæfileikar og metnaður Sigríðar Láru í ljós en hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki einungis 15 ára gömul, en í dag, tæpum tíu árum síðar, eru leikirnir orðnir 148.   Sigríður Lára hefur sömuleiðis látið að sér kveða með yngri landsliðum Íslands og núna síðast fylgdumst með henni spila með A-landsliðinu, en hún var til að mynda í byrjunarliði liðsins í lokakeppni EM síðasta sumar.   En umfram allt er Sigríður Lára góð fyrirmynd, innan sem utan vallar og er vel að því komin að hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþrótta árið 2017. Hægt er að lesa nánar um athöfnina í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.    

98% ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum

Á miðvikudaginn fjallaði fjölskyldu- og tómstundaráð um þann hluta þjónustukönnunar Gallup sem að ráðinu snýr. Almenn og vaxandi ánægja mældist með alla þessa þjónustuþætti. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.    98% þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (92%) voru 98% ánægð en einungis 2% óánægð. Ánægjan eykst mikið á milli ára og er einkunn Vestmannaeyjabæjar (á skalanum 1 til 5) 4,4 og því hátt yfir landsmeðaltali sem er 4,0.   83% ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   78% ánægð með aðstöðu við fatlað fólk Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (72%) sögðust 78% vera ánægð en 22% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   76% ánægð með þjónustu við eldri borgara Þá var spurt hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (75%) sögðust 76% vera ánægð en 24% óánægð og eykst ánægjan verulega á milli ára og er nokkuð hátt yfir landsmeðaltali. Elliði Vignisson birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.  

Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nú er veturinn genginn í garð og rútína og hversdagsleiki orðinn fastur í sessi á flestum heimilum. Margir þekkja að það getur verið heilmikil áskorun að púsla saman öllu því sem þarf að gera í dagsins önn. Boltarnir eru oft ansi margir, bæði í einkalífi og starfi og margir þurfa að hafa sig alla við til að halda öllu gangandi. Þegar álag verður of mikið, sérstaklega ef við upplifum að við erum farin að „ströggla“, getur það haft neikvæð áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Við förum að finna fyrir streitu. Vr birti þessa grein og er hún góð lesning fyrir alla.     Hvað er streita?   Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að vísa í streituviðbragðið sjálft (sem er lífeðlisfræðilegt varnarviðbragð líkamans), streituvaldana sjálfa (ytri og innri), sem og streitutengda vanheilsu. Það er mikilvægt að hafa í huga að streita er í eðli sínu jákvæð. Ef tímabundið stress fær að koma og svo líða hjá og við gefum okkur tækifæri til að jafna okkur á eftir, getur það mögulega bætt frammistöðu okkar. Það skerpir athygli þá stundina og gerir okkur kleift að takast á við álag og uppákomur af ýmsum toga. Til dæmis getur það aukið viðbragðsflýti og gert okkur kleift að vinna hraðar og af meiri einbeitingu sem er vissulega mjög hjálplegt.   Forðist langvarandi álag   Ef álagið er hins vegar langvarandi og möguleikar til þess að endurheimta orku litlir, getur yfirálag og langvinn streita haft skaðleg áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Tilfinningar sem maður upplifir sem neikvæðar eru ekki hættulegar í sjálfu sér, þær gætu þó orðið það ef brugðist er við með því að t.d. vinna meira, hraðar og af meiri ákafa, sleppa matarhléum og kaffipásum, draga úr hvíld, sleppa hreyfingu, líkamsrækt og áhugamálum. Ef maður festist í slíku mynstri mun langvarandi álag smám saman slæva ónæmiskerfið og veikja varnir líkamans. Því er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir álagsþáttum og þekkja eigin streitueinkenni. Ekki er síður mikilvægt að hlúa vel að sér og fylla á orkubirgðirnar til móts við það sem tapast á álagstímum.   Einkenni langvarandi streitu geta verið margvísleg   Einkenni langvarandi streitu geta birst bæði í líkamlegum og andlegum einkennum, hugsunum og hegðun. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkir, vöðvabólga, orkuleysi, hækkaður blóðþrýstingur, stoðkerfisvandi og verkir, svimi eða óáttun, svefnvandamál, minnkuð kynhvöt, meltingarvandamál, sem og hjarta- og æðavandamál. Tilfinningalífið getur einkennst af kvíða, depurð, ótta, sektarkennd, pirringi, reiði og óánægju. Ef streitustig er mjög hátt og langvarandi aukast líkur á ofsakvíðaköstum.   Streitutengd hegðun getur lýst sér þannig að fólk er stöðugt að flýta sér (þó ekkert liggi á), leitast við að gera margt í einu, sleppa pásum eða hættir að gera ánægjulega hluti vegna þreytu eða tímaskorts. Sumir pirrast auðveldlega og skeyta skapi sínu á umhverfinu. Eirðarleysi, slæmir ávanar, óheppilegar neysluvenjur, auknar reykingar og áfengisneysla: eru allt dæmigerð viðbrögð þegar sjálfstýringin fer á. Dæmi um hugræna þætti er að hafa margar (óskýrar) hugsanir samtímis, hrakspár og/eða sveigjanleiki í hugsunum, hugsanir um eigin vangetu, áhyggjur, áhugaleysi, heilaþoka, rörsýn. Við langt genginn streituvanda hrakar athygli og einbeitingu og geta heilans til að hugsa, gera áætlanir og muna hluti skerðist.   Að vinna gegn streitu   1. Vaknaðu til vitundar um sjálfan þig Mikilvægt er að þekkja sjálfan sig, vera vakandi yfir því sem veldur manni streitu og þekkja streitueinkennin. Þannig verðum við betur undirbúin og líklegri til að bregðast við erfiðum aðstæðum okkur í hag. Kortlagning streituvalda og einkenna er mjög mikilvæg.   2. Gerðu áætlun Það getur verið gagnlegt að hafa góða yfirsýn yfir vikuna eða jafnvel mánuðinn. Settu inn í stundatöflu eða dagbók allt sem þú veist að er framundan hjá þér eins og fundir, afmælisboð, læknisheimsóknir, próf eða skilafrestir ef það á við. Margir upplifa til dæmis heilmikla streitu í tengslum við matarinnkaup og því gæti verið gott að vera búinn að útbúa matseðil fyrir vikuna, að minnsta kosti fyrir virku dagana.   3. Einfaldaðu lífið eins og þú getur Við erum svo dugleg að flækja lífið að óþörfu og oftar en ekki er það vegna þess að við erum illa skipulögð og skortir yfirsýn. Hvar getur þú einfaldað líf þitt? Með því að losna við litlu flækjurnar eigum við meiri orku á tankinum fyrir stærri álagsvalda   4. Settu tóninn fyrir daginn Margir kannast við það að vera á síðustu stundu með allt og vita að það getur verið mjög óþægilegt. Það gæti verið hjálplegt að vakna örlítið fyrr á morgnana og gefa sér þannig aðeins rýmri tíma í morgunverkin og jafnvel að njóta þeirra, frekar en að hlaupa úr einu í annað og fara út um dyrnar með öndina í hálsinum af því að enn einn daginn erum við á síðustu stundu.   5. Forgangsraðaðu og gerðu raunhæfar kröfur Þegar álag á okkur er mikið er mikilvægt að forgangsraða. Sumt skiptir meira máli en annað. Það getur vel verið að um tímabundið ástand sé að ræða og þá er gott að minna sig á það. Við þurfum að horfast í augu við að ekki er raunhæft að gera þær kröfur til okkur að sinna öllu jafnvel þegar það eru álagstímabil. Veltu fyrir þér hvað má bíða akkúrat núna. Má þvottahrúgan bíða eða á göngutúrinn að bíða? Hver og einn þarf að svara því fyrir sig.   6. Hlúðu að þér og vertu í núinu Það er mjög mikilvægt að hlúa að sjálfum sér og tíminn sem fer í það þarf ekki að vera langur. Vissulega væri kostur ef við gætum passað vel uppá mataræðið og svefninn, hreyft okkur reglulega og gert ánægjulega hluti en stundum er það bara dálítið flókið. Margir kannast við að byrja haustið með háleit markmið um að taka einmitt á öllum þessum grunnþáttum heilsunnar. Vissulega er mikilvægt að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf svo maður upplifi ekki að manni hafi mistekist. Ef ég kemst ekki líkamsræktina í dag sökum álags eða anna, þá gæti ég mögulega gert eitthvað annað í staðinn eins og fara í stuttan göngutúr eða gengið stigana í stað þess að taka lyftuna. Allt telur þetta og bara það að gefa sér 5 mínútur hér og þar í dagsins önn skiptir máli.   Leyfðu þér að njóta kaffibollans, vera örlítið lengur í sturtunni, staldra við og horfa uppí himininn og bara vera og skynja í augnablik, vera heils hugar til staðar í samtali. Þetta þarf ekki að taka mikinn tíma frá þér en getur skipt sköpum. Notaðu nokkrar mínútur hér og þar til að stinga þér í samband og hlaða orkutankinn.   7. Innri röddin Allar líkur eru á að þú sért að gera þitt allra besta - minntu þig stöðugt á það. Þegar streitukerfi líkamans virkjast hefur það iðulega áhrif á hugsanir okkar með neikvæðum hætti sem aftur virkjar streitukerfið þannig að vítahringur skapast. Þá verðum við líklegri til að fara að beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn?“ „Ég er alveg ómöguleg/ur,“ og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru ekki hjálplegar og því er mikilvægt að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar. Sýndu sjálfum þér skilning og umburðarlyndi í stað þess að brjóta þig niður.   Sigrún Ása Þórðardóttir og Snædís Eva Sigurðardóttir, sálfræðingar í Heilsuborg.   Grein birtist í 4. tölublaði VR 2017  

ÍBV og Heimir Hallgrímsson koma víða við í nýja spilinu Beint í mark

 Eyjamaðurinn og ritstjóri 433.is, Hörður Snævar Jónsson var að gefa út, ásamt félögum sínum spilið Beint í mark. Hörður Snævar sem er sonur Öldu Harðardóttur er fæddur og uppalinn fyrstu árin sín í Vestmannaeyjum. Hann fékk fótboltaáhugann ungur að árum en hann var farinn að mæta á allar æfingar og leiki hjá meistaraflokki ÍBV aðeins 6 ára gamall. Spilið Beint í mark sem kemur í búðir á næstu dögum er spil um fótbolta og allt sem honum viðkemur. Hörður segir spilið fjölbreytt, skemmtilegt og fyrir alla fjölskylduna. Þar sem fótbolti er mjög vinsæll hér á landi fannst félögunum vanta slíkt á markað hér á landi.   Hvaðan kemur fótboltaáhuginn? Þetta byrjaði mjög snemma. Þegar maður ólst upp í Eyjum komst ekkert annað að hjá manni en ÍBV. 6 og 7 ára gamall var ég mættur á allar æfingar ÍBV í meistaraflokki í fótbolta og var boltasækjari, það gerði svo mikið fyrir ungan dreng að fá alltaf að fara inn í klefa eftir hverja einustu æfingu og spjalla við strákana. Oftar en ekki var það svo Gunnar Sigurðsson þá markvörður ÍBV sem gaf mér súkkulaði sem laun og skutlaði mér svo heim af æfingum. Síðan þá hefur áhuginn alltaf verið til staðar, maður var ekki nógu góður til að spila fótbolta á hæsta stigi þannig að maður fann leiðir til þess að starfa í kringum áhugamálið með öðrum hætti.   Hvernig spil er þetta og fyrir hverja er spilið? Spil er eitthvað sem flestir Íslendingar kannast við að spila um jólin, fótboltinn hefur svo aldrei verið vinsælli á Íslandi og því fannst okkur vanta slíkt spil á markað. Við ákváðum strax frá byrjun að spilið yrði fyrir alla aldurshópa. Því er hvert spjald með styrkleikaskiptum spurningum, um er að ræða þrjá styrkleikaflokka. Krakkarnir hafa því gaman af spilinu líkt og fullorðnir. Þeir sem vita lítið geta spilað og þeir sem eru að eigin sögn algjörir sérfræðingar fá líka spurningar við sitt hæfi. Spurt er út í alla anga fótboltans, karla- og kvennafótbolta og fótboltann hér heima og erlendis.   Aðspurður um hvort okkar fólk frá ÍBV og Heimir Hallgrímsson kæmu við í spilinu var svarið jákvætt, „að sjálfsögðu og það talsvert mikið. Heimir hefur unnið hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar ásamt strákunum í landsliðinu. Einn af landsliðsmönnunum, Jóhann Berg Guðmundsson er einn af höfundum spilsins. Landsliðið leikur því stóran þátt í spilinu. Einnig kemur ÍBV talsvert við sögu ásamt þeim frábæru knattspyrnukonum sem ÍBV hefur framleitt, enda spilið mjög fjölbreytt þó aðeins sé spurt út í fótbolta,“ sagði Hörður.

Páll Marvin: Ey stökkpallur inn á stóra sviðið

EY vekur athygli Það er ánægjulegt að markaðsátakið EY vekur athygli og knýr fram viðbrögð enda kannski skiljanlegt þar sem þetta er í fyrsta skipti bærinn ræðst í átak af þessu tagi. Það er einnig gott að fá ábendingar um hvað er hægt að bæta. Auðvitað eru ekki alltaf allir sammála um aðferðafræðina og síðan eru sumir bara í þannig gír eða úr garði gerðir að þeir ætla rífa niður, sama hvað. Líklega hefði ekki skipt neinu máli hvernig þetta verkefni hefði farið af stað þessir aðilar hefðu ekki getað annað en rifið það niður.   En gagnrýni á fyllilega rétt á sér og ber ávallt að taka til skoðunar, þó svo að tilgangur hennar sé ekki alltaf hvatning til að gera betur.     Vonandi stökkupallur inn á stóra sviðið Eyjarnar búa yfir fagfólki á mörgum sviðum, fagfólki sem er vel samkeppnishæft innanlands og jafnvel á alþjóðavettvangi. Verkefnið EY er einmitt ætlað að styðja við bakið á þessu fólki, setja það í forgrunn, kynna það fyrir Vestmannaeyingum, landsmönnum og síðan alþjóð. Verkefnið á ekki að hjálpa þessu fólki með því að kaupa einskiptis þjónustu af viðkomandi, heldur að búa til jarðveg og grunn þar sem þetta fólk, hvort sem það er kokkur, tónlistarmaður, ljósmyndari, jógakennari eða annar fagaðili fær stökkpall inn á stóra sviðið.   ​Gagnrýni á að við séum ekki ráða heimamenn í verkefnið er gagnrýni sem við tökum alvarlega, því Vestmannaeyjabær hefur ávallt litið til heimamarkaðar fyrst þar sem því er við komið. Bæjarstjórn og við sem höfum komið að verkefninu fórum í gegnum þessa umræðu og áttum von á gagnrýni af þessu tagi ef sú leið yrði valin að leita út fyrir Eyjarnar. Niðurstaðan varð hinsvegar sú að við töldum rökin fyrir því sterkari og völdum því utanaðkomandi auglýsingastofu til að setja verkefnið af stað með okkur. Hlutverk auglýsingastofunnar var að hanna átakið og stýra aðgerðum en líkt og Eyjamaðurinn og reynslubolti í auglýsingabransanum, Hlynur Guðlaugsson, bendir á í umræðum á fésbókinni þá er engin stofa í Eyjum sem hefur reynslu og þekkingu til að annast slíkt. Hinsvegar hefur átakið notað ljósmyndara, kvikmyndatökuaðila og aðra fagmenn frá Eyjum til hinna ýmsu verkefna og mun gera það áfram.     Ey ætlað að styðja við útgáfustarf í Eyjum Nokkuð hefur verið rætt um að Vestmannaeyjabær ætli í samkeppni við aðila á markaði í Vestmannaeyjum. Ábyrgðin á þeim misskilningi liggur öll hjá okkur sem stýrt höfum verkefninu. Í ferlinu hefði fyrr þurft að ræða við til að mynda þá sem eru í útgáfustarfi og útskýra betur að allt sem gert verður er til að styðja við það góða starf sem hér er unnið en ekki að valda neikvæðum áhrifum. Þannig er til að mynda stefnt að matarhátíðinni „Gúrmey“án þess að Vestmannaeyjabær ætli að opna veitingastað. Á sama hátt er vilji til að styðja við umfjöllun um allt það jákvæða sem er að gerast án þess að Vestmannaeyjabær ætli sjálfur í viðamikið útgáfustarf. Þeir aðilar sem staðið hafa í eldlínunni á þeim vettvangi eiga heiður skilið fyrir metnaðarfullt starf í tugi ára og rétt eins og „Gúrmey“ er ætlað að standa með veitngastöðum er „EY“ ætlað að styðja við útgáfustarf hér í okkar góða bæ. Þótt ekki séu nema fáeinir dagar síðan verkefni var kynnt er þegar kominn vísir að samstarfi þar að lútandi sem bæjarbúar munu vonandi njóta góðs af. Við hönnun átaksins var farin sú leið að fara ekki í birtingar á dýrum sjónvarpsauglýsingum. Slíkar herferðir eru auðvitað góðar og gildar en þær kosta mikið í bæði framleiðslu og birtingu. Þess í stað var valið að nota vefinn og samfélagsmiðlana. Samfélagsmiðlarnir eru vand með farnir en með því að fara þá leið er verkefnið sett í hendurnar á bæjarbúum. Átakið hefur hinsvegar fengið mjög góðar móttökur enda vandað til verka á öllum sviðum.     Slagorðið Heimaey best Bent hefur verið m.a. á að það hefði átt að styðjast við slagorðið "Til Eyja" og er það vel, sú hugmynd líkt og flest allar hugmyndir sem hafa verið ræddar í tengslum við átakið eru góðra gjalda verðar. En það slagorð rúmast vel inni í orðaleikjunum í tengslum við EY merkið og t.d. ef Markaðsdeild Eimskipa eða aðrir vilja nota Til EYja og tengja sig við átakið þá er það velkomið og einfalt að tengja þar á milli. Slagorð átaksins er hinsvegar Heimaey best og er þar bæði verið að vísa í hið augljósa, þ.e. að Heimaey er best og síðan á orðatiltækið heima er best. En allt er þetta leikur að orðum sem heimamenn, hönnuðir og markaðsmenn fyrirtækja í Eyjum geta nýtt sér í markaðssetningu á sinni vöru og þjónustu.     Páll Marvin Jónsson​  

Fimm fegnu úthlutun frá SASS í Vestmannaeyjum

Verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fjallaði um tillögur fagráðs nýsköpunar og fagráðs menningar um úthlutun styrkveitinga til verkefna úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands, í síðari úthlutun ársins. Alls bárust sjóðnum 98 umsóknir að þessu sinni, þar af 36 nýsköpunarverkefni og 62 menningarverkefni.   Niðurstaða verkefnastjórnar er að veita 47 menningarverkefnum styrki að fjárhæð 21.700.000, kr. og 24 nýsköpunarverkefnum að fjárhæð 14.920.000, kr. Samtals er því 71 verkefni veittur styrkur í síðari úthlutun ársins að fjárhæð 36.620.000, kr.   Hæstu styrkina hlutu Júlíus Magnús Pálsson, 2 mkr. til verkefnisins „Þróun á EC Storage lausnamengi“ í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og Oddafélagið, 1,5 mkr. til verkefnisins „Fornleifaskóli unga fólksins í Odda á Rangárvöllum“ í flokki menningarverkefna.   Þeir aðilar sem fengu úthlutun í Vestmannaeyjum voru, Margrét Lilja Magnúsdóttir fyrir hönd Sæheimar, hlutu styrk uppá 400.000 krónur fyrir Lundapysjur í Vestmannaeyjabæ 2. Leikfélag Vestmannaeyja hlaut tvo stykri, annarsvegar 350.000 krónur  fyrir leikritið Klaufar og Kóngsdætur og hinsvegar 350.000 krónur fyrir Bjartmar - söngleikur. Sagnheimar og Eldheimar fengu 300.000 krónur fyrir menningarheimar mætast, Grísk menningarhátíð. Langa ehf. hlaut tvo styrki, 850.000 krónur fyrir sjálfvirkan fiskþurrkunarklefi og 700.000 krónur fyrir gæludýranammi úr fiskroði, framhaldsverkefni. The brothers brewery hlaut 400.000 krónur fyrir vöruþróun með samvinnu og samstarfi við erlend brugghús.    

Karlakórinn þakkar fyrir sig

Nú þegar að úrslit í sjónvarpsþáttunum Kórar Íslands eru ljós með sigri Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps eru okkur í Karlakór Vestmannaeyja þakklæti efst í huga um leið og við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju.   Þátttaka Karlakórs Vestmannaeyja í þáttunum kostuðu kórinn, kórmeðlimi, stjórnanda, stjórn og undirleikara gríðarmikla vinnu og fjármuni sem hefði verið til einskis ef bakland kórsins á heimavelli, hér í Vestmannaeyjum væri ekki jafn ótrúlegt og sterkt eins og það er. Hér í Eyjum hafa fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki ásamt bæjarfélaginu stutt við kórinn með styrkjum og gjöfum, sem og að kjósa okkur í þáttunum og er það algjörlega ómetanlegt og viljum við í kórnum þakka það innilega. Hagnaður kórsins af þátttökunni er mikill ,þó hann sé ekki metinn í fjármunum, heldur frekar í reynslu og bættum vinnubrögðum, og sýnir um leið hvað við erum vel í stakk búnir til að koma fram og skemmta okkur og öðrum eftir ekki lengri starfstíma, en kórinn var endurstofnaður á vormánuðum árið 2015 og er því rétt rúmlega tveggja ára í þessari mynd. Einnig sýnir þessi mikli stuðningur samheldni okkar Eyjamanna og má hún vera öðrum til eftirbreytni. Hún er okkur í kórnum mikil hvatning til að gera meira og betur í framtíðinni. Kærar hugheilar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning kæru Vestmannaeyingar og aðrir velunnarar Karlakórs Vestmannaeyja.  

Blaðaútgáfa og rekstur prentsmiðja í Eyjum 100 ára.

Þess verður minnst sunnudaginn 12. nóv. nk. kl. 13.00-15.00 á opnu málþingi í Einarsstofu í Safnahúsi að 2017 eru liðin 100 ár frá því blaðaútgáfa og prentsmiðjurekstur hófst í Eyjum. Fyrstu blöðin sem komu út í Vestmannaeyjum voru Fréttir og síðar Skeggi sem var fyrsta verkefni prentsmiðju sem Gísli J. Johnsen keypti til Eyja 1917 og var sett upp í húsinu Edinborg. Undirbúningur þessa merkisatburðar í menningarsögu Eyjanna hefur staðið í nokkurn tíma undir forystu Arnars Sigurmundssonar, Helgu Hallbergsdóttur og Kára Bjarnasonar. Dagskráin verður fjölbreytt og fer fram í Einarsstofu í Safnahúsinu og í framhaldinu verður boðið upp á rútuferð þar sem staldrað verður við á leiðinni á völdum stöðum prentsögunnar.   Á dagskránni munu eftirfarandi flytja stutt erindi: Arnar Sigurmundsson sem mun stikla á stóru yfir söguna frá 1917 og hina fjölskrúðugu blaða- og tímaritaútgáfu og prentsmiðja í Eyjum. Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir sem kynnir Átthagadeild Bókasafnsins. Ómar Garðarsson sem rifjar um eftirminnileg atriði úr liðlega 30 ára blaðamennskuferli. Hermann Einarsson sem fjallar um fyrstu kynni sín af prentsmiðjunni Eyrúnu og Gunnari prentara. Óskar Ólafsson sem segir frá kynnum sínum af lærimeistara sínum Hafsteini Guðmundssyni prentsmiðjustjóra í Hólum, sem bjó sín uppvaxtarár í Eyjum og var einn fremsti bókagerðarmaður landsins. Á milli dagskráratriða mun Sigurmundur G. Einarsson flytja lög eftir ljóðskáld úr Eyjum.   Að þessu loknu, um kl. 14.00, verður boðið upp á rútuferð og staldrað við á nokkrum stöðum þar sem prentsmiðjur hafa verið til húsa og lesinn stuttur texti frá viðkomandi prestsmiðju. Rútuferðinni lýkur um kl. 15.00 við Safnahúsið og verður þá viðstöddum boðið í kaffi. Málþinginu stýrir Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahússins. Allir eru hjartanlega velkomnir á þetta opna málþing og aðgangur ókeypis.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Uppstilling hjá Sjálfstæðisflokknum

Í gær rann út framboðsfrestur til röðunar fyrir Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja. Sjö gáfu gáfu kost á sér í Röðun, en frambjóðendur þurfta að vera tíu að lágmarki, skv. samþykkt aðalfundar Fullltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestamannaeyjum. Það verður því farið í uppstillingu. Ólafur Elíasson sagði í samtali við Eyjafrétta að, „Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfél. í Vestm. var samþykkt sl. mánudag að röðun færi fram ef 10 eða fleirri gæfu kost á sér í framboð. Sá fjöldi barst ekki, en sjö framboð bárust og hefur Kjörnefnd því hafið vinnu við uppstillingu eins og samþykktin hvað á um.“ Fyrir þá sem ekki vita hvað uppstilling er, þá er það þegar Kjördæmisráð og fulltrúaráð geta ákveðið að kjósa uppstillingarnefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu um skipan framboðslista flokksins við alþingis- eða sveitarstjórnakosningar. Slík ákvörðun þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna og gildir einungis fyrir einn framboðslista í senn. Tillaga uppstillingarnefndar um skipan framboðslista skal lögð fyrir til afgreiðslu á fundi kjördæmiseða fulltrúaráðs. Heimilt er að ákveða að bæði aðal- og varamenn taki þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna, en þá skal ákvörðun þar um tekin um leið og ákvörðun skv. 1. mgr. þessarar greinar er tekin og með sama hlutfalli atkvæða og gildistíma og þar greinir. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til að samþykkja listann. Miðstjórn setur samræmdar framkvæmdareglur um uppstillingu framboðslista á vegum flokksins.  Sú kjörnefnd sem kosin var til að annast framkvæmd röðunarinnar fær nú það hlutverk að stilla upp á lista Sjálfstæðisflokksins. Nefndina skipa samkvæmt samþykkt fulltrúaráðsfundar: Ólafur Elísson, formaður, Arnar Sigurmundsson, Bragi Magnússon, Elsa Valgeirsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Ingólfur Jóhannesson og Silja Rós Guðjónsdóttir.    

Greinar >>

Er Vegagerðin að fokka í okkur?

Þetta var fínasti fundur í gær, íbúafundurinn sem haldinn var í Höllinni. Um 160 manns mættu, en ég er nokkuð viss að ég hafi verið með þeim yngstu í hópnum. Þegar ég labbaði inn á slaginu 20:00 leit yfir hópinn sem mættur var, þá sá ég fljótlega hver úrslitin yrðu í nafnavalinu á nýju ferjunni. En eins og flestir vita voru það ég og 25 aðrir sem kusu nafnið Vilborg. Mér fannst sjarmerandi að ný ferja fengi nýtt nafn. Tákn um nýja og betri tíma í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Svo er spurningin, verða þetta nýir og betrir tímar í sjósamgöngum okkar Eyjamanna. Vonandi. Ef ekki, hvað þá?   Elliði bæjarstjóri fór yfir þær óskir og langanir Eyjamanna um hvað við viljum sjá gert í þessum málum sem eru engar fréttir. Það er búið að fara yfir þessa hluti mörgum sinnum. Sem dæmi, að gjaldskrá og þjónustustig taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða.   Ferjan var kynnt, ég skildi ekki helmingin af því enda hef ég ekki vit á þessum málum. Vil vera jákvæð og ætlast til að allir séu að vinna vinnuna sína. Ferjan á allavega vera í litum Þórs, Týrs og ÍBV. Kojunum er búið að koma fyrir á teikningum, en hvernig kojurnar verða… lýsingarnar voru allavega ekki sérstakar. Sem móðir tveggja ungra barna, hoppa ég ekki af spenningi og skora á hönnuði að skoða þetta vel. En kannski þarf ég ekki að hafa þessar áhyggjur, það verður bara siglt í Landeyjahöfn.   Fulltrúi Vegagerðarinnar kom í pontu. Fór yfir fullt af tölum og staðreyndum sem skiluðu sér mjög illa til fólks og ekki gat fólk reddað sér með að lesa þær á glærunum því þær sáust ekki. Meira að segja ræðumaður sá þær ekki og giskaði að ég held tvisvar á einhverjar staðreyndir, enda virtist hann hafa verið neyddur til að mæta og þokkalega áhugalaus ef þið spyrjið mig. Tölurnar sem hann átti að skila til okkur voru samt mikilvægar og þarfar fyrir okkur að vita. Smá gegnsæi gangvart rekstraraðila og fleira. En það hættu allir að pæla í því þegar fulltrúi Vegagerðarinnar varpaði því fram, hversu marga ferðamenn við viljum svo sem fá? Hakan á fundagestum datt niður í gólf og Páll Magnússon fundarstjóri tók fyrir andlitið. Var þetta með ráðum gert? Kynning sem skilaði sér ekki til fólksins og skrýtin athugasemd sem stendur upp úr frekar en staðreyndir talnanna?   Eimskipsmenn fengu svo sjálfsagt sting í hjartað þegar Lúðvík Bergvinsson ávarpaði fundinn og talaði um að rekstur ferju ætti nú ekki að vera það flókinn. Við skulum allavega orða það þannig það langar engan að missa viðskipti sem eru að gefa.   Einnig var rætt hvort ferjan ætti að vera til reynslu hjá Vegagerðinni. Í umsjá Eimskip væntanlega? Í ákveðinn tíma áður en einhver annar tekur við. Ég fékk á tilfinninguna að það væri jafnvel ákveðið nú þegar. Annars veit ég ekkert hver er heppilegasti rekstaraðili sjósamgangna okkar.   Stjarna kvöldins var svo Samgönguráðherra. Hann virðist allavega skilja okkur. Lofaði að vera í ríkisstjórn allt kjörtímabilið og sannfærði mig um að hann ætlaði að græja þetta. Verst að það eru ekki að koma kosningar. Allavega eru Páll og Sigurður Ingi á fullu að koma því í gegn að við munum borga sama verð í báðar hafnir. Jeij!   Sara Sjöfn Grettisdóttir  Ritstjóri Eyjafrétta