Sinfónían með tónleika í Íþróttamiðstöðinni annað kvöld

Sinfónían með tónleika í Íþróttamiðstöðinni annað kvöld

Sinfóníuhljómsveitar Íslands heldur tónleika í Íþróttamiðstöðinni á morgun og fimmtudag. Sveitin mætir með glæsilega dagskrá í farteskinu og heldur tvenna tónleika, annað kvöld fyrir almenning og skólatónleika á fimmtudaginn
.
Einleikari í hinum víðfræga fiðlukonserti Tsjajkovskíjs verður Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari SÍ, en hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason. Auk fiðlukonsertsins flytjur hljómsveitin slavneskan dans eftir Antonín Dvořák, syrpu vinsælla laga eftir Eyjamanninn Oddgeir Kristjánsson, og sinfóníu nr. 4 eftir Ludwig van Beethoven.
 
 
Í för með Sinfóníuhljómsveitinni verður músin knáa, Maxímús Músíkús en sívinsælt ævintýrið um Maxa og hljómsveitina verður á dagskrá á skóla- og barnatónleikum Sinfóníunnar kl. 10:30 á morgun fimmtudag.
 
 

Hrafnar fóru á kostum í Eldheimum - Myndband og myndir

Það var mikið stuð í Eldheimum á laugardagskvöldið þar sem Hrafnarnir fóru mikinn í tónlist og spjalli um allt og ekkert en þó aðallega um gosið og sjálfa sig. Hvert sæti var skipað í húsinu og var mikið hlegið milli þess sem fólk naut tónlistarinnar sem boðið er upp á.    Hljómsveitin Hrafnar samanstendur af tvennum bræðrum, Georg og Vigni Ólafssonum og Hermanni Inga og Helga Hermannssonum og Hlöðveri Guðnasyni, allt grónir Eyjamenn þó þeir búi á fastalandinu. Samanlögð reynsla þeirra í músík má frekar mæla í öldum en áratugum og þeir kunna ýmislegt fyrir sér á þeim vettvangi. Það var talið í klukkan níu og klukkan átti aðeins nokkrar mínútur í miðnætti þegar síðasti tónninn var sleginn. Sem sagt þriggja tíma prógram með stuttu hléi og hvergi slegið af.   Hljóðfæraskipan er svolítið sérstök, Georg leikur á kontrabassa, Vignir á banjó, Hlöðver á mandólín og Hermann Ingi og Helgi á gítara. Eldheimar buðu á tónleikana og tilefnið var að minnast þess að á mánudaginn, 23. janúar voru 44 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Lagaval og sögur tengdust gosinu á einhvern hátt. Allir voru þeir byrjaðir í tónlist áður en gaus og brugðu þeir upp skemmtilegum myndum af sjálfum sér í undarlegum aðstæðum. Hermann Ingi á harðahlaupum upp Skólaveginn þegar eldsúlurnar risu austur á Eyju og Hlöbbi sem stakk af til Eyja til að bjarga því dýrmætasta, plötusafninu. Já, þeir hittu svo sannarlega í mark og útkoman var ein besta skemmtun sem boðið hefur verið upp á í Eyjum síðasta árið eða svo. Bæði skemmtilegt og eftirminnilegt. „Tónleikarnir og aðsóknin fóru fram úr björtustu vonum. Gaman að geta boðið á þennan flotta viðburð. En tónleikarnir eru greiddir með styrk úr Framkvæmdarsjóði Suðurlands. Herjólfur gaf ferðirnar fyrir tónlistaarmennina og hljómflutningsgræjurnar. Það var setið á næstum því öllum stólum hússins. Þeir eru um 160,“ sagði Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eldheima eftir tónleikana. Óskar Pétur Friðriksson ljósmyndari var að sjálfsögðu á staðnum og smellti þessum myndum af stemningunni.

Guðrún Mary Ólafsdóttir er matgæðingur vikunnar

 Þessi réttur er gríðarlega vinsæll á okkar heimili enda svakalega góður. Ég viðurkenni þó að ég set oft meira beikon og fleiri döðlur út í réttinn en segir til í uppskriftinni og á það líka alveg til að auka sósumagnið, enda erum við fjölskyldan svakalega mikið sósufólk.   Kjúklingur með beikoni og döðlum Fyrir 4-5   • 4-5 kjúklingabringur, skornar í ca 3 bita • 150 gr spínat • 100 gr beikon, smátt skorið • 70 gr döðlur, smátt skornar • 4 stór hvítlauksrif, pressuð • 1 msk oregano þurrkað • 3 dl vatn • 2 dl matreiðslurjómi • 3 msk rjómaostur • 1 kjúklingateningur • 1/2 grænmetisteningur • Rifinn ostur.   Setjið spítanið í botninn á eldföstu móti. Steikið kjúklingabitana á pönnu (saltið og piprið) og stráið yfir spínatið. Brúnið beikonið á pönnu. Bætið svo hvítlauknum út á pönnuna og steikið með beikoninu í smá stund, setjið þá döðlurnar út í ásamt vatninu, oregano og teningunum. Látið þetta malla saman svolitla stund. Bætið matreiðslurjómanum og rjómaosti út á pönnuna og sjóðið niður sósuna í nokkrar mínútur. Hellið svo sósunni yfir kjúklinginn og passið að döðlurnar og beikonið dreifist jafn yfir. Setjið því næst rifinn ost yfir allt saman og bakið í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og fallegur. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði.   Ég ætla svo að skora á hana Kollu Rúnars sem matgæðing næstu viku. Hún er snilldarkokkur og lúrir á fullt af gómsætum réttum.

Magdalena Jónasdóttir er Eyjamaður vikunnar

Magdalena Jónasdóttir, nemandi í 3. KM í Grunnskóla Vestmannaeyja hlaut fyrstu verðlaun á yngsta stigi í vísnasamkeppni grunnskólanema (Vísubotn 2016) sem Menntamálastofnun efndi til í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Magdalena er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Magdalena Jónasdóttir. Fæðingardagur: 13.mars 2008. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Mamma er Ester Torfadóttir, pabbi er Jónas Logi Ómarsson og systurnar Maríanna og Viktoría. Draumabíllinn: Ég á engan draumabíl. Uppáhaldsmatur: Hamborgari og makkarónugrautur. Versti matur: Grænmetissúpa. Uppáhalds vefsíða: Youtube og KrakkaRúv. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Popptónlist. Aðaláhugamál: Handbolti, fótbolti og skátarnir. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Sölku Sól og Emmsjé Gauta. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar og Siglufjörður. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Guðjón Valur og ÍBV. Ertu hjátrúarfull: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, handbolta og fótbolta. Uppáhalds sjónvarpsefni: Voice og Þær tvær. Uppáhalds bók: Harry Potter. Er þetta fyrsta vísan sem þú botnar: Já. Stefnir þú á að semja fleiri vísur í framtíðinni: Ég er ekki viss, en það var gaman að botna þessa vísu. Eitthvað að lokum: Ég vil þakka öllum sem hafa óskað mér til hamingju með viðurkenninguna og ÁFRAM ÍBV!   Hér má sjá vísuna: Frostið bítur kalda kinn, kominn úlputími. Úti snjóar enn um sinn, undir vegg ég hími.  

Þrettándinn hluti af menningu Eyjamanna

Frá því fyrir miðja síðustu öld hafa Vestmannaeyingar fagnað þrettándanum með glæsibrag þar sem saman koma jólasveinar, álfar, púkar og tröll að ógleymdum Grýlu og Leppalúða sem eru í heiðurssæti á hátíðinni. Það er mikið lagt í búninga og mikið kapp lagt á að tröllin séu sem svakalegust. Þetta er mikið sjónarspil sem hefst með flugeldasýningu af Hánni þaðan sem jólasveinarnir ganga niður með kyndlana á lofti. Síðan tekur við ganga um bæinn sem endar á malarvellinum við Löngulág þar sem dansað er í kringum mikinn bálköst. Mannfjöldi fylgist með og hafa þeir sjaldan verið fleiri sem fylgdust með en á þrettándanum í ár enda veður einstaklega gott.   Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og hann er venjulega kallaður, hefur aðstoðað Grýlu frá árinu 1967 og var hann með henni í 51. skiptið á þrettándanum í ár. „Að hugsa sér, það er fullyrt að ég hafi byrjað 1967 og hef verið með í þessu síðan. Þau voru því orðin 50 skiptin í fyrra samkvæmt myndum sem til eru,“ segir Biggi í spjallið við blaðamann í síðustu viku. Þá lá hann í flensu sem hafði verið að hrjá hann um áramótin en það aftraði honum ekki að mæta á þrettándann. „Þetta er búið að vera rosalega gaman annars hefði maður ekki staðið í þessu í öll þessi ár. Það var pabbi sem ýtti mér út í þetta. Hann var Leppalúði í nokkur ár og Unnur Guðjóns Grýlan og komum við Þórður Hallgríms inn fyrir þau árið 1967. Pabbi hafði engan tíma í þetta því hann hafði svo mikið að gera í tröllunum. Hafa ýmsir staðið mér við hlið í þessum slag.“ Þrátt fyrir hálfrar aldar feril í Grýluhlutverkinu segir Biggi að þetta sé alltaf jafn gaman. „Svo megum við ekki gleyma öllu fólkinu, sem telur um 200 manns, sem vinna þetta allt í sjálfboðaliðsvinnu. Það er enginn yfir þessu starfi en samt gengur þetta allt eins og smurð vél.“ Biggi segir þrettándann hluta af menningu Eyjamanna og viljinn til að halda þessu gangandi sé það sem haldi fólki við efnið. „Það er þessi gleði í kringum undirbúninginn og hátíðina sjálfa sem ýtir manni í gang. Ef maður kemst ekki í gott skap í öllum þessum hamagangi er eins gott að koma sér heim. Já, það er svo margt sem gerir þessa hátíð okkar Eyjamanna alveg einstaka. Við höfum yfirleitt verið ofsalega heppin með veður. Stundum hefur dúrað rétt á meðan á hátíðinni stendur og skollið á vitlaust veður strax eftir að henni lýkur. Í þetta skiptið var blíða allan daginn sem gerir þetta svo miklu skemmtilegra og léttara,“ sagði Biggi að endingu.  

Fréttatilkynning - 1973 í bátana

  Þegar gos hófst á Heimaey 1973 var fljótlega farið í það að koma íbúum og gestum frá Eyjunni. Flestir fóru með bátum, einhverjir fóru með flugi og svo voru aðrir sem fóru ekki strax. Við komuna til Reykjavíkur um morguninn var fólkið skráð og hvert það fór, alls um 4216 manns. Aldrei var skráð hvaða bátar sigldu með flóttafólkið né hverjir fóru um borð í hvaða bát. Heyrst hefur að Vestmannaeyjaradíó hafi skráð bátana og flestir gefið upp fjölda farþega en ekki hefur tekist að finna þá skráningu.   Veturinn 2010 hófst skráning í Sagnheimum á flóttafólkinu sem flúði Heimeyjargosið 1973. Nú sex árum síðar er búið að skrá megnið af þessum einstaklingum eða 4912 manns, sem skiptast þannig: 285 manns voru skráðir í flug , 4448 fóru sjóleiðina, þar af 114 sem vita ekki nafn báts. Ennfremur er búið að skrá 172 manns sem fóru ekki upp á land alveg strax og svo loks 7 einstaklinga sem staðfest er að hafa verið í Eyjum en ekki vitað hvort og þá hvernig þeir fóru. Úr íbúaskránni á þó enn eftir að skrá um 180 einstaklinga, 30 eru á lífi en hluti þeirra býr erlendis og náðst ekki í þá og svo eru 149 látnir. Gætu ættingjar þá haft upplýsingar um hvort viðkomandi hafi verið í Eyjum og hvort farið var um nóttina.   Til að skrá ofangreinda einstaklinga var notast við íbúaskrá frá 1972. Haft var samband við þá einstaklinga sem náðist í, fyrst með auglýsingum í Eyjum og síðan á Facebook. Einnig var hringt í nokkra einstaklinga. Nú þegar búið að skrá allflesta úr íbúaskránni er komið að því að fá fólk til að prófarkalesa, þ.e. fá fólk til að skoða hvort það sé ekki örugglega komið í bátinn sem það fór með og svo vinir sem þeir muna eftir að hafi verið í sama bát.   Enn vantar örugglega einhverja sem voru komnir á vertíð. Ég veit t.d. um Frakka og Íra sem ég hef ekki fundið nöfn á en var rætt við í blöðunum við komuna upp á land. Á þessum árum voru mikið af aðkomumönnum á vertíðum í Eyjum, þó ber að geta að vertíðin var ekki almennilega komin í gang. Heyrst hefur um einstaklinga sem voru lagðir af stað til Eyja en voru ekki komnir alla leið. Stúlka var komin til Reykjavíkur frá Siglufirði og sjómaður var í Herjólfi á leið til Eyja og var að fara á vertíð á mb Leó VE( vantar nafn á þann einstakling ). Sá réri þó ekki á Leó um veturinn, hefur sennilega fengið nóg eftir þessa nótt.   Ef einhverjir hafa upplýsingar um fólk sem var komið til Eyja væri gott að fá sendar upplýsingar á 1973ibatana@gmail.com, nafn einstaklings, fæðingadag og ár, heimilisfang 1973, og hvernig viðkomandi fór frá Eyjum ef vitað er.   Hægt er að skoða bátalistana á 1973ibatana.blogspot.com     fyrir hönd 1973 í bátana   Ingibergur Óskarsson Iceland http://1973-i-batana.blogspot.com/      

Ólafur Jónsson er Eyjamaður vikunnar

Ólafur Jónsson frá Laufási hefur lengi blásið í saxófón, bæði með Lúðrasveit Vestmannaeyja og við önnur tækifæri. Svo skemmtilega vildi til að á Eyjakvöldi á Kaffi Kró sl. fimmtudagskvöld var hann mættur með Guðlaugi syni sínum og sonarsyninum Ólafi Ágústi Guðlaugssyni. Þar léku þeir með Blítt og létt sem mánaðarlega stendur fyrir Eyjakvöldum á Kaffi Kró yfir vetrartímann. Allir spila þeir á saxófóna af mikilli list. Ólafur er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Ólafur Jónsson Fæðingardagur: 23.06.48. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Fráskilinn og á tvö börn og þrjú barnabörn, Draumabíllinn: Bíllinn sem ég á hverju sinni. Uppáhaldsmatur: Lambakjöt. Versti matur: Pizza og pastaréttir sem telst varla matur. Uppáhalds vefsíða: Heimaslóð. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Góð swing tónlist. Aðaláhugamál: Tónlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Winston Churchill. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Höfnin í Brandinum. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV, en á engan uppáhaldsíþróttamann. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, það get ég ekki sagt. Stundar þú einhverja hreyfingu: Nei, nei. Uppáhaldssjónvarpsefni: Norrænir sakamálaþættir. Hvenær byrjaðir þú að læra á saxófón: Það var 1961. Hvenær tókstu fyrstu skrefin með LV: Apríl 1962. Var ekki gaman að spila með peyjunum: Að sjálfsögðu. Hver er besti spilarinn: Vill helst ekki svara því.  

Dagskrá þrettándagleði 2017

Fimmtudagur 5. janúar   Kl. 21.00 Kaffi kró, Eyjakvöld   Eyjakvöld með Blítt og létt. Gestir verða m.a Sara Renee, Geir Jón, Guðmundur Davíðs og fleiri. Öll innkoman af Eyjakvöldinu rennur til Færeyinga vegna þeirra hamfara sem þar hafa verið.       Föstudagur 6. janúar   Kl. 14.30-16.00 Höllin, diskógrímuball Eyverja   Jólasveininn mætir og aðrar fígúrur einnig. Verðlaun verða veitt fyrir búninga og öll börn fá nammipoka frá jólasveininum.   Kl. 16.00-18.00 Einarsstofa, opnun sýningar   Samsýning Ingvars Björns og Odee. Báðir eru þeir þekktir popartlistamenn og hafa sýnt víða um heim. Frábær fjölskyldusýning þar sem m.a. þrívíddargleraugu verða í boði til að njóta listaverkanna.   Kl. 19.00 Hin eina sanna Þrettándagleði ÍBV og Íslandsbanka   Flugeldasýning, blysför, álfabrenna, jólasveinar, tröll, tónlist og margt fleira. Gangan hefst við Hánna og gengið verður upp Illugagötu, niður Höfðaveg og að malarvellinum þar sem hinar ýmsu kynjaverur heilsa upp á gesti.       Laugardagur 7.janúar   Kl. 12.00 - 15.00 Tröllagleði í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja   Fjölskyldan getur komið saman og leikið sér í íþróttasölum undir stjórn íþróttaþjálfara.   Í umsjón Bryndísar Jóhannesdóttur og íþróttafélaganna.   Hlökkum til að sjá sem flesta mæta.       Kl. 12.00-17.00 Langur laugardagur í verslunum   Tröllatilboð og álfaafslættir í gangi hjá verslunum og veitingastöðum!       Kl. 13.00-16.00 Sagnheimar, Jólasveinar í vanda   Jólasveinarnir hafa notað safnið til að gista þegar veðrið er vont. Nú er Grýla að fara aftur til fjalla með Leppalúða, jólaköttinn og jólasveinana sína. Óþekktarangarnir týndu hinu og þessu á safninu, sem þeir þurfa nauðsynlega að hafa með sér.   Okkur vantar krakkahjálparsveit til að finna þessa hluti!   Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum!       Sunnudagur 8.janúar   Kl. 13.00 Helgistund í Stafkirkjunni   Sr. Guðmundur Örn fer með hugvekju.  

Eyjamaður vikunnar - Arnór Arnórsson

Björgunarsveit Vestmannaeyja hefur um árabil útvegað Íbúum Vestmannaeyja allar þær rakettur og tertur sem til þarf til að fagna áramótum og þrettánda á sem bestan hátt og var engin undantekning gerð á árinu sem var að líða. Arnór Arnórsson, formaður Björgunarsveitar Vestmannaeyja, er því fyrsti Eyjamaður vikunnar árið 2017.   Nafn: Arnór Arnórsson. Fæðingardagur: 26. júní 1989. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Er í sambúð með Hildi Björk og saman eigum við einn dreng, Bjarka Pál, tveggja ára. Svo eru foreldrar Addi Palli og Svanhildur og þrjú mun eldri systkini. Draumabíllinn: Það er góð spurning, en á meðan hann bilar ekki er hann draumabíllinn. Uppáhaldsmatur: Það er svo margt sem kemur til greina hér. Versti matur: Súr matur telst ekki matur. Uppáhalds vefsíða: Fésbókin skorar hátt hér. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Það fer allt eftir því hvað á að gerast en ég hlusta mikið á íslenska tónlist. Aðaláhugamál: Björgunarsveitarstarfið er þar mjög ofarlega ásamt sjúkraflutningunum, fjölskyldunni og ferðalögum. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Þann sem fann upp tvinntölur, við yrðum sennilega ekki góðir vinir. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Að horfa inn Yosemite garðinn er virkilega fallegt. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Íþróttasamband Björgunarfélags Vestmannaeyja og Sigdór eða Jóhannes kraftlyftingarmenn. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, alveg laus við það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, læt þær Minnu og Steinu pína mig reglulega áfram í Dugnaði. Hvernig var árið hjá björgunarsveitinni: Við erum með mjög virka og öfluga unglinga- og nýliðadeild sem hafa staðið sig einstaklega vel. Ekki var mikið um alvarleg útköll hjá okkur og veðrið búið að vera fínt þannig að fokútköll hafa verið fá. Við höfum þetta árið verið að leggja sérstaka áherslu á B.b. Þór og það hefur komið vel út hjá okkur. Ég held að við getum alveg verið sátt við árið. Hvernig leggst formennskan í þig hingað til: Þetta leggst bara ágætlega í mig, sem betur fer er góð stjórn með mér í þessu og við erum duglegir að dreifa hlutverkum okkar á milli sem og á aðra félagsmenn. Var salan í flugeldum góð í ár: Salan var ágæt, aðeins minni en í fyrra en við vonum að þrettándasalan verði góð hjá okkur, það er opið frá kl 13:00 á föstudaginn. Eigið þið eftir að sakna stóru tertanna: Já, við eigum eftir að gera það og ég held að Vestmannaeyingar flestir eigi eftir að gera það. Þessar stóru tertusölur skipta okkur miklu máli og eru góð % af okkar sölu. En við erum ekki alveg búin að gefast upp með þær og vonum að við fáum allavega 1-2 ár í viðbót með þeim.  

Þorsteinn Gunnarsson er matgæðingur vikunnar - Lambakjöt og silungur úr Mývatnssveit

Ég þakka þeim feðgum Guðmundi og Grétari kærlega fyrir áskorunina. Mývatnssveit er auðvitað mekka íslensks landbúnaðar og sem sveitarstjóra liggur mér beinast við að mæla með hráefni úr sveitinni sem er í fremstu röð og er hluti af þingeyska matarbúrinu, þekkt fyrir gæði, hollustu og hreinleika. Sjálfur er ég fyrir einfaldleika í fæði enda verið í fráhaldi á sjöunda ár og ber þessi pistill Matgæðings vikunnar keim af því.   Forréttur: Ég mæli sérstaklega með taðreyktum silungi úr Mývatni, t.d. frá bænum Hellu eða Vogafjósi. Reykti silungurinn úr Mývatni er eitthvert mesta lostæti sem ég hef komist í. Silungur hefur verið veiddur og reyktur á hverjum bæ í Mývatnssveit í aldaraðir. Ég er sjálfur ekki í rúgbrauði sem fer vel með silungnum en mín fjölskylda er afar hrifin af hverabökuðu rúgbrauði úr Mývatnssveit sem nefnist Kollubrauð. Einnig er boðið upp á hverabakað rúgbrauð í Fuglasafni Sigurgeirs og víðar en Mývetningar hafa þróað aðferð til að baka brauð í hverunum í Bjarnarflagi.    Aðalréttur: Lömb sem hafa alist upp á fjölbreytilegu gróðurlendi Mývatnsöræfa er einstaklega bragðgott kjöt sem ég mæli eindregið með. Sauðakjöt þykir mörgum besta kjötið enda sérlega bragðmikið. Sauðakjötið er af veturgömlu fé. Mjög lítið er af sauðakjöti á íslenskum markaði í dag, þó svo að löng hefð sé fyrir neyslu þess. Hér er því um sjaldgæfa gæðavöru að ræða. Hægt er að panta lambakjöt og aðra kjötvöru úr Mývatnssveit t.d. á www.hangikjot.is. Hver og einn eldar lambakjötið eftir sínu höfði en ég mæli með kryddinu Best á lambið, en mér finnst betra að hafa kjötið á frekar lágum hita og í lengri tíma og krydda eftir eigin höfði. Einfalt og gott. Meðlæti getur verið af ýmsum toga. En uppáhaldið mitt þessa dagana er að hafa grasker með lambakjötinu sem og öðru kjöti. Ég sker graskerið í eins þunnar sneiðar og hægt er og set á ofnplötu, pensla létt með olíu og krydda vel, sker svo papriku í smáa bita og dreifi yfir og set í heitan ofn í ca. 30 mín. Þá finnst mér sérlega gott að hafa heimagert rauðkál með. Í það notum við hálfan rauðkálshaus, 3-4 gul epli, 2/3 bolli gervisykur, 100-150 gr. smjör, 3 tappar edik, 1 tsk. salt og 1 bolli sólberjasaft (helst sykurlaust) ásamt slatta af vatni. Kál og epli er sneitt niður t.d. í matvinnsluvél, steikt á pönnu í smjörinu á vægum hita. Gervisykri, ediki og safti bætt út í ásamt vatni eftir þörfum. Soðið í ca. 1 klst. eða lengur. Salt sett saman við í lokin. Ég er sjálfur mest fyrir kalda sósu og nota mikið hvítlauks- eða piparsósu frá Toppsósum og hentar það vel með fráhaldinu.  Eftirréttir: Þar sem ég sneiði hjá sykri og hveiti er ég ekkert í sykursprengjueftirréttum. Í staðinn laga ég mér úrvals kaffi og hef flóaða mjólk með. En ég vil benda á heimasíðu Nönnu Rögnvaldar matgæðings þar sem er að finna sykurlausa eftirrétti fyrir þá sem kjósa slíka hollustu. Ég hvet Vestmannaeyinga sem eiga leið norður að koma við í Mývatnssveit og kíkja í heimsókn til okkar. Náttúrufergurð við Mývatn er einstök. Mikill straumur ferðafólks er til Mývatns að sumarlagi. Margir hafa á orði að Mývatn sé ekki síður tilkomumikið að vetri til. Nokkrir staðir við Mývatn draga sérstaklega að sér ferðamenn. Má þar nefna Dimmuborgir, Höfða, Hverfjall/Hverfell, Leirhnjúk/Kröflu, gervigígana við Skútustaði, hverina austan Námaskarðs, Grjótagjá og áfram mætti telja.   Við höldum boltanum aðeins lengur fyrir norðan og spörkum honum yfir til Norðurþings þar sem býr fyrrverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja og Norðurþings, Bergur Elías Ágústsson, en hann var vanur að raða inn mörkunum hér í gamla daga. 

Eyjamaður vikunnar - 340 perur á Jólahúsinu í ár

Guðmundur Ingi Guðmundsson og Aníta Óðinsdóttir eiga jólahúsið í ár, Smáragötu 1. Það eru Lionsklúbbur Vestmannaeyja og HS-veitur sem velja jólahúsið og þykja skreytingar á Smáragötu 1 stílhreinar og látlausar. Guðmundur Ingi er Eyjamaður vikunnar.  Nafn: Guðmundur Ingi Guðmundsson. Fæðingardagur: 14 júní 1980. Fæðingarstaður: Hin undurfagra Heimaey. Fjölskylda: Er í sambúð með Anítu Óðinsdóttur og eigum við tvo peyja, þá Guðmund Huginn og Gabríel Gauta. Vinna: Stýrimaður á Huginn VE 55. Aðaláhugamál: Íþróttir, þá helst fótbolti. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera: Að vera með fjölskyldu og vinum. Uppáhalds matur: Fiskibollurnar ásamt fleiri fiskréttum frá Palla í Vegg er alveg dásamlegur matur. Versti matur: Borða flest allt með bestu lyst. Uppáhalds tónlist: John Lennon og Bítlarnir. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Af öllum þeim stöðum sem ég hef komið til er það án nokkurns vafa Vestmannaeyjar. Þær bera af gagnvart öllu sem heitir náttúrufegurð. Uppáhalds íþróttamaður og félag: Paul Gascoine og Palli Almars voru íþróttamenn í miklu uppáhaldi. Annars er ÍBV fyrst og fremst uppáhalds félagið mitt, þar á eftir kemur Arsenal. Uppáhalds sjónvarpsefni: Dýra- og náttúrulífsþættir, þá sérstaklega með David Attenboroug. Hvað finnst þér skemmtilegast að lesa: Er enginn lestrarhestur. Helstu vefsíður sem þú skoðar: Frétta- og fótboltasíður. Hvað eru þið búin að eiga húsið lengi: Síðan árið 2012. Hver hannaði lýsinguna: Svo sem enginn hönnun, allt gert í sameiningu, mestmegnis spilað af fingrum fram. Hvað eru perurnar margar: Utan á húsinu eru 340 perur, svo eru einhverjar perur inni.  

Sjómaður er ekki bara sjómaður

Ágúst Halldórsson, vélstjóri á Álsey VE hefur verið á sjó frá átján ára aldri, fyrst á sumrin með skóla en eftir að hann hafði lokið sveinsprófi í vélvirkjun fór sjómennskan í að vera á ársgrundvelli. Líkt og aðrir kollegar hans þá hefur Ágúst verið á ótalmörgum skipum í gegnum tíðina. „Ég byrjaði sjómannsferilinn minn á Maríu Pétursdóttur en þar var ég heilt sumar, svo reri ég eitt sumar á Heimaey og síðan hef ég verið mikið um borð í Bylgju VE og Þórunni Sveins. Síðustu ár hef ég síðan verið á Álsey VE. Ég hef alltaf átt voðalega erfitt með að segja nei og hefur manni oft og tíðum verið sjanghæjað í hina og þessa báta þegar menn vita af mér í landi,“ segir Ágúst sem hefur í raun ekki hugmynd um hversu margir bátarnir eru orðnir í dag. „Þeir eru eitthvað á þriðja tug myndi ég halda með afleysingum.“     Elti vinina í vélstjórann Langaði þig alltaf að verða vélstjóri? „Nei, það var aldrei inni í myndinni. Það var ekki fyrr en sumarið eftir að ég verð átján ára sem ég skrái mig af félagsfræðibraut og fer yfir á vélstjórnarbraut, aðallega vegna þessa að flest allir vinir mínir voru þar,“ segir Ágúst. Aðspurður út í hvað heilli mest við sjómennskuna nefnir Ágúst veiðieðlið. „Ég ímynda mér sjómennskuna og áhöfnina eins og veiðihóp líkt og þá sem uppi voru fyrir tvö hundruð þúsund árum og fóru á loðfílaveiðar. Það verða allir að vinna saman við að drepa loðfílinn til að komast aftur til fjölskyldunnar og fæða börn og konu,“ segir Ágúst. Er almennt góður mórall á sjónum? „Já já, það er hann almennt. Menn þola reyndar misjafnlega vel andlega að vera langan tíma frá fjölskyldu og vinum. En almennt er hann góður,“ segir Ágúst sem segir það ganga vel hjá sér að tvinna saman fjölskyldulífið og sjómennskuna. „Það gengur ágætlega, krakkarnir eru vanir þessu og svo er faðir konu minnar sjómaður svo hún þekkir þetta vel.“   Flott ár   Hvernig finnst þér árið hafa verið hjá ykkur á Álsey? Stendur eitthvað upp úr? „Árið er bara búið að vera flott. Það er búið að fiskast vel og skipið búið að reynast vel. En það sem stendur upp úr á árinu er þegar stærsti hluti áhafnarinnar fór og hjálpaði til við að draga fé í dilka með tilheyrandi fjöri í Langanesbyggð,“ segir Ágúst. Nú hefur verið mikið rætt um svokallaða uppboðsleið á kvóta, hvað finnst þér um hana? Ágúst segist lítið hafa pælt í henni. „Æskuvinur minn, hann Magnús Sigurðsson segir að hún sé algjört rugl þannig ég verð bara að treysta honum.“ Ekki góðir samningar Hver er þín tilfinning gagnvart kjarasamningi sjómanna sem nú liggur fyrir? „Mér finnst þetta ekki vera neitt góðir samningar. Mér finnst að það megi alveg setja sjómennina í flokka. Sjómaður er ekki bara sjómaður. Það er svo margt mismunandi í starfi okkar og úthöldum og svo er einnig samstaða stéttarfélaganna ömurleg. En satt best að segja skil ég ekki afhverju það þurfa alltaf að vera einhverjir karlar að semja fyrir okkur sjómenn sem eru búnir að vera svaka naglar í borðsalnum síðustu ár að kvarta og bölvast yfir verði og aðbúnaði. Þeir hafa oft enga reynslu af samningagerðum og eru það illa skrifandi að þeir eiga í erfiðleikum með að skrifa sitt eigið nafn án þess að ein til tvær stafsetningarvillur leynist í því,“ segir Ágúst. Þetta var vandræðalegt Í lokin féllst Ágúst á að segja eina skemmtilega sögu af sjónum.   „Það var einn félagi minn sem fékk mig til að leysa sig af einn karfatúr á Múlaberginu sem fyrsti vélstjóri. Eftir að búið var að koma aflanum niður úr síðasta holinu segja karlarnir við mig: „Núna kveikjum við upp í sánanum og hendum okkur í sánann, kemur þú með Ágúst“. Ég jánkaði því en ætlaði fyrst niður í vél að lensa lestina og ganga frá vaktinni. Þegar ég kem upp úr vélinni og fer að græja mig í sánann eru allir farnir inn og þar sem ég er hálfpartinn alinn upp á sumrin úti í Álsey var minn sánaklæðnaður ekki sá sami og þeirra. Ég tek af mér handklæðið, labba inn í sánann og stend þar á adamsklæðunum einum saman og horfi á þá alla dauðskelkaða á stuttbuxunum. Því næst fæ ég mér sæti á milli fyrsta og annars stýrimanns og hugsa: „Þetta er nú vandræðalegt, Ágúst Halldórsson“.“  

Eyjahjartað hennar Þuru í Borgarhól

„Gott fólk – mikið er það gaman og gott að fá að vera hér með ykkur og gera ástarjátningu til Eyjanna, sem eru mér svo hjartfólgnar. Hvað er það sem gerir Eyjarnar svona sérstakar? Hvað er það sem gerir það að verkum að við brottflutt segjum alltaf „heim“ þegar við tölum um Eyjar? Hvað er það sem tengir okkur svona sterkt við æskustöðvarnar? Er það fólk, eða fjöll- er það stormur eða stillur - vinnan eða vinirnir? Hvað leitar á þegar maður leggst þreytt á koddann, eða lætur hugann reika ,,heim á fornar slóðir?“ sagði Þuríður Bernódusdóttir frá Borgarhól sem ásamt Einari Gylfa Jónssyni og Jóni Berg hleyptu af stokkunum á síðasta ári, því sem kallað er Eyjahjartað í Einarsstofu. Þar hafa brottfluttir sagt frá uppvaxtarárunum í Eyjum. Þuríður og Einar Gylfi eiga ásamt Atla Ásmundssyni heiðurinn að þessu frábæra framtaki ásamt Kára Bjarnasyni, forstöðumanni Safnahúss. Í allt eru samkomurnar orðnar þrjár og aðrir sem hafa komið fram eru Inga Þórðar rakara, Einar Magnús Magnússon, frændi Gvendar Bö og Biggi Bald og Nonni í Borgarhól, Þorsteinn Ingi Sigfússon, Hildur Oddgeirsdóttir og Hafliði Kristinsson. Öll hafa þau sagt skemmtilega frá og dregið upp myndir af tíma sem var og hún Þura í Borgarhól hafði frá mörgu að segja.     Þá voru áhyggjur lífsins fjarri „Skyldu það ekki vera þær dásamlegu minningar sem við eigum öll um sólardagana í Eyjum, á uppvaxtarárum okkar, þegar áhyggjur lífsins höfðu enn ekki verið fundnar upp,“ hélt Þura áfram. „Minningar um kletta og sprungur, fisk og bryggjur, fjöru og urð, hundasúrur og söl. Mig langar að rekja hér í dag þann þráð sem ég held þó að sé sterkastur, og haldi fastast í mig, og tengi mig best við æskustöðvarnar en það eru vinir mínir, æskufélagarnir. Þeir, eða réttara sagt þær, eru allar úr Miðbænum, neðsta hluta Kirkjuvegarins, umhverfis Rafstöðina, Bókabúðina, - já, úr umhverfinu í kringum Borgarhól þar sem ég ólst upp og átti mitt æskuheimili. Og sem ég hélt, og held kannski enn, að hafi verið miðpunktur Miðbæjarins. Kannki var þarna miðjan á veröldinni.   Þétt samfélag   Þessi blettur neðst á Kirkjuveginum var þétt samfélag, nákomnir nágrannar. Mömmur okkar hittust í kaffi þegar búið var að vaska upp og ganga frá eftir hádegið. Eitthvað sem enginn má vera að í nútímanum. Við krakkarnir fórum saman í skólann, lékum okkur saman eftir skóla og langt fram á kvöld. Í Borgarhól var sægur af krökkum, þegar mest var vorum við sjö talsins heima og að sjálfsögðu fylgdi okkur mikið af vinum. Má þar meðal annars nefna þekkta karaktera eins Jósúa Steinar á Gamla-Spítalanum, Pál Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóra, Palla á Stöðinni eins og hann hét þá, og Einar Ottó á Lágafelli en þessir galvösku strákar voru vinir Jóns bróður míns. Þeir voru fjörmiklir og uppátækjasamir allir. Þeir voru heldur prúðari vinir Helga bróður, Antoníus Svavarsson, Toni í Byggðarholti, síðar í Bankanum, Andrés í Magnúsarbakaríinu og Kristinn í Vogsabakaríi, einnig man ég eftir Gylfa í Húsavík og Friðriki Jósepssyni. Það var alltaf mikið líf í Borgarhól og í þessu litla húsi virtist alltaf vera pláss fyrir alla.   Spennt fyrir vertíðinni   Í kringum Borgarhól voru nokkrar verslanir og má þar meðal annars nefna Bókabúðina, Brynjúlfsbúð, Framtíðina eða Tommabúð. Það var einnig stutt í frystihúsin. Eftirvæntingin var alltaf mikil hjá okkur krökkunum í Miðbænum þegar vertíðin byrjaði. Þá fylltist bærinn af aðkomufólki úr sveitunum á Suðurlandi til að vinna í frystihúsunum. Herðabreiðir strákar að norðan og Austfirðingar með klút um hálsinn. Þessir farandverkamenn gistu á verðbúðunum, bæði í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og í Edinborg, en það voru verbúðir Hraðfrystistöðvarinnar. Aðkomufólkið festi margt rætur í Eyjum og ástarbálin lifa sum enn.     Gróuhús   Ég get ekki farið frá þessu umhverfi kringum Borgarhól öðruvísi en að minnast á Gróuhús. Þar bjó Gróa sem var nú aldeilis ekki hrifin af leiksvæði okkar, ærslum og gleðilátum. Hún hótaði okkur öllu illu ef boltinn kæmi nálægt húsinu. Það var því stórslys ef bolti lenti inn á lóð hjá henni, eða í glugga. Ég held að henni hafi fundist við krakkarnir í Borgarhól alverstir, en við vorum mörg og fjörmikil. En einn vin átti Gróa á planinu. Það var Gísli úrari Bryngeirsson. Á hverjum morgni gekk Gróa yfir til Gísla með kaffi á brúsa og kökubita og sat hjá honum dágóða stund. Ég sé eftir því að hafa ekki spurt Gísla áður en hann hvarf yfir móðuna miklu hvað þeim Gróu fór á milli. Kannski bar hún harm í brjósti, sem litaði líf hennar.   Vinkona í hverju húsi   Ég held að ég geti sagt að ég hafi átt vinkonu í hverju húsi í nágrenni við Borgarhól. Í Steinholti, sem var næsta hús við okkur, í húsunum við Miðstræti, í Klöpp sem stóð gegnt Ísfélaginu, í Jómsborg, því virðulega turnhúsi við Heimatorg, í Gamla-Bankanum við sama torg, í Þingholti sem var neðst við Heimagötu og í Einarshöfn sem var annað hús ofar við Kirkjuveginn og enn stendur. Í Vogsabakaríi, sem við kölluðum svo, en hétu Garðhús, - þau standa enn, - voru bara strákar og á mínum æskuárum átti maður ekki stráka-vinkonu. En ef hjólið mitt bilaði eða mann langaði að fá lánaðar nýju Bítlaplöturnar, eins og t.d „Baby, you can drive my car“ – já, þá var ansi gott að vera inn undir hjá Þorvaldi í bakaríinu. Það var líka gott að vera inn undir hjá Grétari í Byggðarholti ef maður þurfti á sérstakri vernd að halda fyrir skæðum óvinum í næsta nágrenni.  Sá sem átti Grétar að var ekki einn í tilverunni.     Útibú frá alheimsmiðjunni Já, húsin í kringum Borgarhól, sem mér fannst eins og útibú frá alheimsmiðjunni, voru nokkuð mörg. Elstu og fyrstu minningar mínar voru úr Steinholti. Það voru á að giska fjórir til fimm metrar á milli húsanna, en þar átti æskuvinkona mín, Hrefna Baldvinsdóttir, Hrefna Bald, heima. Í því húsi var sægur af krökkum, - eins og í Borgarhól, - og við vorum öll á svipuðu reki. Þannig að allir í Borgarhól áttu sína vini í Steinholti, - og gagnkvæmt. Því miður fluttist fjölskyldan í Steinholti í nýtt hús við Illugagötuna nokkru fyrir 1960, en vinátta okkar krakkanna slitnaði ekki þrátt fyrir það, heldur hélt áfram, og það sem meira er: lifir enn í dag góðu lífi. Í húsinu Klöpp, sem stóð niður við Ísfélag eins og áður sagði, við hliðina á eld-gamla Turninum, átti Guðfinna Kristjánsdóttir, Finna, æskuvinkona mín heima. Klöpp var merkilegt hús, átti sér mikla sögu, en fyrir mér var furðulegast hvað húsið rúmaði marga íbúa. Í vesturendanum bjó Sigga í Klöpp sem hafi víst verið vinnukona hjá afa og ömmu Finnu, og varð síðar ráðskona afans. En í hinum endanum voru Helga og Kiddi með börn sín, sem alltaf fjölgaði, uns þau voru orðin 8 talsins, og alltaf pláss fyrir fleiri. Allavega fyrir mig því að þar gisti ég þegar mamma var á spítalanum, líka að eiga börn eins og Helga í Klöpp.   Gott að eiga Finnu að   Við Finna brölluðm margt saman. Mér fannst mjög gott að eiga Finnu að og sem vinkonu. Fósturamma hennar, ef svo má kalla, var Svava á Apótekinu. Þar var mjög oft komið við á sunnudögum áður en við Finna fórum í þrjú-bíó og alltaf laumaði Svava að okkur apótekaralakkrís og saltpillum. Finna gisti svo oft heima hjá mér, meðal annars þegar mamma hennar lá á sæng og átti tvíburana Óðin og Þór. Finnu fannst ægilega spennandi að vera hjá okkur, m.a vegna þess að Lilla, systir mín, vann í bíóinu og ef við sópuðum fyrir hana þá komumst frítt í fimm-bíó.   Jómsborg   Þá flýgur hugurinn í Jómsborg, - með emmi! Þar átti Hulda Gränz heima, vinkona mín og skólasystir. Þangað var mjög gott og gaman að koma‚ einkum þó á fimmtudögum því að þá fengum við Hulda að fara að versla fyrir mömmu hennar í Pöntunarfélaginu sem var á Borg við Heimagötu, beint á móti Magnúsarbakaríi og Hótel Berg. Í Pöntunarfélaginu fékkst alveg gríðarlega góður djús, hann var frá Sanitas-umboðinu, var í sívölum plastbrúsum sem við fengum að smakka úr eftir verslunarferðina. Já, maður beið spenntur eftir hverjum Sanitas-fimmtudegi í þá daga. Í Þingholti var mikið fjör og margt fólk í gamla daga. Húsið var dálítið framandi og ekki byggt eftir einni teikningu. Mér er sérstaklega minnisstæð svalarhurðin í svefnherberginu. Þar gat maður labbað út á pall þegar gott var veður og legið í sólbaði. Manni fannst maður vera í útlandinu, á sólarströnd eins og maður hafði séð í bíó.     Hrafnhildur og Inga Þórðar   Í Þingholti átti ég góða vinkonu, Hrafnhildi Hlöðversdóttur. Á efri hæðinni í Þingholti var merkilegt herbergi þar sem við Hrafnhildur gátu dundað okkur klukkustundum saman. Þetta var eins konar fataherbergi með fataslá sem var yfirfull af kjólum sem móðursystur Hrafnhildar áttu. Þetta var auðvitað algjör paradís fyrir okkur Hrafnhildi. Við óðum í slána og ímynduðum okkur að við værum tískusýningardömur. Við löbbuðum um allt loftið, reigðum okkur og beygðum hvor fyrir annarri, alveg eins og stórstjörnurnar í bíó. Í Miðstrætinu, í húsi sem var númer 11, og hét áreiðanlega Bjarg þótt það nafn væri aldrei notað, bjó Inga Þórðardóttir, stórvinkona mín. Hún var dóttir Þórðar rakara og Doddu, hárgreiðslukonu. Þau foreldrar Ingu voru bæði með atvinnureksturinn heima, á 1. hæðinni.   Mektarmenn   Það var mjög spennandi að fylgjast með viðskiptavinum þeirra hjóna sem margir voru mjög sérstakir karakterar, eins og Árni Valda, eða Gölli, Amríku- Geiri og aðrir mektarmenn. Tóta á Enda og fleiri eftirminnilegar konur voru mikið hjá Doddu. Eitt er mér mjög minnisstætt frá þessu húsi en það var rörið sem lá meðfram hurðinni á rakarastofunni og upp í ruslafötuskápinn í íbúðinni á 2. hæð. Rör þetta var mikill og öflugur samskiptavefur á milli þeirra hjóna. Ef Þórður átti að koma upp í eldhús, eða Dodda niður, þá var barið fast í rörið. Týrólahattar og dátabuxur Miðstrætið og svæðið þar í kring var mjög spennandi fyrir okkur Ingu. Þarna voru freistandi búðir eins og fataverslunin í Bjarma, þar sem Guðrún, dóttir Helga Ben. og Kollý afgreiddu.   Og ekki langt undan var Verslun frú Gunnlaugsson þar sem Gunna Lofts réð ríkjum. Hún hafði mikla afgreiðsluhæfileika og beitti vel völdum og mögnuðum lýsingar orðum um þær vörur sem á boðstólum voru, og fylgdi þeim eftir með svip og sveiflu. Það voru miklir dýrðartímar fyrir okkur Ingu þegar Tírola-hattarnir duttu í hús hjá Gunnu Lofts. Og ég tala nú ekki um dátabuxurnar hjá Jóa í Drífanda, handan við Bárustíg.   Keyptu heilan banka   Í Gamla-Bankanum, við hliðina á Haraldarbúð, raftækjaverslun, bjó Gréta vinkona mín. Fjölskylda hennar hafði áður búið í Byggðarholti, rétt fyrir ofan Borgarhól, en þau Svavar og Kristín, foreldrar hennar, keyptu hvorki meira né minna en heilan banka, GamlaBankann, þegar Útvegsbankinn flutti starfsemi sína í Nýja-Bankann, beint á móti Samkomuhúsinu. Í Gamla-Bankanum var sannarlega mikið pláss, margar hæðir og mjög leyndardómsfullt háaloft sem mér er mjög minnisstætt. Þar settum við upp hárgreiðslustofu, Inga, Hulda, Gréta og ég. Við auglýstum í glugganunum hjá Jöra danska í Tómstundabúðinni sem var beint á móti Þingvöllum (í gamla Verslunafélaginu). Viðskiptin urðu fremur dræm og var stofunni lokað stuttu síðar. Eftir upprifjun okkar vinkvenna nú nýlega höldum við að það hafi bara verið Kollý og Dadda á Vegamótum sem notfærðu sér þjónustuna.   Sigrún framandi og spennandi   Í Einarshöfn bjó Sigrún Axelsdóttir,vinkona mín í Skóbúðinni. Sigrún var á þessum tíma mjög framandi og spennandi vinkona, nýflutt í bæinn. Afi hennar var bryti á Gullfossi, flaggskipti flotans, og heima hjá henni var til útlent sælgæti, meðal annar blátt pantyggjó sem okkur vinkonum þótti mikið til koma. Svo átti hún líka trétöflur sem ég öfundaði hana af. Í Einarshöfn byrjaði Axel Ó., pabbi Sigrúnar að versla með skótau, en seinna meir var í húsinu verslunin Aníta.   Bakararnir örlátir og góðir   Eins og ég nefndi hér að framan þá voru á æskuslóðum mínum margar og mjög athyglisverðar verslanir og margir skemmtilegir afgreiðslu menn. Fyrstur kemur upp í hugann Óskar í Bókabúðinni. Hann stóð oft fyrir utan búðina sína og hleypti inn í hollum, t.d. þegar skólinn var að byrja og allir að kaupa stílabækur, kennslubækur og blýanta. Þá var ekki síður gaman að koma í Vogsabakarí, t.d. eftir sund og sníkja enda af vínarbrauðum. Alltaf voru þeir síbrosandi bakararnir, Stáki og Bent danski. Þannig var það líka í Magnúsarbakaríi þar sem Simmi lék á als oddi. Það voru mikil búdrýgindi að hafa tvö bakarí til að sníkja í svona í næsta nágrenni. Bakararnir voru örlátir og góðir menn.     Allt til milli himins og jarðar   Síðasta verslunin sem mig langar að minnast á er Tommabúð, Framtíðin hét hún formlega. Þar gat maður keypt allt milli himins og jarðar, súkkulaðikúlur, stígvél, kók, vinnuvettlinga og margt, margt fleira. Undir sama þaki rak svo Dagný, kona Tomma, álnavörubúð. Það var einmitt þar sem ég fékk eina af mínum fyrstu kápum, rauða svampkápu sem ég skartaði í kirkjunni á fermingardag Jóns bróður míns. Tóti meðhjálpari sem var eins og mildi Guðs spurði mig þá, þar sem ég stóð við hliðina á Jóni, hvort ég ætlaði ekki að fara að drífa mig í kyrtilinn, - raunar við lítinn fögnuð bróður míns. Það var, eins og áður sagði, mikil spenna hjá okkur krökkunum í Miðbænum þegar vertíðin byrjaði og bærinn fylltist af aðkomufólki. Það var heilmikil tilbreyting sem fylgdi þessu fólki og margar urðu þær eftir meyjarnar og eru hér enn. Upp í huga minn koma Þóra Giss frá Selkoti og Þórhildur vinkona hennar en báðar eignuðust þær Eyjastráka fyrir eiginmenn. Einnig man ég eftir færeyskum stelpum sem giftust bræðrunum úr Gerði, Assa og Hallbergi. Já og Helgu Tomm sem kom hér snemma á árunum í kringum 1960 og er hér enn.   Business fyrir krakkana   Vertíðarfólkinu fylgdi „busisness“ fyrir okkur krakkana í Miðbænum en það var að „standa í röð“ fyrir böllin. Við tókum 25 kr. á miðann en hver maður mátti kaupa 12 miða. Skömmu fyrir opnun miðasölunnar kom svo sá sem samið var við, tók við plássinu í röðinni, gerði upp við okkur og keypti miðana. Oft voru þessa raðir það langar við miðasölu Samkomuhússins að þær náðu að skóverslun Axels Ó. Ég hugsa oft um það hvað það eru mikil forréttindi að hafa upplifað þessa tíma. Bátarnir komu drekkhlaðnir í land og unnið í frystihúsunum langt fram eftir kvöldi. Tóti í Turninum sá um að upplýsa heimamenn um hvenær bátarnir kæmu að og stemningin mikil. Við Gréta í Gamla-Bankanum vorum bara 8 ára þegar við fengum fyrstu launaumslögin frá Gústu Sveins í Hraðinu. Það skemmtilega er að Gréta á sitt umslag enn.   Blaðasalan   Ég ætla að láta það verða lokaorð mín hér að minnast á blaðasöluna sem við krakkarnir í Miðbænum höfðum algeran forgang að. Við seldum pólitísku blöðin, Fylki, Framsóknarblaðið, Brautina og Eyjablaðið. Það giltu síðan óskráð lög um hver átti hverja götu. Á mínum götum voru margar skemmtilegar persónur, Gaui í Vallartúni, Lulla, kona Gulla í Gerði, sem gaf manni alltaf aukakrónu í hinn vasann. Ekki datt mér í hug í þá daga, þegar ég stóð við dyrnar hjá Lullu, að ég ætti sjálf eftir að eiga þetta fallega rauða hús við Helgafellsbrautina. Svona var þetta á æskustöðvunum „heima í Eyjum“. Ég er afar þakklát fyrir árin mín í Eyjum og sannarlega eru Eyjar í hjarta mér- ekki stundum- heldur alltaf,“ voru lokaorð Þuru.    

Opna nýtt og öfl­ugra brugg­hús og öl­stofu

Í upp­hafi næsta árs mun ör­brugg­húsið The Brot­h­ers Brewery í Vest­manna­eyj­um fá ný brugg­tæki til fram­leiðslu sinn­ar og um leið mun fram­leiðslu­geta þess nær sex­fald­ast. Þá vinna for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins að opn­un nýs öl­húss þar sem gest­um og gang­andi mun gef­ast kost­ur á að kynn­ast afurðunum.   Jó­hann Ólaf­ur Guðmunds­son er brugg­ari fyr­ir­tæk­is­ins og einn af for­sprökk­um þess.   „Við tók­um ákvörðun um að fjár­festa í þess­um tækj­um vegna þess að eft­ir­spurn­in eft­ir fram­leiðslunni hjá okk­ur hef­ur vaxið gríðarlega. Með nýju tækj­un­um gefst okk­ur einnig kost­ur á að setja bjór­inn á flösk­ur og með því koma hon­um í sölu á bör­um og veit­inga­hús­um sem ekki eru með bjórdæl­ur, en hingað til höf­um við aðeins selt fram­leiðsluna í kút­um.“   Bræður byrja að brugga Jó­hann seg­ist ekki hafa séð vin­sæld­ir fram­leiðslunn­ar fyr­ir og að í fyrstu hafi þetta aðeins verið gert til gam­ans.   „Við stofnuðum þetta ég og Kjart­an Vídó og við dróg­um bræður okk­ar, Davíð og Hlyn, inn í þetta með okk­ur. Síðan hafa ákveðnar breyt­ing­ar orðið á eign­ar­hald­inu, Davíð er ekki leng­ur í hópn­um en Hann­es Krist­inn Ei­ríks­son er kom­inn í þetta með okk­ur og nú síðast fjár­fest­ir sem hef­ur trú á verk­efn­inu. Í fyrstu fór­um við að brugga bjór í kjall­ar­an­um hjá mér. Þetta var árið 2013 en það var svo í árs­lok 2014 sem við feng­um stærri græj­ur til fram­leiðslunn­ar. Ári síðar fór­um við að huga að því að fá fram­leiðslu­leyfi og í byrj­un janú­ar síðastliðins hóf­um við fram­leiðslu á bjórn­um fyr­ir Einsa Kalda hérna í Eyj­um.“   Not­ast við hrá­efni úr Eyj­um Afurðir The Brot­h­ers Brewery hafa fengið mjög góðar viðtök­ur en hjá Einsa Kalda hafa 12 teg­und­ir verið seld­ar al­menn­ingi. Síðastliðið sum­ar kynnti fyr­ir­tækið bjór­inn Tog­ara á Bjór­hátíð Íslands á Hól­um, en þar koma sam­an flest ís­lensku brugg­hús­anna. Tog­ar­inn var val­inn besti bjór­inn af gest­um hátíðar­inn­ar.   „Þetta er al­gjört hand­verk hjá okk­ur og við höf­um farið óhefðbundn­ar leiðir. Meðal ann­ars höf­um við not­ast við söl til fram­leiðslunn­ar sem eru tínd hér í fjör­unni í Eyj­um. Einnig höf­um við notað kerf­il, sem flest­ir álíta bara ill­gresi,“ seg­ir Jó­hann.   Fram­leiðslan verður í hús­næði sem fyr­ir­tækið hef­ur tekið á leigu að Vest­ur­vegi í Vest­manna­eyj­um, en þar verður einnig komið upp eins kon­ar gesta­stofu og lít­illi öl­stofu.   „Við stefn­um að því að sinna brugg­un fram til tvö á dag­inn en eft­ir það verður starf­sem­in opin ferðamönn­um og öðrum þeim sem vilja kynna sér fyr­ir­tækið. Þetta verður því ákveðin viðbót við afþrey­ing­ar­mögu­leik­ana hér í Eyj­um.“   Mögu­lega í Vín­búðirn­ar Jó­hann seg­ir að á næsta ári sé ætl­un­in sú að auka fram­leiðsluna í 30 þúsund lítra og því ljóst að fram­leiðslu­get­an verður ekki nýtt nema til hálfs.   „Við vilj­um fara var­lega af stað en við erum bjart­sýn­ir á að vöxt­ur­inn haldi áfram. All­ar áætlan­ir sem við höf­um gert hingað til hafa sprungið eft­ir um tvo mánuði og það gæti allt eins gerst í þessu einnig.“   Spurður hvort vör­ur fyr­ir­tæk­is­ins verði aðgengi­leg­ar neyt­end­um í Vín­búðunum seg­ir Jó­hann það ekki víst.   „Fyrst vilj­um við mæta eft­ir­spurn þeirra sem kallað hafa eft­ir vör­unni en það gæti komið til greina. Við mynd­um þá helst vilja selja vör­una í Vín­búðinni hér í Eyj­um þannig að ferðamenn sem hingað koma gætu nálg­ast vör­una en regl­ur ÁTVR bjóða ekki upp á slíkt. Fyrst verður var­an að fara í prufu­sölu í ákveðnum búðum áður en hún get­ur komið á minni staðina. Þetta verður bara að koma í ljós.“ Mbl.is greindi frá.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Menningarverðmæti Eyjamanna lokuð ofan í kössum

Ég er hugsi yfir menningarverðmætum okkar Eyjamanna og hvernig við eigum að halda sögu okkar á lofti. Eftir því sem ég kemst næst er töluvert af menningarmunum okkar geymdir í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar við Strandveg. Ég leiddi hugann að þessu þegar ég sá gamlar ljósmyndir af heimili hér í Eyjum. Á einni myndinni voru stórkostlegir munir sem aðstandendur gáfu byggðasafninu á sínum tíma. Nú eru þessir munir geymdir ofan í kössum í stað þess að þeim sé sómi sýndur með því að hafa þá til sýnis á safni, fyrir almenningssjónum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Allir munir sem geymdir eru í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar eru menningarverðmæti þeirra sem byggðu upp samfélagið okkar, Vestmannaeyjar. Við eigum að virða söguna og halda henni á lofti. Eitthvað er um að þessir munir séu dregnir fram í dagsljósið úr geymslunum annað slagið. En að mínu viti er það ekki nóg. Það þarf að koma þeim öllum á einn stað þar sem safnið og þar af leiðandi sagan er sýnd gestum og gangandi. Safnahúsið hefur fyrir löngu sprengt starfsemina utan af sér en Helga Hallbergsdóttir og Kári Bjarnason ásamt öðru starfsfólki safnsins vinna þar mjög gott starf miðað við aðstæður. Nýtt og/eða stærra Safnahús eða Byggðasafn, sem sýndi okkur og gestum og gangandi alla þessa muni sem tengjast sögu Eyjanna væri sannarlega rós í hnappagat bæjaryfirvalda. Við skulum ekki gleyma forfeðrum okkar sem byggðu upp Eyjarnar með mikilli vinnu og eljusemi og lögðu grunninn að samfélagi okkar í dag. Sýnum þeim virðingu okkar þannig að við getum verið stolt af. Sýnum munina frá heimilum forfeðra okkar sem draga upp söguna og svipmyndir forfeðra okkar, sorgir og sigra. Eldheimar risu á mettíma og ekkert var til sparað enda verið að segja stórbrotna sögu. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að koma upp nýju Safnahúsi sem við getum öll verið stolt af. Saga Vestmannaeyja er ótrúlega viðburðarík og kraftmikil og við þurfum að gera henni góð skil.