Sumardagurinn fyrsti - Bæjarlistamaður og fleira

Sumardagurinn fyrsti - Bæjarlistamaður og fleira

Einarsstofa kl. 11.00 Skólalúðrasveitin leikur vel valin lög. Sigurvegarar upplestrarkeppninnar, lesa vel valin textabrot. Tilkynnt um val á bæjarlistamanni Vestmannaeyja 2017.
 
Einarsstofa kl. 13.00-16.00 Biblíusýning Hins íslenska biblíufélags á veggjum.
 
 
Viska, Strandvegur 50 kl. 13.00-14.30 Æskan í leik og starfi. Í samstarfi Ljósmyndasafns Vestmannaeyja og Visku verður boðið upp á ljósmyndadag Sigurgeirs í Skuld. Að þessu sinni verður um að ræða 200 rúllandi ljósmyndir á stóru tjaldi í Viskusalnum á jarðhæð Strandvegs 50. Boðið verður upp á kaffi um miðbik sýningar. Efnið er að þessu sinni tileinkað æskufólki úr Eyjum og eru ljósmyndirnar teknar að mestu á árunum 1960-1980.
 
 
Vestmannaeyjabær býður bæjarbúum frítt í sundlaugina og frítt á öll söfn bæjarins í tilefni sumardagsins fyrsta.
Opið í Sagnheimum og Sæheimum frá 13.00-16.00 og í Eldheimum frá 13.00-17.00.
 
Opið er í sundlauginni frá 09.00-17.00.
 
 

Eyjahjartað - Guðmundur Andri, Egill Helga, Bubbi og Ómar Vald

Á morgun kl. 13.00 mæta þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Egill Helgason fjölmiðlamaður, Bubbi Mortens tónlistarmaður og Ómar Valdimarsson blaðamaður með meiru í Sagnheima og ætla að segja frá þeim löngu liðnu dögum þegar þeir ungir og óábyrgir menn dvöldu í Vestmannaeyjum.   Það er Eyjahjartað sem stendur fyrir komu þeirra fjórmenninganna. Guðmundur Andri, Egill og Bubbi höfðu boðað komu sína síðasta haust en af því gat ekki orðið en nú eru þeir ákveðnir í að mæta og hefur Ómar Valdimarsson bæst í hópinn. Hingað til hafa brottfluttir Eyjamenn rifjað upp árin í Eyjum og hafa vinsældirnar farið sívaxandi. Í byrjun mars mættu hátt í 200 manns í Einarsstofu til að hlýða á Pál Magnússon á Símstöðinni, Gísla Pálsson á Bólstað og Brynju Pétursdóttir frá Kirkjubæ. Það verður örugglega fróðlegt að fá hina hliðina, heyra hvað þjóðþekktum einstaklingum finnst um þann tíma sem þeir voru í Eyjum. Er ekki að efa að þeir Guðmundur Andri, Egill, Bubbi og Ómar eiga eftir að koma með nýjan og skemmtilegan vinkil á lífið í Vestmannaeyjum á síðustu öld.   Þau sem standa að Eyjahjartanu eru Kári Bjarnason, Atli Ásmundsson, Þuríður Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson sem lofar góðri skemmtun á sunnudaginn. Í viðtali síðasta haust sagði Einar Gylfi um spjall sem hann, Atli og Þuríður áttu við Guðmund Andra, og Bubba: „Egill vann í Ísfélaginu eina vertíð og bjó hjá Óla í Suðurgarði sem segir allt sem segja þarf. Guðmundur Andri var í móttökunni í Ísfélaginu sumarið 1974 og bjó á verbúðinni þannig að þeir voru þar sem hjartað sló örast í Eyjum á þessum tíma.“ Bubbi var miklu lengur viðloðandi Eyjarnar. Allt frá árinu 1974 til 1980 að fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús kom út. „Hann vann í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og Vinnslustöðinni og bjó á verbúðunum, í Landlyst og Líkhúsinu. Hann kynntist mönnum eins og Einari klink og fleirum sem settu svip á mannlífið í Eyjum á þessum árum.“   „Ég og Þura stefnum á að koma og hlökkum mikið til. Það segir sitt um frásagnagleði þeirra félaga að málglatt fólk eins og við, Gylfi í Húsavík, Atli greifi og Þura í Borgarhól komu varla að orði þegar við hittum þá. Það var mikið hlegið og það verður ekkert öðruvísi í Sagnheimum á sunnudaginn,“ sagði Einar Gylfi að endingu.   Guðmundur Andri kallar erindi sitt Núll í tombólukassa. Minningar sumarstráks. Egill kallar sitt erindi Á vörubílspallinum hjá Stebba Ungverja en Bubbi er ekki með orðalengingar og kallar sína frásögn einfaldlega Hreistur. Ómar kallar sitt erindi, Fólkið mitt í Eyjum. Einar Gylfi flytur svo lokaorð fyrir hönd undirbúningsnefndar. Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13.00 í Sagnheimum á annarri hæð í Safnahúsinu. Kári vildi koma að þökkum til forvígismanna Eyjahjartans fyrir þeirra vinnu við að koma saman hverri dagskránni eftir aðra og hvetur sem flesta til að koma, hlusta á skemmtilega upprifjun einstaklinga sem dvöldu hér á mótunarárum og einfaldlega gleðjast með glöðum.    

Guðni Ágústsson og Jóhannes eftirherma í Höllinni í kvöld

Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður Sunnlendinga og ráðherra átti marga góða spretti í Vestmannaeyjum sem ræðumaður. Eftirminnilegast í huga þess sem þetta skrifar er ræðan sem hann flutti í Safnaðarheimili Landakirkju þar sem hann afhenti Mara pípara og fleirum Lagnaverðlaun fyrir vel unnið verk.   Útgangspunkturinn var að píparar hefðu gert betur í að ná hita í kropp Íslendinga en prestar í gegnum aldirnar. Þá er ekki síður eftirminnileg hátíðarræðan í fimmtugsafmæli Magnúsar Kristinssonar í Týsheimilinu þar sem salurinn lá í krampa allan tímann. Þar var uppleggið þegar MK gaf nýkjörnum þingmanni, Guðna Ágústssyni nokkur góð ráð um hvernig hann ætti að haga seglum í starfi sínu sem þingmaður. Jóhannes Kristjánsson, eftirherma hefur oft skemmt Eyjamönnum og nú ætla þeir að mæta saman í Höllinni á laugardaginn þar sem Eftirherman og Orginalinn láta gamminn geysa. „Jóhannes á 40 ára afmæli sem skemmtikraftur. Í mörg ár hafa menn skorað á okkur að koma fram saman og skemmta fólki, hann sem eftirherma sem á ekki sinn líka, ég að segja sögur enda gefið út metsölubók með skemmtisögum: Guðni léttur í lund,“ segir Guðni um þetta framtak þeirra félaga. „Nú förum við um landið undir slagorðinu: Eftirherman og Orginalinn láta gamminn geysa. Dregið af því að þegar ég hringi stundum í vini mína spyrja menn hvort er þetta eftirherman eða orginalinn? Við byrjuðum í Grindavík svo á Flúðum og Hvolsvelli og fyllum nú Salinn í Kópavogi. Og Landnámssetrið aftur og aftur.   En við erum svo að svara kalli og koma til fólksins í landsbyggðunum. Förum vestur á firði í byrjun maí á Selfoss og til ykkar í Vestmannaeyjum í Höllina laugardagskvöldið 22. apríl. Við eigum von á brjálaðri höll því Vestmannaeyingur kunna að hlæja og skemmta sér. Jóhannes er í miklu stuði og margir koma í gegnum hann. Hann er miklu meira en eftirherma, hann holdgervist og verður í framan eins og fórnarlambið. Nú er það spurningin hvort ég nái þeim hæðum sem ég gerði í afmæli Magga Kristins forðum þegar allir Eyjamenn urðu Framsóknarmenn heila nótt, svo rann af þeim og þeir urðu aftur Sjálfstæðismenn. Við hlökkum til að koma til Eyja og búumst við brjálaðri Höll.“    

Hrafnar fóru á kostum í Eldheimum - Myndband og myndir

Það var mikið stuð í Eldheimum á laugardagskvöldið þar sem Hrafnarnir fóru mikinn í tónlist og spjalli um allt og ekkert en þó aðallega um gosið og sjálfa sig. Hvert sæti var skipað í húsinu og var mikið hlegið milli þess sem fólk naut tónlistarinnar sem boðið er upp á.    Hljómsveitin Hrafnar samanstendur af tvennum bræðrum, Georg og Vigni Ólafssonum og Hermanni Inga og Helga Hermannssonum og Hlöðveri Guðnasyni, allt grónir Eyjamenn þó þeir búi á fastalandinu. Samanlögð reynsla þeirra í músík má frekar mæla í öldum en áratugum og þeir kunna ýmislegt fyrir sér á þeim vettvangi. Það var talið í klukkan níu og klukkan átti aðeins nokkrar mínútur í miðnætti þegar síðasti tónninn var sleginn. Sem sagt þriggja tíma prógram með stuttu hléi og hvergi slegið af.   Hljóðfæraskipan er svolítið sérstök, Georg leikur á kontrabassa, Vignir á banjó, Hlöðver á mandólín og Hermann Ingi og Helgi á gítara. Eldheimar buðu á tónleikana og tilefnið var að minnast þess að á mánudaginn, 23. janúar voru 44 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Lagaval og sögur tengdust gosinu á einhvern hátt. Allir voru þeir byrjaðir í tónlist áður en gaus og brugðu þeir upp skemmtilegum myndum af sjálfum sér í undarlegum aðstæðum. Hermann Ingi á harðahlaupum upp Skólaveginn þegar eldsúlurnar risu austur á Eyju og Hlöbbi sem stakk af til Eyja til að bjarga því dýrmætasta, plötusafninu. Já, þeir hittu svo sannarlega í mark og útkoman var ein besta skemmtun sem boðið hefur verið upp á í Eyjum síðasta árið eða svo. Bæði skemmtilegt og eftirminnilegt. „Tónleikarnir og aðsóknin fóru fram úr björtustu vonum. Gaman að geta boðið á þennan flotta viðburð. En tónleikarnir eru greiddir með styrk úr Framkvæmdarsjóði Suðurlands. Herjólfur gaf ferðirnar fyrir tónlistaarmennina og hljómflutningsgræjurnar. Það var setið á næstum því öllum stólum hússins. Þeir eru um 160,“ sagði Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eldheima eftir tónleikana. Óskar Pétur Friðriksson ljósmyndari var að sjálfsögðu á staðnum og smellti þessum myndum af stemningunni.

Guðrún Mary Ólafsdóttir er matgæðingur vikunnar

 Þessi réttur er gríðarlega vinsæll á okkar heimili enda svakalega góður. Ég viðurkenni þó að ég set oft meira beikon og fleiri döðlur út í réttinn en segir til í uppskriftinni og á það líka alveg til að auka sósumagnið, enda erum við fjölskyldan svakalega mikið sósufólk.   Kjúklingur með beikoni og döðlum Fyrir 4-5   • 4-5 kjúklingabringur, skornar í ca 3 bita • 150 gr spínat • 100 gr beikon, smátt skorið • 70 gr döðlur, smátt skornar • 4 stór hvítlauksrif, pressuð • 1 msk oregano þurrkað • 3 dl vatn • 2 dl matreiðslurjómi • 3 msk rjómaostur • 1 kjúklingateningur • 1/2 grænmetisteningur • Rifinn ostur.   Setjið spítanið í botninn á eldföstu móti. Steikið kjúklingabitana á pönnu (saltið og piprið) og stráið yfir spínatið. Brúnið beikonið á pönnu. Bætið svo hvítlauknum út á pönnuna og steikið með beikoninu í smá stund, setjið þá döðlurnar út í ásamt vatninu, oregano og teningunum. Látið þetta malla saman svolitla stund. Bætið matreiðslurjómanum og rjómaosti út á pönnuna og sjóðið niður sósuna í nokkrar mínútur. Hellið svo sósunni yfir kjúklinginn og passið að döðlurnar og beikonið dreifist jafn yfir. Setjið því næst rifinn ost yfir allt saman og bakið í ofni þar til osturinn er orðinn gylltur og fallegur. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði.   Ég ætla svo að skora á hana Kollu Rúnars sem matgæðing næstu viku. Hún er snilldarkokkur og lúrir á fullt af gómsætum réttum.

Magdalena Jónasdóttir er Eyjamaður vikunnar

Magdalena Jónasdóttir, nemandi í 3. KM í Grunnskóla Vestmannaeyja hlaut fyrstu verðlaun á yngsta stigi í vísnasamkeppni grunnskólanema (Vísubotn 2016) sem Menntamálastofnun efndi til í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Magdalena er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Magdalena Jónasdóttir. Fæðingardagur: 13.mars 2008. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Mamma er Ester Torfadóttir, pabbi er Jónas Logi Ómarsson og systurnar Maríanna og Viktoría. Draumabíllinn: Ég á engan draumabíl. Uppáhaldsmatur: Hamborgari og makkarónugrautur. Versti matur: Grænmetissúpa. Uppáhalds vefsíða: Youtube og KrakkaRúv. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Popptónlist. Aðaláhugamál: Handbolti, fótbolti og skátarnir. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Sölku Sól og Emmsjé Gauta. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar og Siglufjörður. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Guðjón Valur og ÍBV. Ertu hjátrúarfull: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, handbolta og fótbolta. Uppáhalds sjónvarpsefni: Voice og Þær tvær. Uppáhalds bók: Harry Potter. Er þetta fyrsta vísan sem þú botnar: Já. Stefnir þú á að semja fleiri vísur í framtíðinni: Ég er ekki viss, en það var gaman að botna þessa vísu. Eitthvað að lokum: Ég vil þakka öllum sem hafa óskað mér til hamingju með viðurkenninguna og ÁFRAM ÍBV!   Hér má sjá vísuna: Frostið bítur kalda kinn, kominn úlputími. Úti snjóar enn um sinn, undir vegg ég hími.  

Þrettándinn hluti af menningu Eyjamanna

Frá því fyrir miðja síðustu öld hafa Vestmannaeyingar fagnað þrettándanum með glæsibrag þar sem saman koma jólasveinar, álfar, púkar og tröll að ógleymdum Grýlu og Leppalúða sem eru í heiðurssæti á hátíðinni. Það er mikið lagt í búninga og mikið kapp lagt á að tröllin séu sem svakalegust. Þetta er mikið sjónarspil sem hefst með flugeldasýningu af Hánni þaðan sem jólasveinarnir ganga niður með kyndlana á lofti. Síðan tekur við ganga um bæinn sem endar á malarvellinum við Löngulág þar sem dansað er í kringum mikinn bálköst. Mannfjöldi fylgist með og hafa þeir sjaldan verið fleiri sem fylgdust með en á þrettándanum í ár enda veður einstaklega gott.   Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og hann er venjulega kallaður, hefur aðstoðað Grýlu frá árinu 1967 og var hann með henni í 51. skiptið á þrettándanum í ár. „Að hugsa sér, það er fullyrt að ég hafi byrjað 1967 og hef verið með í þessu síðan. Þau voru því orðin 50 skiptin í fyrra samkvæmt myndum sem til eru,“ segir Biggi í spjallið við blaðamann í síðustu viku. Þá lá hann í flensu sem hafði verið að hrjá hann um áramótin en það aftraði honum ekki að mæta á þrettándann. „Þetta er búið að vera rosalega gaman annars hefði maður ekki staðið í þessu í öll þessi ár. Það var pabbi sem ýtti mér út í þetta. Hann var Leppalúði í nokkur ár og Unnur Guðjóns Grýlan og komum við Þórður Hallgríms inn fyrir þau árið 1967. Pabbi hafði engan tíma í þetta því hann hafði svo mikið að gera í tröllunum. Hafa ýmsir staðið mér við hlið í þessum slag.“ Þrátt fyrir hálfrar aldar feril í Grýluhlutverkinu segir Biggi að þetta sé alltaf jafn gaman. „Svo megum við ekki gleyma öllu fólkinu, sem telur um 200 manns, sem vinna þetta allt í sjálfboðaliðsvinnu. Það er enginn yfir þessu starfi en samt gengur þetta allt eins og smurð vél.“ Biggi segir þrettándann hluta af menningu Eyjamanna og viljinn til að halda þessu gangandi sé það sem haldi fólki við efnið. „Það er þessi gleði í kringum undirbúninginn og hátíðina sjálfa sem ýtir manni í gang. Ef maður kemst ekki í gott skap í öllum þessum hamagangi er eins gott að koma sér heim. Já, það er svo margt sem gerir þessa hátíð okkar Eyjamanna alveg einstaka. Við höfum yfirleitt verið ofsalega heppin með veður. Stundum hefur dúrað rétt á meðan á hátíðinni stendur og skollið á vitlaust veður strax eftir að henni lýkur. Í þetta skiptið var blíða allan daginn sem gerir þetta svo miklu skemmtilegra og léttara,“ sagði Biggi að endingu.  

Fréttatilkynning - 1973 í bátana

  Þegar gos hófst á Heimaey 1973 var fljótlega farið í það að koma íbúum og gestum frá Eyjunni. Flestir fóru með bátum, einhverjir fóru með flugi og svo voru aðrir sem fóru ekki strax. Við komuna til Reykjavíkur um morguninn var fólkið skráð og hvert það fór, alls um 4216 manns. Aldrei var skráð hvaða bátar sigldu með flóttafólkið né hverjir fóru um borð í hvaða bát. Heyrst hefur að Vestmannaeyjaradíó hafi skráð bátana og flestir gefið upp fjölda farþega en ekki hefur tekist að finna þá skráningu.   Veturinn 2010 hófst skráning í Sagnheimum á flóttafólkinu sem flúði Heimeyjargosið 1973. Nú sex árum síðar er búið að skrá megnið af þessum einstaklingum eða 4912 manns, sem skiptast þannig: 285 manns voru skráðir í flug , 4448 fóru sjóleiðina, þar af 114 sem vita ekki nafn báts. Ennfremur er búið að skrá 172 manns sem fóru ekki upp á land alveg strax og svo loks 7 einstaklinga sem staðfest er að hafa verið í Eyjum en ekki vitað hvort og þá hvernig þeir fóru. Úr íbúaskránni á þó enn eftir að skrá um 180 einstaklinga, 30 eru á lífi en hluti þeirra býr erlendis og náðst ekki í þá og svo eru 149 látnir. Gætu ættingjar þá haft upplýsingar um hvort viðkomandi hafi verið í Eyjum og hvort farið var um nóttina.   Til að skrá ofangreinda einstaklinga var notast við íbúaskrá frá 1972. Haft var samband við þá einstaklinga sem náðist í, fyrst með auglýsingum í Eyjum og síðan á Facebook. Einnig var hringt í nokkra einstaklinga. Nú þegar búið að skrá allflesta úr íbúaskránni er komið að því að fá fólk til að prófarkalesa, þ.e. fá fólk til að skoða hvort það sé ekki örugglega komið í bátinn sem það fór með og svo vinir sem þeir muna eftir að hafi verið í sama bát.   Enn vantar örugglega einhverja sem voru komnir á vertíð. Ég veit t.d. um Frakka og Íra sem ég hef ekki fundið nöfn á en var rætt við í blöðunum við komuna upp á land. Á þessum árum voru mikið af aðkomumönnum á vertíðum í Eyjum, þó ber að geta að vertíðin var ekki almennilega komin í gang. Heyrst hefur um einstaklinga sem voru lagðir af stað til Eyja en voru ekki komnir alla leið. Stúlka var komin til Reykjavíkur frá Siglufirði og sjómaður var í Herjólfi á leið til Eyja og var að fara á vertíð á mb Leó VE( vantar nafn á þann einstakling ). Sá réri þó ekki á Leó um veturinn, hefur sennilega fengið nóg eftir þessa nótt.   Ef einhverjir hafa upplýsingar um fólk sem var komið til Eyja væri gott að fá sendar upplýsingar á 1973ibatana@gmail.com, nafn einstaklings, fæðingadag og ár, heimilisfang 1973, og hvernig viðkomandi fór frá Eyjum ef vitað er.   Hægt er að skoða bátalistana á 1973ibatana.blogspot.com     fyrir hönd 1973 í bátana   Ingibergur Óskarsson Iceland http://1973-i-batana.blogspot.com/      

Ólafur Jónsson er Eyjamaður vikunnar

Ólafur Jónsson frá Laufási hefur lengi blásið í saxófón, bæði með Lúðrasveit Vestmannaeyja og við önnur tækifæri. Svo skemmtilega vildi til að á Eyjakvöldi á Kaffi Kró sl. fimmtudagskvöld var hann mættur með Guðlaugi syni sínum og sonarsyninum Ólafi Ágústi Guðlaugssyni. Þar léku þeir með Blítt og létt sem mánaðarlega stendur fyrir Eyjakvöldum á Kaffi Kró yfir vetrartímann. Allir spila þeir á saxófóna af mikilli list. Ólafur er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Ólafur Jónsson Fæðingardagur: 23.06.48. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Fráskilinn og á tvö börn og þrjú barnabörn, Draumabíllinn: Bíllinn sem ég á hverju sinni. Uppáhaldsmatur: Lambakjöt. Versti matur: Pizza og pastaréttir sem telst varla matur. Uppáhalds vefsíða: Heimaslóð. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Góð swing tónlist. Aðaláhugamál: Tónlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Winston Churchill. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Höfnin í Brandinum. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV, en á engan uppáhaldsíþróttamann. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, það get ég ekki sagt. Stundar þú einhverja hreyfingu: Nei, nei. Uppáhaldssjónvarpsefni: Norrænir sakamálaþættir. Hvenær byrjaðir þú að læra á saxófón: Það var 1961. Hvenær tókstu fyrstu skrefin með LV: Apríl 1962. Var ekki gaman að spila með peyjunum: Að sjálfsögðu. Hver er besti spilarinn: Vill helst ekki svara því.  

Dagskrá þrettándagleði 2017

Fimmtudagur 5. janúar   Kl. 21.00 Kaffi kró, Eyjakvöld   Eyjakvöld með Blítt og létt. Gestir verða m.a Sara Renee, Geir Jón, Guðmundur Davíðs og fleiri. Öll innkoman af Eyjakvöldinu rennur til Færeyinga vegna þeirra hamfara sem þar hafa verið.       Föstudagur 6. janúar   Kl. 14.30-16.00 Höllin, diskógrímuball Eyverja   Jólasveininn mætir og aðrar fígúrur einnig. Verðlaun verða veitt fyrir búninga og öll börn fá nammipoka frá jólasveininum.   Kl. 16.00-18.00 Einarsstofa, opnun sýningar   Samsýning Ingvars Björns og Odee. Báðir eru þeir þekktir popartlistamenn og hafa sýnt víða um heim. Frábær fjölskyldusýning þar sem m.a. þrívíddargleraugu verða í boði til að njóta listaverkanna.   Kl. 19.00 Hin eina sanna Þrettándagleði ÍBV og Íslandsbanka   Flugeldasýning, blysför, álfabrenna, jólasveinar, tröll, tónlist og margt fleira. Gangan hefst við Hánna og gengið verður upp Illugagötu, niður Höfðaveg og að malarvellinum þar sem hinar ýmsu kynjaverur heilsa upp á gesti.       Laugardagur 7.janúar   Kl. 12.00 - 15.00 Tröllagleði í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja   Fjölskyldan getur komið saman og leikið sér í íþróttasölum undir stjórn íþróttaþjálfara.   Í umsjón Bryndísar Jóhannesdóttur og íþróttafélaganna.   Hlökkum til að sjá sem flesta mæta.       Kl. 12.00-17.00 Langur laugardagur í verslunum   Tröllatilboð og álfaafslættir í gangi hjá verslunum og veitingastöðum!       Kl. 13.00-16.00 Sagnheimar, Jólasveinar í vanda   Jólasveinarnir hafa notað safnið til að gista þegar veðrið er vont. Nú er Grýla að fara aftur til fjalla með Leppalúða, jólaköttinn og jólasveinana sína. Óþekktarangarnir týndu hinu og þessu á safninu, sem þeir þurfa nauðsynlega að hafa með sér.   Okkur vantar krakkahjálparsveit til að finna þessa hluti!   Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum!       Sunnudagur 8.janúar   Kl. 13.00 Helgistund í Stafkirkjunni   Sr. Guðmundur Örn fer með hugvekju.  

Eyjamaður vikunnar - Arnór Arnórsson

Björgunarsveit Vestmannaeyja hefur um árabil útvegað Íbúum Vestmannaeyja allar þær rakettur og tertur sem til þarf til að fagna áramótum og þrettánda á sem bestan hátt og var engin undantekning gerð á árinu sem var að líða. Arnór Arnórsson, formaður Björgunarsveitar Vestmannaeyja, er því fyrsti Eyjamaður vikunnar árið 2017.   Nafn: Arnór Arnórsson. Fæðingardagur: 26. júní 1989. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Er í sambúð með Hildi Björk og saman eigum við einn dreng, Bjarka Pál, tveggja ára. Svo eru foreldrar Addi Palli og Svanhildur og þrjú mun eldri systkini. Draumabíllinn: Það er góð spurning, en á meðan hann bilar ekki er hann draumabíllinn. Uppáhaldsmatur: Það er svo margt sem kemur til greina hér. Versti matur: Súr matur telst ekki matur. Uppáhalds vefsíða: Fésbókin skorar hátt hér. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Það fer allt eftir því hvað á að gerast en ég hlusta mikið á íslenska tónlist. Aðaláhugamál: Björgunarsveitarstarfið er þar mjög ofarlega ásamt sjúkraflutningunum, fjölskyldunni og ferðalögum. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Þann sem fann upp tvinntölur, við yrðum sennilega ekki góðir vinir. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Að horfa inn Yosemite garðinn er virkilega fallegt. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Íþróttasamband Björgunarfélags Vestmannaeyja og Sigdór eða Jóhannes kraftlyftingarmenn. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, alveg laus við það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, læt þær Minnu og Steinu pína mig reglulega áfram í Dugnaði. Hvernig var árið hjá björgunarsveitinni: Við erum með mjög virka og öfluga unglinga- og nýliðadeild sem hafa staðið sig einstaklega vel. Ekki var mikið um alvarleg útköll hjá okkur og veðrið búið að vera fínt þannig að fokútköll hafa verið fá. Við höfum þetta árið verið að leggja sérstaka áherslu á B.b. Þór og það hefur komið vel út hjá okkur. Ég held að við getum alveg verið sátt við árið. Hvernig leggst formennskan í þig hingað til: Þetta leggst bara ágætlega í mig, sem betur fer er góð stjórn með mér í þessu og við erum duglegir að dreifa hlutverkum okkar á milli sem og á aðra félagsmenn. Var salan í flugeldum góð í ár: Salan var ágæt, aðeins minni en í fyrra en við vonum að þrettándasalan verði góð hjá okkur, það er opið frá kl 13:00 á föstudaginn. Eigið þið eftir að sakna stóru tertanna: Já, við eigum eftir að gera það og ég held að Vestmannaeyingar flestir eigi eftir að gera það. Þessar stóru tertusölur skipta okkur miklu máli og eru góð % af okkar sölu. En við erum ekki alveg búin að gefast upp með þær og vonum að við fáum allavega 1-2 ár í viðbót með þeim.  

Þorsteinn Gunnarsson er matgæðingur vikunnar - Lambakjöt og silungur úr Mývatnssveit

Ég þakka þeim feðgum Guðmundi og Grétari kærlega fyrir áskorunina. Mývatnssveit er auðvitað mekka íslensks landbúnaðar og sem sveitarstjóra liggur mér beinast við að mæla með hráefni úr sveitinni sem er í fremstu röð og er hluti af þingeyska matarbúrinu, þekkt fyrir gæði, hollustu og hreinleika. Sjálfur er ég fyrir einfaldleika í fæði enda verið í fráhaldi á sjöunda ár og ber þessi pistill Matgæðings vikunnar keim af því.   Forréttur: Ég mæli sérstaklega með taðreyktum silungi úr Mývatni, t.d. frá bænum Hellu eða Vogafjósi. Reykti silungurinn úr Mývatni er eitthvert mesta lostæti sem ég hef komist í. Silungur hefur verið veiddur og reyktur á hverjum bæ í Mývatnssveit í aldaraðir. Ég er sjálfur ekki í rúgbrauði sem fer vel með silungnum en mín fjölskylda er afar hrifin af hverabökuðu rúgbrauði úr Mývatnssveit sem nefnist Kollubrauð. Einnig er boðið upp á hverabakað rúgbrauð í Fuglasafni Sigurgeirs og víðar en Mývetningar hafa þróað aðferð til að baka brauð í hverunum í Bjarnarflagi.    Aðalréttur: Lömb sem hafa alist upp á fjölbreytilegu gróðurlendi Mývatnsöræfa er einstaklega bragðgott kjöt sem ég mæli eindregið með. Sauðakjöt þykir mörgum besta kjötið enda sérlega bragðmikið. Sauðakjötið er af veturgömlu fé. Mjög lítið er af sauðakjöti á íslenskum markaði í dag, þó svo að löng hefð sé fyrir neyslu þess. Hér er því um sjaldgæfa gæðavöru að ræða. Hægt er að panta lambakjöt og aðra kjötvöru úr Mývatnssveit t.d. á www.hangikjot.is. Hver og einn eldar lambakjötið eftir sínu höfði en ég mæli með kryddinu Best á lambið, en mér finnst betra að hafa kjötið á frekar lágum hita og í lengri tíma og krydda eftir eigin höfði. Einfalt og gott. Meðlæti getur verið af ýmsum toga. En uppáhaldið mitt þessa dagana er að hafa grasker með lambakjötinu sem og öðru kjöti. Ég sker graskerið í eins þunnar sneiðar og hægt er og set á ofnplötu, pensla létt með olíu og krydda vel, sker svo papriku í smáa bita og dreifi yfir og set í heitan ofn í ca. 30 mín. Þá finnst mér sérlega gott að hafa heimagert rauðkál með. Í það notum við hálfan rauðkálshaus, 3-4 gul epli, 2/3 bolli gervisykur, 100-150 gr. smjör, 3 tappar edik, 1 tsk. salt og 1 bolli sólberjasaft (helst sykurlaust) ásamt slatta af vatni. Kál og epli er sneitt niður t.d. í matvinnsluvél, steikt á pönnu í smjörinu á vægum hita. Gervisykri, ediki og safti bætt út í ásamt vatni eftir þörfum. Soðið í ca. 1 klst. eða lengur. Salt sett saman við í lokin. Ég er sjálfur mest fyrir kalda sósu og nota mikið hvítlauks- eða piparsósu frá Toppsósum og hentar það vel með fráhaldinu.  Eftirréttir: Þar sem ég sneiði hjá sykri og hveiti er ég ekkert í sykursprengjueftirréttum. Í staðinn laga ég mér úrvals kaffi og hef flóaða mjólk með. En ég vil benda á heimasíðu Nönnu Rögnvaldar matgæðings þar sem er að finna sykurlausa eftirrétti fyrir þá sem kjósa slíka hollustu. Ég hvet Vestmannaeyinga sem eiga leið norður að koma við í Mývatnssveit og kíkja í heimsókn til okkar. Náttúrufergurð við Mývatn er einstök. Mikill straumur ferðafólks er til Mývatns að sumarlagi. Margir hafa á orði að Mývatn sé ekki síður tilkomumikið að vetri til. Nokkrir staðir við Mývatn draga sérstaklega að sér ferðamenn. Má þar nefna Dimmuborgir, Höfða, Hverfjall/Hverfell, Leirhnjúk/Kröflu, gervigígana við Skútustaði, hverina austan Námaskarðs, Grjótagjá og áfram mætti telja.   Við höldum boltanum aðeins lengur fyrir norðan og spörkum honum yfir til Norðurþings þar sem býr fyrrverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja og Norðurþings, Bergur Elías Ágústsson, en hann var vanur að raða inn mörkunum hér í gamla daga. 

Eyjamaður vikunnar - 340 perur á Jólahúsinu í ár

Guðmundur Ingi Guðmundsson og Aníta Óðinsdóttir eiga jólahúsið í ár, Smáragötu 1. Það eru Lionsklúbbur Vestmannaeyja og HS-veitur sem velja jólahúsið og þykja skreytingar á Smáragötu 1 stílhreinar og látlausar. Guðmundur Ingi er Eyjamaður vikunnar.  Nafn: Guðmundur Ingi Guðmundsson. Fæðingardagur: 14 júní 1980. Fæðingarstaður: Hin undurfagra Heimaey. Fjölskylda: Er í sambúð með Anítu Óðinsdóttur og eigum við tvo peyja, þá Guðmund Huginn og Gabríel Gauta. Vinna: Stýrimaður á Huginn VE 55. Aðaláhugamál: Íþróttir, þá helst fótbolti. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera: Að vera með fjölskyldu og vinum. Uppáhalds matur: Fiskibollurnar ásamt fleiri fiskréttum frá Palla í Vegg er alveg dásamlegur matur. Versti matur: Borða flest allt með bestu lyst. Uppáhalds tónlist: John Lennon og Bítlarnir. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Af öllum þeim stöðum sem ég hef komið til er það án nokkurns vafa Vestmannaeyjar. Þær bera af gagnvart öllu sem heitir náttúrufegurð. Uppáhalds íþróttamaður og félag: Paul Gascoine og Palli Almars voru íþróttamenn í miklu uppáhaldi. Annars er ÍBV fyrst og fremst uppáhalds félagið mitt, þar á eftir kemur Arsenal. Uppáhalds sjónvarpsefni: Dýra- og náttúrulífsþættir, þá sérstaklega með David Attenboroug. Hvað finnst þér skemmtilegast að lesa: Er enginn lestrarhestur. Helstu vefsíður sem þú skoðar: Frétta- og fótboltasíður. Hvað eru þið búin að eiga húsið lengi: Síðan árið 2012. Hver hannaði lýsinguna: Svo sem enginn hönnun, allt gert í sameiningu, mestmegnis spilað af fingrum fram. Hvað eru perurnar margar: Utan á húsinu eru 340 perur, svo eru einhverjar perur inni.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Georg Eiður - Gleðilegt sumar - Lundinn sestur upp

Að venju hefst sumarið hjá mér þegar lundinn sest upp og hann settist upp í gærkvöldi 16. apríl, sem er á þessum hefðbundna tíma. Kannski ekki beint sumarlegt veður í dag, en svona er nú einu sinni vorið okkar.   Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn með lunda sumarið í ár og finnst ég hafa ástæðu til, því eftir að hafa fengið nokkur þúsund bæjarpysjur bæði 2015 og 16, samfara miklu æti í sjónum allt í kring um landið og þá sérstaklega loðnu. Vonandi gengur það eftir.   Þann 28. febrúar sl. mætti ég á ágætan kynningarfund um þessa svokölluðu friðun fuglastofna í Vestmannaeyjum. Eins og við var að búast, þá eru eyjamenn almennt á móti þessu friðunar hjali, enda ekki góð reynsla af því þegar ríkið ræður yfir einhverju, samanber heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og niðurskurðum þar, en svona blasir þetta við mér.   Umhverfisráðherra getur að sjálfsögðu hvenær sem er sett á friðun, en að öllu eðlilegu, þá gerir ráðherrann það ekki nema beðið sé um. Verði friðunin hins vegar sett á, þá verður ráðherrann að taka ákvörðun og á þeim nótum bar ég upp eina spurningu í lok fundar, sem var þannig að ef við gefum okkur það að búið sé að setja þessa friðun á og ráðherra fái inn á sitt borð ósk Vestmannaeyjabæjar um að leyfa áfram nokkra veiðidaga, en líka inn á sitt borð yfirlýsingar frá Dr. Erpi og Dr. Ingvari, að veiðar í nokkurri mynd væru ekki sjálfbærar á nokkrun hátt. Svar fulltrúa ríkisins var eins og við var að búast, að auðvitað myndi ráðherrann fyrst og fremst horfa á niðurstöðu rannsóknaraðila, Dr. Erps og Dr. Ingvars.   Þess vegna er mikilvægr að þessi friðun verði aldrei sett á og mér er eiginlega alveg sama um, hvaða fármunir þekkingarsetur Vestmannaeyja telur sig geta haft út úr þessu. Ég verð einfaldlega alltaf á móti því að færa yfirráðarréttinn á nokkru hér í Eyjum til ríkisins, sporin hræða.   Það skiptir engu máli þó að ég sé hættur að veiða og ætli mér ekki að veiða lunda oftar í Eyjum að öllum líkindum, sem er ekki bara ákvörðun sem ég hef tekið, heldur fjöl margir aðrir veiðimenn og þar með sýnt og sannað að okkur er treystandi til þess að fylgjast með og vernda okkar eigin fuglastofna.   Lundinn mun koma til Eyja í milljónatali löngu eftir að við erum farin héðan.   Georg Eiður Arnarson.