Tíu Heitustu - Nr. 1 - Jóhann Sigurður Þórarinsson

Tíu Heitustu - Nr. 1 - Jóhann Sigurður Þórarinsson

Jóhann Sigurður Þórarinsson. Eftirsóttasti piparsveinn Vestmannaeyja. Eftir að hafa komið á markaðinn úr heiðskýru lofti hefur hann ekki haft mikinn tíma í að finna ástina. Enda nóg að gera í vinnunni ásamt því að sinna núverandi ást sinni sem er frumkvöðlastarf sem á eftir að gjörbilta heilbrigðisgeiranum.
 
Jóhann Sigurður hefur alla tíð hugsað langt inn í framtíðina sem sést best á því að hann er nú búinn að stunda eldrimannaleikfimi síðustu fimm ár með körlum sem flestir eru á sextugs aldri, tvisvar í viku í Týsheimilinu.
 
Hann er einnig búinn vinna mikið í sjálfum sér og við það að losa sig við slæma siði eins og að taka í nefið sem hefur gengið einkar vel en með smá hækju sem er gufuretta. Ef horft er lengur en mínútu á hann má sjá fallega dalalæðu koma úr vitum hans, sem er bæði dáleiðandi og róandi.
 
Jóhann Sigurður er með afnot af einni fallegstu penthouse íbúð Reykjavíkur og hefur heyrst í bænum að hann sé að skoða flottustu penthouse íbúð Vestmannaeyja sem verður tilbúin árið 2020.
 
Jóhann Sigurður hefur gaman af fólki, að skemmta sér, að vinna að því sem hann hefur gaman af og að ferðalögum.
 
Hann leitar af góðri konu sem er tilbúin að labba með honum inn í eilífðina meðfram Ofanleitishamrinum, setjast við hlið hans og horfa á sólina setjast á meðan hann blæs gufureikshjörtu út á hafið.
 
 
 

98% ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum

Á miðvikudaginn fjallaði fjölskyldu- og tómstundaráð um þann hluta þjónustukönnunar Gallup sem að ráðinu snýr. Almenn og vaxandi ánægja mældist með alla þessa þjónustuþætti. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.    98% þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (92%) voru 98% ánægð en einungis 2% óánægð. Ánægjan eykst mikið á milli ára og er einkunn Vestmannaeyjabæjar (á skalanum 1 til 5) 4,4 og því hátt yfir landsmeðaltali sem er 4,0.   83% ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   78% ánægð með aðstöðu við fatlað fólk Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (72%) sögðust 78% vera ánægð en 22% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   76% ánægð með þjónustu við eldri borgara Þá var spurt hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (75%) sögðust 76% vera ánægð en 24% óánægð og eykst ánægjan verulega á milli ára og er nokkuð hátt yfir landsmeðaltali. Elliði Vignisson birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.  

Nokkur streituráð fyrir veturinn

Nú er veturinn genginn í garð og rútína og hversdagsleiki orðinn fastur í sessi á flestum heimilum. Margir þekkja að það getur verið heilmikil áskorun að púsla saman öllu því sem þarf að gera í dagsins önn. Boltarnir eru oft ansi margir, bæði í einkalífi og starfi og margir þurfa að hafa sig alla við til að halda öllu gangandi. Þegar álag verður of mikið, sérstaklega ef við upplifum að við erum farin að „ströggla“, getur það haft neikvæð áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Við förum að finna fyrir streitu. Vr birti þessa grein og er hún góð lesning fyrir alla.     Hvað er streita?   Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að vísa í streituviðbragðið sjálft (sem er lífeðlisfræðilegt varnarviðbragð líkamans), streituvaldana sjálfa (ytri og innri), sem og streitutengda vanheilsu. Það er mikilvægt að hafa í huga að streita er í eðli sínu jákvæð. Ef tímabundið stress fær að koma og svo líða hjá og við gefum okkur tækifæri til að jafna okkur á eftir, getur það mögulega bætt frammistöðu okkar. Það skerpir athygli þá stundina og gerir okkur kleift að takast á við álag og uppákomur af ýmsum toga. Til dæmis getur það aukið viðbragðsflýti og gert okkur kleift að vinna hraðar og af meiri einbeitingu sem er vissulega mjög hjálplegt.   Forðist langvarandi álag   Ef álagið er hins vegar langvarandi og möguleikar til þess að endurheimta orku litlir, getur yfirálag og langvinn streita haft skaðleg áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Tilfinningar sem maður upplifir sem neikvæðar eru ekki hættulegar í sjálfu sér, þær gætu þó orðið það ef brugðist er við með því að t.d. vinna meira, hraðar og af meiri ákafa, sleppa matarhléum og kaffipásum, draga úr hvíld, sleppa hreyfingu, líkamsrækt og áhugamálum. Ef maður festist í slíku mynstri mun langvarandi álag smám saman slæva ónæmiskerfið og veikja varnir líkamans. Því er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir álagsþáttum og þekkja eigin streitueinkenni. Ekki er síður mikilvægt að hlúa vel að sér og fylla á orkubirgðirnar til móts við það sem tapast á álagstímum.   Einkenni langvarandi streitu geta verið margvísleg   Einkenni langvarandi streitu geta birst bæði í líkamlegum og andlegum einkennum, hugsunum og hegðun. Líkamleg einkenni geta verið höfuðverkir, vöðvabólga, orkuleysi, hækkaður blóðþrýstingur, stoðkerfisvandi og verkir, svimi eða óáttun, svefnvandamál, minnkuð kynhvöt, meltingarvandamál, sem og hjarta- og æðavandamál. Tilfinningalífið getur einkennst af kvíða, depurð, ótta, sektarkennd, pirringi, reiði og óánægju. Ef streitustig er mjög hátt og langvarandi aukast líkur á ofsakvíðaköstum.   Streitutengd hegðun getur lýst sér þannig að fólk er stöðugt að flýta sér (þó ekkert liggi á), leitast við að gera margt í einu, sleppa pásum eða hættir að gera ánægjulega hluti vegna þreytu eða tímaskorts. Sumir pirrast auðveldlega og skeyta skapi sínu á umhverfinu. Eirðarleysi, slæmir ávanar, óheppilegar neysluvenjur, auknar reykingar og áfengisneysla: eru allt dæmigerð viðbrögð þegar sjálfstýringin fer á. Dæmi um hugræna þætti er að hafa margar (óskýrar) hugsanir samtímis, hrakspár og/eða sveigjanleiki í hugsunum, hugsanir um eigin vangetu, áhyggjur, áhugaleysi, heilaþoka, rörsýn. Við langt genginn streituvanda hrakar athygli og einbeitingu og geta heilans til að hugsa, gera áætlanir og muna hluti skerðist.   Að vinna gegn streitu   1. Vaknaðu til vitundar um sjálfan þig Mikilvægt er að þekkja sjálfan sig, vera vakandi yfir því sem veldur manni streitu og þekkja streitueinkennin. Þannig verðum við betur undirbúin og líklegri til að bregðast við erfiðum aðstæðum okkur í hag. Kortlagning streituvalda og einkenna er mjög mikilvæg.   2. Gerðu áætlun Það getur verið gagnlegt að hafa góða yfirsýn yfir vikuna eða jafnvel mánuðinn. Settu inn í stundatöflu eða dagbók allt sem þú veist að er framundan hjá þér eins og fundir, afmælisboð, læknisheimsóknir, próf eða skilafrestir ef það á við. Margir upplifa til dæmis heilmikla streitu í tengslum við matarinnkaup og því gæti verið gott að vera búinn að útbúa matseðil fyrir vikuna, að minnsta kosti fyrir virku dagana.   3. Einfaldaðu lífið eins og þú getur Við erum svo dugleg að flækja lífið að óþörfu og oftar en ekki er það vegna þess að við erum illa skipulögð og skortir yfirsýn. Hvar getur þú einfaldað líf þitt? Með því að losna við litlu flækjurnar eigum við meiri orku á tankinum fyrir stærri álagsvalda   4. Settu tóninn fyrir daginn Margir kannast við það að vera á síðustu stundu með allt og vita að það getur verið mjög óþægilegt. Það gæti verið hjálplegt að vakna örlítið fyrr á morgnana og gefa sér þannig aðeins rýmri tíma í morgunverkin og jafnvel að njóta þeirra, frekar en að hlaupa úr einu í annað og fara út um dyrnar með öndina í hálsinum af því að enn einn daginn erum við á síðustu stundu.   5. Forgangsraðaðu og gerðu raunhæfar kröfur Þegar álag á okkur er mikið er mikilvægt að forgangsraða. Sumt skiptir meira máli en annað. Það getur vel verið að um tímabundið ástand sé að ræða og þá er gott að minna sig á það. Við þurfum að horfast í augu við að ekki er raunhæft að gera þær kröfur til okkur að sinna öllu jafnvel þegar það eru álagstímabil. Veltu fyrir þér hvað má bíða akkúrat núna. Má þvottahrúgan bíða eða á göngutúrinn að bíða? Hver og einn þarf að svara því fyrir sig.   6. Hlúðu að þér og vertu í núinu Það er mjög mikilvægt að hlúa að sjálfum sér og tíminn sem fer í það þarf ekki að vera langur. Vissulega væri kostur ef við gætum passað vel uppá mataræðið og svefninn, hreyft okkur reglulega og gert ánægjulega hluti en stundum er það bara dálítið flókið. Margir kannast við að byrja haustið með háleit markmið um að taka einmitt á öllum þessum grunnþáttum heilsunnar. Vissulega er mikilvægt að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf svo maður upplifi ekki að manni hafi mistekist. Ef ég kemst ekki líkamsræktina í dag sökum álags eða anna, þá gæti ég mögulega gert eitthvað annað í staðinn eins og fara í stuttan göngutúr eða gengið stigana í stað þess að taka lyftuna. Allt telur þetta og bara það að gefa sér 5 mínútur hér og þar í dagsins önn skiptir máli.   Leyfðu þér að njóta kaffibollans, vera örlítið lengur í sturtunni, staldra við og horfa uppí himininn og bara vera og skynja í augnablik, vera heils hugar til staðar í samtali. Þetta þarf ekki að taka mikinn tíma frá þér en getur skipt sköpum. Notaðu nokkrar mínútur hér og þar til að stinga þér í samband og hlaða orkutankinn.   7. Innri röddin Allar líkur eru á að þú sért að gera þitt allra besta - minntu þig stöðugt á það. Þegar streitukerfi líkamans virkjast hefur það iðulega áhrif á hugsanir okkar með neikvæðum hætti sem aftur virkjar streitukerfið þannig að vítahringur skapast. Þá verðum við líklegri til að fara að beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn?“ „Ég er alveg ómöguleg/ur,“ og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru ekki hjálplegar og því er mikilvægt að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar. Sýndu sjálfum þér skilning og umburðarlyndi í stað þess að brjóta þig niður.   Sigrún Ása Þórðardóttir og Snædís Eva Sigurðardóttir, sálfræðingar í Heilsuborg.   Grein birtist í 4. tölublaði VR 2017  

ÍBV og Heimir Hallgrímsson koma víða við í nýja spilinu Beint í mark

 Eyjamaðurinn og ritstjóri 433.is, Hörður Snævar Jónsson var að gefa út, ásamt félögum sínum spilið Beint í mark. Hörður Snævar sem er sonur Öldu Harðardóttur er fæddur og uppalinn fyrstu árin sín í Vestmannaeyjum. Hann fékk fótboltaáhugann ungur að árum en hann var farinn að mæta á allar æfingar og leiki hjá meistaraflokki ÍBV aðeins 6 ára gamall. Spilið Beint í mark sem kemur í búðir á næstu dögum er spil um fótbolta og allt sem honum viðkemur. Hörður segir spilið fjölbreytt, skemmtilegt og fyrir alla fjölskylduna. Þar sem fótbolti er mjög vinsæll hér á landi fannst félögunum vanta slíkt á markað hér á landi.   Hvaðan kemur fótboltaáhuginn? Þetta byrjaði mjög snemma. Þegar maður ólst upp í Eyjum komst ekkert annað að hjá manni en ÍBV. 6 og 7 ára gamall var ég mættur á allar æfingar ÍBV í meistaraflokki í fótbolta og var boltasækjari, það gerði svo mikið fyrir ungan dreng að fá alltaf að fara inn í klefa eftir hverja einustu æfingu og spjalla við strákana. Oftar en ekki var það svo Gunnar Sigurðsson þá markvörður ÍBV sem gaf mér súkkulaði sem laun og skutlaði mér svo heim af æfingum. Síðan þá hefur áhuginn alltaf verið til staðar, maður var ekki nógu góður til að spila fótbolta á hæsta stigi þannig að maður fann leiðir til þess að starfa í kringum áhugamálið með öðrum hætti.   Hvernig spil er þetta og fyrir hverja er spilið? Spil er eitthvað sem flestir Íslendingar kannast við að spila um jólin, fótboltinn hefur svo aldrei verið vinsælli á Íslandi og því fannst okkur vanta slíkt spil á markað. Við ákváðum strax frá byrjun að spilið yrði fyrir alla aldurshópa. Því er hvert spjald með styrkleikaskiptum spurningum, um er að ræða þrjá styrkleikaflokka. Krakkarnir hafa því gaman af spilinu líkt og fullorðnir. Þeir sem vita lítið geta spilað og þeir sem eru að eigin sögn algjörir sérfræðingar fá líka spurningar við sitt hæfi. Spurt er út í alla anga fótboltans, karla- og kvennafótbolta og fótboltann hér heima og erlendis.   Aðspurður um hvort okkar fólk frá ÍBV og Heimir Hallgrímsson kæmu við í spilinu var svarið jákvætt, „að sjálfsögðu og það talsvert mikið. Heimir hefur unnið hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar ásamt strákunum í landsliðinu. Einn af landsliðsmönnunum, Jóhann Berg Guðmundsson er einn af höfundum spilsins. Landsliðið leikur því stóran þátt í spilinu. Einnig kemur ÍBV talsvert við sögu ásamt þeim frábæru knattspyrnukonum sem ÍBV hefur framleitt, enda spilið mjög fjölbreytt þó aðeins sé spurt út í fótbolta,“ sagði Hörður.

Páll Marvin: Ey stökkpallur inn á stóra sviðið

EY vekur athygli Það er ánægjulegt að markaðsátakið EY vekur athygli og knýr fram viðbrögð enda kannski skiljanlegt þar sem þetta er í fyrsta skipti bærinn ræðst í átak af þessu tagi. Það er einnig gott að fá ábendingar um hvað er hægt að bæta. Auðvitað eru ekki alltaf allir sammála um aðferðafræðina og síðan eru sumir bara í þannig gír eða úr garði gerðir að þeir ætla rífa niður, sama hvað. Líklega hefði ekki skipt neinu máli hvernig þetta verkefni hefði farið af stað þessir aðilar hefðu ekki getað annað en rifið það niður.   En gagnrýni á fyllilega rétt á sér og ber ávallt að taka til skoðunar, þó svo að tilgangur hennar sé ekki alltaf hvatning til að gera betur.     Vonandi stökkupallur inn á stóra sviðið Eyjarnar búa yfir fagfólki á mörgum sviðum, fagfólki sem er vel samkeppnishæft innanlands og jafnvel á alþjóðavettvangi. Verkefnið EY er einmitt ætlað að styðja við bakið á þessu fólki, setja það í forgrunn, kynna það fyrir Vestmannaeyingum, landsmönnum og síðan alþjóð. Verkefnið á ekki að hjálpa þessu fólki með því að kaupa einskiptis þjónustu af viðkomandi, heldur að búa til jarðveg og grunn þar sem þetta fólk, hvort sem það er kokkur, tónlistarmaður, ljósmyndari, jógakennari eða annar fagaðili fær stökkpall inn á stóra sviðið.   ​Gagnrýni á að við séum ekki ráða heimamenn í verkefnið er gagnrýni sem við tökum alvarlega, því Vestmannaeyjabær hefur ávallt litið til heimamarkaðar fyrst þar sem því er við komið. Bæjarstjórn og við sem höfum komið að verkefninu fórum í gegnum þessa umræðu og áttum von á gagnrýni af þessu tagi ef sú leið yrði valin að leita út fyrir Eyjarnar. Niðurstaðan varð hinsvegar sú að við töldum rökin fyrir því sterkari og völdum því utanaðkomandi auglýsingastofu til að setja verkefnið af stað með okkur. Hlutverk auglýsingastofunnar var að hanna átakið og stýra aðgerðum en líkt og Eyjamaðurinn og reynslubolti í auglýsingabransanum, Hlynur Guðlaugsson, bendir á í umræðum á fésbókinni þá er engin stofa í Eyjum sem hefur reynslu og þekkingu til að annast slíkt. Hinsvegar hefur átakið notað ljósmyndara, kvikmyndatökuaðila og aðra fagmenn frá Eyjum til hinna ýmsu verkefna og mun gera það áfram.     Ey ætlað að styðja við útgáfustarf í Eyjum Nokkuð hefur verið rætt um að Vestmannaeyjabær ætli í samkeppni við aðila á markaði í Vestmannaeyjum. Ábyrgðin á þeim misskilningi liggur öll hjá okkur sem stýrt höfum verkefninu. Í ferlinu hefði fyrr þurft að ræða við til að mynda þá sem eru í útgáfustarfi og útskýra betur að allt sem gert verður er til að styðja við það góða starf sem hér er unnið en ekki að valda neikvæðum áhrifum. Þannig er til að mynda stefnt að matarhátíðinni „Gúrmey“án þess að Vestmannaeyjabær ætli að opna veitingastað. Á sama hátt er vilji til að styðja við umfjöllun um allt það jákvæða sem er að gerast án þess að Vestmannaeyjabær ætli sjálfur í viðamikið útgáfustarf. Þeir aðilar sem staðið hafa í eldlínunni á þeim vettvangi eiga heiður skilið fyrir metnaðarfullt starf í tugi ára og rétt eins og „Gúrmey“ er ætlað að standa með veitngastöðum er „EY“ ætlað að styðja við útgáfustarf hér í okkar góða bæ. Þótt ekki séu nema fáeinir dagar síðan verkefni var kynnt er þegar kominn vísir að samstarfi þar að lútandi sem bæjarbúar munu vonandi njóta góðs af. Við hönnun átaksins var farin sú leið að fara ekki í birtingar á dýrum sjónvarpsauglýsingum. Slíkar herferðir eru auðvitað góðar og gildar en þær kosta mikið í bæði framleiðslu og birtingu. Þess í stað var valið að nota vefinn og samfélagsmiðlana. Samfélagsmiðlarnir eru vand með farnir en með því að fara þá leið er verkefnið sett í hendurnar á bæjarbúum. Átakið hefur hinsvegar fengið mjög góðar móttökur enda vandað til verka á öllum sviðum.     Slagorðið Heimaey best Bent hefur verið m.a. á að það hefði átt að styðjast við slagorðið "Til Eyja" og er það vel, sú hugmynd líkt og flest allar hugmyndir sem hafa verið ræddar í tengslum við átakið eru góðra gjalda verðar. En það slagorð rúmast vel inni í orðaleikjunum í tengslum við EY merkið og t.d. ef Markaðsdeild Eimskipa eða aðrir vilja nota Til EYja og tengja sig við átakið þá er það velkomið og einfalt að tengja þar á milli. Slagorð átaksins er hinsvegar Heimaey best og er þar bæði verið að vísa í hið augljósa, þ.e. að Heimaey er best og síðan á orðatiltækið heima er best. En allt er þetta leikur að orðum sem heimamenn, hönnuðir og markaðsmenn fyrirtækja í Eyjum geta nýtt sér í markaðssetningu á sinni vöru og þjónustu.     Páll Marvin Jónsson​  

Fimm fegnu úthlutun frá SASS í Vestmannaeyjum

Verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fjallaði um tillögur fagráðs nýsköpunar og fagráðs menningar um úthlutun styrkveitinga til verkefna úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands, í síðari úthlutun ársins. Alls bárust sjóðnum 98 umsóknir að þessu sinni, þar af 36 nýsköpunarverkefni og 62 menningarverkefni.   Niðurstaða verkefnastjórnar er að veita 47 menningarverkefnum styrki að fjárhæð 21.700.000, kr. og 24 nýsköpunarverkefnum að fjárhæð 14.920.000, kr. Samtals er því 71 verkefni veittur styrkur í síðari úthlutun ársins að fjárhæð 36.620.000, kr.   Hæstu styrkina hlutu Júlíus Magnús Pálsson, 2 mkr. til verkefnisins „Þróun á EC Storage lausnamengi“ í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og Oddafélagið, 1,5 mkr. til verkefnisins „Fornleifaskóli unga fólksins í Odda á Rangárvöllum“ í flokki menningarverkefna.   Þeir aðilar sem fengu úthlutun í Vestmannaeyjum voru, Margrét Lilja Magnúsdóttir fyrir hönd Sæheimar, hlutu styrk uppá 400.000 krónur fyrir Lundapysjur í Vestmannaeyjabæ 2. Leikfélag Vestmannaeyja hlaut tvo stykri, annarsvegar 350.000 krónur  fyrir leikritið Klaufar og Kóngsdætur og hinsvegar 350.000 krónur fyrir Bjartmar - söngleikur. Sagnheimar og Eldheimar fengu 300.000 krónur fyrir menningarheimar mætast, Grísk menningarhátíð. Langa ehf. hlaut tvo styrki, 850.000 krónur fyrir sjálfvirkan fiskþurrkunarklefi og 700.000 krónur fyrir gæludýranammi úr fiskroði, framhaldsverkefni. The brothers brewery hlaut 400.000 krónur fyrir vöruþróun með samvinnu og samstarfi við erlend brugghús.    

Karlakórinn þakkar fyrir sig

Nú þegar að úrslit í sjónvarpsþáttunum Kórar Íslands eru ljós með sigri Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps eru okkur í Karlakór Vestmannaeyja þakklæti efst í huga um leið og við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju.   Þátttaka Karlakórs Vestmannaeyja í þáttunum kostuðu kórinn, kórmeðlimi, stjórnanda, stjórn og undirleikara gríðarmikla vinnu og fjármuni sem hefði verið til einskis ef bakland kórsins á heimavelli, hér í Vestmannaeyjum væri ekki jafn ótrúlegt og sterkt eins og það er. Hér í Eyjum hafa fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki ásamt bæjarfélaginu stutt við kórinn með styrkjum og gjöfum, sem og að kjósa okkur í þáttunum og er það algjörlega ómetanlegt og viljum við í kórnum þakka það innilega. Hagnaður kórsins af þátttökunni er mikill ,þó hann sé ekki metinn í fjármunum, heldur frekar í reynslu og bættum vinnubrögðum, og sýnir um leið hvað við erum vel í stakk búnir til að koma fram og skemmta okkur og öðrum eftir ekki lengri starfstíma, en kórinn var endurstofnaður á vormánuðum árið 2015 og er því rétt rúmlega tveggja ára í þessari mynd. Einnig sýnir þessi mikli stuðningur samheldni okkar Eyjamanna og má hún vera öðrum til eftirbreytni. Hún er okkur í kórnum mikil hvatning til að gera meira og betur í framtíðinni. Kærar hugheilar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning kæru Vestmannaeyingar og aðrir velunnarar Karlakórs Vestmannaeyja.  

Blaðaútgáfa og rekstur prentsmiðja í Eyjum 100 ára.

Þess verður minnst sunnudaginn 12. nóv. nk. kl. 13.00-15.00 á opnu málþingi í Einarsstofu í Safnahúsi að 2017 eru liðin 100 ár frá því blaðaútgáfa og prentsmiðjurekstur hófst í Eyjum. Fyrstu blöðin sem komu út í Vestmannaeyjum voru Fréttir og síðar Skeggi sem var fyrsta verkefni prentsmiðju sem Gísli J. Johnsen keypti til Eyja 1917 og var sett upp í húsinu Edinborg. Undirbúningur þessa merkisatburðar í menningarsögu Eyjanna hefur staðið í nokkurn tíma undir forystu Arnars Sigurmundssonar, Helgu Hallbergsdóttur og Kára Bjarnasonar. Dagskráin verður fjölbreytt og fer fram í Einarsstofu í Safnahúsinu og í framhaldinu verður boðið upp á rútuferð þar sem staldrað verður við á leiðinni á völdum stöðum prentsögunnar.   Á dagskránni munu eftirfarandi flytja stutt erindi: Arnar Sigurmundsson sem mun stikla á stóru yfir söguna frá 1917 og hina fjölskrúðugu blaða- og tímaritaútgáfu og prentsmiðja í Eyjum. Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir sem kynnir Átthagadeild Bókasafnsins. Ómar Garðarsson sem rifjar um eftirminnileg atriði úr liðlega 30 ára blaðamennskuferli. Hermann Einarsson sem fjallar um fyrstu kynni sín af prentsmiðjunni Eyrúnu og Gunnari prentara. Óskar Ólafsson sem segir frá kynnum sínum af lærimeistara sínum Hafsteini Guðmundssyni prentsmiðjustjóra í Hólum, sem bjó sín uppvaxtarár í Eyjum og var einn fremsti bókagerðarmaður landsins. Á milli dagskráratriða mun Sigurmundur G. Einarsson flytja lög eftir ljóðskáld úr Eyjum.   Að þessu loknu, um kl. 14.00, verður boðið upp á rútuferð og staldrað við á nokkrum stöðum þar sem prentsmiðjur hafa verið til húsa og lesinn stuttur texti frá viðkomandi prestsmiðju. Rútuferðinni lýkur um kl. 15.00 við Safnahúsið og verður þá viðstöddum boðið í kaffi. Málþinginu stýrir Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahússins. Allir eru hjartanlega velkomnir á þetta opna málþing og aðgangur ókeypis.    

Safnahelgin hefst í dag

Safnahelgin verður haldin nú um helgina og er dagskráin að vanda glæsileg.   Fimmtudagur:  Kl. 13:30 -15:30 Safnahús: Ljósmyndadagur Safnahúss: Ónafnkenndar myndir úr safni Kjartans Guðmundssonar.Kl. 15:30 Sagnheimar: Stóllinn hans Kjartans – opnun sýningar í Pálsstofu. Hvers virði eru munir án sögu?Kl. 16:30 Stafkirkjan: Setning Safnahelgar. Kristín Halldórsdóttir syngur við undirleik Kitty Kovács.Kl. 17:30 Sagnheimar: Kristín Jóhannsdóttir: Ekki gleyma mér. Útgáfuhóf, allir hjartanlega velkomnir.    Föstudagur: Kl. 15:00 Sæheimar: Opnun ljósmyndasýningar úr pysjueftirlitinu 2017.KL.16:00 Slippurinn: Opnun myndlistarsýningar Ástþórs Hafdísarsonar.Kl. 17:00  Eldheimar: Gísli Pálsson: Fjallið sem yppti öxlum. Útgáfuhóf, allir hjartanlega velkomnir.Kl. 18:00 Einarsstofa: Vita brevis. Opnun myndlistarsýningar Perlu Kristins.   Laugardagur: Kl. 13:00-15:00 Einarsstofa: Bókaforlagið Salka kynnir útgáfubækur 2017 og Sólveig Pálsdóttir, Stefán Gíslason og Sölvi Björn Sigurðsson lesa og kynna nýjar bækur sínar.Kl. 21:00 Eldheimar: Arnór og Helga flytja tónlist Peter, Paul og Mary. Sögumaður Einar Gylfi Jónsson. Aðgangseyrir kr. 1.000.   Sunnudagur: Kl. 12:00-13:00 Sagnheimar: Saga og súpa. Anna K. Kristjánsdóttir kynnir og les úr nýútkominni bók sinni Anna – Eins og ég er.     Opnunartímar safna og sýninga    Sagnheimar:Fimmtudag og föstudag kl. 13-16.Laugardag og sunnudag kl. 12-16. Eldheimar:Fimmtudag til sunnudags kl. 13-17. Sæheimar:Föstudagur kl. 15-18.Laugardag og sunnudag kl. 13-16. Slippurinn:Föstudagur kl. 16-18.Laugardag kl. 14-17.    

Smalað í Álsey - myndir

Hópur manna fór með björgunarbátnum Þór út í Álsey í hádeginu þann 11. oktober. Frændurnir Heiðar Hinriksson og fjallkóngurinn Kristinn Karlsson höfðu farið áður á tuðru Kristins til að gera klárt fyrir smalamenn sem voru á leiðinni. LJósmyndari Eyjafrétta Óskar Pétur Friðriksson var með í för og segir hér frá.     Til stóð að fara mun fyrr í smalaferðina og nota góðan laugardag eða sunnudag til verksins, veðurguðinn er ekki alltaf á sömu skoðun og fjárbændur hvenær veðrið á að vera best þannig að núna varð að fara úr vinnu í miðri viku til að smala fénu og koma því til byggða.   Þegar lagt var að stað í hádeginu á miðvikudeginum, var veður gott og leit vel út með smalaveður. Eftir stutta siglingu með Þór fóru smalamennirnir í land í Álsey. Álsey er þannig gerð að ekki þarf um mikið berg að fara til að komast upp á hana, bergið er um 7 metra hátt en nú vildi svo til að allt var blautt eftir rigningu næturinnar. Bergið var því sleipt og það varð að fara upp með varkárni og passa sig á að renna ekki á sleipu grjótinu, grasið var að sjálfsögðu blautt líka.     Aðrir sem komu með í þessa ferð út í Álsey voru eftirtaldir:   Guðni Hjörleifsson, fjárbóndi, Haraldur Geir Hlöðversson, fjárbóndi, Ágúst Ingi Jónsson, fjárbóndi, Loftur Rúnar Smárason, bifvélavirki, Friðrik Benediktsson, steypubílstjóri, Birkir Helgason, stálsmiður og Jón Helgi Sveinsson, olíubílstjóri, auk frændanna sem áður er getið.   Strax og menn voru búnir að losa sig við bakpoka og töskur er upp á eyjuna var komið, var hafist handa við að gera réttina klára, aðrir fóru að gera leiðara frá réttinni og upp eftir eyjunni til að stýra fénu í réttina. Þegar réttin var tilbúinn fóru þeir menn sem það gerðu upp eftir eyjunni og byrjuðu að smala, við hinir héldum áfarm að gera leiðarann klárann. Nú fór að rigna á okkur og var úrkoma að mestu á meðan við vorum í eyjunni. Um það leiti sem leiðarinn var að verða tilbúinn komu smalamenn með féð og það rann fljótlega í réttina. Nú varð að stía réttina af þar sem ærnar voru settar öðru megin og lömb hinu megin. Þetta gekk vel og ánum var svo sleppt og gengu þær frelsinu fegnar í burtu og átu sitt gras. Ærnar voru ekki að fást um það þó lömbin væru höfð í réttinni, þær fóru sína leið.     Nú fór að styttast í að Lóðsinn kæmi til að sækja lömb og smala. Guðni Hjörleifs og Kristinn fóru að taka niður leiðarann og eftir það í tuðruna til að taka á móti fénu. Tveimur lömbum var komið fyrir í neti sem hengt var í sleppikrók sem hangir í vír sem liggur frá eyjunni og út í sjó, Þar var lömbunum slakað niður í tuðruna sem sigldi með þau út í Lóðsinn en um borð voru þeir Regin húsasmiður og Ingvi pípari sem tóku á móti fénu. Þegar búið var að slaka niður öllum lömbunum og því dóti sem í land átti að fara var lagt af stað aftur til baka, enn var grasið blautt eftir rigningu dagsins og bergið hálft eins og reikna má með. Ég fór fyrstur niður bergið og rólega fór ég, þar sem önnur höndin er hálf ónýt og kraftlítil og því var að vera var um sig og halda fast í bandið til að slasa sig ekki eða hrapa niður. Kristinn fjallkóngur kom á fullu gasi á tuðru sinni og tók mig um borð, eins og alla hina sem í eyjunni voru.   Hér má sjá myndir frá smöluninni  

Samgönguþingi unga fólksins um helgina

Samgönguþingi unga fólksins lauk í gær en á síðari hluta þingsins störfuðu umræðuhópar og síðan var samþykkt ályktun þingsins sem beint er til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Maríanna Jóhannsdóttir og Jón Gauti Úranusson voru meðal fulltrúa.   Fram kom í lokaorðum Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hann sæi fyrir sér að þing sem þetta yrði reglulegur viðburður hjá ráðuneytinu. Hann lýsti ánægju sinni með þátttökuna og afrakstur þingsins sem hann sagði nýtast vel.   Umræðuhóparnir fjölluðu um eftirtalin efni:   Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta. Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill. Bílprófsaldur og nám til bílprófs. Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki. Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum. Samgöngur í framtíðinni. Umræðustjórar beindu spurningum um málefnin til þátttakenda sem settu fram skoðanir sínar og vangaveltur um umræðuefnin. Hér á eftir eru nokkur atriði sem fram komu í hópunum:   Lengja nám til ökuprófs   Samfélagsþjónusta sem viðurlög við umferðarlagabroti Hækka sektir vegna notkunar snjallsíma í 40 þús. kr. Tekjutengja sektir – mánaðarlaun í sekt? Áróður betri en hækkun á sektum Herða refsingar við ítrekuð brot, senda á námskeið ef menn vilja halda bílprófi Áfengismörk verði óbreytt Fleiri hjólastíga – sérstaklega úti á landi og gera hjólreiðar meira spennandi – skylda hjálmanotkun fyrir alla Bæta strætóáætlanir Halda bílprófsaldri – skrá æfingaakstur Rafmagnsbílar – þarf að taka með í reikninginn umhverfisáhrif af framleiðslu rafgeyma og eyðingu þeirra Taka bílpróf í framhaldsskóla til að jafna aðgengi Samþykkt var eftirfarandi ályktun í lok þingsins:   Ályktun samgönguþings unga fólksins 2017   Horfa þarf til ólíkra samgöngumáta við framtíðarskipulag samgangna á Íslandi. Ungt fólk kýs í vaxandi mæli að búa smærra og nota vistvænar samgöngur. Stjórnvöld skulu þó tryggja einstaklingum svigrúm til að velja sér þann samgöngumáta sem það helst kýs, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjólreiðar, einkabíll eða aðrar tegundir samgangna. Fjölga þarf hleðslustöðvum á landinu til þess að flýta fyrir rafbílavæðingu. Styrkja þarf strætókerfið, meðal annars með því að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og bjóða upp á næturstrætó.   Öruggar samgöngur er undirstaða byggðar og atvinnulífs um land allt, meðal annars flug- og skipasamgöngur, og leggja þarf því áherslu á áframhaldandi uppbyggingu vega á landsbyggðinni, meðal annars með tilliti til hraðrar fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum. Klára þarf að malbika hringveginn. Stjórnvöld þurfa að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum á sviði samgangna samkeppnishæft umhverfi, svo sem fyrirtækjum sem bjóða upp á betri nýtingu farartækja og fjármagn í gegnum deilihagkerfið.   Tæknin tekur hröðum breytingum og þess vegna þarf að aðlaga regluverkið að aukinni snjalltækjanotkun í umferðinni. Hækka þarf sektir fyrir notkun þeirra undir stýri og skoða kosti og galla kerfis þar sem sektir eða refsingar komi jafnt við alla tekjuhópa í landinu. Lækka þarf áfengismörk við akstur til þess að draga úr akstri undir áhrifum. Einnig þarf að herða refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum, til dæmis með stigvaxandi sektum eða samfélagsþjónustu.   Samgönguþing unga fólksins telur ekki ástæðu til að hækka bílprófsaldur upp í 18 ár í stað 17 ára, en vill skoða að samræma menntaskólaaldur og bílprófsaldur. Tryggja þarf að æfingaakstur sé nýttur við ökunámið til að undirbúa unga bílstjóra betur undir umferðina. Þingið telur ástæðu til að skoða réttindi og skyldur ungs fólks í víðara samhengi. Rannsóknir benda til þess að fólk sé lengur í áhættuhóp því seinna sem það öðlast ökuréttindi. Telur þingið það ekki vera aldur ökumanna sem auki slysatíðnina, heldur reynsluleysið sem er óhjákvæmilegt hjá nýjum ökumönnum óháð bílprófsaldri.   Ráðast þarf í gerð fleiri hjólreiðastíga til þess að styrkja frekar við hjólreiðar sem samgöngur og gæta þarf að því að fræða hjólreiðamenn um réttindi sín og skyldur í umferðinni samhliða ört vaxandi fjölda hjólreiðamanna á landinu. Skoða þarf lagningu hjólreiðastíga á landsbyggðinni til að hvetja íbúa landsbyggðarinnar til að nýta sér slíkan samgöngumáta.   Einnig þarf að skilgreina notkun léttra bifhjóla með ítarlegri hætti en nú er gert. Tengja þarf allt landið mun betur saman með því að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir alla landsmenn. Fjölga þarf stærri samgöngutengingum, t.d. með hraðlestum og bæta þarf tíðni strætókerfisins og almenningssamgangna um landið allt.  

Helga­fells­mynd á heim­leið

 „Hér í Vest­manna­eyj­um þekkja marg­ir til þessa mál­verks og það skip­ar sér­stak­an sess í sögu­legri vit­und Eyja­manna,“ seg­ir Kári Bjarna­son, for­stöðumaður Safna­húss Vest­manna­eyja. Vest­manna­eyja­bæ var á dög­un­um gefið hið sögu­fræga mál­verk Hefnd Helga­fells eft­ir Guðna Herm­an­sen (1928-1989) list­mál­ara í Eyj­um. Mbl.is sagði frá. Sag­an af þessu verki er mörg­um kunn og þykir nán­ast for­boði þess sem síðar varð. Þannig var að árið 1971 of­bauð Guðna svo mjög mal­ar­taka úr Helga­felli að hann málaði mynd af því er fjallið greip til sinna ráða og kallaði mál­verkið Hefnd Helga­fells. Hann hafði þá ný­verið farið í sína fyrstu og að því er börn hans segja einu mót­mæla­göngu, sem var far­in að hlíðum Helga­fells. Voru skila­boðin sem í verk­inu fólust þau að sá kæmi dag­ur að Helga­fell myndi vakna af dvala árþúsund­anna og launa fyr­ir spjöll­in – sem það líka gerði. Eld­gos kom nán­ast öll­um að óvör­um.  Guðni Herm­an­sen seldi Jó­hönnu Her­manns­dótt­ur frá Vest­manna­eyj­um, sem bú­sett er í New Jers­ey í Banda­ríkj­un­um, mál­verkið árið 1972 og tók hún það með sér til síns heima í Banda­ríkj­un­um. Hún ákvað svo ný­lega að gefa mál­verkið til Vest­manna­eyja og fór Eyjamaður­inn Stefán Hauk­ur Jó­hann­es­son sendi­herra til henn­ar og sótti verkið, sem senn kem­ur til Íslands.  Verður í for­grunniMál­verkið verður síðan form­lega af­hent Vest­manna­eyja­bæ 23. janú­ar á næsta ári, en þá eru liðin rétt 45 ár frá upp­hafi Eyjagoss­ins. Verður þess minnst með ýmsu móti í Eyj­um, svo og þess að á sama ári eru liðin 90 frá fæðingu Guðna Herm­an­sen. Verður mál­verkið fræga í for­grunni sýn­inga á verk­um lista­manns­ins á af­mælis­ár­inu. „Þótt verkið hafi nán­ast alla tíð verið vest­ur í Banda­ríkj­un­um er at­hygl­is­vert hvað það hef­ur ávallt verið mörg­um of­ar­lega í huga. Þetta er dýr­mætt verk sem auðvitað á hvergi bet­ur heima en hér í Eyj­um,“ seg­ir Kári Bjarna­son. Gísli Páls­son mann­fræðing­ur á heiður­inn af því að fá verkið til baka. Hann er frá Bólstað í Vest­manna­eyj­um og í næstu viku kem­ur út bók eft­ir hann, Fjallið sem yppti öxl­um, þar sem eld­gosið í Eyj­um skip­ar stór­an sess. Gísli setti sig í sam­band við Jó­hönnu og í sam­töl­um þeirra kom fram að hún vildi gefa Vest­manna­ey­ing­um verkið, eins og nú hef­ur gengið eft­ir.  Mál­verkið grét„Þessi mynd er hluti af sögu Eyj­anna og átti alltaf að fara þangað. Mér finnst hins veg­ar vænt um mynd­ina og af eig­in­girni hef ég haldið í hana al­veg fram á þenn­an dag,“ sagði Jó­hanna í sam­tali við Morg­un­blaðið. Hún minn­ist þess að árið 1973, fá­ein­um vik­um eft­ir að Eyjagosið hófst, hafi hrotið fram tár úr því; vatns­drop­ar á stærð við títu­prjóns­hausa, sem hún hafi þurrkað upp. Sú skýr­ing hafi verið nefnd við hana að þarna hafi inn­byrgður raki sprottið fram úr máln­ing­unni, en sjálf trú­ir hún því yf­ir­skil­vit­lega og að þarna hafi hefnd Helga­fells birst ljós­lif­andi.  Á myndinni eru, frá vinstri; Stefán Hauk­ur Jó­hann­es­son sendi­herra, Jó­hanna Her­manns­dóttt­ir og Ein­ar Gunn­ars­son, sendi­herra og fasta­full­trúi Íslands hjá Sam­einuðu þjóðunum, þegar þeir tóku við mál­verk­inu sem nú fer til Eyja. 

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.   Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“     Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum? Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.  

Greinar >>

Trausti Hjaltason: Ánægja langt yfir landsmeðaltali

Árlega gerir Gallup þjónustukönnun í sveitarfélögum landsins. Á síðasta fundi Fjölskyldu- og tómstundarráðs var kynntur sá hluti sem snýr að ráðinu. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþrótta- iðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu voru 98% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu sögðust 83% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku sögðust 78% vera ánægð. Allt er þetta vel er yfir landsmeðaltali. Rétt er að óska starfsmönnum sérstaklega til hamingju með þennan árangur og er hann vitnisburður um þann metnað sem ríkir meðal starfsmanna sveitarfélagsins.   Nýjar þjónustuíbúðir Klárlega er hægt að gera betur og innan skamms opnar nýbygging við Hraunbúðir sem bæta mun mikið þjónustu við heimilisfólk sem glímir við heilabilun eins og Alzheimer. Hafinn er undirbúningur að nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Eyjahrauni, byrjað er að hanna nýtt sambýli fyrir fatlaða og fjölga sérhæfðum leiguíbúðum fyrir þá svo eitthvað sé nefnt.   Vel tekist til í Heimaey Á síðasta fundi ráðsins var kynnt starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöðvar. Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og eftir reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks. Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu og þjónustu í málaflokknum. Rétt er að benda á að sífellt er þörf á nýjum heppilegum verkefnum fyrir starfsmenn í verndaðri vinnu og eru fyriræki og félagasamtök hvött til að nýta sér þjónustu sem þar stendur til boða.   Ný álma og starfsmönnum fjölgað á Hraunbúðum Framkvæmdum við nýja álmu við Hraunbúðir er að ljúka og markmiðið er að byrja að nýta hana í febrúar. Hjúkrunarforstjóri er að skipuleggja starfsmannahaldið og starfsemina en starfsmönnum í umönnun mun fjölga við þessar breytingar. Með þessu fjölgar herbergjum á Hraunbúðum og býr þá stofnunin yfir herbergjum í samræmi við þær heimildir sem hún hefur fyrir dvalar- og hjúkrunarrýmum. Nýja álman býður upp á möguleika til að mæta sérhæfðum þörfum þeirra sem mestu þjónustuna þurfa, s.s. fólk með heilabilun. Í nýrri álmu verður salur sem nýtist sem matar- og samverustaður.