Uppnám í nýja bæjarmálafélaginu

Þess vegna er ég með

Ég hef lengi velt því fyrir mér að taka þátt í stjórnmálum og má rekja þann áhuga til þess að ég bý í bæjarfélagi þar sem fólkið gerir kröfu um sterka grunnþjónustu. Breytingar og bæting á þjónustu undanfarin kjörtímabil hefur ekki aðeins verið til fyrirmyndar heldur hafa þessar breytingar verið unnar samfara niðurgreiðslu mikilla skulda sem lágu á bæjarsjóði. Ekki geta mörg sveitarfélög á Íslandi stært sig af sambærilegum, hvað þá betri árangri. Þetta starf hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leitt og það í góðu samstarfi við bæjarfulltrúa úr öðrum flokkum sem er heldur ekki sjálfsagt. Síðasta kjörtímabil einkenndist af góðu samstarfi minnihluta og meirihluta og er það eitthvað sem ég kann að meta.   Í alvöru hugað að fjölskyldufólki   Ef við horfum til verkefna kjörtímabilsins hef ég einna helst orðið var við árangur í flokki fræðslu- og fjölskyldumála. Fyrir fjölskyldumann eins og mig hefur veruleg lækkun leikskólagjalda verið mikil búbót fyrir mig og mína fjölskyldu og verið er að bæta enn frekar við þjónustuna á Kirkjugerði með byggingu nýrrar deildar. Einnig fékk fjölskylda mín að njóta þess hve vel er stutt við þá sem ekki hafa fengið leikskólapláss með niðurgreiðslum. Vel er stutt við þá sem þurfa að vera heima með börnum sínum á meðan beðið er eftir plássi og niðurgreiðsla veitt þeim sem nýta dagforeldra. Þessu til viðbótar má nefna frístundastyrkinn sem nemur kr. 25.000 á barn á ári. Svo dæmi séu tekin kemur það hátt til móts við greiðslu fyrir eina önn í hljóðfæranámi við Tónlistarskólann og hjálpar vel á móti æfingagjöldum hjá ÍBV sem og öðru tómstundarstarfi.   Mikil þróun atvinnulífs með framtíð Vestmannaeyja í huga   Ef við horfum til atvinnulífsins er gríðarleg uppbygging á Fiskiðju- og Ísfélagsreitnum og hátt í 30 nýjar íbúðir í uppbyggingu á svæðinu. Námsframboð verið aukið á háskólastigi og aðstaða bætt í nýju Þekkingarsetri. Þar ber hæst nám í haftengdri nýsköpun, en nú þegar eru nemendur úr því námi farnir að stofna fyrirtæki. Ofan á allt þetta er Merlin Entertainment á leiðinni með hvali sem að mínum dómi er mjög spennandi verkefni sem mun leiða af sér fjölda starfa.   Atvinnulífið í Vestmannaeyjum ber þess merki að Eyjamenn bera traust til grunnþjónustunnar. Það má best sjá á því að fara um götur eins og Vestmannabraut frá Skólavegi og upp á Kirkjuveg og svo þaðan frá Hilmisgötu, Bárugötu og út á Strandveg. Á þessum spotta er ég ekki lengi að telja upp 15 vestmannaeysk fyrirtæki. Þjónustustigið er ofboðslega hátt enda gerum við kröfur. Ég sé það vel í samskiptum við aðkomufólk að þetta þykir ekki eðlilegt þó okkur kunni að finnast það. En það er svo sem ekki mikið að marka okkur alltaf. Okkur finnst til að mynda ekkert eðlilegra en að sjá tvö eldfjöll hlið við hlið þegar við drögum frá gluggum að morgni og hugsum að hvergi myndum við annars staðar vilja vera.   Eins manns land eða samstilltur hópur?   Því er ekki að neita að undanfarnar vikur hafa verið í meira lagi leiðinlegar þegar horft er til átaka og klofnings innan Sjálfstæðisflokksins. Ég sjálfur hef farið í margra hringi í þessum málum og rætt við góða vini með ólík sjónarmið. Sýnin á hlutina er einfaldlega svört og hvít og nú þegar ljóst er að það verður klofningsframboð er hætt við að komandi kjörtímabil   einkennist af átökum. Af ólíkum sýnum litast sú umræða. Fyrir 16 árum síðan lauk kosningum á þann veg að einn flokkur var í oddastöðu og úr varð eitt mesta átakakjörtímabil í manna minnum þar sem meirihlutinn sprakk tvisvar. Það má e.t.v. taka þessu sem hræðsluáróðri. Gott og vel en ég hræðist sannarlega að þetta verði raunveruleikinn. Jafnt traustir sjálfstæðismenn sem aðrir bera ábyrgð á því hvernig málin hafa þróast.   Ég hef kosið að líta til þeirra góðu verka sem unnin hafa verið undanfarið kjörtímabil og tel ómögulegt að við værum á þeim stað sem við erum á nú án þess að allir bæjarfulltrúar og nefndarfólk hafi unnið að fullum heilindum fyrir hagsmuni allra bæjarbúa. Alltaf má deila um aðferðir en þegar ég hef séð halla á hlutina hefur ekki verið mikið mál að ræða það beint og skýrt við bæjarfulltrúa eða bæjarstjóra og fá úr hlutunum skorið og svo er manni þakkað fyrir hreinskilnina.   Það sem að mínu mati hefði mátt gera betur á þessu kjörtímabili sem er að líða undir lok var að halda betur að bæjarbúum því sem vel var gert og auka með því meðvitund bæjarbúa á öflugri vinnu. Slíkt skilar jákvæðri og uppbyggilegri sýn á fallegar og blómlegar Vestmannaeyjar.   Setjum X við D í komandi sveitarstjórnarkosningum   Gísli Stefánsson   Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2018  

Í upphafi kosningavors

Búið að greiða niður yfir 90% af skuldum sveitarfélagsins á þremur kjörtímabilum

Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.720 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.398 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 385 milljónir.    Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 ber það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel. Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 717 milljónir og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri tæpar 930 milljónir.    Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.408 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2017 tæpar 355,9 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar. Að auki komu til gjalda á árinu 2017 tæplega 128,5 milljónir sem eru framlög vegna uppgjörs A-deildar Brúar lífeyrissjóðs.   Skuldaviðmið samstæðu bæjarins er 16,9% og skuldahlutfallið er 110,4%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150%. Veltufé frá rekstri nemur 19,7% af heildartekjum samstæðunar.   Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 12.724 m.kr. í árslok 2017, þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.376 milljónum og hækkaðu þessir liðir um 128 milljónir á milli ára þrátt fyrir að fjárfest hafi verið í varanlegum rekstarfjármunum fyrir tæpar 758 m.kr. Allar fjárfestingar bæjarins eru fjármagnaðar með handbæru fé.   Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 3,41 og eiginfjárhlutfallið er 54,3%. Veltufjárhlutfall samstæðu er 5,26 og eiginfjárhlutfall samstæðunar er 59%.   Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Samhliða því að böndum hefur verið komið á skuldasöfnun og rekstur bættur hefur velferðaþjónusta verið byggð upp og samfélagið lagað að nýjum tímum. Næstu skref í þessari uppbyggingu eru bættar samgöngur með nýrri ferju, fjölgun þjónustuíbúða fyrir aldraða, nýtt sambýli fyrir fatlaða, fjölgun íbúða fyrir öryrkja, stækkun á leikskóla og endurbætur á grunnskólum svo eitthvað sé nefnt.   Vandaður rekstur er það sem best tryggir öfluga og góða þjónustu.   Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum  

Hildur Sólveig og Helga Kristín leiða lista Sjálfstæðisflokksins

Fyrr í kvöld var haldinn fundur í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins þar sem framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar var kynntur og samþykktur. Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Helga Kristín Kolbeinsdóttir munu leiða lista Sjálfstæðisflokksins í sveitastjórnakosningunum í maí. Elliði Vignisson Bæjarstjóri er oddviti og bæjarstjórnarefni listans.   Undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hefur samfélagið okkar tekið framförum á öllum sviðum. Slíkt er ekki sjálfgefið og áfram þarf að vanda til verka. Framboðslistann skipa einstaklingar með víðtæka reynslu úr samfélaginu, reynslu sem mun nýtast við stjórnun sveitarfélagsins. Á listanum eru nýir einstaklingar, í bland við þá reynslumeiri. Fólk úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn. Elliði Vignisson er leiðtogi og bæjarstjóraefni listans. Að hans eigin beiðni skipar hann nú fimmta sæti á framboðslistanum. Elliði Vignisson: „Að vera leiðtogi snýst ekki um stöðu eða sæti, ætli maður sér að vera leiðtogi verður maður að vera tilbúinn til að hlusta og bregðast við. Eftir að hafa leitt listann úr fyrsta sæti í 12 ár tek ég alvarlega umræðu um þörfina á valddreifingu. Ég get að mörgu leyti tekið undir þá skoðun að það fylgir því lýðræðishalli að vera í senn í öruggasta sætinu, vera bæjarstjóraefni, oddviti og sá sem er með langmestu reynsluna. Þessu vil ég mæta með því að færa mig niður í framboðssæti sem að við lítum á sem sæti varabæjarfulltrúa. Ég vil líka líta á það sem skref til að skapa aukna sátt að víkja sætis fyrir ungt og nýtt fólk sem annars hefði ef til vill orðið að víkja af vettvangi bæjarmálanna. Ég kvíði því ekki að leiða listann sem varabæjarfulltrúi enda ríkir mikill einhugur hjá því góða fólki sem skipar framboðlistann. Saman ætlum við leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera góðan bæ enn betri á komandi kjörtímabili.“ Hildur Sólveig Sigurðardóttir skipar fyrsta sæti á listanum, en þetta er í fyrsta sinn í 20 ár sem kona skipar það sæti á framboðslista flokksins. Hildur Sólveig Sigurðardóttir: „Ég er í senn auðmjúk og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með því að taka fyrsta sæti á framboðslistanum. Það er ekki sjálfgefið að ungri konu sé falið hlutverk sem þetta og hvað þá að tvær konur skipi tvö efstu sætin. Þetta tel ég bæði sýna styrk okkar sem flokks sem og þann hug sem reynslumikið fólk í starfi okkar ber til ungs fólks og kvenna. Eitt af því sem helst einkennir okkur frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins er einlægur vilji til þess að halda áfram að gera samfélagið okkar betra og til að gera það mögulegt hikar fólk ekki við að víkja til hliðar eigin hagsmunum fyrir hagsmuni heildarinnar. Við viljum öll taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru af áhuga og festu, til heilla fyrir íbúa Vestmannaeyja.„ Framboðslistinn er sem hér segir: 1.Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari2.Helga Kristín Kolbeins, skólameistari3.Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri4.Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri5.Elliði Vignisson, oddviti og bæjarstjóri6.Margrét Rós Ingólfsdóttir, félagsfræðingur7.Sigursveinn Þórðarson, svæðisstjóri8.Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri9.Andrea Guðjóns Jónasdóttir, sjúkraliði10.Gísli Stefánsson, æskulýðsfulltrúi11.Agnes Stefánsdóttir, framhaldsskólanemi12.Vignir Arnar Svafarsson, sjómaður13.Klaudia Beata Wróbel, nemi og túlkur14.Bragi Ingiberg Ólafsson, eldri borgari Stjórn fulltrúaráðs 

Nýjar reglur vegna brota á umferðarlögum

Helstu verkefni lögreglunar í liðinni viku voru að tveir ökumenn voru stöðvaðir í vikunni sem leið vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna. Þá liggja fyrir fimm aðrar kærur vegna brota á umferðarlögum m.a. vanræksla á notkun öryggisbelta, notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar og akstur án réttinda.     Rétt er að minna á að á vef Samgöngustofu er að finna nýja reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum sem tekur gildi þann 1. maí nk. 1. gr. Sektir allt að 300.000 krónum og sviptingu ökuréttar vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga og reglna, settra samkvæmt þeim, skal ákvarða í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem birtast í viðaukum I-II við reglugerð þessa. Brot sem ekki eru sérstaklega tilgreind í við- aukum með reglugerð þessari, varða sektum frá kr. 20.000 allt að kr. 300.000 eftir eðli og umfangi brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum í viðaukum ef veigamikil rök mæla með því. 2. gr. Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum umferðarlaga, eða reglna settra samkvæmt þeim, skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig. Samtala sekta sem lögreglustjóri lýkur með lögreglustjórasekt má þó aldrei fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem ákveðin er í reglugerð um lögreglustjórasektir. Lögreglustjóra ber að veita sakborningi 25% afslátt af sektarfjárhæð sem ákveðin er í lögreglustjórasekt, ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektar á vettvangi, sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir. 3. gr. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast gildi 1. maí 2018. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim með áorðnum breytingum.  

Utankjörfundar atkvæðagreiðsla hafin

 Öllum framboðslistum til Sveitastjórnakosningar 2018 þarf að skilað inn til þeirrar sem í hlut eiga, ekki seinna en klukkan tólf á hádegi þann 5. maí 2018. Enginn framboðslisti hefur enn verið opinberaður í Vestmannaeyjum. Allar líkur eru á því að listarnir verði þrír og þá verður hægt að setja X við D, E eða H. Á framboðslista þurfa að vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í viðkomandi sveitarstjórn og aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Í Vestmannaeyjum eru bæjarfulltrúarnir sjö, frambjóðendur á lista mega því vera minnst sjö og ekki fleiri en fjórtán. Ef allir þrír listarnir skipa fjórtán mans verða 42 einstaklingar í framboði í Vestmannaeyjum.   Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisfélagsins fékk frest Jarl Sigurgeirsson formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins sagði í samtali við Eyjafréttir að uppstillingarnefnd hafi óskað eftir frest núna í lok mars. „Óskað var eftir að fá nokkurra daga frest til að leggja lokahönd á listann og var orðið við því, “ sagði Jarl. Hann sagði ferlið vera þannig að uppstillingarnefnd skili til stjórnar fulltrúaráðs tillögu að framboðslista. „Þá er boðað til fundar í fulltrúaráði þar sem listinn er lagður fyrir ráðið og hann borinn upp til samþykktar. Að fengnu samþykki fulltrúaráðs er listinn gerður opinber,“ sagði Jarl, og sagði jafnframt að starf uppstillingarnefndar væri á lokametrunum. „Ég á von á að því ljúki nú alveg á næstu dögum.“   Það fer að styttast Haft var samband við Jóhönnu Njálsdóttur sem situr í uppstillingarnefnd fyrir Eyjalistann og sagði hún að listinn yrði opinberaður á allra næstu dögum. „Það fer að styttast í það, framundan er félagsfundur og þar sem við munum leggja fram listann og fá samþykki fyrir honum.“ Á listanum eru fjórtán mans og sagðist Jóhanna afar ánægð með hvernig hann væri skipaður.   Hægt er að kjósa utan kjörfundar Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst á laugardaginn og stendur til kjördags 26. maí 2018, hægt er að kjósa utan kjörfundar hjá Sýslumanni.  

Nú þarf að koma þessu í nefnd

Eins og við sögðum frá í síðustu viku þá var Karl Gauti alþingismaður að leggja fram löngu tímabært frumvarp sem skilgreinir þjóðveg til Vestmananeyja. „Efndanna er vant þá heitið er gefið,“ sagði Karl Gauti í samtali við Eyjafréttir í vikunni. „Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti. Það geta allir verið sammála því að það er afar sérstakt að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. „Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. Í greinargerð um frumvarpið segir að árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Viðbrögð hafa verið ótrúleg „Viðbrögð hafa verið ótrúlega góð, það er engin spurning“ sagði Karl Gauti, en hann sagði einnig að fólk furði sig mikið á því af hverju þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu. „Ég furða mig á því sjálfur.“ Aðalmálið núna er að þetta komist í nefnd, „ef þetta kemst í nefnd er hægt að laga frumvarpið til, breyta og bæta. Endirinn sem ég vil sjá í þessu er að ríkinu sé skylt að halda uppi samgöngum, samkvæmt þörfum, ekki eins og þetta er búið að vera. Það er óboðlegt,“ sagði Karl Gauti að endingu.  

“Efndanna er vant þá heitið er gert”

„Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eða eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti Hjaltason alþingismaður í samtali við Eyjafréttir. Hann sagði einnig að hann hefði lofað þessu í kosningabaráttunni, „Efndanna er vant þá heitið er gert. Það er í raun furðulegt, að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. „Þetta er stór dagur hjá okkur,“ sagði hann að endingu.   Frumvarpið hljóðar svona og mun gagnast líka Grímseyingum, Hríseyingum og Flateyingum       1. gr. Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi: Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem luktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.   2. gr. 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir skv. e-lið 8. gr. til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.   3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.   Greinargerð. Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Það þarf að leysa þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og að auki einnig öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar, sem búseta er í, árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey í Eyjafirði.   Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins. Í máli 4904/2007 fjallaði umboðsmaður Alþingis um kvörtun yfir gjaldtöku vegna afnota af ferjunni m/s Herjólfi, sem sigldi á þeim tíma milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og hækkun Eimskipafélags Íslands ehf. á gjaldskrá ferjunnar í ársbyrjun 2007. Var því m.a. haldið fram að m/s Herjólfur teldist þjóðvegur í skilningi vegalaga. Umboðsmaður komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ferjur yrðu ekki skilgreindar sem þjóðvegir, hvorki samkvæmt núgildandi vegalögum, nr. 80/2007, né eldri vegalögum. Umboðsmaður tók fram að m/s Herjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í samgöngum milli Vestmannaeyja og annarra hluta landsins og hefði hlutverk sem væri að nokkru marki eðlislíkt því hlutverki sem vegir hefðu almennt í samgöngum hér á landi. Þrátt fyrir það var álit umboðsmanns að það atriði eitt og sér leiddi ekki til þess, að virtum ákvæðum vegalaga, að litið yrði á ferjuna sem „þjóðveg“ milli Vestmannaeyja og lands í skilningi vegalaga. Í ljósi þessarar niðurstöðu er það mat flutningsmanns frumvarps þessa að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á vegalögum til að taka af öll tvímæli um þann ásetning löggjafans að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreininguna á þjóðvegum samkvæmt vegalögum. Árið 2017 var unnin ítarleg þjónustugreining fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af RHA, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að krafa íbúa um hreyfanleika er að aukast og fólk vill geta komist á milli lands og Eyja með sem minnstum fyrirvara og að tíðni ferða sé sem mest. Töluvert er um að fólk fari upp á meginlandið til að sækja sér þjónustu, vinnu og afþreyingu. Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki sem treysta á flutninga milli lands og Eyja, svo sem flutning á hráefni fyrir fiskvinnslu og fiskafurðir á markað o.s.frv. Fyrir þessa aðila er mikilvægt að engar tafir verði á flutningum. Einnig kemur fram að tryggar ferjusiglingar eru líka mikilvægar fyrir aðila í ferðaþjónustu. Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið gildi jafnt um íbúa annarra eyja í kringum landið. Í kafla 4.1 greiningarinnar er fjallað um „þjóðveg á milli lands og Eyja“ og þar er m.a. lagt til að Vegagerðin búi til sérstakan þjónustuflokk, eftir að ferjuleiðir verða skilgreindar sem þjóðvegur. Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.    

Íris afþakkaði þriðja sætið á lista Sjálfstæðisflokksins

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar, en þær verða haldnar 26. maí næstkomandi. Lítið hefur verið að frétta af framboðslistum hér í bæ undanfarið. Flokksmenn í Sjálfstæðisflokki Vestmannaeyja hafa ekki verið sammála um hvernig eigi að fara að fyrir komandi kosningar eins og Eyjafréttir hafa greint frá. Í desember felldi fulltrúaráðið þá tillögu að farið yrði í röðun og gekk fólk út af þeim fundi í þeirri trú að framundan væri prófkjör. Annað koma á daginn þegar stjórn fulltrúaráðs boðaði til annars fundar, en á þeim fundi kom fram að kjósa þurfi að nýju þar sem prófkjörið hafi ekki verið samþykkt með lögmætum hætti. Þann 10. janúar sl. var svo kosið gegn því að halda prófkjör og ákveðið að farið skyldi í Röðun. Aðeins sjö frambjóðendur buðu sig fram til Röðunar hjá flokknum, en frambjóðendur þurftu að vera tíu að lágmarki. Niðurstaðan var því uppstilling.   Listinn er alltaf að nálgast fullmótaða mynd Ólafur Elíasson formaður uppstillingarnefndar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum, sagði að staðan hjá uppstillingarnefnd væri góð. „Það er fundað reglulega og listinn er alltaf að nálgast fullmótaða mynd. Vinnan er alveg á tíma, en gert var ráð fyrir að tillaga lægi fyrir áður en þessi mánuður væri úti,“ sagði Ólafur í samtali við Eyjafréttir.   Afþakkaði þriðja sætið Þegar blaðamaður sló á þráðinn til Írisar Róbertsdóttur var hún nýkomin af landsfundi Sjálfstæðismanna. Aðspurð sagði hún að það væri alltaf gaman að taka þátt á landsfundi. „Það er áhugavert og skemmtilegt að taka þátt í þessari lýðræðissamkomu sem landsfundur er,“ sagði Íris. Íris greindi frá því um áramót að hún hefði boðið sig fram hefði verið prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum. Síðan þá hefur hún ekki gefið út hvað hún ætlar að gera fyrir komandi kosningar. Heyrst hefur að annað framboð sé í undirbúningi og þar er hennar nafn oftar en ekki nefnt. Íris vildi ekkert gefa út á það þegar blaðamaður hafði samband við hana. Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum sem vinnur þessa dagana hörðum höndum við að stilla upp lista fyrir komandi sveitastjórnarkosningar bauð Írisi í síðustu viku þriðja sætið á lista þeirra, hún afþakkaði boðið. „Nefndin bauð mér þriðja sæti í síðustu viku og ég fékk sólarhrings umhugsunarfrest. Ég afþakkaði það boð.“ Aðspurð um ástæðu þess sagði Íris: “Ég kýs að tjá mig ekkert frekar um það núna en mun gera það innan tíðar .“   Á lokametrunum Sólveig Adolfsdóttir forsvarsmaður E-listans í Vestmannaeyjum sagði að allt væri þetta að koma heim og saman. „Þetta er allt á lokametrunum hjá okkur. Erum að funda reglulega og erum ekkert að flýta okkur.“ Aðspurð sagði hún að listinn yrði kynntur fyrir mánaðamótin.  

Samgönguráðherra og bæjarstjórn funduðu í gær

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði í dag með bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju.Ráðherra boðaði til fundarins í framhaldi af fjölmennum íbúafundi í Eyjum, 21. febrúar sl. um samgöngur á sjó. Á fundinum með bæjarstjórn var rætt um hvaða rekstrarfyrirkomulag nýrrar ferju myndi tryggja bestu og hagkvæmustu þjónustuna. Fram kom í máli ráðherra að af þeim möguleikum, sem hann fór yfir á íbúafundinum, væri útboð til skemmri tíma, mögulega til tveggja ára, hagkvæmasta leiðin. Ráðherra minnti á að útboð væri almennt viðurkennd leið til að ná hagkvæmri niðurstöðu fyrir almenningssamgöngur, eins og gert er nú á sjó, landi og í lofti, enda sé sú þjónusta sem óskað er eftir vel skilgreind.Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna sem óskuðu eindregið eftir því að gerður yrði samningur við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar.Á fundinum lagði ráðherra til að samráðshópur með fulltrúum Vegagerðarinnar, ráðuneytisins og Vestmannaeyingum kæmi að undirbúningi útboðsskilyrða s.s. skilgreiningu á þjónustu með hag íbúa að leiðarljósi.Engin niðurstaða náðist á fundinum, en fundargestir voru sammála um að markmiðið væri að tryggja hag íbúa Vestmannaeyja, fyrirtækja og annarra sem best.Viðræðum verður haldið áfram og mun ráðherra boða til næsta fundar eftir helgi.

Enn allt á huldu fyrir komandi sveitastjórnakosningar

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar, en þær verða haldnar 26. maí. Lítið hefur verið að frétta af framboðslitum hér í bæ undanfarið.   Ósætti hafa verið í Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja eins og Eyjafréttir hafa greint frá. Í desember felldu fulltrúar fulltrúaráðs þá tillögu að farið yrði í röðun og gekk fólk út af þeim fundi í þeirri trú að framundan væri prófkjör. Annað koma á daginn þegar stjórn fulltrúaráðs boðaði til annars fundar, því ekki hafi prófkjörið verið samþykkt með lögmætum hætti. Þann 10. janúar sl. var svo kosið gegn því að halda prófkjör og ákveðið að farið skyldi í Röðun. Aðeins sjö frambjóðendur buðu sig fram til Röðunar hjá flokknum, en frambjóðendur þurftu að vera tíu að lágmarki. Það verður því farið í uppstillingu.   Uppstillingarnefnd er að funda þessa daganna um komandi lista. „Uppstillinganefndin fundar reglulega og miðar störfum ágætlega. Fleiri fundir verða í þessari viku. Eðli málsins samkvæmt eru engar áfangaskýrslur gefnar út og því ekkert að frétta,“ sagði Ólafur Elíasson, formaður uppstilinganefndar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í samtali við Eyjafréttir.   Annað framboð? Heyrst hefur af undirbúningi annars framboðs, skipað Sjálfstæðismönnum sem annars hefðu boðið sig fram í prófkjöri hjá flokknum. Íris Róbertsdóttir og Elís Jónsson hafa oftast verið nefnd þar. Elís sagði í samtali við Eyjafréttir í febrúar að hann hefði sagt síðan að prófkjörið var fellt að það yrði annað framboð, hann væri tilbúin að leiða það eða einhverjir aðrir. Eins og staðan er í dag verða því væntanlega tvö framboð úr röðum sjálfstæðismanna.   Ekkert heyrist frá E-listanum Eyjafréttir höfðu samband við Sólveigu Adolfsdóttur forsvarsmann E-listans í febrúar. Hún sagðist ekki geta gefið neitt upp neitt þá og ekki vilja þau gefa upp neitt ennþá. Sólveig sagði í febrúar að þau væru að funda, „við erum að vinna í þessu og ætlum að vanda okkur vel. Við funduðum í síðustu viku og ætlum að hittast í þessari.“ sagði Sólveig. „Eitt get ég sagt þér að í fyrsta skipti í mörg ár er ég virkilega sátt með það sem koma skal, það verða ný andlit og góð blanda af fólki,“ sagði Sólveig að lokum.  

Uppstilling hjá Sjálfstæðisflokknum

Í gær rann út framboðsfrestur til röðunar fyrir Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja. Sjö gáfu gáfu kost á sér í Röðun, en frambjóðendur þurfta að vera tíu að lágmarki, skv. samþykkt aðalfundar Fullltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestamannaeyjum. Það verður því farið í uppstillingu. Ólafur Elíasson sagði í samtali við Eyjafrétta að, „Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfél. í Vestm. var samþykkt sl. mánudag að röðun færi fram ef 10 eða fleirri gæfu kost á sér í framboð. Sá fjöldi barst ekki, en sjö framboð bárust og hefur Kjörnefnd því hafið vinnu við uppstillingu eins og samþykktin hvað á um.“ Fyrir þá sem ekki vita hvað uppstilling er, þá er það þegar Kjördæmisráð og fulltrúaráð geta ákveðið að kjósa uppstillingarnefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu um skipan framboðslista flokksins við alþingis- eða sveitarstjórnakosningar. Slík ákvörðun þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna og gildir einungis fyrir einn framboðslista í senn. Tillaga uppstillingarnefndar um skipan framboðslista skal lögð fyrir til afgreiðslu á fundi kjördæmiseða fulltrúaráðs. Heimilt er að ákveða að bæði aðal- og varamenn taki þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna, en þá skal ákvörðun þar um tekin um leið og ákvörðun skv. 1. mgr. þessarar greinar er tekin og með sama hlutfalli atkvæða og gildistíma og þar greinir. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til að samþykkja listann. Miðstjórn setur samræmdar framkvæmdareglur um uppstillingu framboðslista á vegum flokksins.  Sú kjörnefnd sem kosin var til að annast framkvæmd röðunarinnar fær nú það hlutverk að stilla upp á lista Sjálfstæðisflokksins. Nefndina skipa samkvæmt samþykkt fulltrúaráðsfundar: Ólafur Elísson, formaður, Arnar Sigurmundsson, Bragi Magnússon, Elsa Valgeirsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Ingólfur Jóhannesson og Silja Rós Guðjónsdóttir.    

Margrét Rós býður sig fram í 4-5 sæti

Í  gær rann út framboðsfrestur í Röðun Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og í gær sendi ég neðangreinda tilkynningu til kjörnefndar.   "Á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið, hef ég verið formaður Umhverfis– og skipulagsráðs og varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Verkefnin hafa verið mörg, allflest bæði skemmtileg og krefjandi. Ótal ákvarðanir hafa verið teknar, enda dylst fáum hversu miklar framkvæmdir hafa verið hér í bæ síðastliðin ár á sviði skipulags- og byggingarmála. Ég hef lagt mig fram við að hlusta á íbúa, kynna mér málin vel og taka upplýstar ákvarðanir. Heilt yfir er ég ánægð með verkin og ég hef fundið fyrir miklum velvilja og stuðningi, bæði innan Sjálfstæðisflokksins sem og utan. Það traust sem mér hefur verið sýnt, við ákvarðanatöku í ótrúlega stórum málum s.l. fjögur ár er mér mikils virði. Í ljósi þeirrar hvatningar sem ég hef fengið, lýsi ég því hér með yfir að ég hef áhuga, getu og vilja til þess að taka þátt í þeim fjölmörgu spennandi verkefnum sem framundan eru hjá sveitarfélaginu. Ég hef því tekið ákvörðun um að bjóða krafta mína fram í 4.-5. sæti í röðuninni hjá Sjálfstæðisflokknum næstkomandi laugardag. Ég hef mikla trú á að Sjálfstæðisflokkurinn muni bjóða fram öflugan framboðslista í vor. Framboðslista sem er samheldinn, því liðsheild skilar árangri. Lista sem veit að árangur og velgengni byggist ekki á einum manni eða á þröngum hópi, heldur með samstíga sókn góðs hóps." Margrét Rós Ingólfsdóttir

Hildur Sólveig gefur kost á sér í 2.- 3. sæti

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar tilkynnti í dag að hún gefi kost á sér í 2.- 3. sæti við röðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.     Fyrstu skrefin í stjórnmálum Með hækkandi sól fer senn að líða að næstu sveitastjórnarkosningum og er þá gott að horfa yfir farinn veg. Ég fékk þann heiður að verma 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna 2010, þá 27 ára gömul og fékk mína fyrstu nasasjón af virkri stjórnmálaþátttöku. Í kjölfar afgerandi kosningasigurs þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut meirihluta bæjarfulltrúa tókst ég á við krefjandi hlutverk sem formaður þá fræðslu- og menningarráðs Vestmannaeyjabæjar og hef ég setið í fræðsluráði allar götur síðan ýmist sem formaður eða ráðsmaður. Ég er mjög þakklát því trausti sem mér var sýnt á þeim tíma enda hafa störf mín í fræðsluráði reynst mér mikið og dýrmætt veganesti.   Varð óvænt bæjarfulltrúi Við sveitarstjórnarkosningarnar 2014 sat ég sem fastast í 6. sætinu og hélt áfram virkri þátttöku í fræðsluráði. Kosningaúrslit gáfu Sjálfstæðisflokknum hvorki meira né minna en 73% fylgi og þ.a.l. fimm kjörna bæjarfulltrúa í sjö manna bæjarstjórn. Á kjörtímabilinu lét svo Páley Borgþórsdóttir þáverandi formaður bæjarráðs af störfum sínum fyrir sveitarstjórn þegar hún varð lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. Við þær breytingar tók ég sæti sem bæjarfulltrúi árið 2015 og mér treyst fyrir hlutverki forseta bæjarstjórnar. Sú reynsla hefur reynst mér mjög dýrmæt og verið mikill skóli og aftur er ég þakklát því mikla trausti sem mér var sýnt.   Sveitarstjórnarstörf eru ábyrgðarstörf, krefjandi og erfið á tímum en í jafn blómlegu samfélagi og Vestmannaeyjum eru það forréttindi að fá að vinna í þágu samfélagsins þar sem maður er sífellt að upplifa nýja og spennandi hluti, kynnast nýju og ólíku fólki og standa frammi fyrir krefjandi verkefnum. Það þarfnast þó skilnings og stuðnings frá fjölskyldu og vinum að takast á við slík verkefni sem gjarnan eru tímafrek og er ég einstaklega þakklát þeim mikla stuðningi sem fjölskylda og vinir hafa sýnt mér.     Mikil nýliðun og gott samstarf Innan bæjarstjórnar hef ég eignast góða vini, bæði innan meirihluta og minnihluta sem ég ber mikla virðingu fyrir þrátt fyrir ólíkar skoðanir oft á tíðum. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn hafa á þessu kjörtímabili setið þrír nýir og ungir bæjarfulltrúar á Eyverjaaldri sem vissulega hafa lagt mark sitt vel á störf bæjarstjórnar undanfarin ár. Ég hef stolt tekið þátt í þeirri uppbyggingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í samfélaginu á undanförnum árum en framkvæmdagleði hefur sjaldan verið meiri hjá sveitarfélaginu en um þessar mundir. Mikil áhersla hefur verið lögð á þjónustuaukningu við barnafjölskyldur ásamt því að þjónusta við eldri borgara hefur verið efld.   Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn get ég með fullvissu sagt að bæjarstjórn öll hefur unnið að heilindum í þágu hagsmuna íbúa sveitarfélagsins, samvinna verið almennt góð og farsæl og bæjarstjórn gengið í takt í erfiðum málum á borð við samgöngur. Slíkt hefur samfélaginu vissulega reynst gæfuspor því það er engin betri afsökun fyrir ríkisvaldið að fresta stórum ákvörðunum og peningaútlátum en óvissa, óákveðni og ósætti innan raða sveitarstjórna.     Áfram veginn Eftir vandlega íhugun og samtal við nánustu fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2.- 3. sæti við röðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ég er stolt af því að vera félagi í Sjálfstæðisfélagi Vestmannaeyja þar sem fjöldinn allur af öflugu fólki leggur sitt af mörkum við að gera sveitarfélagið okkar eins öflugt og möguleikar standa til. Ég hef gjarnan talað fyrir jöfnum tækifærum kynjanna og rennur mér því vissulega blóðið til skyldunnar að bjóða áfram krafta mína í sveitastjórn sem ung kona. Að því sögðu vona ég þó að fólk líti frekar til starfa minna og þess sem ég hef staðið fyrir á undanförnum árum frekar en kynferðis míns. Ég þakka innilega þá hvatningu sem ég hef fengið á undanförnum vikum og yrði það mér heiður, mikil áskorun og spennandi verkefni að fá að halda áfram störfum mínum í þágu þessa öfluga og óviðjafnanlega samfélags fái ég stuðning til.       Hildur Sólveig Sigurðardóttir Sjúkraþjálfari  

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.   Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“     Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum? Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.  

„Fannst bara tilgangslaust að sitja lengur á þessari leiksýningu“

Elís Jónsson sendi frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að hann hygðist gefa kost á sér í próf­kjöri Sjálfstæðisflokks­ins í Vestmannaeyjum. Elliði Vignisson bæjarstjóri gaf út fyrir áramót að hann gæfi kost á sér áfram óháð því hvaða leið verði farin.   Elís lagði fram breytingartillögu á fundinum þar sem 20 kusu með henni en 27 á móti. Aðspurður sagði Elís að nú þyrfti bara sjá hvað mundi gerast í framhaldinu „þetta var allavega ekki til að létta róðurinn hjá flokknum.“ Elís sagði að málið snúist ekki um hann, „þetta snýst um samfélagið sem við búum í og ef menn telja þetta vænlegt til árangurs þar sem kjörskráin er rúmlega 3100 manns þá nær það ekki lengra.“ Elís fór af fundinum þegar niðurstaðan var ljós „fannst bara tilgangslaust að sitja lengur á þessari leiksýningu.“   „Það var náttúrlega handaupprétting við breytingartillögu minni og það sást svo vel þar hverjir kusu með og móti, 20 með og 27 á móti. Hún snérist bara um að gera tillögu stjórnarinnar um prófkjör raunhæfa, þ.e. bindandi í fyrstu 5 sætin, lámark 10 sem tækju þátt í prófkjöri og prófkjöri yrði lokið fyrir lok febrúar. Satt best að segja veit ég ekki hver rökin eru að vera á móti breytingartillögunni ef þú vilt yfir höfuð prófkjör. Tillagan sambærileg og Sjálfstæðisflokkurinn er að gera í öðrum sveitarfélögum, augljóslega höfðu ekki ákveðnir aðilar áhuga á raunhæfu prófkjöri. Það var óskað eftir leynilegri atkvæðagreiðslu um tillögu stjórnarinnar, það var bindandi fyrir fyrstu 7 sætin, lámark 14 frambjóðendur í prófkjöri og því lokið fyrir lok janúar. Það fór 26 já, 28 nei, 1 auður og 1 ógildur. Svo fór ég bara af fundinum í góðu svo ég segi persónulega frá en eflaust vilja einhverjir meina annað. Boðuð dagskrá var bara um prófkjör og kosningu í kjörnefnd eftir atvikum,“ sagði Elís.   Elís hefur kynnt sér prófkjör vel „prófkjör var samþykkt í Grindavík í gær, það á að halda það 24. febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnanesi hefur haldið prófkjör í öll skipti nema 2010 frá því að það var haldið hér í Eyjum 1990. Þeir hafa haft hreinan meirihluta frá 1962. Þeir auglýstu eftir framboðum 24. nóvember sl., frestur rann út kl. 17 miðvikudaginn 20.desember og nú á laugardaginn 20. janúar fer prófkjörið fram. 2014 voru allavega 12 prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í sambærilegum sveitafélögum eins og okkar (bæjarfulltrúar 7-9) voru 6-9 að taka þátt. Fyrsta prófkjör á Nesinu 9. nóvember 2013 og síðasta 12. apríl 2014 í Rangárþingi ytra. Fátækleg svör voru frá stjórn um afhverju tillaga þeirra var sett upp svona og á framangreindu sést hvað hún var slæm og illa unnin.“   Elís sagði að niðurstaðan væri eitthvað sem maður gat átt von á og kom honum ekki á óvart. 

Rekstur Vestmannaeyjabæjar traustur

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 hefur verið samþykkt í bæjarstjórn og var hún samþykkt með með sjö samhljóða atkvæðum. Þar kemur fram að rekstur Vestmannaeyjabæjar er traustur og þrátt fyrir mikla þjónustuaukningu seinustu ár er gert ráð fyrir rekstrarafgangi. Elliði Vignisson bæjarstjóri birti stutt myndband þess efnis á dögunum þar sem hægt er að sjá svart á hvítu hvernig málin standa.Rekstrartekjur hafa hækkað jafnt og þétt vegna hækkandi tekna í samfélaginu og er helsti tekjustofn Vestmannaeyjabæjar útsvarið. Fræðslu og uppeldismál eru langstærsti rekstrarþáttur bæjarins enda einn af þeim mikilvægu. Seinustu ár hafa vaxtaberandi skuldir verið nánast alveg greiddar upp auk þess sem alltaf er leitað leiða til að hagræða í rekstri og nýta rekstrarbata til að bæta þjónustu við bæjarbúa.      Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2018: Tekjur alls: 3.964.234.000 Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: 4.048.111.000 Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 78.780.000 Veltufé frá rekstri: 525.160.000 Afborganir langtímalána: 26.488.000 Handbært fé í árslok: 900.278.000   Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2018: Rekstarniðurstaða Hafnarsjóðs, 27.857.000 Rekstrarniðurstaða Fráveitu, 1.864.000 Rekstrarniðurstaða félagslegra íbúða: -13.634.000 Hraunbúðir, hjúkrunarheimili: -7.861.000 Veltufé frá rekstri: 127.362.000 Afborganir langtímalána: 29.619.000   Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2018: Tekjur alls: 4.995.901.000 Gjöld alls: 5.054.223.000 Rekstrarniðurstaða,jákvæð: 87.006.000 Veltufé frá rekstri: 652.522.000 Afborganir langtímalána: 56.107.000 Handbært fé í árslok: 900.278.000  

Elliði gefur kost á sér

Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í vor. Elliði sem hefur verið bæjarstjóri síðustu 12 ár segist vera stoltur af þeim verkum sem unnin hafa verið á seinustu árum og vill hann taka þátt í að gera enn betur.  Elliði sagði frá þessu inní heimasíðu sinni fyrr í dag: „Undanfarið hef ég eytt talsverðum tíma í að líta yfir farinn veg og hugsa um framtíðina, vitandi hversu dýrmætur lærdómur það hefur verið mér að hafa gegnt þeirri stöðu sem ég hef gert nú í hartnær 12 ár.   Ég er stoltur af því verki sem unnið hefur verið á þessum árum. Ég er stoltur af því að við búum í samfélagi sem er rekið á ábyrgan hátt. Samfélagi sem hugsar vel um íbúa sína, unga sem aldna. Samfélagi þar sem sóknarfæri eru óþrjótandi og leiða er leitað til að nýta þau. Samfélagi sem gleðst saman þegar sigrar eru og sýnir samkennd þegar harmleikir eiga sér stað. Umfram allt í samfélagi með stórkostlegum íbúum sem ætíð eru tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir samfélagið. Það traust sem mér hefur verið sýnt bæði í kosningum og í störfum mínum og sú vinátta sem ég hef fengið svo ríkulega verður mér um alla tíð afar hjartfólgin.   En ég veit líka að við búum í samfélagi þar sem stundum er tekist á. Sannarlega er margt hægt er að bæta og auðvitað má ætíð gera betur. Á sumum sviðum vildi ég að árangurinn hefði verið meiri, eða í það minnsta að breytingar hefðu verið hraðari. Sumu stjórnum við einfaldlega ekki ein og það getur sannast sagna verið hundfúlt að fá ekki að bera ábyrgð á grunnþáttum samfélags okkar. Í þeim málum hef ég eins og kostur er reynt að leggja mig fram um að niðurstaðan verði ætíð sem hagstæðust fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.   Á síðastliðnum mánuðum hafa fjölmargir spurt mig hvort að ég muni sækjast eftir endurkjöri á næsta kjörtímabili. Eðlilega velta vinir, fjölskylda og samstarfsfólk því fyrir sér og vænt hefur mér þótt um stuðning sem ég hef fundið frá hinum almenna bæjarbúa varðandi þetta.   Lok kjörtímabils er tími uppgjöra. Þá eru verk lögð í dóm kjósenda. Eftir að hafa farið yfir málin með fjölskyldu minni, vinum og samstarfsfólki hef ég tekið ákvörðun um að láta reyna á hvort ég hafi áfram traust Eyjamanna til að vinna sveitarfélaginu gagn. Ég hef því tekið ákvörðun um að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum í vor.    Með þetta í huga hef ég þegar sent bréf til stjórnar fulltrúarráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum þar sem ég geri grein fyrir áhuga mínum á að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum sem fram fara 31. maí næstkomandi. Velji fulltrúaráðið að ganga frá lista með uppstillingu mun ég óska eftir samtali þar að lútandi en verði prókjör fyrir valinu mun ég ganga til slíks óhræddur og fullur af eldmóð.   Ég þakka þeim fjölmörgu sem vikið hafa að mér hvatningu til áframhaldandi starfa á seinustu vikum og óska þess af heilum hug að leiðir okkar liggi áfram saman næstu 4 ár, Vestmannaeyjum til heilla.“ 

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

Eygló Harðardóttir hætti á Alþingi

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gefur ekki kost á sér í næstu Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í morgun. Eygló kveðst lengi hafa verið sannfærð um að þingmennskan eigi ekki að vera ævistarf og hefur talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að þingmaður skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember næstkomandi verða komin níu ár hjá henni. „Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.   Eygló tók sæti á Alþingi árið 2008. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda frá 2013 til 2017. Þá hefur hún verið ritari Framsóknarflokksins síðan 2009.   Eftirfarandi er tilkynning Eyglóar:   Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni. Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.   Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið. Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.   Ég hef lengi verið sannfærð um að þingmennska á ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá mér. Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.   Því mun ég ekki gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.   Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni.   Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni.   www.ruv.is greindi frá.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn