„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
 
Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör
Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“
 
 
Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum?
Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.
 

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

Samþykkt einróma að stofna opinbert hlutafélag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í gær að Vestmannaeyjabær stofni opinbert hlutafélag, þ.e. Herjólf ohf., í því skyni að félagið taki að fullu að sér ábyrgð og rekstur á nýrri farþegaferju (Herjólfur) sem mun alfarið taka að sér farþegaflutninga milli lands og Eyja þegar hún kemur til landsins á haustmánuðum 2018. Samþykkt stofnunar félagsins er í samræmi við þegar samþykktan samning Vestmanneyjabæjar og ríkisins um yfirtöku bæjarins á farþega- og vöruflutningum á sjóleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar.   Enn fremur samþykkir bæjarstjórn að leggja félaginu til kr. 150.000.000 sem stofnfé í samræmi við fyrirliggjandi drög að stofngögnum, sem liggja frammi á fundinum, segir í bókun. Tilgreint hlutafé er hluti af því rekstrarmódeli sem lagt hefur verið til grundvallar samningsins og gerir það ráð fyrir að við lok samningsins verði eigið fé félagsins rúmlega 175.000.000 og stofnfé skili sér til því til baka komi til slita þess við samningslok.   Stjórn félagsins  Með samþykkt tillögu þessarar er bæjarstjóra enn fremur veitt umboð til að ganga frá stofnun félagsins í samræmi við samþykkt þessa, auk fyrirliggjandi draga að stofngögnum, segir í bókun. Þá samþykkir bæjarstjórn enn fremur tilnefningar um að aðalmenn í stjórn félagsins við stofnun þess verði Arndís Bára Ingimarsdóttir, Grímur Gíslason, Kristín Jóhannsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Páll Guðmundsson. Í varastjórn taki sæti Birna Vídó Þórsdóttir og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir.    

E-listinn vildi fara í íbúakosningu

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær var fjallað um samning milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs sem lagður hefur verið fram af hálfu Ríkisins. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn samninginn einróma og þar með að taka við rekstri Herjólfs. Fyrr á fundinum leit samt ekki út fyrir að samþykkið yrði einróma. En varabæjarfulltrúi E-listans lagði fram tillögu á fundinum að bæjarstjórn myndi fresta málinu, boðað yrði til borgarafundar þar sem samningurinn yrði kynntur og í kjölfarið yrði íbúakosning. Þetta breytti töluvert framgangi á fundinum og taka þurfti tvö fundarhlé á honum en hann stóð í tvær klukkustundir. Sjálfstæðismenn töldu hinsvegar að ef þeir myndu samþykja tillögu E-listans að þá væru bæjaryfirvöld að hafna samningsboði ríkisins, en ríkið gaf aðeins 48 klukkustundir til að samþykkja tilboðið.    Svona hljóða bókarnir flokkanna eftir fundinn   E-listinn: E-listinn samþykkir samningin þar sem kveðið er á um að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs en hefði talið æskilegra að boðað hefði verið til borgarafundar þar sem samningurinn yrði kynntur bæjarbúum og í kjölfarið hefði samningurinn verið borinn undir atkvæði bæjarbúa. Niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu hefðu bæjarfulltrúar getað haft til hliðsjónar þegar samningurinn væri borinn undir atkvæði í bæjarstjórn.   Stefán Jónasson (sign) Guðjón Örn Sigtryggsson (sign)   D-listinn: Meirihluti Sjálfstæðismanna fagnar því að E-listi hafi dregið til baka tillögu sem hefði orðið til að samningnum væri hafnað, hefði hún verið samþykkt og tekur undir að sannarlega hefði verið betra að hafa rýmri tíma til úrvinnslu þessa mikilvæga máls.   Í minnisblaði stýrhóps segir að öll töf og/eða fyrirvarar verði séð sem höfnun á samningnum og vera til þess að reksturinn verði boðin út. Ennfremur segir. Af þessum sökum hefur ráðgjafahópurinn fengið skýr skilaboð um að afstaða bæjarstjórnar verði að liggja fyrir í síðasta lagi í þessari viku ef Ríkið á að geta gengið til samninga.   Þar með má öllum ljóst vera að tillaga sú sem E-listinn flutti fyrr á fundinum hefði jafngilt höfnun á samningi þeim sem lagður hefur verið fram og fórnað þeirri gríðalegu þjónustuaukningu sem samningurinn felur í sér fyrir bæjarbúa og náðst hefur með þori og þreki bæjarbúa sjálfra.   Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki stökkva frá þessu gríðalega mikla hagsmunamáli.   Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins taka undir þá kosti íbúafunda og kosninga sem ræddir hafa verið á fundinum og minna á að ákvörðun um yfirtöku á rekstri Herjólfs var tekin á hátt í 500 manna íbúafundi og samþykkt þar einróma.   Elliði Vignisson (sign) Páll Marvin Jónsson (sign) Trausti Hjaltason (sign) Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign) Birna Þórsdóttir (sign)

Leiðin til sjálfstæðra samgangna- mikill ávinningur, lítil áhætta

  Við í Vestmannaeyjum vitum að samgöngur eru eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar. Fyrirtæki treysta á samgöngurnar til aðfanga og koma fullunnum vörum á markað og við íbúarnir til að komast að og frá Eyjum í margvíslegum aðstæðum okkar daglega lífs. Og hver kannast ekki við að ætla að fara upp á land til fundar við fjölskyldu og vini, leita lækninga eða önnur erindi og allt er fullbókað. Hver kannast ekki við að inneignin sé búin á kortinu og þurfa að fylla á það með tugum þúsunda króna sem jafnvel eru ekki til á bankareikningnum.   Þessu mun fyrirliggjandi samningur milli Vestmannaeyjabæjar og ríkisins um rekstur Herjólfs breyta til muna til hins betra. Samgöngur verða miðaðar við þarfir okkar.   Við erum að horfa fram á algjörlega nýja tíma í samgöngumálum, betri þjónustu, betra viðmót og mun lægra verð fyrir okkur sem íbúa hér í Eyjum.   Þegar skrifað hefur verið undir samningin munum við eiga rekstur Herjólfs í opinberu hlutafélagi. Við munum hafa allt um það að segja hvernig við högum þjónustu og ferðum innan þeirra fjárframlaga og innkomu sem kemur inn af rekstrinum. Áhætta bæjarbúa mun verða takmörkuð við og verða aðeins það hlutafé sem lagt verður í reksturinn, en ávinningurinn verður afar mikill.   Í fyrsta lagi mun afsláttur heimamanna af fargjöld verða meiri frá því sem nú er og við þurfum ekki að leggja inn peninga til að fá afsláttinn. Í öðru lagi verður ferðum fjölgað um 600 á ári og skipið verður í notkun 18 tíma á sólarhring, frá kl. 06:30 á morgnanna til miðnættis. Í þriðja lagi verður nýtt og notendavænna bókunarkerfi tekið í notkun sem auðveldar okkur öllum skipulagningu ferða. Í fjórða lagi mun starfsfólki verða fjölgað og þrjár áhafnir verða í vinnu við skipið, sem þýðir fjölskylduvænni vinnutími og meiri sveigjanleiki fyrir hlutaðeigandi.   Við hjá Sjálfstæðisflokknum höfum orðið vör við andstöðu við þetta samkomulag hjá sumum og finnst það skrýtið. En líklega spilar þar bæði inn misskilningur og einnig aðrir hagsmunir en okkar bæjarbúa. Til að verða örugg um þessar framfarir og að þessum samningi verði ekki sagt upp þurfum við aðeins að tryggja meirihluta Sjálfstæðisflokksins, og það gerum við með því að setja X við D.   Helga Kristín Kolbeins skipar 2 sæti sjálfstæðisflokksins        

Mikill árangur í samgöngumálum

Í dag var stórt skref stigið í samgöngumálum Eyjamanna. Skrefi sem vart verður saman jafnað ef frá er talin tilkoma Landeyjahafnar. Herjólfur verður nú loks rekinn af heimamönnum, fyrir heimamenn. Með því að hafa þor og dug til að axla ábyrgð á þessum mikilvæga rekstri færist Herjólfur til muna nær því áratuga markmiði Eyjamanna að hann sé séður sem þjóðvegur og þjónusta og gjaldskrá taki fyrst og fremst mið af því.   Fyrr í dag samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja samning milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs. Undir forystu Sjálfstæðismanna samþykkti bæjarstjórn samninginn og mun þar með taka við rekstri Herjólfs eftir að nýtt skip hefur þjónustu eigi síðar en 8. október 2018.   Framfaraskrefið er sennileg stærra en nokkurn Eyjamann þorði að dreyma um.     Samningurinn sem er til tveggja ára felur í sér:   · Rekstur Herjólfs verður í sjálfstæðu félagi í eigu Vestmannaeyjabæjar sem þýðir að hann verður algerlega og með öllu óháður öðrum rekstri sveitarfélagsins.   · Ferðum mun á samningstímanum fjölga um að lágmarki hátt í 600 á ári. Gert er ráð fyrir áætlunarferðum frá 06.30 á daginn fram til miðnættis.   · Skipið sigli alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum.   · Afsláttur fyrir heimamenn fer úr 40% í 50% og verður veittur án þess að slíkt reyni á inneignakerfi líkt og nú er. Gjaldskrá verður að öðru leyti nánast óbreytt frá því sem nú er. Þar með talið að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.   · Störfum um borð mun fjölga nokkuð frá því sem nú er enda gert ráð fyrir að skipið verði mun meira í notkun. Gert er ráð fyrir þremur áhöfnum og tveimur vöktum hvern dag.   · Herjólfur verður til staðar sem varaskip og nýttur ef þörf verður á.   · Bókunarkerfi verður tekið til algerrar endurskoðunar. Þar með talið er gert ráð fyrir að notendur geti bókað ferðir, greitt þær, breytt bókunum og sinnt öllum öðrum þáttum í gegnum símaforrit og/eða tölvu.   · Upplýsingagjöf til notenda verður stóraukin og höfuðáhersla lögð á þjónustu við heimamenn og gesti þeirra.   · Verði hagnaður af rekstri hins opinbera hlutafélags verður honum varið til að auka þjónustu og/eða lækka gjaldskrá.     Við fögnum þessu risa skrefi í samgöngumálum Vestmannaeyinga, sem vart verður saman jafnað. Við vitum sem er að árangur sem þessi verður ekki til úr engu. Á bak við hann er mikil vinna og ómælt þor. Að okkar mati er öruggt að án forystu Sjálfstæðisflokksins og einlægs og góðs samstarfs við minnihluta E-lista hefði þessi árangur ekki náðst   Við undirrituð erum stolt af því að hafa nú hlotið traust Sjálfstæðismanna til að halda áfram þeim verkum sem þegar hafa verið mótuð og bæta um betur. Gera lífið betra í Vestmannaeyjum. Til þess þurfum við þó stuðning bæjarbúa í komandi kosningum.     Hildur Sólveig Sigurðardóttir   Trausti Hjaltason  

Skýr valkostur

Nú eru rúmar fjórar vikur til kosninga. Frá því að listi Eyjalistans var birtur hafa móttökurnar verið vonum framar. Á listanum er töluverð endurnýjun frá því í síðustu kosningum og gaman er að sjá hve mikið af ungu fólki var nú til í að gefa kost á sér til að vinna að góðum málum fyrir bæjarfélagið. Sjálfur er ég stoltur af því að fá að leiða þennan hóp og hlakka kosninganna.Málefnavinna Eyjalistans er komin á fullt skrið. Við höfum fengið með okkur fólk sem hefur mismunandi reynslu úr samfélaginu og vill taka þátt í því að gera góðan bæ enn betri. Líflegar umræður hafa skapast, meðal annars um það hvernig við getum bætt gæði grunn- og leikskóla, hvernig hægt sé að festa í sessi virkt íbúalýðræði, hvernig auka megi tiltrú almennings á stjórnkerfinu í bænum og hvernig við getum tryggt fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf í bænum.Ljóst er að tryggar samgöngur eru eitt brýnasta hagsmunamál íbúa í Vestmannaeyjum á næstu árum. Á fundi um ferðaþjónustu á Íslandi í Eldheimum á dögunum kom fram bjartsýni ferðaþjónustuaðila til framtíðar. Í mínum huga snúast samgöngumálin ekki um það hvaða aðili sé bestur til þess fallinn að reka Herjólf heldur að ferjan sé rekin með hagsmuni íbúa í Vestmannaeyjum að leiðarljósi. Umræðan á því ekki að snúast um hvern, heldur hvernig. Við þurfum að tryggja öflugar samgöngur sem henta íbúum og atvinnulífi þannig að lífið í bænum geti blómstrað. Þetta þarf að vera leiðarstefið í umræðunni um samgöngumál en ekki hagsmunir fárra aðila.Kosningabaráttan sem nú fer í hönd mun bera keim af innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum sem kristallast í því að nú eru boðnir fram tveir listar sjálfstæðismanna. Jafnvel þó svo að fyrirheit séu gefin um að framboð teygi sig frá hægri til vinstri þarf ekki að fara djúpt ofan í atburði síðustu vikna til að sjá hvernig í pottinn er búið. Valkosturinn er því skýr, áframhaldandi valdatíð sjálfstæðismanna eða nýjar áherslur þar sem raddir allra bæjarbúa fá að njóta sín. 

Með ólíkindum

Það er með ólíkindum að eitt stærsta skemmtifyrirtæki í heimi skuli koma til Vestmannaeyja og fjárfesta fyrir hundruði milljóna líkt og er að gerast á Fiskiðjureitnum. Merlin Entertainment ætlar að byggja stóra sundlaug undir hvali, koma á fót nýju náttúrugripasafni og skapa þannig ný störf og spennandi tækifæri í ferðaþjónustu.   Fiskiðjan blómstrar   Á sama stað má finna nýtt háskólanám í Haftengdri nýsköpun sem var sett á laggirnar nýlega og glæsilega aðstöðu sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja leigir út til fjölmargra fyrirtækja og stofnana. Á þriðju hæð Fiskiðjunnar verða bæjarskrifstofurnar með alla sína starfsemi og þjónustu á sama stað, með meira hagræði og minni rekstrarkostnaði en áður.   Á efstu hæðinni eru síðan einkaaðilar að byggja íbúðir sem verða til sölu á almennum markaði. Þess vegna er blásið lífi í húsið með minni kostnaði fyrir Vestmanneyjabæ og um leið fáum við betri ásýnd og meira líf á þessu fallega svæði.   Stendur undir kostnaði   Eldheimar hafa hlotið fjölmörg verðlaun enda safnið stórglæsilegt og enn ein viðbótin í menningarflóruna í Eyjum. Safnið stendur undir rekstrinum og rúmlega það. Kvika menningarhús er allt orðið hið glæsilegasta og hýsir nýja og glæsilega aðstöðu eldri borgara í Eyjum. Þar hefur Eyjabíó opnað og Leikfélag Vestmannaeyja blómstrar þar í endurbættum sýningarsal.   Látum verkin tala   Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á Hraunbúðum, nýlega opnaði þar deild fyrir fólk sem þarf sérhæfða þjónustu og er því hægt að veita mun sérhæfðari þjónustu en áður. Nú þegar hefur verið hafist handa við að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða og von er á nýjum þjónustuíbúðum fyrir fatlaða á Ísfélagsreitnum í miðbænum. Það má með sanni segja að það séu spennandi tímar framundan á Eyjunni fögru. Það er alltaf best að láta verkin tala.   Trausti Hjaltason   Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.  

Með jákvæðni og gleðina að vopni

Pólitík hefur verið mér hugleikin frá því að ég var unglingur. Ég valdist alltaf til einhverskonar starfa í stjórnum frá því að ég var grunnskóla og þar til ég lauk háskólanámi. Það var svo um síðasta haust að ég fann eftirspurn fyrir því að fólk vildi sjá mig koma nálægt bæjarmálum í Vestmannaeyjum.   Á spjalli mínu við bæjarbúa tók ég eftir því að fólki fannst vanta meiri breidd í ákvarðanatökur og ólík sjónarmið fengju ekki brautargengi til umræðu hér í bæ. Þetta leiddi á endanum til þess að fámennur hópur fór að hittast til að ræða bæjarmálin. Hópurinn stækkaði stöðugt í hvert skipti sem hann hittist og á endanum var þessi hópur orðinn það stór að okkur fannst við þurfa grípa inn og leggja okkar að mörkum til að bæta okkar samfélag.   Þegar fólk úr ólíkum áttum, með breytilegar skoðanir hittist þá verða árekstrar og það þarf að gæta að því að stilla saman strengi til að hljómurinn verði góður. Þetta er eðlilegur hlutur þegar dugmikið fólk sest saman að borði til að mynda sér skoðun og farveg inn í framtíðina. Á tíu dögum tókst okkur að stofna bæjarmálasamtök, setja saman góða stjórn, skipa uppstillinganefnd og koma okkur saman um frábæran framboðslista. Þetta var ekki átakalaust, en allir fengu að láta sína skoðun í ljós og hlutirnir voru ræddir í þaula þar til hópurinn komst að sameiginlegri niðurstöðu.   Listinn var svo samþykktur á fjölmennum fundi í Akóges síðastliðinn sunnudag. Strax í kjölfarið var hafist handa við málefnavinnu og er hún nú í fullum gangi. Enda ekki til setunnar boðið því sveitastjórnarkosningar eru rétt handan við hornið. Mikið af afburðar fólki hefur boðið fram krafta sína til að styrkja stoðir okkar í málefnavinnu og öllu því skipulagi sem til þarf í þessari vegferð sem við erum nú komin í. Okkur hefur fylgt mikill meðbyr alveg frá upphafi og við höfum nýtt hann vel til að sigla áfram seglum þöndum með jákvæðni og gleðina að vopni.   Samfélagið okkar er gott samfélag og ágætlega rekið á mörgum sviðum. Það vantar þó upp á fjölbreytileikann í ákvörðunartökum, meira gegnsæi, opnari umræðu og lýðræðislegri hugsun. Hinn almenni bæjarbúi þarf að geta sagt sína skoðun óhræddur án þess að allt fari í bál og brand þegar áherslupunktar eru valdir um framtíð okkar. Hvort sem um er að ræða hvernig við ljúkum Herjólfsmálinu, Landeyjahöfn og samgöngumálum yfir höfuð, skólamálum og skipulagi. Heilbrigðismál eru okkur hugleikin, þar verðum við talsmenn bættrar þjónustu og þess að bráðveikir og slasaðir fái skjótari flutning ef flytja þarf sjúkling á LSH og svo mætti lengi telja. Það sem skiptir höfuð máli er að fá ólík sjónarmið á borðið, virða allar skoðanir, taka umræðuna og komast að sameiginlegri niðurstöðu.   Með þetta í veganesti ætlum við okkur að gera bæinn okkar betri.   Leó Snær Sveinsson       Höfundur er formaður bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey.  

Viljum að kennarar fái tækifæri til þess að koma til móts við þarfir allra nemenda

Skólamál eru mér ofarlega í huga. Ekki bara vegna þess að ég er grunnskólakennari að mennt og starfa sem slíkur í Grunnskóla Vestmannaeyja, heldur er ég einnig þriggja barna móðir og vil búa á stað þar sem börnin mín fá fyrsta flokks þjónustu. En er Vestmannaeyjabær að veita skóla- og leikskólabörnum toppþjónustu? Þessari spurningu hef ég velt vel fyrir mér og er á þeirri skoðun að alltaf megi gera betur.    Nú er ég, kennarinn, nýkomin heim af skóladegi Barnaskólans. Þar voru verkefni nemenda til sýnis ásamt fullt af skemmtilegri afþreyingu fyrir fjölskyldur. Ég gekk heim úr vinnunni stolt af verkum nemenda minna og stolt af verkum annarra nemenda í skólanum. Ég fylltist líka stolti að vera minnt á hversu öflugt starfsfólk vinnur við skólann og hversu fjölbreytt og skemmtileg verkefni kennarar eru að leggja fyrir nemendur. Það er jú eitt af því sem við kennarar erum sífellt að keppast við.   Á málefnafundum Eyjalistans í vikunni kom fram að fólk er almennt ánægt með starfsemi grunnskólans og leikskólanna. Taldi það að skólarnir væru að spila vel úr þeim spilum sem þeir hafa á hendi. En hafa skólarnir nógu mörg spil á hendi? Það var spurning sem við veltum fyrir okkur.   Við viljum að kennarar fái tækifæri til þess að koma til móts við þarfir allra nemenda með því að efla stoðkerfið þannig að kennarar geti sinnt kennslu og nemendur fái bestu mögulegu þjónustu sem völ er á. Af umræðunni á fundinum að dæma þá höfum við áhyggjur af álagi í starfi kennara Mögulega er álagið meira á kennara þar sem stoðkerfi skólans er ábótavant. Þegar skólarnir voru sameinaðir á sínum tíma var deildarstjórum fækkað úr 5 niður í 2. Grunnskólinn hefur námsráðgjafa í 80% stöðuhlutfalli en staða námsráðgjafa þyrfti að vera 100%. Á þessu skólaári var starfshlutfall skólahjúkrunarfræðings lækkað úr 85% í 75% og deila tveir hjúkrunarfræðingar þeirri stöðu. Þeir þurfa svo að deila tíma sínum í hvoru skólahúsnæði fyrir sig í þessu hlutfalli.   Kallað hefur verið eftir því að ráðinn verði deildarstjóri sérkennslu. Það er mikilvægt að hafa fagaðila innan skólans sem stjórnar og skipuleggur sérkennslu nemenda með náms- og hegðunarörðugleika. Það kæmi til með að létta á því mikla álagi sem er á stjórnendum og umsjónarkennurum skólans. Deildarstjóri sérkennslu kæmi að því að skipuleggja og stjórna framkvæmd nýbúakennslu í skólanum. Við vitum að sá hópur er ört stækkandi í samfélaginu og við þurfum að vinna betur í að koma til móts við þessa íbúa. Þá erum við einnig með hugmyndir um að hafa manneskju í starfi sem sér um móttöku nýbúa í Vestmannaeyjum. Eitt er víst að stoðkerfið þarf að bæta og hjá Eyjalistanum er mikill hugur í fólki að hella sér að fullum krafti í það verkefni.   Á fundinum var rætt um að spjaldtölvuvæða Grunnskólann. Þetta væri hægt að gera í áföngum og byrja á bekkjarsetti fyrir hvern árgang, einn árgang í einu. Ör þróun hefur átt sér stað í kennslu með spjaldtölvum og við viljum halda í við aðra skóla á landinu hvað þetta varðar.   Ennfremur viljum við skoða þá hugmynd að hafa skólabíl fyrir nemendur yngsta stigs í Hamarsskólanum. Þetta kæmi ekki bara til þess að auka þjónustu við nemendur og foreldra heldur er þetta einnig umhverfisvænn kostur og gæti hjálpað til við að greiða úr því umferðaröngþveiti sem stundum myndast á morgnana við Hamarsskólann.   Við ræddum líka þá hugmynd, sem vel var tekið í, að gefa foreldrum meira svigrúm í vali á sumarlokunum í leikskólanum. Hugmyndin var þá að gera eins og tíðkast í mörgum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá yrði lokað á leikskólanum í tvær vikur og foreldrar gætu svo valið frí fyrir börnin, tvær vikur sitthvoru megin við þessar tvær vikur. Með þessu móti geta foreldra að einhverju leiti stjórnað sjálfir sumarleyfi barnanna sinna. Þá yrði þetta til þess að stærri vinnustaðir í Vestmannaeyjum lendi ekki í því að allt barnafólk þurfi frí á sama tíma.   Hér hafa verið teknar saman nokkrar af mörgum góðum ábendingum og hugmyndum sem hafa komið upp hjá Eyjalistanum. Þetta er alls ekki tæmandi listi en við leggjum mikla áherslu á að byggja undir stoðkerfið með hag allra að leiðarljósi.   Helga Jóhanna Harðardóttir      

Uppnám í nýja bæjarmálafélaginu

Þess vegna er ég með

Ég hef lengi velt því fyrir mér að taka þátt í stjórnmálum og má rekja þann áhuga til þess að ég bý í bæjarfélagi þar sem fólkið gerir kröfu um sterka grunnþjónustu. Breytingar og bæting á þjónustu undanfarin kjörtímabil hefur ekki aðeins verið til fyrirmyndar heldur hafa þessar breytingar verið unnar samfara niðurgreiðslu mikilla skulda sem lágu á bæjarsjóði. Ekki geta mörg sveitarfélög á Íslandi stært sig af sambærilegum, hvað þá betri árangri. Þetta starf hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leitt og það í góðu samstarfi við bæjarfulltrúa úr öðrum flokkum sem er heldur ekki sjálfsagt. Síðasta kjörtímabil einkenndist af góðu samstarfi minnihluta og meirihluta og er það eitthvað sem ég kann að meta.   Í alvöru hugað að fjölskyldufólki   Ef við horfum til verkefna kjörtímabilsins hef ég einna helst orðið var við árangur í flokki fræðslu- og fjölskyldumála. Fyrir fjölskyldumann eins og mig hefur veruleg lækkun leikskólagjalda verið mikil búbót fyrir mig og mína fjölskyldu og verið er að bæta enn frekar við þjónustuna á Kirkjugerði með byggingu nýrrar deildar. Einnig fékk fjölskylda mín að njóta þess hve vel er stutt við þá sem ekki hafa fengið leikskólapláss með niðurgreiðslum. Vel er stutt við þá sem þurfa að vera heima með börnum sínum á meðan beðið er eftir plássi og niðurgreiðsla veitt þeim sem nýta dagforeldra. Þessu til viðbótar má nefna frístundastyrkinn sem nemur kr. 25.000 á barn á ári. Svo dæmi séu tekin kemur það hátt til móts við greiðslu fyrir eina önn í hljóðfæranámi við Tónlistarskólann og hjálpar vel á móti æfingagjöldum hjá ÍBV sem og öðru tómstundarstarfi.   Mikil þróun atvinnulífs með framtíð Vestmannaeyja í huga   Ef við horfum til atvinnulífsins er gríðarleg uppbygging á Fiskiðju- og Ísfélagsreitnum og hátt í 30 nýjar íbúðir í uppbyggingu á svæðinu. Námsframboð verið aukið á háskólastigi og aðstaða bætt í nýju Þekkingarsetri. Þar ber hæst nám í haftengdri nýsköpun, en nú þegar eru nemendur úr því námi farnir að stofna fyrirtæki. Ofan á allt þetta er Merlin Entertainment á leiðinni með hvali sem að mínum dómi er mjög spennandi verkefni sem mun leiða af sér fjölda starfa.   Atvinnulífið í Vestmannaeyjum ber þess merki að Eyjamenn bera traust til grunnþjónustunnar. Það má best sjá á því að fara um götur eins og Vestmannabraut frá Skólavegi og upp á Kirkjuveg og svo þaðan frá Hilmisgötu, Bárugötu og út á Strandveg. Á þessum spotta er ég ekki lengi að telja upp 15 vestmannaeysk fyrirtæki. Þjónustustigið er ofboðslega hátt enda gerum við kröfur. Ég sé það vel í samskiptum við aðkomufólk að þetta þykir ekki eðlilegt þó okkur kunni að finnast það. En það er svo sem ekki mikið að marka okkur alltaf. Okkur finnst til að mynda ekkert eðlilegra en að sjá tvö eldfjöll hlið við hlið þegar við drögum frá gluggum að morgni og hugsum að hvergi myndum við annars staðar vilja vera.   Eins manns land eða samstilltur hópur?   Því er ekki að neita að undanfarnar vikur hafa verið í meira lagi leiðinlegar þegar horft er til átaka og klofnings innan Sjálfstæðisflokksins. Ég sjálfur hef farið í margra hringi í þessum málum og rætt við góða vini með ólík sjónarmið. Sýnin á hlutina er einfaldlega svört og hvít og nú þegar ljóst er að það verður klofningsframboð er hætt við að komandi kjörtímabil   einkennist af átökum. Af ólíkum sýnum litast sú umræða. Fyrir 16 árum síðan lauk kosningum á þann veg að einn flokkur var í oddastöðu og úr varð eitt mesta átakakjörtímabil í manna minnum þar sem meirihlutinn sprakk tvisvar. Það má e.t.v. taka þessu sem hræðsluáróðri. Gott og vel en ég hræðist sannarlega að þetta verði raunveruleikinn. Jafnt traustir sjálfstæðismenn sem aðrir bera ábyrgð á því hvernig málin hafa þróast.   Ég hef kosið að líta til þeirra góðu verka sem unnin hafa verið undanfarið kjörtímabil og tel ómögulegt að við værum á þeim stað sem við erum á nú án þess að allir bæjarfulltrúar og nefndarfólk hafi unnið að fullum heilindum fyrir hagsmuni allra bæjarbúa. Alltaf má deila um aðferðir en þegar ég hef séð halla á hlutina hefur ekki verið mikið mál að ræða það beint og skýrt við bæjarfulltrúa eða bæjarstjóra og fá úr hlutunum skorið og svo er manni þakkað fyrir hreinskilnina.   Það sem að mínu mati hefði mátt gera betur á þessu kjörtímabili sem er að líða undir lok var að halda betur að bæjarbúum því sem vel var gert og auka með því meðvitund bæjarbúa á öflugri vinnu. Slíkt skilar jákvæðri og uppbyggilegri sýn á fallegar og blómlegar Vestmannaeyjar.   Setjum X við D í komandi sveitarstjórnarkosningum   Gísli Stefánsson   Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2018  

Í upphafi kosningavors

Búið að greiða niður yfir 90% af skuldum sveitarfélagsins á þremur kjörtímabilum

Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.720 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.398 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 385 milljónir.    Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 ber það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel. Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 717 milljónir og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri tæpar 930 milljónir.    Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.408 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2017 tæpar 355,9 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar. Að auki komu til gjalda á árinu 2017 tæplega 128,5 milljónir sem eru framlög vegna uppgjörs A-deildar Brúar lífeyrissjóðs.   Skuldaviðmið samstæðu bæjarins er 16,9% og skuldahlutfallið er 110,4%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150%. Veltufé frá rekstri nemur 19,7% af heildartekjum samstæðunar.   Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 12.724 m.kr. í árslok 2017, þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.376 milljónum og hækkaðu þessir liðir um 128 milljónir á milli ára þrátt fyrir að fjárfest hafi verið í varanlegum rekstarfjármunum fyrir tæpar 758 m.kr. Allar fjárfestingar bæjarins eru fjármagnaðar með handbæru fé.   Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 3,41 og eiginfjárhlutfallið er 54,3%. Veltufjárhlutfall samstæðu er 5,26 og eiginfjárhlutfall samstæðunar er 59%.   Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2017 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Samhliða því að böndum hefur verið komið á skuldasöfnun og rekstur bættur hefur velferðaþjónusta verið byggð upp og samfélagið lagað að nýjum tímum. Næstu skref í þessari uppbyggingu eru bættar samgöngur með nýrri ferju, fjölgun þjónustuíbúða fyrir aldraða, nýtt sambýli fyrir fatlaða, fjölgun íbúða fyrir öryrkja, stækkun á leikskóla og endurbætur á grunnskólum svo eitthvað sé nefnt.   Vandaður rekstur er það sem best tryggir öfluga og góða þjónustu.   Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum  

Hildur Sólveig og Helga Kristín leiða lista Sjálfstæðisflokksins

Fyrr í kvöld var haldinn fundur í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins þar sem framboðslisti Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar var kynntur og samþykktur. Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Helga Kristín Kolbeinsdóttir munu leiða lista Sjálfstæðisflokksins í sveitastjórnakosningunum í maí. Elliði Vignisson Bæjarstjóri er oddviti og bæjarstjórnarefni listans.   Undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hefur samfélagið okkar tekið framförum á öllum sviðum. Slíkt er ekki sjálfgefið og áfram þarf að vanda til verka. Framboðslistann skipa einstaklingar með víðtæka reynslu úr samfélaginu, reynslu sem mun nýtast við stjórnun sveitarfélagsins. Á listanum eru nýir einstaklingar, í bland við þá reynslumeiri. Fólk úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn. Elliði Vignisson er leiðtogi og bæjarstjóraefni listans. Að hans eigin beiðni skipar hann nú fimmta sæti á framboðslistanum. Elliði Vignisson: „Að vera leiðtogi snýst ekki um stöðu eða sæti, ætli maður sér að vera leiðtogi verður maður að vera tilbúinn til að hlusta og bregðast við. Eftir að hafa leitt listann úr fyrsta sæti í 12 ár tek ég alvarlega umræðu um þörfina á valddreifingu. Ég get að mörgu leyti tekið undir þá skoðun að það fylgir því lýðræðishalli að vera í senn í öruggasta sætinu, vera bæjarstjóraefni, oddviti og sá sem er með langmestu reynsluna. Þessu vil ég mæta með því að færa mig niður í framboðssæti sem að við lítum á sem sæti varabæjarfulltrúa. Ég vil líka líta á það sem skref til að skapa aukna sátt að víkja sætis fyrir ungt og nýtt fólk sem annars hefði ef til vill orðið að víkja af vettvangi bæjarmálanna. Ég kvíði því ekki að leiða listann sem varabæjarfulltrúi enda ríkir mikill einhugur hjá því góða fólki sem skipar framboðlistann. Saman ætlum við leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera góðan bæ enn betri á komandi kjörtímabili.“ Hildur Sólveig Sigurðardóttir skipar fyrsta sæti á listanum, en þetta er í fyrsta sinn í 20 ár sem kona skipar það sæti á framboðslista flokksins. Hildur Sólveig Sigurðardóttir: „Ég er í senn auðmjúk og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með því að taka fyrsta sæti á framboðslistanum. Það er ekki sjálfgefið að ungri konu sé falið hlutverk sem þetta og hvað þá að tvær konur skipi tvö efstu sætin. Þetta tel ég bæði sýna styrk okkar sem flokks sem og þann hug sem reynslumikið fólk í starfi okkar ber til ungs fólks og kvenna. Eitt af því sem helst einkennir okkur frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins er einlægur vilji til þess að halda áfram að gera samfélagið okkar betra og til að gera það mögulegt hikar fólk ekki við að víkja til hliðar eigin hagsmunum fyrir hagsmuni heildarinnar. Við viljum öll taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru af áhuga og festu, til heilla fyrir íbúa Vestmannaeyja.„ Framboðslistinn er sem hér segir: 1.Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari2.Helga Kristín Kolbeins, skólameistari3.Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri4.Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri5.Elliði Vignisson, oddviti og bæjarstjóri6.Margrét Rós Ingólfsdóttir, félagsfræðingur7.Sigursveinn Þórðarson, svæðisstjóri8.Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri9.Andrea Guðjóns Jónasdóttir, sjúkraliði10.Gísli Stefánsson, æskulýðsfulltrúi11.Agnes Stefánsdóttir, framhaldsskólanemi12.Vignir Arnar Svafarsson, sjómaður13.Klaudia Beata Wróbel, nemi og túlkur14.Bragi Ingiberg Ólafsson, eldri borgari Stjórn fulltrúaráðs 

Nýjar reglur vegna brota á umferðarlögum

Helstu verkefni lögreglunar í liðinni viku voru að tveir ökumenn voru stöðvaðir í vikunni sem leið vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna. Þá liggja fyrir fimm aðrar kærur vegna brota á umferðarlögum m.a. vanræksla á notkun öryggisbelta, notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar og akstur án réttinda.     Rétt er að minna á að á vef Samgöngustofu er að finna nýja reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum sem tekur gildi þann 1. maí nk. 1. gr. Sektir allt að 300.000 krónum og sviptingu ökuréttar vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga og reglna, settra samkvæmt þeim, skal ákvarða í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem birtast í viðaukum I-II við reglugerð þessa. Brot sem ekki eru sérstaklega tilgreind í við- aukum með reglugerð þessari, varða sektum frá kr. 20.000 allt að kr. 300.000 eftir eðli og umfangi brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum í viðaukum ef veigamikil rök mæla með því. 2. gr. Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum umferðarlaga, eða reglna settra samkvæmt þeim, skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig. Samtala sekta sem lögreglustjóri lýkur með lögreglustjórasekt má þó aldrei fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem ákveðin er í reglugerð um lögreglustjórasektir. Lögreglustjóra ber að veita sakborningi 25% afslátt af sektarfjárhæð sem ákveðin er í lögreglustjórasekt, ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektar á vettvangi, sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir. 3. gr. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast gildi 1. maí 2018. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim með áorðnum breytingum.  

Utankjörfundar atkvæðagreiðsla hafin

 Öllum framboðslistum til Sveitastjórnakosningar 2018 þarf að skilað inn til þeirrar sem í hlut eiga, ekki seinna en klukkan tólf á hádegi þann 5. maí 2018. Enginn framboðslisti hefur enn verið opinberaður í Vestmannaeyjum. Allar líkur eru á því að listarnir verði þrír og þá verður hægt að setja X við D, E eða H. Á framboðslista þurfa að vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í viðkomandi sveitarstjórn og aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Í Vestmannaeyjum eru bæjarfulltrúarnir sjö, frambjóðendur á lista mega því vera minnst sjö og ekki fleiri en fjórtán. Ef allir þrír listarnir skipa fjórtán mans verða 42 einstaklingar í framboði í Vestmannaeyjum.   Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisfélagsins fékk frest Jarl Sigurgeirsson formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins sagði í samtali við Eyjafréttir að uppstillingarnefnd hafi óskað eftir frest núna í lok mars. „Óskað var eftir að fá nokkurra daga frest til að leggja lokahönd á listann og var orðið við því, “ sagði Jarl. Hann sagði ferlið vera þannig að uppstillingarnefnd skili til stjórnar fulltrúaráðs tillögu að framboðslista. „Þá er boðað til fundar í fulltrúaráði þar sem listinn er lagður fyrir ráðið og hann borinn upp til samþykktar. Að fengnu samþykki fulltrúaráðs er listinn gerður opinber,“ sagði Jarl, og sagði jafnframt að starf uppstillingarnefndar væri á lokametrunum. „Ég á von á að því ljúki nú alveg á næstu dögum.“   Það fer að styttast Haft var samband við Jóhönnu Njálsdóttur sem situr í uppstillingarnefnd fyrir Eyjalistann og sagði hún að listinn yrði opinberaður á allra næstu dögum. „Það fer að styttast í það, framundan er félagsfundur og þar sem við munum leggja fram listann og fá samþykki fyrir honum.“ Á listanum eru fjórtán mans og sagðist Jóhanna afar ánægð með hvernig hann væri skipaður.   Hægt er að kjósa utan kjörfundar Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst á laugardaginn og stendur til kjördags 26. maí 2018, hægt er að kjósa utan kjörfundar hjá Sýslumanni.  

Nú þarf að koma þessu í nefnd

Eins og við sögðum frá í síðustu viku þá var Karl Gauti alþingismaður að leggja fram löngu tímabært frumvarp sem skilgreinir þjóðveg til Vestmananeyja. „Efndanna er vant þá heitið er gefið,“ sagði Karl Gauti í samtali við Eyjafréttir í vikunni. „Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti. Það geta allir verið sammála því að það er afar sérstakt að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. „Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. Í greinargerð um frumvarpið segir að árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Viðbrögð hafa verið ótrúleg „Viðbrögð hafa verið ótrúlega góð, það er engin spurning“ sagði Karl Gauti, en hann sagði einnig að fólk furði sig mikið á því af hverju þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu. „Ég furða mig á því sjálfur.“ Aðalmálið núna er að þetta komist í nefnd, „ef þetta kemst í nefnd er hægt að laga frumvarpið til, breyta og bæta. Endirinn sem ég vil sjá í þessu er að ríkinu sé skylt að halda uppi samgöngum, samkvæmt þörfum, ekki eins og þetta er búið að vera. Það er óboðlegt,“ sagði Karl Gauti að endingu.  

“Efndanna er vant þá heitið er gert”

„Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eða eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti Hjaltason alþingismaður í samtali við Eyjafréttir. Hann sagði einnig að hann hefði lofað þessu í kosningabaráttunni, „Efndanna er vant þá heitið er gert. Það er í raun furðulegt, að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. „Þetta er stór dagur hjá okkur,“ sagði hann að endingu.   Frumvarpið hljóðar svona og mun gagnast líka Grímseyingum, Hríseyingum og Flateyingum       1. gr. Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi: Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem luktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.   2. gr. 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir skv. e-lið 8. gr. til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.   3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.   Greinargerð. Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Það þarf að leysa þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og að auki einnig öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar, sem búseta er í, árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey í Eyjafirði.   Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins. Í máli 4904/2007 fjallaði umboðsmaður Alþingis um kvörtun yfir gjaldtöku vegna afnota af ferjunni m/s Herjólfi, sem sigldi á þeim tíma milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og hækkun Eimskipafélags Íslands ehf. á gjaldskrá ferjunnar í ársbyrjun 2007. Var því m.a. haldið fram að m/s Herjólfur teldist þjóðvegur í skilningi vegalaga. Umboðsmaður komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ferjur yrðu ekki skilgreindar sem þjóðvegir, hvorki samkvæmt núgildandi vegalögum, nr. 80/2007, né eldri vegalögum. Umboðsmaður tók fram að m/s Herjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í samgöngum milli Vestmannaeyja og annarra hluta landsins og hefði hlutverk sem væri að nokkru marki eðlislíkt því hlutverki sem vegir hefðu almennt í samgöngum hér á landi. Þrátt fyrir það var álit umboðsmanns að það atriði eitt og sér leiddi ekki til þess, að virtum ákvæðum vegalaga, að litið yrði á ferjuna sem „þjóðveg“ milli Vestmannaeyja og lands í skilningi vegalaga. Í ljósi þessarar niðurstöðu er það mat flutningsmanns frumvarps þessa að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á vegalögum til að taka af öll tvímæli um þann ásetning löggjafans að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreininguna á þjóðvegum samkvæmt vegalögum. Árið 2017 var unnin ítarleg þjónustugreining fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af RHA, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að krafa íbúa um hreyfanleika er að aukast og fólk vill geta komist á milli lands og Eyja með sem minnstum fyrirvara og að tíðni ferða sé sem mest. Töluvert er um að fólk fari upp á meginlandið til að sækja sér þjónustu, vinnu og afþreyingu. Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki sem treysta á flutninga milli lands og Eyja, svo sem flutning á hráefni fyrir fiskvinnslu og fiskafurðir á markað o.s.frv. Fyrir þessa aðila er mikilvægt að engar tafir verði á flutningum. Einnig kemur fram að tryggar ferjusiglingar eru líka mikilvægar fyrir aðila í ferðaþjónustu. Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið gildi jafnt um íbúa annarra eyja í kringum landið. Í kafla 4.1 greiningarinnar er fjallað um „þjóðveg á milli lands og Eyja“ og þar er m.a. lagt til að Vegagerðin búi til sérstakan þjónustuflokk, eftir að ferjuleiðir verða skilgreindar sem þjóðvegur. Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.    

Íris afþakkaði þriðja sætið á lista Sjálfstæðisflokksins

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar, en þær verða haldnar 26. maí næstkomandi. Lítið hefur verið að frétta af framboðslistum hér í bæ undanfarið. Flokksmenn í Sjálfstæðisflokki Vestmannaeyja hafa ekki verið sammála um hvernig eigi að fara að fyrir komandi kosningar eins og Eyjafréttir hafa greint frá. Í desember felldi fulltrúaráðið þá tillögu að farið yrði í röðun og gekk fólk út af þeim fundi í þeirri trú að framundan væri prófkjör. Annað koma á daginn þegar stjórn fulltrúaráðs boðaði til annars fundar, en á þeim fundi kom fram að kjósa þurfi að nýju þar sem prófkjörið hafi ekki verið samþykkt með lögmætum hætti. Þann 10. janúar sl. var svo kosið gegn því að halda prófkjör og ákveðið að farið skyldi í Röðun. Aðeins sjö frambjóðendur buðu sig fram til Röðunar hjá flokknum, en frambjóðendur þurftu að vera tíu að lágmarki. Niðurstaðan var því uppstilling.   Listinn er alltaf að nálgast fullmótaða mynd Ólafur Elíasson formaður uppstillingarnefndar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum, sagði að staðan hjá uppstillingarnefnd væri góð. „Það er fundað reglulega og listinn er alltaf að nálgast fullmótaða mynd. Vinnan er alveg á tíma, en gert var ráð fyrir að tillaga lægi fyrir áður en þessi mánuður væri úti,“ sagði Ólafur í samtali við Eyjafréttir.   Afþakkaði þriðja sætið Þegar blaðamaður sló á þráðinn til Írisar Róbertsdóttur var hún nýkomin af landsfundi Sjálfstæðismanna. Aðspurð sagði hún að það væri alltaf gaman að taka þátt á landsfundi. „Það er áhugavert og skemmtilegt að taka þátt í þessari lýðræðissamkomu sem landsfundur er,“ sagði Íris. Íris greindi frá því um áramót að hún hefði boðið sig fram hefði verið prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum. Síðan þá hefur hún ekki gefið út hvað hún ætlar að gera fyrir komandi kosningar. Heyrst hefur að annað framboð sé í undirbúningi og þar er hennar nafn oftar en ekki nefnt. Íris vildi ekkert gefa út á það þegar blaðamaður hafði samband við hana. Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum sem vinnur þessa dagana hörðum höndum við að stilla upp lista fyrir komandi sveitastjórnarkosningar bauð Írisi í síðustu viku þriðja sætið á lista þeirra, hún afþakkaði boðið. „Nefndin bauð mér þriðja sæti í síðustu viku og ég fékk sólarhrings umhugsunarfrest. Ég afþakkaði það boð.“ Aðspurð um ástæðu þess sagði Íris: “Ég kýs að tjá mig ekkert frekar um það núna en mun gera það innan tíðar .“   Á lokametrunum Sólveig Adolfsdóttir forsvarsmaður E-listans í Vestmannaeyjum sagði að allt væri þetta að koma heim og saman. „Þetta er allt á lokametrunum hjá okkur. Erum að funda reglulega og erum ekkert að flýta okkur.“ Aðspurð sagði hún að listinn yrði kynntur fyrir mánaðamótin.  

Samgönguráðherra og bæjarstjórn funduðu í gær

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði í dag með bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju.Ráðherra boðaði til fundarins í framhaldi af fjölmennum íbúafundi í Eyjum, 21. febrúar sl. um samgöngur á sjó. Á fundinum með bæjarstjórn var rætt um hvaða rekstrarfyrirkomulag nýrrar ferju myndi tryggja bestu og hagkvæmustu þjónustuna. Fram kom í máli ráðherra að af þeim möguleikum, sem hann fór yfir á íbúafundinum, væri útboð til skemmri tíma, mögulega til tveggja ára, hagkvæmasta leiðin. Ráðherra minnti á að útboð væri almennt viðurkennd leið til að ná hagkvæmri niðurstöðu fyrir almenningssamgöngur, eins og gert er nú á sjó, landi og í lofti, enda sé sú þjónusta sem óskað er eftir vel skilgreind.Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna sem óskuðu eindregið eftir því að gerður yrði samningur við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar.Á fundinum lagði ráðherra til að samráðshópur með fulltrúum Vegagerðarinnar, ráðuneytisins og Vestmannaeyingum kæmi að undirbúningi útboðsskilyrða s.s. skilgreiningu á þjónustu með hag íbúa að leiðarljósi.Engin niðurstaða náðist á fundinum, en fundargestir voru sammála um að markmiðið væri að tryggja hag íbúa Vestmannaeyja, fyrirtækja og annarra sem best.Viðræðum verður haldið áfram og mun ráðherra boða til næsta fundar eftir helgi.

Enn allt á huldu fyrir komandi sveitastjórnakosningar

Nú styttist í sveitastjórnarkosningar, en þær verða haldnar 26. maí. Lítið hefur verið að frétta af framboðslitum hér í bæ undanfarið.   Ósætti hafa verið í Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja eins og Eyjafréttir hafa greint frá. Í desember felldu fulltrúar fulltrúaráðs þá tillögu að farið yrði í röðun og gekk fólk út af þeim fundi í þeirri trú að framundan væri prófkjör. Annað koma á daginn þegar stjórn fulltrúaráðs boðaði til annars fundar, því ekki hafi prófkjörið verið samþykkt með lögmætum hætti. Þann 10. janúar sl. var svo kosið gegn því að halda prófkjör og ákveðið að farið skyldi í Röðun. Aðeins sjö frambjóðendur buðu sig fram til Röðunar hjá flokknum, en frambjóðendur þurftu að vera tíu að lágmarki. Það verður því farið í uppstillingu.   Uppstillingarnefnd er að funda þessa daganna um komandi lista. „Uppstillinganefndin fundar reglulega og miðar störfum ágætlega. Fleiri fundir verða í þessari viku. Eðli málsins samkvæmt eru engar áfangaskýrslur gefnar út og því ekkert að frétta,“ sagði Ólafur Elíasson, formaður uppstilinganefndar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í samtali við Eyjafréttir.   Annað framboð? Heyrst hefur af undirbúningi annars framboðs, skipað Sjálfstæðismönnum sem annars hefðu boðið sig fram í prófkjöri hjá flokknum. Íris Róbertsdóttir og Elís Jónsson hafa oftast verið nefnd þar. Elís sagði í samtali við Eyjafréttir í febrúar að hann hefði sagt síðan að prófkjörið var fellt að það yrði annað framboð, hann væri tilbúin að leiða það eða einhverjir aðrir. Eins og staðan er í dag verða því væntanlega tvö framboð úr röðum sjálfstæðismanna.   Ekkert heyrist frá E-listanum Eyjafréttir höfðu samband við Sólveigu Adolfsdóttur forsvarsmann E-listans í febrúar. Hún sagðist ekki geta gefið neitt upp neitt þá og ekki vilja þau gefa upp neitt ennþá. Sólveig sagði í febrúar að þau væru að funda, „við erum að vinna í þessu og ætlum að vanda okkur vel. Við funduðum í síðustu viku og ætlum að hittast í þessari.“ sagði Sólveig. „Eitt get ég sagt þér að í fyrsta skipti í mörg ár er ég virkilega sátt með það sem koma skal, það verða ný andlit og góð blanda af fólki,“ sagði Sólveig að lokum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.