Hildur Sólveig gefur kost á sér í 2.- 3. sæti

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar tilkynnti í dag að hún gefi kost á sér í 2.- 3. sæti við röðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.     Fyrstu skrefin í stjórnmálum Með hækkandi sól fer senn að líða að næstu sveitastjórnarkosningum og er þá gott að horfa yfir farinn veg. Ég fékk þann heiður að verma 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna 2010, þá 27 ára gömul og fékk mína fyrstu nasasjón af virkri stjórnmálaþátttöku. Í kjölfar afgerandi kosningasigurs þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hlaut meirihluta bæjarfulltrúa tókst ég á við krefjandi hlutverk sem formaður þá fræðslu- og menningarráðs Vestmannaeyjabæjar og hef ég setið í fræðsluráði allar götur síðan ýmist sem formaður eða ráðsmaður. Ég er mjög þakklát því trausti sem mér var sýnt á þeim tíma enda hafa störf mín í fræðsluráði reynst mér mikið og dýrmætt veganesti.   Varð óvænt bæjarfulltrúi Við sveitarstjórnarkosningarnar 2014 sat ég sem fastast í 6. sætinu og hélt áfram virkri þátttöku í fræðsluráði. Kosningaúrslit gáfu Sjálfstæðisflokknum hvorki meira né minna en 73% fylgi og þ.a.l. fimm kjörna bæjarfulltrúa í sjö manna bæjarstjórn. Á kjörtímabilinu lét svo Páley Borgþórsdóttir þáverandi formaður bæjarráðs af störfum sínum fyrir sveitarstjórn þegar hún varð lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. Við þær breytingar tók ég sæti sem bæjarfulltrúi árið 2015 og mér treyst fyrir hlutverki forseta bæjarstjórnar. Sú reynsla hefur reynst mér mjög dýrmæt og verið mikill skóli og aftur er ég þakklát því mikla trausti sem mér var sýnt.   Sveitarstjórnarstörf eru ábyrgðarstörf, krefjandi og erfið á tímum en í jafn blómlegu samfélagi og Vestmannaeyjum eru það forréttindi að fá að vinna í þágu samfélagsins þar sem maður er sífellt að upplifa nýja og spennandi hluti, kynnast nýju og ólíku fólki og standa frammi fyrir krefjandi verkefnum. Það þarfnast þó skilnings og stuðnings frá fjölskyldu og vinum að takast á við slík verkefni sem gjarnan eru tímafrek og er ég einstaklega þakklát þeim mikla stuðningi sem fjölskylda og vinir hafa sýnt mér.     Mikil nýliðun og gott samstarf Innan bæjarstjórnar hef ég eignast góða vini, bæði innan meirihluta og minnihluta sem ég ber mikla virðingu fyrir þrátt fyrir ólíkar skoðanir oft á tíðum. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn hafa á þessu kjörtímabili setið þrír nýir og ungir bæjarfulltrúar á Eyverjaaldri sem vissulega hafa lagt mark sitt vel á störf bæjarstjórnar undanfarin ár. Ég hef stolt tekið þátt í þeirri uppbyggingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í samfélaginu á undanförnum árum en framkvæmdagleði hefur sjaldan verið meiri hjá sveitarfélaginu en um þessar mundir. Mikil áhersla hefur verið lögð á þjónustuaukningu við barnafjölskyldur ásamt því að þjónusta við eldri borgara hefur verið efld.   Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn get ég með fullvissu sagt að bæjarstjórn öll hefur unnið að heilindum í þágu hagsmuna íbúa sveitarfélagsins, samvinna verið almennt góð og farsæl og bæjarstjórn gengið í takt í erfiðum málum á borð við samgöngur. Slíkt hefur samfélaginu vissulega reynst gæfuspor því það er engin betri afsökun fyrir ríkisvaldið að fresta stórum ákvörðunum og peningaútlátum en óvissa, óákveðni og ósætti innan raða sveitarstjórna.     Áfram veginn Eftir vandlega íhugun og samtal við nánustu fjölskyldu og vini hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2.- 3. sæti við röðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Ég er stolt af því að vera félagi í Sjálfstæðisfélagi Vestmannaeyja þar sem fjöldinn allur af öflugu fólki leggur sitt af mörkum við að gera sveitarfélagið okkar eins öflugt og möguleikar standa til. Ég hef gjarnan talað fyrir jöfnum tækifærum kynjanna og rennur mér því vissulega blóðið til skyldunnar að bjóða áfram krafta mína í sveitastjórn sem ung kona. Að því sögðu vona ég þó að fólk líti frekar til starfa minna og þess sem ég hef staðið fyrir á undanförnum árum frekar en kynferðis míns. Ég þakka innilega þá hvatningu sem ég hef fengið á undanförnum vikum og yrði það mér heiður, mikil áskorun og spennandi verkefni að fá að halda áfram störfum mínum í þágu þessa öfluga og óviðjafnanlega samfélags fái ég stuðning til.       Hildur Sólveig Sigurðardóttir Sjúkraþjálfari  

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.   Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“     Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum? Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.  

„Fannst bara tilgangslaust að sitja lengur á þessari leiksýningu“

Elís Jónsson sendi frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að hann hygðist gefa kost á sér í próf­kjöri Sjálfstæðisflokks­ins í Vestmannaeyjum. Elliði Vignisson bæjarstjóri gaf út fyrir áramót að hann gæfi kost á sér áfram óháð því hvaða leið verði farin.   Elís lagði fram breytingartillögu á fundinum þar sem 20 kusu með henni en 27 á móti. Aðspurður sagði Elís að nú þyrfti bara sjá hvað mundi gerast í framhaldinu „þetta var allavega ekki til að létta róðurinn hjá flokknum.“ Elís sagði að málið snúist ekki um hann, „þetta snýst um samfélagið sem við búum í og ef menn telja þetta vænlegt til árangurs þar sem kjörskráin er rúmlega 3100 manns þá nær það ekki lengra.“ Elís fór af fundinum þegar niðurstaðan var ljós „fannst bara tilgangslaust að sitja lengur á þessari leiksýningu.“   „Það var náttúrlega handaupprétting við breytingartillögu minni og það sást svo vel þar hverjir kusu með og móti, 20 með og 27 á móti. Hún snérist bara um að gera tillögu stjórnarinnar um prófkjör raunhæfa, þ.e. bindandi í fyrstu 5 sætin, lámark 10 sem tækju þátt í prófkjöri og prófkjöri yrði lokið fyrir lok febrúar. Satt best að segja veit ég ekki hver rökin eru að vera á móti breytingartillögunni ef þú vilt yfir höfuð prófkjör. Tillagan sambærileg og Sjálfstæðisflokkurinn er að gera í öðrum sveitarfélögum, augljóslega höfðu ekki ákveðnir aðilar áhuga á raunhæfu prófkjöri. Það var óskað eftir leynilegri atkvæðagreiðslu um tillögu stjórnarinnar, það var bindandi fyrir fyrstu 7 sætin, lámark 14 frambjóðendur í prófkjöri og því lokið fyrir lok janúar. Það fór 26 já, 28 nei, 1 auður og 1 ógildur. Svo fór ég bara af fundinum í góðu svo ég segi persónulega frá en eflaust vilja einhverjir meina annað. Boðuð dagskrá var bara um prófkjör og kosningu í kjörnefnd eftir atvikum,“ sagði Elís.   Elís hefur kynnt sér prófkjör vel „prófkjör var samþykkt í Grindavík í gær, það á að halda það 24. febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnanesi hefur haldið prófkjör í öll skipti nema 2010 frá því að það var haldið hér í Eyjum 1990. Þeir hafa haft hreinan meirihluta frá 1962. Þeir auglýstu eftir framboðum 24. nóvember sl., frestur rann út kl. 17 miðvikudaginn 20.desember og nú á laugardaginn 20. janúar fer prófkjörið fram. 2014 voru allavega 12 prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í sambærilegum sveitafélögum eins og okkar (bæjarfulltrúar 7-9) voru 6-9 að taka þátt. Fyrsta prófkjör á Nesinu 9. nóvember 2013 og síðasta 12. apríl 2014 í Rangárþingi ytra. Fátækleg svör voru frá stjórn um afhverju tillaga þeirra var sett upp svona og á framangreindu sést hvað hún var slæm og illa unnin.“   Elís sagði að niðurstaðan væri eitthvað sem maður gat átt von á og kom honum ekki á óvart. 

Rekstur Vestmannaeyjabæjar traustur

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 hefur verið samþykkt í bæjarstjórn og var hún samþykkt með með sjö samhljóða atkvæðum. Þar kemur fram að rekstur Vestmannaeyjabæjar er traustur og þrátt fyrir mikla þjónustuaukningu seinustu ár er gert ráð fyrir rekstrarafgangi. Elliði Vignisson bæjarstjóri birti stutt myndband þess efnis á dögunum þar sem hægt er að sjá svart á hvítu hvernig málin standa.Rekstrartekjur hafa hækkað jafnt og þétt vegna hækkandi tekna í samfélaginu og er helsti tekjustofn Vestmannaeyjabæjar útsvarið. Fræðslu og uppeldismál eru langstærsti rekstrarþáttur bæjarins enda einn af þeim mikilvægu. Seinustu ár hafa vaxtaberandi skuldir verið nánast alveg greiddar upp auk þess sem alltaf er leitað leiða til að hagræða í rekstri og nýta rekstrarbata til að bæta þjónustu við bæjarbúa.      Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2018: Tekjur alls: 3.964.234.000 Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: 4.048.111.000 Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 78.780.000 Veltufé frá rekstri: 525.160.000 Afborganir langtímalána: 26.488.000 Handbært fé í árslok: 900.278.000   Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2018: Rekstarniðurstaða Hafnarsjóðs, 27.857.000 Rekstrarniðurstaða Fráveitu, 1.864.000 Rekstrarniðurstaða félagslegra íbúða: -13.634.000 Hraunbúðir, hjúkrunarheimili: -7.861.000 Veltufé frá rekstri: 127.362.000 Afborganir langtímalána: 29.619.000   Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2018: Tekjur alls: 4.995.901.000 Gjöld alls: 5.054.223.000 Rekstrarniðurstaða,jákvæð: 87.006.000 Veltufé frá rekstri: 652.522.000 Afborganir langtímalána: 56.107.000 Handbært fé í árslok: 900.278.000  

Elliði gefur kost á sér

Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í vor. Elliði sem hefur verið bæjarstjóri síðustu 12 ár segist vera stoltur af þeim verkum sem unnin hafa verið á seinustu árum og vill hann taka þátt í að gera enn betur.  Elliði sagði frá þessu inní heimasíðu sinni fyrr í dag: „Undanfarið hef ég eytt talsverðum tíma í að líta yfir farinn veg og hugsa um framtíðina, vitandi hversu dýrmætur lærdómur það hefur verið mér að hafa gegnt þeirri stöðu sem ég hef gert nú í hartnær 12 ár.   Ég er stoltur af því verki sem unnið hefur verið á þessum árum. Ég er stoltur af því að við búum í samfélagi sem er rekið á ábyrgan hátt. Samfélagi sem hugsar vel um íbúa sína, unga sem aldna. Samfélagi þar sem sóknarfæri eru óþrjótandi og leiða er leitað til að nýta þau. Samfélagi sem gleðst saman þegar sigrar eru og sýnir samkennd þegar harmleikir eiga sér stað. Umfram allt í samfélagi með stórkostlegum íbúum sem ætíð eru tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir samfélagið. Það traust sem mér hefur verið sýnt bæði í kosningum og í störfum mínum og sú vinátta sem ég hef fengið svo ríkulega verður mér um alla tíð afar hjartfólgin.   En ég veit líka að við búum í samfélagi þar sem stundum er tekist á. Sannarlega er margt hægt er að bæta og auðvitað má ætíð gera betur. Á sumum sviðum vildi ég að árangurinn hefði verið meiri, eða í það minnsta að breytingar hefðu verið hraðari. Sumu stjórnum við einfaldlega ekki ein og það getur sannast sagna verið hundfúlt að fá ekki að bera ábyrgð á grunnþáttum samfélags okkar. Í þeim málum hef ég eins og kostur er reynt að leggja mig fram um að niðurstaðan verði ætíð sem hagstæðust fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.   Á síðastliðnum mánuðum hafa fjölmargir spurt mig hvort að ég muni sækjast eftir endurkjöri á næsta kjörtímabili. Eðlilega velta vinir, fjölskylda og samstarfsfólk því fyrir sér og vænt hefur mér þótt um stuðning sem ég hef fundið frá hinum almenna bæjarbúa varðandi þetta.   Lok kjörtímabils er tími uppgjöra. Þá eru verk lögð í dóm kjósenda. Eftir að hafa farið yfir málin með fjölskyldu minni, vinum og samstarfsfólki hef ég tekið ákvörðun um að láta reyna á hvort ég hafi áfram traust Eyjamanna til að vinna sveitarfélaginu gagn. Ég hef því tekið ákvörðun um að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum í vor.    Með þetta í huga hef ég þegar sent bréf til stjórnar fulltrúarráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum þar sem ég geri grein fyrir áhuga mínum á að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum sem fram fara 31. maí næstkomandi. Velji fulltrúaráðið að ganga frá lista með uppstillingu mun ég óska eftir samtali þar að lútandi en verði prókjör fyrir valinu mun ég ganga til slíks óhræddur og fullur af eldmóð.   Ég þakka þeim fjölmörgu sem vikið hafa að mér hvatningu til áframhaldandi starfa á seinustu vikum og óska þess af heilum hug að leiðir okkar liggi áfram saman næstu 4 ár, Vestmannaeyjum til heilla.“ 

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

Eygló Harðardóttir hætti á Alþingi

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gefur ekki kost á sér í næstu Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í morgun. Eygló kveðst lengi hafa verið sannfærð um að þingmennskan eigi ekki að vera ævistarf og hefur talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að þingmaður skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember næstkomandi verða komin níu ár hjá henni. „Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.   Eygló tók sæti á Alþingi árið 2008. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda frá 2013 til 2017. Þá hefur hún verið ritari Framsóknarflokksins síðan 2009.   Eftirfarandi er tilkynning Eyglóar:   Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni. Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.   Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið. Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.   Ég hef lengi verið sannfærð um að þingmennska á ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá mér. Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.   Því mun ég ekki gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.   Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni.   Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni.   www.ruv.is greindi frá.  

Elliði: Ég kem ekki til með að sakna þessarar ríkisstjórnar

Elliði Vignisson sagði í samtali við Eyjafréttir að hann kæmi ekki til með að sakna þessarar ríkisstjórnar, þegar hann var spurður út í afdrif helgarinnar. „ Ég var á móti þessu samstarfi við upphaf þess og óttaðist að erfitt yrði að stóla á flokka eða flokksbrot sem ekki eiga sér sögu, innrigerð og trausta stefnu. Hitt er svo annað að fátt er þróuðu ríki eins og okkar skaðlegra en stjórnarkreppa, losung og óvissa. Það þarf trausta stjórn ef ekki á illa að fara og akkúrat núna þá höfum við hana ekki og alger óvissa framundan “ sagði Elliði. Aðspurður um áhrif stjórnarslitanna hafi á Vestmannaeyjar, „ Við Eyjamenn eigum mikið undir ríkisvaldinu og þá ekki síst í því sem snýr að samgöngum og heilbrigðismálum. Við erum núna að taka fyrst skref í samræðum við ríkið um yfirtöku okkar heimamanna á rekstri Herjólfs og það væri slæmt ef það færi á núllreit í enn eitt skiptið. Svipaða sögu er að segja um hvalaverkefnið okkar það er enn í einhverri óvissu innan stjórnkerfisins auk margra annrra smærri verkefna. Kosningar setja allt á hliðina og virka sem síróp í kerfið. Við bregðumst þó bara við því með auknum krafti og lengri vinnudögum. Ég óttast það því ekki mikið.   Elliði er sáttur við sitt fólk í sínu kjördæmi „ nú fær fólk tækifæri til að leggja verk sín í dóm kjósenda. Mín skoðun að þingmennirnir okkar, og þá ekki síst Eyjamennirnir Páll Magnússon oddviti og Ásmundur Friðriksson hafi staðið sig vel í þessa 10 mánuði og því ekki rík ástæða til að gera miklar breytingar. Á sama máta hefur mér fundist Unnur Brá og Vilhjálmur standa sig vel“          

Páll Magnússon: Hefði átt að upplýsa um málið strax í júlí

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að upplýsa hefði átt um undirritun Benedikts Sveinssonar, föður forsætisráðherra, á umsagnarbréf um uppreist æru strax í lok júlí. Hafi verið einhverjir lagalegir ágallar á því þá hefði átt að fá Benedikt sjálfan til að upplýsa um málið.  Páll Magnússon gerði í Silfrinu í morgun athugasemd við viðbrögð flokksins eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra hefði mælt með því að Hjalti Sigurjón Hauksson, sem dæmdur var fyrir barnaníð, fengi uppreist æru. Páll segir að viðbrögðin hafi virkað eins og flokkurinn væri að svara miklum harmi með lagastagli og formreglum.   „Við hefðum getað haldið betur á þessu því að sannarlega er það ekki svoleiðis að að það sé meiri biðlund, meiri samúð hjá fólki í Sjálfstæðisflokknum með barnaníðingum eða minni samúð með fórnarlömbum þeirra en hjá öðru almennilegu fólki. En fyrir marga virkaði þetta þannig að við værum að svara þessu með lagastagli. Það er mín skoðun að þegar það verður ljóst í júlí að faðir forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins hafi skrifað undir þetta umsagnarbréf, þá er ég þeirrar skoðunar að það hefði átt að segja frá því strax og ef menn teldu einhverja lagalega skavanka á því þá, þá átti að reyna að fá Benedikt Sveinsson til að gera þetta bara að eigin frumkvæði. Þetta hefði verið betur séð.“   Páll segist hafa skilning á því sjónarmiði Bjarna Benediktssonar að hann hefði viljað meðhöndla mál Hjalta eins og mál Róberts Downey, sem þá var komið í ákveðið ferli. „Þetta finnst mér skiljanlegt sjónarmið og vel hægt að rökstyðja það. Ég hins vegar ekki sammála því. Mér finnst að það hefði átt að meðhöndla þetta mál öðruvísi í júlí.“     www.ruv.is greindi frá.

Mikil vonbrigði að gengið var framhjá oddvita flokksins

Oddvitar meiri- og minnihluta settust niður og komust að niðurstöðu um stærstu málin

 Í lok nýliðins árs samþykkti bæjarstjórn með sjö samhljóða atkvæðum fjárhagsáætlun fyrir árið 2017. Breyta varð fjárhagsáætluninni vegna nýgerðra samninga við kennara en í sameiginlegri bókun áréttaði bæjarstjórn að breytingin hefði ekki áhrif á ákvarðanir um þjónustuaukningu svo sem frístundastyrk, heimagreiðslur og fjölgun leikskólaplássa. Kom þetta á óvart því venjan er að minnihlutinn láti finna fyrir sér þegar kemur að afgreiðslu fjárhagsáætlunar.   Samkvæmt áætluninni verða tekjur sveitarsjóðs 3,8 milljarðar og gjöld alls fyrir fjármagnsliði 3,75 milljarðar. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 53 milljónir, veltufé frá rekstri 482 milljónir, afborganir langtímalána 26,75 milljónir og handbært fé í árslok verður 2 milljarðar og 867 milljónir. Í fjárhagsáætlun samstæðunnar er gert ráð fyrir að tekjur verði alls 4 milljarðar og 625 milljarðar, gjöld alls 4 milljarðar og 128 milljónir, rekstrarniðurstaða er jákvæð um 93 milljónir, veltufé frá rekstri 623 milljónir, afborganir langtímalána 56 milljónir og handbært fé í árslok verður 2 milljarðar og 867 milljónir króna. „Það eru ekki mörg sveitarfélög sem geta státað sig af betri stöðu en við en rekstrarniðurstaðan, 93 milljónir hjá samstæðunni veldur áhyggjum,“ sagði Stefán Jónasson, oddviti minnihluta Eyjalistans í bæjarstjórn. „Svo á eftir að koma í ljós hvort áætlunin stenst eða ekki. Nú stendur yfir verkfall sjómanna og á meðan fáum við ekki tekjur. Við gerum ráð fyrir einhverri loðnuveiði en útlitið þar ekki bjart,“ bætti Stefán við. Það vakti athygli að fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða og að minnihlutinn sleppti því að bóka athugasemdir við áætlunina. Stefán segir að ástæðan fyrir þessu sé einföld. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég og Elliði bæjarstjóri setjumst yfir áætlunina saman til þess að komast að niðurstöðu um stærstu málin. Það hafði sitt að segja og líka að ýmis mál sem við höfum barist fyrir hlutu náð fyrir augum meirihlutans.“ Stefán segir að hann og Elliði hafi átt saman vinnufundi þar sem þeir lögðu fram sínar hugmyndir sem oddvitar flokkanna í bæjarstjórn. „Að sjálfsögðu vorum við ekki alltaf sammála en við töluðum okkur niður á lausn.“ Af málum sem minnihlutinn lagði áherslu á og hefur fengið í gegn var að byggð verði sorpbrennslustöð. „Það hefur verið unnið í því máli og er ákveðið að sorpbrennslustöð verði tekin í notkun árið 2019. Það er verið að vinna í fráveitumálum, stækka Hraunbúðir þar sem verða fimm íbúðir sem bærinn byggir. Svo er það stóra málið okkar, frístundakortin sem fólk getur nýtt sér frá og með nýliðnum áramótum. Málefni fatlaðra eru líka eitt af okkar hjartans málum og nú er ákveðið að byggja fjórar til sex íbúðir fyrir fatlaða. Þegar við horfum á þessar framkvæmdir og rekstur bæjarins án þess að þurfa að taka krónu að láni er maður sáttur,“ sagði Stefán. „Þetta er ánægjulegi hlutinn en það er ekki eins skemmtilegt að þurfa að hækka útsvarið en það gefur okkur 15 milljónir. Hærri fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði hækka tekjur um 9 milljónir en þau hækka ekki á íbúðarhúsnæði. Einnig urðum við að hækka skólamat, gjald í frístundaverið og í sundlaugina.“ Stefán segir að rekstur hafnarsjóðs gangi ágætlega og á að skila 30 milljóna hagnaði. „Það eru engar stórframkvæmdir fyrirhugaðar en eðlilegt viðhald verður á bryggjuþiljum.“ Að lokum segir Stefán að því fylgi ábyrgð að vera í minnihluta ekki síður en í meirihluta. „Þó maður sé í minnihluta vill maður ábyrga vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Það er því ákveðinn léttir þegar þeirri vinnu er lokið með þetta góðri útkomu en svo er það alltaf óvissan hvort peningarnir skila sér eða ekki.“

Framsókn - Góð heilsa er gulli betri

 …segir máltækið og annað sem segir: „Heilsan er fátækra manna fasteign.“ Já, heilsan er óumdeilanlega eitt það verðmætasta sem við eigum og að henni þarf að hlúa. Við berum ábyrgð á eigin heilsu en þegar slysin verða eða heilsan brestur, þá vill Framsóknarflokkurinn að á Íslandi sé góð heilbrigðisþjónusta sem allir hafi aðgang að, óháð efnahag. Til að það megi ganga eftir vill Framsóknarflokkurinn byggja nýjan Landspítala á nýjum stað, efla heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanir um land allt. Aukin framlög til heilbrigðismála Ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins hefur aukið framlög til heilbrigðiskerfisins um tæpa 40 milljarða á kjörtímabilinu og útgjöld til tækjakaupa hafa sjöfaldast. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið stærsti liður ríkissjóðs á kjörtímabilinu, en á síðustu fjárlögum voru 162 milljarðar settir í heilbrigðiskerfið. Framsóknarflokkurinn vill efla heilbrigðiskerfið enn frekar en einnig að frekari greiningar og gæðamælingar verði gerðar á heilbrigðiskerfinu svo þeir fjármunir sem settir eru í málaflokkinn nýtist sem best. Eyðum biðlistum Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru margar hverjar vannýttar. Með því að nýta þessi sjúkrahús betur þá væri hægt að eyða biðlistum með einföldum aðgerðum og um leið að styrkja rekstur þessara stofnana, sem hafa margar hverjar verið fjársveltar um árabil. Um leið værum við að létta álaginu af Landspítalanum. Við þurfum að eiga gott hátæknisjúkrahús og Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að reisa nýjan Landspítala á nýjum stað. Múhammed til fjallsins Framsóknarflokkurinn vill bæta aðgengi fólks á landbyggðinni að sérfræðingum– fjallið á ekki að fara til Múhammeds. Við viljum líka efla fjarlækningaþjónustu en verkefnið á Kirjubæjarklaustri hefur gefist afar vel og því tilefni til að nýta þá reynslu til frekari uppbyggingar. Framsókn vill að komið sé til móts við þá sem þurfa að fara að heiman til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, s.s. vegna fæðinga þar sem fæðingarstöðum hefur fækkað verulega hin síðari ár og vegna eftirlits eða eftirfylgni sem ekki er hægt að veita í heimabyggð. Réttlætismál Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, þar sem þeir þurfa að fara tímanlega á fæðingarstað. Þá dregst. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Barn og foreldrar njóta því styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu, en annar greinarhöfunda lagði fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Hár dvalarkostnaður Annað atriði sem þarf að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heima vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá á meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að útvega fólki dvalarstað eða með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Verðandi foreldrar eiga ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum og fjarri heilbrigðisþjónustu almennt.   Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Ásgerður Kristín Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri HSU og í 3. sæti lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.  

Börnin okkar

Ég hef setið á Alþingi þetta kjörtímabil sem fulltrúi ykkar, kjósenda í Suðurkjördæmi. Það hefur verið mikil reynsla, oft erfið, en alltaf áhugaverð og lang oftast ánægjuleg. Árið 2014 hlotnaðist mér sá heiður og ábyrgð að vera útnefndur sem einn af sérstökum talsmönnum barna á Alþingi af hagsmunafélögum sem starfa í þágu barna. Ég tók þetta hlutverk strax mjög alvarlega og hef styrkst í sannfæringu minni fyrir mikilvægi þessa verkefnis. Ég hef kynnt mér vel stöðu barna á Íslandi og sett mig inn í mál sem varða þau sérstaklega og hef séð svo margt aðfinnsluvert sem verður að bæta. Því miður er það ömurleg staðreynd að stór hópur barna hér á landi býr ekki við sömu tækifæri og önnur börn. Sum þeirra verða undir strax í leikskóla og grunnskóla, vegna félagslegra aðstæðna, fátæktar, fötlunar og skerðinga og fá ekki þann stuðning sem við getum sem samfélag svo vel veitt þeim. Að verða undir hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði þessara barna og tækifæri í öllu lífinu og vegur að hamingju foreldra þeirra og annarra aðstandenda. Það er þyngra en tárum taki, er algjörlega óásættanlegt og óþarft í velmegunarsamfélagi okkar. Skólakerfið gegnir lykilhlutverki við að tryggja börnum tækifæri til að þroska sig og gera þeim kleift að njóta lífsins á sínum forsendum. Skólinn á að vera án aðgreiningar og mismununar. Hann á að laga sig að einstaklingnum, þörfum hans og hæfileikum. Börn eiga ekki að þurfa að laga sig að skólanum. Ég veit, af eigin reynslu, að skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólanna vilja sinna þeim vel. Þetta góða fólk þarf hins vegar að fá fleiri og margbreytilegri úrræði og stuðning til þess að geta sinnt öllum börnum, þörfum þeirra og forsendum. Sem talsmaður barna á Alþingi hef ég skrifað margar greinar, flutt margar ræður og lagt fram fyrirspurnir sem lúta að málefnum barna. Í september s.l. hlotnaðist mér sá heiður að vera verðlaunaður fyrir að standa mig best þingmanna í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna, ekki síst þeirra sem eru í erfiðri stöðu. Þessi viðurkenning er mér meira virði en nokkuð annað sem mér hefur hlotnast á lífsleiðinni. Hún er mér líka mikil hvatning til að halda áfram að vinna í þágu barna. Ég veit hins vegar að staða þingmanns færir mér bestu tækifærin til að berjast fyrir þessu mikilvæga málefni. Að bæta stöðu og réttindi barna og jafna tækifæri þeirra til að njóta lífsins og vera virkir og hamingjusamir þátttakendur í samfélaginu. Þess vegna bið ég þig ágæti kjósandi að veita mér stuðning til að halda áfram á sömu braut.    

Helga Tryggvadóttir - VG og Vestmannaeyjar

Í upphafi vikunnar sat ég fund ásamt frambjóðendum af fjórum öðrum listum hjá félagasamtökum í Vestmannaeyjum þar sem við svöruðum nokkrum spurningum sem sneru beint að Vestmannaeyjum. Svörin sem ég gaf eru út frá stefnu VG og mun ég hér stikla á stóru og bæta við í sumum tilfellum.  Heilbrigðismál Spurt var um stefnu VG í heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum. Hreyfingin hefur ekki birt sérstaka stefnu fyrir Vestmannaeyjar umfram önnur sveitarfélög. En VG leggur áherslu á að ókeypis aðgangur að heilbrigðisþjónustu eru almenn mannréttindi og heilbrigðis- og velferðarþjónusta á að vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Við höfnum einkarekstri í ágóðaskyni og á heilbrigðiskerfið að þjóna öllum óháð aðstæðum, efnahag og búsetu. VG styður að 11% af vergri þjóðarframleiðslu fari í heilbrigðismálin. Við viljum lækka lyfjakostnað, spýta verulega í lófana hvað varðar geðvernd og fjölga hjúkrunarrýmum. Hvað varðar Vestmannaeyjar þá sjá allir að ástandið er langt því frá í lagi og það þarf að efla sjúkrahúsið og heilsugæsluna. Fæðingarþjónustu þarf að setja aftur á, það þarf örari heimsóknir sérfræðinga, fleiri fasta lækna til starfa, sjúkraflutningar þurfa að vera í lagi og erum við opin fyrir öllum leiðum þar. Það þarf einfaldlega að gera það sem þarf svo að Vestmannaeyingar verði öruggir í sinni heimabyggð.  Herjólfur Eins og í öðrum málum þá leggur VG áherslu á jöfnuð og réttlæti, líka þegar kemur að samgöngum. Hvað varðar gjaldtöku í Herjólf þá á sama verð að gilda fyrir siglingar í báðar hafnir á meginlandinu. Það á að greiða fyrir bíla, en ekki farþega, eins og gert er t.d. í Hvalfjarðargöngin. Reksturinn á að vera á hendi opinberra aðila og sjáum við því ekkert til fyrirstöðu að ríkið og bærinn geri með sér þjónustusamning þar sem heimamenn sjá um reksturinn. Þjónustustig ferjunnar á að vera í samræmi við þarfir notenda, ferðafjöldi á að vera í takt við eftirspurn og svo er ekki galin hugmynd að gámaflutningar fari fram að nóttu til á mestu álagstímum. Niðurgreiðsla kyndingarkostnaðar Eins og með samgöngurnar þá kemur niðurgreiðsla kyndingarkostnaðar á köldum svæðum inn á stefnu VG hvað varðar jöfnuð og réttlæti. Um 10% af heimilum í landinu eru að greiða að meðaltali 24.000 krónur í kyndingarkostnað með rafmagni, en íslenskt heimili greiðir að meðaltali um 7.000 krónur. Við vitum að Vestmannaeyingar eru í fyrri flokknum. Það á að vera borðleggjandi fyrir orkuríka Ísland að geta klárað þetta og útrýma þessari augljósu og óréttlátu mismunun eftir búsetu.  Sorpbrennslumál Vestmannaeyjar hafa sérstöðu þegar kemur að sorpbrennslumálum. Það er líka óhagkvæmt, bæði fjárhagslega og út frá umhverfissjónarmiðum að flytja sorp langan veg á sjó og landi. Ef sorpbrennsla stenst allar nýjustu kröfur, þ.e. umhverfismat, mengunarstaðla, heinsun o.fl. þá má ræða sorpbrennslu. Hér þarf náttúruvernd að skipa háan sess og umhverfissjónarmið ráða miklu um allar lausnir. Meginmálið er endurvinnsla og gildir einu þótt hún verði ekki fjárhagslega hagkvæm í öllum tilvikum. Ríkið er samt væntanlega ekki að fara að taka yfir sorpmál á landinu en þar sem Vestmannaeyjar eru með sérstöðu hvað varðar flutning á sorpi eða aðrar lausnir sé ég ekkert því til fyrirstöðu að samstarfsverkefni ríkis og bæjar komi til greina. Aðalatriðið er að sorpmeðferð sé í lagi alls staðar á Íslandi og í samræmi við kröfur um hreina náttúru og sjálfbærni.   Auðlindagjald Stefna VG er að við nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar verði að tryggja að arður af þeim renni til þjóðarinnar og á þjóðin að ráða hversu mikið hún lætur af hendi til þeirra sem nýta auðlindirnar. VG er opið fyrir ýmsum lausnum en það þarf að leggja áherslu á að hlutdeild ríkisins í auðlindarentunni verði stóraukinn en þess jafnframt gætt að nýtingin verði sjálfbær og jafnræði í byggðum landsins. Svo virðist vera að eftir því sem auðlindagjald á sjávarútveginn lækkar þá hækkar útgreiddur arður til eigenda. Árið 2015 greiddu 17 stærstu útgerðarfyrirtækin sér rúmlega 10 milljarða króna í arð en rúmlega 5 milljarða í veiðigjöld. Þarna finnst okkur skakkt gefið. Þess ber að geta að allar breytingar á þessu kerfi taka langan tíma, þurfa að gerast í sátt og taka þarf tillit til allskonar flækjumála. T.d. stærðar og tegundar útgerða, hvort um er að ræða svokallaðan gjafakvóta eða hvort útgerðir hafa keypt kvóta og ótal margt annað. Mikil vinna er framundan sem verður að fara fram í samráði við alla hagsmunaaðila, en aðalpunkturinn er að þjóðin á að njóða arðs af auðlindum sem eru í sameign þjóðarinnar.  Helga Tryggva, frambjóðandi VG í Suðurkjördæmi    

Ingunn Guðmundsdóttir - Krónan er eins og korktappi

Stöðugleiki skilar tugþúsunda kjarabót fyrir almenningEinhver líkti krónunni okkar einhverju sinni við korktappa í ólgusjó fjármálaumhverfisins og stóru gjaldmiðlunum við stórskip með siglingarhæfni til að mæta mismunandi veðrum. Á Íslandi upplifum við núna ágæta tíma með þokkalegum kaupmætti og lágri verðbólgu. En ef við lítum út fyrir túnfótinn sjáum við að krónan hefur risið óþægilega mikið gagnvart erlendum gjaldmiðlum og það veldur útflutnings atvinnugreinunum vanda eins og staðfest var í fréttum fyrir nokkrum dögum. Framkvæmdastjóri hátæknifyrirtækisins Nox Medical lýsti því að fyrirtækið glímdi við 20% verðbólgu vegna stöðu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Keppinautar fyrirtækisins í öðrum löndum búa við allt annað og betra rekstrarumhverfi. Ísland er ekki samkeppnishæft vegna þess hvað krónan sveiflast. Lækkum greiðslubyrði um tugi þúsundaSveiflurnar tengjast líka fjármálum einstaklinga og birtast í vaxtaokrinu. Verðtryggingin er séríslenskt fyrirbæri. Samanburður við önnur lönd verður að miðast við óverðtryggð lán. Fyrir skömmu skrifaði ungur íslendingur grein um breytta stöðu sína eftir að hafa flutt til Svíþjóðar. Húsnæðislánið sitt fékk hann í venjulegum banka á 2% vöxtum án verðtryggingar. Sá sem tekur óverðtryggt lán á Íslandi greiðir næstum fjórfalda þá vexti. Ég tek dæmi af íslenskum banka sem býður óverðtryggt húsnæðislán með 7,3% vöxtum. Sá sem tæki 20 milljóna lán á þeim kjörum til 25 ára með jöfnum mánaðargreiðslum væri að greiða 145 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma væri skuldarinn í Svíþjóð að greiða 85 þúsund. Munurinn er 60 þúsund! Miðað við lægra skattþrep á Íslandi þyrfti launatekjur uppá 90 þúsund til að fjármagna þennan mun. Þetta er eitthvað sem alla munar um. Myntráð virkarViðreisn vill festa krónuna við annan gjaldmiðil til að hún hætti að sveiflast eins og korktappi. Það fyrirkomulag byggir á tillögu Seðlabankans um Myntráð sem hann telur að virki til að ná stöðugleika og í beinu framhaldi lægri vöxtum. Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki sýnt áhuga á að fara þessa leið og bæta kjör almennings og fyrirtækja í landinu. Það hlýtur því að vera öllum fyrir bestu að þeir fái frí. Viðreisn er XC. Ingunn Guðmundsdóttir viðskiptafræðingurEr búsett á Selfossi og skipar þriðja sæti fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi 

Heilbrigðismál í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi: Aðeins Páll Valur, Ari Trausti og Páll Magnússon svöruðu

Eyjafréttir sendu Sigurði Inga Jóhannssyndi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, Páli Magnússyni Sjálfstæðisflokki, Oddnýju Harðardóttur Samfylkingu, Ara Trausta Guðmundssyni Vinstri grænum, Páli Val Björnssyni Bjartri framtíð, Smára MacCarthy Pírötum, Jónu Sólveigu Elínardóttur Viðreisn, Guðmundi Sighvatssyni Alþýðufylkingunni og Sturlu Hólm Jónssyni Dögun sem öll eru oddvitar framboðanna í Suðurkjördæmi nokkrar spurningar um stöðu heilbrigðismála á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Heimtur voru rýrar og aðeins svöruðu þrír, Páll Valur, Ari Trausti og Páll Magnússon. Páll Valur: Það er staðreynd að rekstur HSU á Suðurlandi er vanfjármagnaður og fari sem horfir verður stofnunin að skerða þjónustu á næsta ári. Hvar sjáið þið helst möguleika á niðurskurði? - Ég hreinlega hef ekki svar við því hvar það ætti að gerast enda tel ég að ekki verði lengra gengið í niðurskurði hjá stofnuninni. Ef hún á að standa undir lögbundnum skyldum sínum þá verður öllum niðurskurði að ljúka nú þegar og auknu fjármagni veitt til hennar.   Finnst þér ásættanlegt að sjúkraflug verði með óbreyttu fyrirkomulagi? Ein flugvél staðsett á Akureyri sem þjóna á öllu landinu? - Nei, það finnst mér alls ekki og hef reifað þá hugmynd að Landhelgisgæslan sjái um sjúkraflugið allavega sunnan og vestanlands. Hún gæti síðan gert þjónustusamning við t.d Mýflug um að sinna sjúkraflugi norðan og austanlands. Þetta er gífurlega mikilvægt öryggisatriði fyrir fólk á landsbyggðinni ekki síst fyrir íbúa Vestmannaeyja sem ekki búa við tryggar samgöngur allan sólarhringinn.   Telur þú það ofverk ríkisins að halda úti skurðlæknaþjónustu í Vestmannaeyjum? - Nei, það tel ég ekki og myndi halda að nýta ætti skurðlækni sem staðsettur yrði í Eyjum til þess að sjá um einhvern hluta þeirra aðgerða sem gerðar eru á Landspítalanum. Nú bíða um 6000 manneskjur eftir aðgerðum að öllu tagi og að minni hyggju ætti að nýta stærri heilbrigðisstofnanir landsins sem búnar eru skurðstofum til þess að sinna þessum aðgerðum. Það segir sig sjálft að Landspítalinn nær ekki að sinna þessu.   Finnst þér í lagi að konur í Vestmannaeyjum þurfi að fæða börn sín uppi á landi með tilheyrandi óhagræði og miklum kostnaði? - Alls ekki og þetta er eitthvað sem hreinlega verður að breyta, það er algerlega óásættanlegt að mismuna fólki eftir því hvar það er búsett.     Ari Trausti:   Það er staðreynd að rekstur HSU á Suðurlandi er vanfjármagnaður og fari sem horfir verður stofnunin að skerða þjónustu á næsta ári. Hvar sjáið þið helst möguleika á niðurskurði?   - Við sjáum engan raunhæfan möguleika á niðurskurði. Nóg er komið. VG hafa lagt fram þá stefnu að endurskipuleggja og eða auka starfsemi sjúkrahúsanna úti á landi eins og sagt er. Meðal annars er gert ráð fyrir að safna saman 51 milljarði króna með álögum á þá sem hæstar hafa tekjur og t.d. með auknum auðlindagjöldum - á næsta ári. Þar af eiga 18 milljarðar að ganga til heilbrigðismála. HSU, á öllu þjónustusvæðinu, færi ekki varhluta af því handabandi.   Finnst þér ásættanlegt að sjúkraflug verði með óbreyttu fyrirkomulagi? Ein flugvél staðsett á Akureyri sem þjóna á öllu landinu? - Sjúkraflug er afar kostnaðarsamt. Það er hægt og rétt að minnka álagið á það með aukinni þjónustu helstu heilbrigðisstofnana utan Reykjavíkur og Akureyrar. Vissulega væri farsælt að hafa tvo upphafsflugvelli sjúkraflutninga að þessu gerðu - og raun þyrfti líka að hafa neyðar- og hjálparþyrlur staðsettar í tveimur landshlutum og þá einmitt á sömu stöðum og tvíhreyflurnar.   Telur þú það ofverk ríkisins að halda úti skurðlæknaþjónustu í Vestmannaeyjum? - Nei - án þess að skilgreina hvað rétt og fært er að hafa af slíku í Vestmannaeyjum - þ.e. hvers konar aðgerðir skulu þar gerðar. Vonandi tekst að endurlífga nauðsynlega þjónustu þar.   Finnst þér í lagi að konur í Vestmannaeyjum þurfi að fæða börn sín uppi á landi með tilheyrandi óhagræði og miklum kostnaði? - Nei, að sjálfsögðu ekki og löngu kominn tími til að reikna út heildar samfélagskostnað af þessu sérstæða ráðslagi. Inni í tölunni er raunkostnaður foreldra og fjölskyldna o.fl. Búast má við að samfélagskostnaðurinn opinberaði að sparnaðartölur á reikningum ríksins af fæðingum utan Eyja dygðu ekki til að réttlæta þessa skerðingu sjúkrahúsþjónustu og það annað sem fylgt hefur nákvæmlega niðurskurði á fæðingarþjónustunni.   Páll Magnússon:   Það er staðreynd að rekstur HSU á Suðurlandi er vanfjármagnaður og fari sem horfir verður stofnunin að skerða þjónustu á næsta ári. Hvar sjáið þið helst möguleika á niðurskurði? - Það eru engir möguleikar á frekari niðurskurði, þvert á móti þarf að auka fjárveitingar stofnunarinnar og bæta þjónustu. Finnst þér ásættanlegt að sjúkraflug verði með óbreyttu fyrirkomulagi? Ein flugvél staðsett á Akureyri sem þjóna á öllu landinu? - Óbreytt fyrirkomulag í sjúkraflugi er ótækt. Tillaga sem lögð hefur verið fram, m.a. af Vilhjálmi Árnasyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Styrmi Sigurðarsyni yfirmanni sjúkraflutninga á HSU, um sjúkraþyrlur er hugmynd sem vert er að skoða alvarlega. Sjúkraþyrla, skipuð bráðatækni og bráðalækni á vakt allan sólarhringinn gerir það að verkum að viðbragðstími myndi styttast verulega. Slíkt getur skipt sköpum, því við vitum það að hver mínúta getur skipt máli þegar alvarleg veikindi eða slys ber að garði. Telur þú það ofverk ríkisins að halda úti skurðlæknaþjónustu í Vestmannaeyjum? - Nei, þetta er skilyrðislaus og sanngjörn krafa. Finnst þér í lagi að konur í Vestmannaeyjum þurfi að fæða börn sín uppi á landi með tilheyrandi óhagræði og miklum kostnaði? - Það er með öllu ótækt. Að sjálfsögðu eiga konur að eiga þann kost að eiga börn í sínum heimabæ, ekki síst í ljósi þess hversu samgöngur eru ótryggar.    

Páll Magnússon - Veljum öryggi - höfnum óvissu!

Það er alveg sama hvar borið er niður í dag og hvaða alþjóðlegu mælikvarðar eru skoðaðir - Ísland skorar alltaf hæst: ríkissjóði hefur verið snúið úr gegndarlausum hallarekstri í afgang; atvinnuleysi er nú bara tölfræðilegt, rúmlega 2%, sem þýðir á mannamáli að það er ekkert atvinnuleysi; hagvöxtur á Íslandi hefur verið meiri að undanförnu en í öllum þeim löndum sem við notum til samanburðar - og kaupmáttur launa hefur aukist meira síðustu misserin en dæmi eru um á svo skömmum tíma um langt skeið.   Þessi upptalning gæti haldið áfram lengi enn - og er einn samfelldur vitnisburður um hversu vel hefur tekist með stjórn efnahagsmála á því kjörtímabili sem er að ljúka. En við vitum líka að það þarf að gera betur á ýmsum sviðum. Hér á okkar slóðum - í Suðurkjördæmi - eru það innviðabrestirnir sem eru mest aðkallandi. Þeir eru samstofna um allt kjördæmið - vestan frá Reykjanesi og austur á Höfn - og á öllu þessu svæði nefna menn fyrst tvennt: samgöngumál og heilbrigðisþjónustu. Þar á eftir kemur svo löggæslan. Sumir þessir brestir eiga sér rætur í groddalegum niðurskurði í kjölfar hrunsins, aðrir eiga sér lengri sögu en allir verða þeir augljósari núna þegar fjöldi erlendra ferðamanna í kjördæminu hefur margfaldast á aðeins nokkrum árum.   Forgangsmálin eru mismunandi eftir svæðum og stöðum í kjördæminu en öll af sömu rótum runnin. Þessa bresti munum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja höfuðáherslu á að laga á næsta kjörtímabili. Forsendan fyrir því að það sé hægt, er að áfram haldi sú jákvæða þróun í efnahagsmálum og meðfylgjandi stöðugleiki sem ég gat um hér í byrjun.   En einmitt þar liggur hundurinn grafinn. Það er alls ekki víst að svo verði - og raunar fremur ólíklegt miðað við hina pólitísku stöðu í dag. Það má segja að það hafi verið heiðarlegt hjá vinstri flokkunum undir forystu Pírata að hefja stjórnarmyndunarviðræður um síðustu helgi - sex dögum FYRIR kosningar. Það hefði að vísu verið lýðræðislegra að hinkra eftir kosningaúrslitunum en látum það vera.   Þetta útspil Pírata og viðbrögð hinna vinstri flokkanna við því hafa einfaldað og auðveldað val kjósenda á laugardaginn. Það eru bara tveir kostir í boði: fjögurra eða jafnvel fimm flokka vinstri stjórn undir forystu Pírata - eða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.   Við vitum hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir; hluta af því nefndi ég í byrjun þessarrar greinar. En sem betur fer vitum við líka hvað vinstri flokkarnir, sem hittust um helgina, standa fyrir. Þeir stjórna nefnilega allir saman einu verst rekna sveitarfélagi á Íslandi: Reykjavík. Á nýjum lista yfir 20 best reknu sveitarfélög á Íslandi tróna tvö á toppnum: Vestmannaeyjar og Grindavík. Tvennt af því sem þau eiga sameiginlegt er að þau eru bæði í Suðurkjördæmi og í báðum eru Sjálfstæðismenn við völd. Reykjavík kemst ekki einu sinni inn á þennan topp 20 lista. Tilviljun? Ég held ekki! Og við vitum meira. Við vitum að ef við leggjum saman megináherslur þessarra flokka ganga aftur allir gömlu draugarnir frá Jóhönnu og Steingrími J.: skattahækkanir á einstaklinga og atvinnulíf; Evrópusambandið; niðurbrot á fiskveiðistjórnunarkerfinu og óvissuferð inn í uppboðsleiðina; niðurrif á stjórnarskránni sem ekkert hefur gert af sér - og svona mætti áfram telja.   Á laugardaginn er sem sagt hægt að velja á milli áframhaldandi framfara og efnahagslegs stöðugleika undir forystu Sjálfstæðisflokksins - eða fjölflokka vinstri óvissuferðar undir forystu Pírata.   Ég treysti á dómgreind kjósenda í Suðurkjördæmi. Ég treysti á að þeir kjósi með með sjálfum sér - fyrir eigin velferð og öryggi. Ég treysti á að þeir hafni þessu vinstra kraðaki; sporin hræða. Ég treysti því að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn!   Páll Magnússon Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi    

Ragnar Óskarsson - Hvernig væri það?

 Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa í kosningabaráttunni nú haldið því hátt á lofti að nauðsynlegt sé að viðhalda stöðugleika á Íslandi til frambúðar. Það geti þeir flokkar einir gert og því sé rökrétt að kjósa þá áfram til valda. Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur nokkrum þáttum þess stöðugleika sem ríkisstjórnin býður upp á: • Um ríkisstjórnina sjálfa er enginn stöðugleiki. Stjórnin er að hrökklast frá völdum áður en kjörtímabilið er búið vegna spillingarmála og stjórnarflokkarnir hamast nú hvor gegn öðrum og eru nánast ósammála um allt. • Í heilbrigðismálum er enginn stöðugleiki. Heilbrigðiskerfið komið að fótum fram og stjórnarflokkarnir bjóða ekki upp á neinar lausnir til úrbóta, hvað þá til enduruppbyggingar. Þeir eru þó sammála um að einkavæða heilbrigðiskerfið svo einhverjir vildarvinir geti grætt á kostnað almennings í landinu. • Í fiskveiðistjórnunarmálum er stöðugleikinn ekki meiri en svo að byggðirnar vítt um landið verða fyrri hverju áfallinu á fætur öðru vegna stefnu stjórnarflokkanna. Fjölmargir smábátasjómenn eru sem leiguliðar kvótakónga sem í síauknum mæli taka fé út úr sjávarútveginum og fjárfesta í alls kyns braski. • Um stöðugleika í samgöngumálum nægir að nefna aðstæður okkar Vestmannaeyinga. Samgöngur á sjó milli lands og Eyja í algerum ólestri. Ekkert er ákveðið með umbætur á Landeyjahöfn, allt óljóst með nýtt skip og þar fram eftir götum. Í nútímanum þurfa svo farþegar frá Þorlákshöfn til Eyja að ganga um bílaþilfar til þess að komast um borð í Herjólf. • Stöðugleiki ríkisstjórnarinnar í skattamálum felst í því að lækka skatta til hinna ríku á kostnað almennings. • Eini stöðugleikinn sem ríkisstjórnin getur „státað af“ eru spillingarmálin. Ráðherrar beggja flokka hafa orðið uppvísir að því að tengjast skattaskjólsfélögum til þess að fela fjármuni fyrir íslenskum skattyfirvöldum og samfélagi. Og áfram mætti halda. Sú spurning hlýtur því óhjákvæmilega að vakna hvort við eigum að treysta þessu fólki til að fara áfram með völdin í landinu. Ég held að það ættum við alls ekki að gera. Til þess eru vítin að varast þau. Hvernig væri að treysta fólki eins og Katrínu Jakobsdóttur, Ara Trausta og HelguTryggva og öðru góðu fólki til þess að breyta samfélaginu, skapa hér réttlátt samfélag. Það getum við gert með því að kjósa Vinstri græn. X V Ragnar Óskarsson  

Þetta er hægt og þetta er sanngjarnt

Vinstrihreyfingin- grænt framboð leggur nú sem fyrr höfuðáherslu á að á Íslandi sé öflugt og samábyrgt velferðarkerfi. Einn þáttur í því er áherslan á skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun. En hvernig er hægt að gera skattkerfið skilvirk, réttlátt o.s.frv. Lítum á það. Þessar leiðir benda Vinstri- græn á: • Stöðva verður þá þróun að æ meiri auður safnist á æ færri hendur. Í dag eiga 10% landsmanna 75% alls auðs í landinu. Meðan þetta er svona eykst ójöfnuður í landinu. • Til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu þarf að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna. • Þrepaskattur verði nýttur til jöfnunar í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum. Þannig er lögð áhersla á aukin framlög þeirra ríkustu inn í sameiginlega sjóði. • Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum renni til þjóðarinnar. • Reglur um þunna eiginfjármögnun verði leiddar í lög og þannig unnið gegn því að íslensk dótturfélög í eigu erlendra aðila komi ósköttuðum hagnaði úr landi. Allar þessar leiðir eru til þess fallnar að stuðla að öflugu velferðarkerfi og réttlæti. Þær eru allar færar og þær stuðla allar að því að skapa réttlátara þjóðfélag.   -Ragnar Óskarsson    

Vésteinn Valgarðsson - Vestmannaeyingar og Alþýðufylkingin

 Eyjafréttir greindu frá því á föstudaginn, að enginn Vestmannaeyingur væri á framboðslista Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Því miður verður ekki betur séð en að það sé rétt, þó með þeim fyrirvara að ég veit ekki hvaðan allir á listanum eru ættaðir. En það er annað mál.   Góða fréttin er hins vegar að Vestmannaeyingar eiga þess kost að kjósa Alþýðufylkinguna í þessum kosningum. Þess áttu þeir ekki kost í síðustu Alþingiskosningum, ekki frekar en aðrir utan Reykjavíkur. Við viljum auðvitað að sem flestir geti kosið Alþýðufylkinguna, þannig að við settum það ekki fyrir okkur að heilu byggðarlögin vantaði fulltrúa á listann -- það verður bara að hafa það. Enda berjumst við fyrir hagsmunum og velferð alþýðunnar alls staðar í landinu, en ekki í einstökum byggðarlögum.   Alþýðufylkingin er ekki í þeim bransa sem boðar kjördæmapot eða bitlinga. Enginn sem gengur til liðs við okkur getur vænst þess að fá feitt embætti að launum. Hins vegar bjóðum við upp á mikla vinnu, óeigingjarnt sjálfboðastarf og baráttu sem mun vonandi á endanum skila sér í betri lífskjörum fyrir alla alþýðu í landinu.   Megináherslur okkar eru stóru þjóðfélagsmálin: Félagslegt réttlæti, félagsvætt fjármálakerfi og fullveldi landsins. Þetta þrennt helst í hendur: Félagsvæðing er andstæðan við markaðsvæðingu og þýðir að starfsemi sem er rekin í gróðaskyni sé breytt í samfélagslega þjónustu. Í tilfelli fjármálakerfisins: Opinber fjármálaþjónusta sem tekur ekki sjálf gróða og tekur því ekki vexti. Hugsið um það augnablik, hver húsnæðiskostnaðurinn ykkar væri, ef lánin ykkar bæru ekki vexti.   Vaxtalaust fjármálakerfi mundi spara heimilunum og þjóðfélaginu öllu gífurlegt fé, sem mundi aftur nýtast til að byggja upp innviði landsins af öllu tæi. Óskorað fullveldi er forsenda þess að geta þetta, þar sem ESB-aðild mundi skuldbinda okkur til meiri markaðsvæðingar á flestum sviðum. Við erum fortakslausir andstæðingar ESB-aðildar, ekki vegna þess að við viljum geta stundað spillingu, heldur vegna þess að við þurfum fullveldið, með þeim rétti sem fylgir því, til þess að takast á við hana sjálf. Það mun enginn gera það fyrir okkur.   Það er fleira í pokahorninu hjá okkur, og það ættuð þið að skoða á heimasíðunni okkar: Alþýðufylkingin.is   Auðvitað er það synd að Vestmannaeyinga vanti á þennan lista, þótt þeir geti kosið hann. En því geta engir nema Vestmannaeyingar sjálfir breytt, með því að ganga til liðs við Alþýðufylkinguna og þannig hlutast til um að Eyjar eigi fulltrúa á listanum í næstu kosningum. Það er auðvelt að hafa uppi á okkur ef þið viljið gefa ykkur fram og ganga í flokkinn.   Vésteinn Valgarðsson varaformaður Alþýðufylkingarinnar

Lára Skæringsdóttir - Þurfum að tryggja stöðugleika

Lára Skæringsdóttir situr í 8. sæti lista Framsóknar í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar. Lára sem er grunnskólakennari segist alltaf hafa haft brennandi áhuga á pólítk og samfélagsmálum, þá sérstaklega í Vestmannaeyjum.   Hvað ertu að aðhafast við þessa daganna? Starfa sem grunnskólakennari í unglingadeild GRV Hvað var til þess að þú ákvaðst að gefa kost á þér? Hef brennandi áhuga á pólitík og hvernig landinu okkar er stjórnað og þá ekki síður velferð Vestmannaeyja og framtíð okkar sem hérna búum. Hvaða málefni brenna helst á þér og hvað er það sem þú mundir vilja koma í gegn ef þú ferð inná þing? Líkurnar á að ég fari beint á þing eru að sjálfsögðu miklar enda ætla allir merkja við x-B. Ég hef mikinn áhuga á samgöngumálum líkt og flestir Vestmannaeyingar. Fjármögnun heilbrigðisþjónustu hér og á Suðurlandi þarf að sjálfsögðu að bæta. Heilbrigðisráðherra hefur því miður ekki - hingað til a.m.k. - haft mikinn áhuga á Suðurhafseyjum í þeim efnum og kennir auk þess Bjarna Ben um, segist ekki fá meiri pening frá honum en þetta. Bjarni verði bara reiður ef hann biður um meira. Ég myndi gjarnan vilja sjá úrbætur í málefnum aldraðra, og breytingar á húsnæðilánakerfinu þannig að auðvelda megi ungu fólki að festa kaup á eigin eign. Þá er framtíð okkar sem sjávarpláss mér ofarlega í huga og þarf að huga vel að þeim málaflokki hvort sem stjórnun í sjávarútvegi eða almennt að hlúa vel að byggðastefnu landsins.   Samgöngumál og heilbrigðismál eru það sem brennir helst á Eyjamönnum. Hvað viltu helst sjá gert þar? Ég styð heilshugar þá hugmynd að Vestmannaeyingar reki sjálfir Herjólf og hef fulla trú á því að það komi betur út að hafa reksturinn hér í heimabyggð. Ég deili áhyggjum margra af því að annars muni hagmunir íbúa og ferðamanna lúti í lægra haldi fyrir sérhagsmunum stofnana og einkafyrirtækja. Stjórna þarf ferðatíðni og ferðatímum eftir eftirspurn, en ekki hagnaðarsjónarmiðum einkafyrirtækis, þannig að sem flestir komist til og frá Eyjum. Heildarhagmunir af því fyrir samfélagið eru mun meiri en hugsanleg skerðing á gróða einkafyrirtækja. Útboð er vel hægt að gera með þeim hætti að slíkt sé tryggt, annars er útboðið illa unnið. Ég styð líka lyktarlausar samgöngur; að farþegar þurfi ekki endurtekið og óvalkvætt að skrúbba skítafýlu af skóm og úr bílum eftir ferjuferðir. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er vanfjármögnuð og úr því þarf að bæta. Annars er ekki hægt að viðhalda þjónustu, hvað þá að auka hana. Aukin og nægileg fjármögnun er forsenda fyrir því að efla aftur sjúkrahúsþjónustu í Vestmannaeyjum, þar með talið skurðstofuvakt og fæðingarþjónustu. Auka þarf fjárframlög um a.m.k. 250 milljónir til að Heilbrigðisstofnun Suðurlands geti sinnt hlutverki sínu þannig að vel fari. Þetta eru smápeningar fyrir ríkið og eins og staða ríkissjóðs er nú bara spurning um forgangsröðun. Ég held að það færi vel á því að næsti heilbrigðisráðherra kæmi úr Suðurkjördæmi enda kjördæmið ekki verið í forgangi í þessum málaflokki undanfarin ár. Stefnumörkun ríkisins í heilbrigðismálum fyrir landsbyggðina er auk þess ábótavant. Úr þessu þarf að bæta og einnig draga úr flækjustigi embættismannakerfisins.   Annað sem þú vilt koma á framfæri, þá má það endilega koma fram. Framsóknarflokkurinn setti fram mjög ákveðnar hugmyndir fyrir síðustu kosningar. Þær hugmyndir gengu eftir landi og þjóð til hagsbóta. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut og tryggja stöðugleika og festu. Framsóknarflokkurinn hefur sýnt það að hann er meira en traustsins verður í þeim efnum.    

Páll Valur Björnsson - Til hvers eru stjórnmálamenn?

Til hvers eru stjórnmálamenn? Að mínu mati hafa stjórnmálamenn það eina hlutverk og þá einu skyldu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta lífsgæði fólks í nútíð og framtíð og að tryggja því sem jöfnust tækifæri. Ég er sannfærður um að þjóðfélag þar sem sátt er um það meginmarkmið að tryggja fólki og fyrirtækjum sem jöfnust tækifæri tryggir líka almenna velmegun, frelsi, framtak og sanngirni og og stuðlar þannig að stórbættum lífsgæðum og hamingju alls almennings Við sem störfum í Bjartri framtíð viljum skipuleggja þjóðfélagið þannig að allir landsmenn hafi jöfn tækifæri til að nýta margbreytilega hæfileika sína sjálfum sér og okkur öllum til framdráttar. Við leggjum áherslu á að allt þetta sé gert í fullkominni sátt við náttúruna og umhverfið, með sjálfbærni og ábyrgð og langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum leggja okkar af mörkum við að byggja hér upp lifandi efnahags- og velferðarkerfi sem býr við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem hvetur fjárfesta og frumkvöðla til framtaks, athafna og fjárfestinga. Það mun skapa ótal tækifæri? tækifæri sem munu gera okkur öllum kleift að fá vinnu sem henta okkar margvíslegu hæfileikum og áhugamálum. Enga fordóma. Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hér verði gott að lifa og starfa fyrir alla og allir fái tækifæri til að vera með, án þess að þurfa að þola mismunun og fordóma. Þetta hefur alltaf verið mikilvægt en þó aldrei sem nú á þessum tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins og allra þeirra stórkostlegu tækifæra sem því fylgja. Við þurfum að hafa vit á að nýta þessi tækifæri en reisa ekki veggi og óþarfar, gagnslausar hindranir fyrir okkur sjálf og aðra með þröngsýni og kjarkleysi. Stórt skref var stigið í þá átt með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og með samþykkt geðheilbrigðisstefnu til fjögurra ára í vor sem á að tryggja að þeir sem eiga við geðheilbrigðisvanda að etja fái viðeigandi þjónustu hratt og örugglega. Við eigum að sjálfsögðu að leggja höfuðáherslu á að efla forvarnir og mæta börnum sem eiga við ýmis konar raskanir að stríða strax á fyrstu stigum. Börnin okkar eru framtíðin og við berum öll saman ábyrgð á að þau fái öll notið öll hennar. Það er langmikilvægasta verkefnið sem okkur er treyst fyrir, sem einstaklingum og sem samfélagi. Stöndum saman og vinnum saman! En að byggja hér upp samfélag sem verður besta útgáfan af sjálfu sér er mikil áskorun; áskorun sem krefst kjarks og þátttöku allra þeirra sem þetta samfélag byggja. Þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins, fræðasamfélagsins, hvers konar samtaka og félaga og ekki síst alls fólksins sem í landinu býr, ungra og gamalla, kvenna og karla. Við eigum ekki að einblína á það sem skilur okkur að, okkur greinir á um og sundrar okkur heldur eigum við að horfa fyrst og fremst á það sem við eigum sameiginlegt og hvernig við getum eflt og styrkt það sem sameinar okkur. Sú ríkisstjórn og það löggjafarþing sem við tekur eftir kosningar verður að taka mannréttindi og skyldur sínar til að gera það sem mögulegt er til að fólki fái jöfn tækifæri mjög alvarlega. Til að tryggja að allir fái notið arðs af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Ekki bara fáir útvaldir. Þannig getum við búið hér til betra og réttlátara samfélag, samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt, samfélag sem setur málefni barna sinna og þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í forgang, samfélag sem tekur opnum örmum nýjum þegnum sem hér vilja búa, og síðast en ekki síst samfélaga sem tryggir eldri borgurum sínum áhyggjulausa göngu inn í sólarlag lífs síns. Þannig samfélag lendir ekki í hruni, þannig samfélag setur bönd á græðgina, það hafnar hrokanum og metur heiðarleika og ábyrgð miklu meira en munað og auð. Þannig samfélag viljum við í Bjartri framtíð að okkar góða og gjöfula land verði.   Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Við leggjum metnað í að veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu

Jón Pétursson framkvæmdarstjóri fjölskyldu og fræðslusvið sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta að það væri löngu vitað að þróun á hlutfalli eldra fólks í Vestmannaeyjum væri að hækka mikið. „Þessi þróun hefur gegnið hratt í gegn frá árinu 2006. Fyrir þennan tíma var hlutfall +67 ára í Eyjum nokkuð undir landsmeðaltali en í dag erum við um 2% yfir meðaltali.“ Jón tók við núverandi starfi 2006 „ég fór strax að skoða hvernig væntanleg íbúaþróun yrði hér í Eyjum. Þá sá ég að börnum muni fækka hratt sem hefur haft mikil áhrif á skólakerfið og einnig að fjöldi eldra fólks muni vaxa hratt. Fjölgun í aldurshópi +67 má skýra út frá afleiðingum gossins.“     Ýmislegt í vinnslu í málefnum aldraða Jón sagði að margt væri í vinnslu í átt að bættri þjónustu við eldri borgara „ Búið er að vinna mikið starf í uppbyggingu á innra starfi og gæðamálum. Á Hraunbúðum erum við búin að koma upp bættri aðstöðu dagvistunar og færa matsalinn, endurnýja bjöllukerfið á heimilinu, færa til og líkamsræktarsalinn, koma upp aðstandendaherbergi, fjölga herbergjum og byggja álmu með bættri aðstöðu fyrir fólk með sérhæfðan vanda. Áfram verður unnið í uppbyggingu á innra starfinu og gæðamálum. Útbúa á hvíldarherbergi fyrir fólk í dagdvöl. Klára á garð sem tengdur er nýrri álmu. Vinna þarf áfram að ýmsum endurbótum og lagfærðingum innanhúss. Verið er kaupa öflugan fjölþjálfa í líkamsræktaraðstöðina. Áfram verður reynt að fá heimild frá ríkinu fyrir fleiri hjúkrunarrýmum,“ sagði Jón.   Dvalarrými á Hraunbúðum breytt í hjúkrunarrými Jón sagði að vilyrði hefur verið fyrir því að dvalarrými á Hraunbúðum verði breytt í hjúkrunarrými. „Stefnt er að því að breyta hluta dvalarrýma á Hraunbúðum í hjúkrunarrými. Byrjað er að byggja við Eyjahraun 1 – 6 fimm viðbótar íbúðir auk tengibyggingu við Hraunbúðir. Allar íbúðir í Eyjahrauni 1 – 6 samtals 11 íbúðir verða skilgreindar sem þjónustuíbúðir og eru hugsaðar fyrir þá sem eru í bráðri þörf á meiri þjónustu, eða bíða eftir vistun á Hraunbúðum eða maki er komin með vistun þar en viðkomandi ekki. Þessar íbúðir munu því koma að hluta til í stað dvalarrýma og verður það alfarið í höndum bæjarins að ákveða úthlutun þeirra,“ sagði Jón.   Snjallforrit sem auðveldar heimaþjónustuna Á næstu dögum hefst innleiðing á svokölluðu CareOns kerfi sem auðveldar allt utanumhald um heimaþjónustu sveitarféalgsins. „Um er að ræða snjallforrit sem starfsmenn heimaþjónustu nýta til að auka öryggi, sveigjanleika, hagræðingu og gæði þjónustunnar. Aðstandendur munu með samþykki þjónustuþega og í gegnum sama kerfi nýtt það til að fylgjast með þjónustunni. Unnið er samtímis að því að efla heimaþjónustu með því að koma á kvöld og helgarþjónustu við þá sem þurfa á að halda,“ sagð Jón.   Sífellt farið yfir þjónustuþætti Jón sagði að sífellt væri verið að fara yfir þá þjónustuþætti sem nýtast eldra fólki sem best. „Unnið er út frá þeirri stefnu sem gildir að aldraðir borgarar geti með viðeigandi stuðningi og einstaklingsmiðaðri þjónustu dvalið sem lengst á eigin heimili og að réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf sé virtur,“ sagði Jón. „Að lokum verð ég að nefna hversu hrærður ég er yfir þeim mikla velvilja og stuðningi sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í okkar samfélagi sýnir eldra fólki. Ekki má heldur gleyma að nefna það öfluga starf sem aldraðir veita í gegnum félag eldri borgara í Vestmannaeyjum. Við búum í góðu samfélagi sem leggur metnað í veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið,“ sagði Jón að lokum.   Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er umfjöllun um málefni aldraða. Allt um nýju álmuna á Hraunbúðum sem sérstakelga er fyrir fólk með heilabilun og þá sem þurfa sértæka aðstoð. Aðferðina sem farið verður í þar sem kallast amaste og svo miklu meira. Hægt er að nálgast viðtölin í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Greinar >>

Fasta

Nú er páskafasta hafin, þó er það líklega flestum fjarlægt að fasta vikurnar fyrir páska. Lestur Passíusálma er hafinn á rás 1 í útvarpinu og minnir það okkur á komu pákanna og er hluti af okkar menningu.   Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á mikilvægi föstu fyrir líkamann. Fasta einn eða tvo daga í viku er ráðlagt. Sumir sleppa kjöti og stórum máltíðum, aðrir sleppa sætindum og enn aðrir einbeita sér að einhverju því sem þeim finnst hefta líf sitt. Fasta þýðir að sleppa að borða, einungis drukkið vatn. Líkaminn hefur gott af föstu, nema vegna veikinda, meðgöngu og brjóstgjafar.   Bolludagur, sprengidagur og öskudagur marka upphaf föstunnar, eftir þá daga var tekinn frá tími til að hugsa um þjáningu og dauða Krists.   Fyrir nokkrum árum ákváðum við fjölskyldan að taka páskaföstuna alvarlega og sleppa kjöti og fiski. Þessi ákvörðun var meðal annars tekin út frá vangaveltum yngsta sonar okkar (tæplega tvítugur)um að sleppa kjötáti. Fyrstu dagarnir hjá mér fóru í að finna góðar uppskriftir sem innihéldu prótein og ýmis konar baunaréttir voru eldaðir. Ég bý að þessu enn og elda oft grænmetisrétti. En þegar vikurnar liðu varð matseldin auðveldari og svo var tilfinningaþrungið að elda lambalæri á páskadag.   Ég sjálf hef ekki fastað nema fáa daga í einu eða hluta úr degi. Fastan er áskorun um aga. Eitt árið fastaði maki minn í nokkrar vikur. Hann drakk einungis vatn og saltvatn. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Eftir nokkra daga föstu var löngun i mat horfin, síðan lækkaði hitastig líkamans og hann varð allur hægari. Hann byrjaði rólega að borða mat og leið vel. Margir andans menn hafa haft föstu að venju. Í guðspjöllunum talar Jesús um að þeir sem fasta eigi ekki að auglýsa það og halda áfram eðlilegu lífi. En á þeim tíma klæddu menn sig í hærusekk og báru á sig ösku, en öskudagur ber nafn sitt af föstubyrjun.   Hin kristna sýn á föstu er að taka frá þann tíma sem við notum til að borða (og í matarundirbúning) til að biðja, lesa uppbyggilegt efni og hugleiða það. Okkar andlegi eða innri maður verður virkari þegar líkaminn er ekki nærður.   Í fimmtugasta og áttunda kafla í spádómsbók Jesaja segir Drottinn: „Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitningar, láta rakna bönd oksins og gefa frjálsa hina hrjáðu.....“ Kraft og áskorun föstunnar skal nota til góðra verka, öðrum til blessunar.   Þóranna M Sigurbergsdóttir